Júlíus Sólnes:
    Hæstv. forseti. Mig langar til að gera að umtalsefni 3. gr. frv. þar sem segir að þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 2. gr. skuli verðlagning á orku frá orkuvinnslufyrirtækjum og dreifiveitum falla undir ákvæði laga þessara fram til 1. sept. 1989. Það er svo að skilja að þessi umþóttunartími, sem ríkisstjórnin telur að eigi að verða að lokinni verðstöðvun, eigi að ná til verðlagningar orkuvinnslufyrirtækja og dreifiveitna. Nú hefur það verið svo að eftir langan tíma þar sem verðlagning á orku var undir stjórn ríkisstjórnarinnar, þ.e. hún gat nánast skammtað þessum fyrirtækjum gjaldskrárhækkanir eftir vild eða skammtað þeim engar slíkar hækkanir, að þetta olli því að sérstaklega undir lok síðasta áratugar var mjög illa komið fyrir mörgum orkuvinnslufyrirtækjum sem í þeirri gífurlegu verðbólgu sem var hér á áttunda áratugnum höfðu farið mjög illa út úr viðskiptum sínum við ríkisvaldið sem stjórnaði gjaldskrárákvörðunum þessara fyrirtækja með þeim hætti sem ég hef lýst.
    Þó svo að hér sé mun mildilegar tekið á ákvörðunum þessara fyrirtækja um gjaldskrárhækkanir af hálfu ríkisvaldsins er engu að síður mjög varhugavert að binda þessi fyrirtæki í gjaldskárákvörðunum sínum. Þessi fyrirtæki hafa yfirleitt hagað sér mjög skynsamlega og reynt að halda verðlagningu á orku eins í lágmarki og framast hefur verið unnt. Þó er ekki allt með felldu í þessum efnum sem væri rétt að vekja athygli á hér. Það mun vera svo með gjaldskrár ýmissa dreifiveitna víða úti um land sérstaklega að þær eru ákaflega ranglega upp byggðar og stafar það af því að margar dreifiveitur, sérstaklega hinar smærri, hafa ekki haft möguleika á að búa sér til gjaldskrár sem endurspegla þann markað sem þær sinna. Því hefur sú venja skapast um margra ára bil að dreifiveitur hafa fengið gjaldskrár stærstu rafmagnsveitu landsins, þ.e. Rafmagnsveitu Reykjavíkur, og byggt sínar gjaldskrár upp mikið til að þeirri fyrirmynd sem felst í gjaldskrá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Það er hins vegar svo að Rafmagnsveita Reykjavíkur sinnir allt öðrum markaði en hægt er að segja um margar hinar smærri rafveitur og þess vegna væri hægt eflaust að ná miklum sparnaði með því að endurskoða gjaldskrár margra smærri rafveitna út um allt land. Með þeim hætti, ef lögð væri einhver vinna í það, og það getur vel verið að ríkisvaldið gæti þar haft eitthvert frumkvæði, væri eflaust hægt að lækka verulega raforkukostnað, sérstaklega þó raforkukostnað iðnaðarfyrirtækja og annarra atvinnufyrirtækja sem búa við mikinn raforkukostnað, með því að lagfæra gjaldskrár margra dreifiveitna sem eru ranglega upp byggðar með þeim hætti sem ég hef lýst.
    Ég hef ekkert frekar um þetta frv. að segja. Það kom fram í máli hv. 11. þm. Reykv. Guðmundar Ágústssonar að við þingmenn Borgfl. í hv. Ed. höfum ekki séð ástæðu til að skila sérstöku áliti um frv. Við teljum í sjálfu sér að það sé frekar veigalítið sem kemur hér fram og höfum svo sem ekki ætlanir uppi

um að halda uppi mikilli andstöðu við þetta, teljum það varla bjóða til slíks.