Sólveig Pétursdóttir:
    Hæstv. forseti. Þingmenn Sjálfstfl. í hv. fjh.- og viðskn. Ed. standa ekki að nál. með meiri hl. nefndarinnar en sjá samt ekki ástæðu til að skila minnihlutaáliti sérstaklega, einkum vegna þess hversu veigalítið frv. er. Frv. er byggt á samþykkt ríkisstjórnarinnar þann 6. febrúar 1989 um umþóttun í kjölfar verðstöðvunar, sbr. fskj. með frv. Þetta frv. á að vera liður í efnahagsaðgerðum hæstv. ríkisstjórnar en eins og flestum er kunnugt þá felast þær aðgerðir að mestu í efnisrýrum yfirlýsingum sem því miður munu lítil áhrif hafa á þann vanda í efnahagsmálum sem þjóðin býr nú við. Það verður heldur ekki séð að þetta frv. breyti nokkru, hvorki til eða frá, um þá staðreynd.
    En lítum nánar á fylgiskjalið með frv. Hér er talað um umþóttun í kjölfar verðstöðvunar. Hvað felst nú í þessu orði? Það er engan veginn ljóst. Ef það þýðir umhugsunartími þá ætti verðstöðvun að standa áfram þessa sex mánuði, en ef umþóttun felur í sér aðlögunartíma, sem mér finnst að sé mun líklegri skýring, ætti verðlagseftirlitinu að linna smátt og smátt. Það er væntanlega hinum háu stjórnarherrum í hag að hér sé um vafaatriði að ræða. Þeir geta því vafalaust haft puttana í því eins og þeir reyna á öllum öðrum sviðum og stjórnað því hverju sinni hvaða fyrirtæki fái allra náðarsamlegast hækkun, en hætta er á því að þar verði einkafyrirtæki ekki mikið inni í myndinni. Það hefur enda sýnt sig að á meðan heimili og launþegar þessa lands þurfa að búa við launafrystingu og rýrnandi kaupmátt og fyrirtæki búa við verðstöðvun hefur hæstv. ríkisstjórn haft forgöngu að því að stórhækka skatta jafnt á einstaklinga og fyrirtæki og þar að auki veitt ýmsum opinberum fyrirtækjum heimild til verðhækkana. Ríkisstjórnin hefur þannig þverbrotið eigin verðstöðvun, en það er kannski í takt við þá lítilsvirðingu sem hæstv. ráðherrum, sumum þeirra a.m.k., hefur þóknast að sýna almenningi þessa lands m.a. með margháttuðum yfirlýsingum formanna A-flokkanna í frægri fundaherferð þeirra á rauðu ljósi. En það væri að æra óstöðugan að elta ólar við orð þeirra á þessum fundum og mun ég því ekki gera það. Það hlýtur enda að sýna sig í næstu kosningum hvernig kjósendur taka því þegar talað er niður til þeirra á þennan hátt, en nóg um það.
    Í fylgiskjalinu með frv. segir m.a.: ,,Komi í ljós að verðhækkanir verði umfram það sem brýn kostnaðartilefni og afkoma fyrirtækjanna gefa tilefni til skulu verðlagsyfirvöld beita tímabundið ýtrustu ákvæðum verðlagslaga eftir því sem efni standa til.`` Að sögn verðlagsstjóra mun Verðlagsráð bráðum setja verklagsreglur um þetta mat sem mun að sjálfsögðu, að hans sögn, verða mjög erfitt. Það ætti ekki að þvælast fyrir mönnum við hvað hér er átt, þetta er nánast miðstýring á því hver hagur fyrirtækja verður. Fleiri verkefni eru lögð fyrir verðlagsyfirvöld í þessu merka plaggi, m.a. að Verðlagsstofnun sinni verðkönnunum af árvekni og kynni niðurstöður þeirra rækilega. Þetta er nú gott og blessað en engin

breyting því að þetta er einfaldlega lagaleg skylda Verðlagsstofnunar. Hæstv. ríkisstjórn ætlast samt greinilega til þess að starfsemin verði stóraukin. En það er bara einn galli á því fyrirkomulagi. Þessi stofnun á nú þegar við mikla fjárhagserfiðleika að stríða en mun ekki fá fjárveitingu til þess að bæta stöðu sína né heldur til þess að efla starfsemina. Það er því óljóst með öllu hvernig til tekst með þetta verðlagseftirlit. Ekki verður aukning í mannahaldi og ekki verða þessi störf unnin í eftirvinnu nema hæstv. fjmrh. ætli sér að gera sérstaka undantekningu þar á.
