Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Bara örfá orð. Það er auðvitað rétt hjá hv. 8. þm. Reykv. að veigamesta efnisatriðið í frv. er 3. gr. sem fjallar um það að um sex mánaða skeið verði orkufyrirtæki seld undir sama verðlagsaðhald og önnur fyrirtæki í landinu.
    Tilgangur þess ákvæðis er náttúrlega fyrst og fremst sá að vekja almenningi traust á því að þar komi ekki til sérstakrar hækkunar við lok verðstöðvunar á þeim óvissutíma sem ríkir þegar ósamið er um kjör við flesta í landinu og fólkið lítur mjög til þess hvað muni gerast með þessar verðlagsbreytingar á orkunni. Í þessu felst alls ekki að verið sé að taka verðákvarðanirnar frá veitustofnununum frekar en verið er að taka verðákvarðanirnar frá fyrirtækjunum í verslun, þjónustu og framleiðslu með þeim verðlagslögum sem í gildi eru og hafa verið í gildi frá árinu 1978. Það er eingöngu verið að setja þarna að um þetta sex mánaða umþóttunarskeið gangi eitt yfir alla í þessu máli og það er ekki síst vegna þess að það hefur oft verið sameiginlegt mál atvinnurekenda og verkalýðsfélaga við gerð kjarasamninga að orkufyrirtæki og önnur opinber fyrirtæki hafi sjálfsákvörðun um sínar verðskrár og skeyti þar lítt um það hvað öðrum sýnist eða líður. Ég tel þá samsetningu sem er á Verðlagsráðinu og hv. 8. þm. Reykv. lýsti reyndar vera til þess fallna að tryggja það að þarna ríki sanngjörn og sams konar meðferð á einkafyrirtækjum og þessum opinberu orkufyrirtækjum. Það er vissulega rétt að afkoma þeirra er mjög misjöfn, eignastaða þeirra afar misjöfn og eins og kom fram í máli hv. 11. þm. Reykv. er Verðlagsstofnun ekki þekkt að því að níðast á því sem henni er fyrir trúað. Þess vegna er ég viss um það að þar muni gætt sanngirni og raunsætt mat lagt á allar aðstæður í hverju máli, enda þarf að vekja traust hjá almenningi á því að það verði ekki sprengihækkun á orkutöxtum þegar verðstöðvunartímabilinu lýkur. Ég minni á að þegar bráðabirgðalög og verðstöðvun voru ákveðin í ríkisstjórnartíð Þorsteins Pálssonar í vor og endurtekið í haust var gert ráð fyrir að stöðvunartímabilið stæði allan tímann til 10. apríl.
    Þetta er mjög mikilvægt frv. þótt ekki sé það kannski endilega ákaflega stórt í sniðum. Þetta er samræmingaratriði og sanngirnismál. Ég vil líka benda á það að þær gjaldskrár hitaveitna og rafveitna sem koma til iðnrn. hækkuðu á árinu sem leið um 16--18% að meðaltali frá ársbyrjun til ágústloka, en það er nokkurn veginn sú almenna verðhækkun sem varð á árinu öllu þannig að kaupmáttur þessara gjaldskráa er nokkurn veginn sá sami gagnvart almennu verðlagi og hann var um þetta leyti árs í fyrra. Þær hafa hækkað heldur meira en kaupið á þessum sömu 12 mánuðum. Þannig tel ég að þegar á heildina er litið sé þarna ekki um neinn sérstakan eftirdrátt að ræða, en auðvitað er það rétt sem kom fram í máli þm. beggja sem töluðu, að það stendur misjafnlega á hjá fyrirtækjunum og það verður til þess litið við þessar ákvarðanir. Þarna er fyrst og fremst um það að ræða

að það sama gangi yfir þessi opinberu fyrirtæki og einkafyrirtækin.