Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Fulltrúi Borgfl. í fjh.- og viðskn. skilar ekki séráliti varðandi frv. og er ekki heldur á því nál. sem meiri hl. leggur fram. Ástæða þess er sú að við teljum okkur ekki geta samþykkt frv. óbreytt. Við teljum raunar að hér sé ekki um þær breytingar að ræða sem komi að gagni. Samt sem áður er hægt að taka undir ýmislegt sem tekið er fram í frv. og þá sérstaklega 1. gr. Þar er verið að fjölga varamönnum í Verðlagsráði og kom það fram m.a. í samræðum við forseta ASÍ að það hefur verið mikið vandamál að skipa varamenn í ráðið. En þeir vildu ganga miklu lengra en þarna er gert ráð fyrir. Þeir vildu ganga það langt að þeim væri heimilt að kveðja til hvern sem væri sem þeim líkaði en ekki tiltaka ákveðinn fjölda fyrir fram þar sem þeir telja oft á tíðum erfiðleikum bundið að þessir tilteknu menn séu til taks til þess að sitja í ráðinu. Það ætti frekar að vera frjálst val þeirra aðila sem eiga fulltrúa í ráðinu að skipa sína fulltrúa.
    Varðandi 2. gr. frv. liggur það ljóst fyrir að dagsektir eru mjög óvirkt úrræði og það hefur sýnt sig þegar Verðlagsstofnun ætlar að knýja fram ákveðnar breytingar eða koma í veg fyrir hækkanir að dagsektir hafa ekki komið að því gagni sem Verðlagsstofnun telur virkt til þess að halda uppi sínu eftirliti. Fulltrúar ASÍ töldu vera til bóta að breyta þessu á þennan hátt en samt sem áður ekki nógu langt gengið til þess að geta gripið inn í með fljótari hætti og eins og þeir mundu helst vilja. Undir það tók verðlagsstjóri, að hann vildi koma á miklu virkari og strangari ákvæðum til handa Verðlagsstofnun.
    Ég er alveg sammála því að Verðlagsstofnun eigi að hafa virkar heimildir til þess að koma í veg fyrir ótímabærar verðhækkanir og þess vegna mundi ég kjósa að í lögunum væri ákvæði sem heimilaði slíkt. Það má samt líta þannig á að þarna sé alla vega verið að gera tilraun til að koma þessu eftirliti á. Gæti ég svona undir venjulegum kringumstæðum fallist á það.
    Varðandi þriðja ákvæðið sem er kannski kjarninn í frv. kom fram hjá aðilum sem þetta varðar og komu fyrir nefndina að þeir töldu þetta mjög óhentugt og töldu sér sjálfum treystandi til að ákvarða hækkanir á sínum gjaldskrám. Þeir upplýstu nefndina um það að á síðustu árum hefur orðið 30--40% raunlækkun á raforku í landinu og að þeir aðilar sem selja þessa orku beittu sér virkilega fyrir því að draga úr hækkunum.
    Ég verð samt að segja það að mér finnst allt í lagi að þessi heimild sé fyrir hendi að teknu tilliti til þess að ég trúi því að Verðlagsstofnun meti þau gögn sem fyrir hana eru lögð á faglegum grunni og taki ákvarðanir í samræmi við það en ekki á grundvelli pólitískra fyrirmæla.
    Á heildina litið get ég fyrir hönd Borgfl. lýst því yfir að við munum sitja hjá við atkvæðagreiðslu um allar greinar frv. og svo frv. í heild.
    Ég held að 3. gr. sé ekki það veigamikil að hún eigi að vera til það mikils trafala að nauðsynlegar gjaldskrárhækkanir komist ekki til framkvæmda og ég trúi því ekki að Verðlagsstofnun starfi með þeim hætti

hún neiti sjálfkrafa hækkunum ef þær eru nauðsynlegar. Alla vega hefur sú reynsla sem ég hef haft af þeirri stofnun ekki verið með þeim hætti.
    Þetta er sú skoðun sem ég hef á þessu máli og tel rétt að hún verði upplýst hér þar sem ekkert nál. liggur fyrir frá okkur í Borgfl. varðandi frv. Ég hef engar sérstakar spurningar til ráðherra. Þetta er ekki það veigamikið frv. að ég telji ástæðu til þess að hafa langt mál um það.