    Í lok fylgiskjalsins segir enn fremur, með leyfi virðulegs forseta: ,,Loks leggur ríkisstjórnin það fyrir Verðlagsstofnun að hún taki upp samstarf við verkalýðs- og neytendafélög um aðhald að verðlagi. Þetta er mikilvægt vegna þess að opinbert verðlagseftirlit hversu gott sem það er getur aldrei komið í staðinn fyrir árvekni neytenda.`` Hér er væntanlega m.a. átt við verðlagskannanir líkar þeim sem gerðar voru í samráði við verkalýðshreyfinguna úti á landsbyggðinni 1986, en stór hluti kostnaðarins lenti hins vegar á verkalýðshreyfingunni og því var þessum könnunum ekki fylgt eftir þar sem verkalýðshreyfingin stóð í þeirri trú að ríkisstjórnin mundi standa undir kostnaðinum. Svo var hins vegar ekki. Þessi yfirlýsing í fylgiskjalinu er því í rauninni marklaus og virðist helst til þess fallin að blekkja neytendur. Nú hefur hæstv. ríkisstjórn lagt fram þetta merkilega frv. sem öllu á að breyta og þá helst til hagsbóta fyrir neytandann.
    En athugum nánar hvað hér er um að ræða. 1. gr. frv. hljóðar svo: ,,3. mgr. 3. gr. laganna orðist svo:
    Varamenn skulu skipaðir á sama hátt og um getur í 2. mgr. greinar þessarar. Heimilt er ráðherra að skipa 1. og 2. varamann í ráðið samkvæmt ósk þeirra aðila sem tilnefna menn í ráðið skv. 1. mgr. Taka varamenn þá sæti í ráðinu í þeirri röð. Ráðið er skipað til fjögurra ára í senn.``
    Þetta er í rauninni ósköp saklaust ákvæði sem varla er ástæða til að hreyfa andmælum við nema þá helst af þeirri ástæðu að fulltrúar ASÍ sem komu á fund nefndarinnar töldu þetta til hinnar mestu óþurftar. Það væri verkalýðshreyfingunni í hag að hafa frjálsa varamenn. Þetta ákvæði þyrfti því
að hafa opnara og sama mun álit fulltrúa VSÍ í Verðlagsráði hafa verið. Af þessum sökum munu sjálfstæðismenn sitja hjá við afgreiðslu á þessu ákvæði.
    Í 2. gr. segir: ,,1. mgr. 49. gr. laganna orðist svo:
    Hver sá, sem vanrækir að láta Verðlagsstofnun í té umbeðnar og nauðsynlegar skýrslur og gögn í sambandi við framkvæmd laga þessara, skal sæta viðurlögum skv. 52. gr.
    2. mgr. 49. gr. laganna falli niður.``
    Í athugasemdum um þessa grein segir m.a.: ,,Dagsektaákvæðið hefur reynst ónothæft til þess að knýja á um skil umbeðinna upplýsinga.``
    Það er að sjálfsögðu ekkert skrýtið ef á það hefur ekki reynt. Raunar skilst manni að vandamálið felist helst í því að þessum málum hafi ekki verið fylgt

nógu vel eftir. Var á einum fundi nefndarinnar tekið til dæmi um það þegar farið var í mál gegn bökurum, en þessi mál hafa öll fyrnst meðan þau voru enn þá í höndum lögreglunnar. Fyrningartíminn mun vera tvö ár. Staðreyndin er vafalaust sú að ríkissaksóknari hefur neitað að taka mál fyrir nema dagsektum sé beitt fyrst. Þetta hefur því vafalaust verið nokkuð erfitt í framkvæmd. En að hér sé um stórhertar aðgerðir að ræða til þess að herða verðlagseftirlit er náttúrlega út í hött að tala um. Sjálfstæðismenn munu því sitja hjá við afgreiðslu þessa ákvæðis.
    Þá er komið að 3. gr. þessa frv. en hún hljóðar svo:
    ,,Við lögin bætist svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 2. gr. skal verðlagning á orku frá orkuvinnslufyrirtækjum og dreifiveitum falla undir ákvæði laga þessara á tímabilinu frá 1. mars 1989 til 1. sept. 1989.``
    Það er skemmst frá því að segja að sambönd íslenskra hitaveitna og rafveitna lögðust alfarið gegn þessu ákvæði, sbr. umsagnir þeirra sem hér er rétt að gera grein fyrir. Ég vil gera nokkra grein fyrir áliti frá Sambandi ísl. rafveitna sem dagsett er 15. febr. 1989, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Nýlega voru birtar tölur sem sýna að raforkuverð er hér hvað lægst í veröldinni þrátt fyrir erfiða landshætti og fámenni. Athuganir sýna að raforkukostnaður mikilvægra atvinnugreina landsins er innan við 2% af útgjöldum að meðtöldum sköttum. Raforka til almennra nota er 1,3% framfærsluvísitölunnar. Þá má enn minna á að á tímabilinu 1984--1988 lækkaði rafmagnsverð í samanburði við ýmsa aðra þætti. Orkuverð Rafmagnsveitna ríkisins, Rafmagnsveitu Reykjavíkur, Landsvirkjunar og fleiri raforkuveitna hækkaði þá um 64,5--75,5% á sama tíma og framfærsluvísitala, vísitala byggingarkostnaðar og lánskjaravísitala hækkuðu um 157--177%. Raunverð raforku frá fyrirtækjunum lækkaði um 30--39% á þessu skeiði.
