Lánsfjárlög 1989
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Til mín var beint fyrirspurn varðandi 21. gr. þessa frv. um að þrátt fyrir ákvæði 22. og 23. gr. útvarpslaga frá 1985 þá skuli tekjur á árinu 1989 vegna aðflutningsgjalda af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum ásamt fylgihlutum renna í ríkissjóð.
    Um þetta mál og næstu grein þar á eftir er það að segja að yfir stendur endurskoðun útvarpslaga. Þar er m.a. gert ráð fyrir því í fyrsta lagi að nefndin skili áliti til ríkisstjórnarinnar 10. mars. Þar er líka gert ráð fyrir því, í þeim gögnum sem nefndin vinnur út frá, að hún taki sérstaklega á þeim vandamálum sem lúta að dreifikerfi útvarps og sjónvarps. Það hefur verið hreyft í nefndinni ákveðnum hugmyndum um tekjuöflun sem gæti þá komið í staðinn fyrir aðflutningsgjöldin af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum sem hér eru nefnd og gert er ráð fyrir í núgildandi lögum. Hvernig það verður í einstökum atriðum get ég að sjálfsögðu ekki sagt frá hér enda veit ég það ekki, málið er í vinnslu í nefndinni, en nefndin man eftir þessu verki varðandi dreifikerfið.
    Sú spurning hefur auðvitað komið upp: Er það eðlilegt og sjálfsagt á sama hátt og það var áður að Ríkisútvarpið eigi þetta dreifinet? Er það hugsanlegt að Póstur og sími eigi að eiga það vegna þess að stöðvarnar eru orðnar margar? Hljóðvarpsstöðvarnar eru margar og sjónvarpsstöðvarnar eru tvær. Er hugsanlega eðlilegt að Póstur og sími eigi þetta net og þessar stöðvar kaupi sig inn á net Pósts og síma? Þetta er málefni eða úrlausnarefni sem er til sérstakrar skoðunar. Vandinn er satt að segja risavaxinn, sérstaklega er það þannig að langbylgjusendirinn er orðinn afar lélegur. Það hefur verið um það talað núna í 10 ár a.m.k. að hann væri u.þ.b. að hrynja. Það kostar 400--500 millj. kr. að endurnýja langbylgjusendikerfið. Það er sem sagt gríðarlegt átak sem þarf í þeim efnum og það er satt að segja býsna skuggaleg tilhugsun ef það gerðist einhvern tíma í óveðri, veðraham, að langbylgjusendirinn gæfi sig. Þar með getum við ekki náð út á ystu annes og inn í víkur á sama hátt og við getum þrátt fyrir allt í dag af því að stuttbylgjukerfið dregur ekki á sama hátt og langbylgjusendirinn þó gerir.
    Þetta er alvarlegt umhugsunarefni og stórkostlega alvarlegt vandamál og sérstaklega slæmt að menn skuli aldrei fást til þess að staldra við það nema rétt daginn eftir að óveður gengur yfir þjóðina, og sumir segja sérstaklega ef það gengur yfir suðvesturhorn landsins, að þá séu menn einkar vakandi fyrir öryggismálum daginn þar á eftir hér í þessu húsi.
    Málið sem sagt stendur svona að þetta er til meðferðar í þessari nefnd. Hún hefur auga á þessari tekjuþörf sérstaklega og veltir því fyrir sér hvort það er rétt að Póstur og sími yfirtaki þetta verkefni.
    Samkvæmt niðurstöðu þeirrar nefndar sem fjallaði um Ríkisútvarpið og skilaði áliti fyrir hátíðarnar var gert ráð fyrir því að um yrði að ræða mjög verulega hækkun á afnotagjöldum útvarps og sjónvarps og gert ráð fyrir því að þau gjöld hækki í 1500 kr. núna um næstu mánaðamót. Það eru þau gjöld sem fólk greiðir

fyrir alla þjónustu Ríkisútvarpsins, tvær rásir og eina sjónvarpsstöð en til samanburðar má geta þess að mánaðargjald af myndlykli er núna 1465 kr. Allt um það þá er ljóst að talsvert átak hefur verið gert til þess að rétta við fjárhag Ríkisútvarpsins sem slíks, það átak fer á þessu ári fyrst og fremst til að greiða upp skuldir liðinna ára þannig að mikið minna af þeirri hækkun fer í endurbætur á dagskrá, mikið minna en t.d. ég hafði ímyndað mér þegar hækkunin var ákveðin. Hins vegar er ljóst að þær ákvarðanir sem teknar hafa verið í útvarpsráði nýlega munu hafa í för með sér nokkuð aukið svigrúm til að endurbæta dagskrána en þar verður ekki unnt að ganga eins langt og menn gætu haldið af hækkuninni af því að svo stór hluti hennar fer í það að borga upp vanda Ríkisútvarpsins frá liðnum árum.
    Ég vænti þess að ég hafi svarað þeirri fyrirspurn sem hv. 6. þm. Reykv. beindi til mín áðan.