    Raforkuveitur eru undir stjórn kjörinna fulltrúa eigenda og raforkunotenda. Veitustjórnir eru eins og málum er nú fyrir komið aðhaldssamar og tregar til hækkunar nema skýr rök mæli með.
    Samkvæmt því sem hér hefur verið greint frá verður að telja að núverandi eftirlit kjörinna fulltrúa með raforkuverði sé fullnægjandi og hafi reynst vel. Því eru ekki efni til að taka upp frekara verðlagseftirlit eins og stefnt er að með ofannefndu frv.``
    Enn fremur segir hér í umsögn frá Sambandi ísl. hitaveitna sem dagsett er 15. febr. 1989 og ég vil gera grein fyrir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Hitaveitur eru reknar sem þjónustufyrirtæki með lágmarkstilkostnaði. Þær eru almenningsfyrirtæki í eigu viðkomandi sveitarfélaga og þeim er stjórnað af kjörnum fulltrúum. Þessar stjórnir ákvarða nauðsynlegar hækkanir á gjaldskrám og tilkynna iðnrn. þær og má fyllilega treysta þeim til að gæta hagsmuna notenda. Margar hitaveitur eiga í verulegum

fjárhagserfiðleikum og hafa fengið fjárhagsaðstoð frá ríkinu. Aðstoðin hefur verið veitt með því skilyrði að veiturnar létu gjaldskrár í framtíðinni fylgja verðlagi. Nú hefur verðstöðvun verið í rúmlega fimm mánuði og á sama tíma hefur byggingarvísitala hækkað um 4,18%, dollarinn um 8,77% og SDR um 11,96%. Þær hitaveitur sem eiga í fjárhagserfiðleikum hafa flestar stóra hluta af sínum skuldum í erlendum lánum og hefur skuldabyrði því hækkað verulega á þessum tíma á meðan gjaldskrár hafa staðið í stað. Því má búast við að áður en langt um líður þurfi þessar sömu veitur að leita aftur á náðir ríkisins. Hitaveitur leggja ríka áherslu á að gjaldskrárákvarðanir verði ekki fluttar frá stjórnum fyrirtækjanna til Verðlagsráðs. Ákvarðanataka og fjárhagsleg ábyrgð verða að fara saman. Því leggst stjórn Sambands ísl. hitaveitna eindregið gegn samþykkt frv.``
    Þess má geta að sveitarfélögin og fyrirtæki þeirra hafa að jafnaði staðið sig vel í þessum rekstri.
    Þessu til viðbótar er e.t.v. rétt að geta þess hvernig Verðlagsráð er skipað. Þar eru tveir fulltrúar frá ASÍ, einn frá VSÍ, einn frá Verslunarráði, einn frá BSRB, einn frá SÍS, tveir skipaðir af Hæstarétti og einn formaður sem skipaður er af ráðherra, þ.e. formaðurinn er skipaður af hæstv. viðskrh. sem hefur þannig ákveðin pólitísk völd yfir ráðinu. Hins vegar mun hv. þingmönnum kunnugt um að orkuvinnslufyrirtækin og dreifiveitur eru nátengdar ákvörðunum iðnrh. Hér er því bara verið að skipta um nafn á undirskrift því að hér er um
einn og sama mann að ræða.
    Þar fyrir utan getur þetta ákvæði ekki orðið neytendum til góðs því að sum þessara fyrirtækja eru þegar rekin með tapi og reyndar fyrir erlent fjármagn eins og komið hefur fram í umsögnum hér áður. Þannig má áætla að u.þ.b. 20% hækkunarþörf sé hjá RARIK og Orkubúi Vestfjarða ef reksturinn á að vera hallalaus og Landsvirkjun fær sína hækkun.
    Hér má einnig vitna í bréf frá Landsvirkjun til iðnrn. dags. 13. jan. 1988 en þar segir: ,,Bendir allt til þess að án verðbreytingafærslu verði um verulegan rekstrarhalla að ræða hjá Landsvirkjun á árinu 1989 miðað við óbreytta gjaldskrá og fast gengi eins og það var skráð 3. jan. 1989 og 9% verðbólgu frá upphafi árs til ársloka.``
    Með þessu ákvæði er því verið að safna upp skuldum fyrirtækja svo að verðhækkanir geta orðið gífurlegar þegar þessu umþóttunartímabili lýkur og það getur ekki talist neytendum í hag. Það mætti reyndar beina þeirri spurningu til hæstv. iðnrh., hver fjárhagsleg staða þessara fyrirtækja sé í dag. Sjálfstæðismenn í hv. fjh.- og viðskn. sjá því ekki ástæðu til annars að þessum rökum upptöldum en að greiða atkvæði gegn þessu ákvæði.