Lánsfjárlög 1989
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. vék orðum sínum að mér rétt áðan án þess að ég hefði sagt eitt einasta orð. ( Fjmrh.: Þú hefur misheyrt bara.) Það hefur greinilega verið misheyrn hjá hæstv. ráðherra. (Gripið fram í.) Já. Ef menn mega ekki segja eitthvað án þess að því sé beint til þess sem er í ræðustól er orðið vandratað hvernig menn eiga að haga sér í deildinni. ( EG: Það er mjög vandlifað núna.) Já og vandlifað. Ég ætla ekki að ræða það. Hins vegar gaf það mér tilefni til að koma upp í pontuna og segja nokkur orð.
    Hv. 3. þm. Vesturl. Eiður Guðnason. --- Er hann að víkja úr sal? Þetta er við hæfi. Ég ætla að vitna í orð hv. 3. þm. Vesturl. Eiðs Guðnasonar. Hann sagði: ,,Hér er allt á hreinu. Hjá okkur er allt á hreinu. Það er allt á hreinu hjá stjórnarsinnum.`` Ég fagna því að allt skuli vera á hreinu hjá stjórnarsinnum og mun víkja að því á eftir í tengslum við þessi mál, sérstaklega þeim orðum hæstv. fjmrh. þar sem hann talaði um að nú væru pólitískir sérhagsmunir látnir víkja. Ja, öðruvísi mér áður brá. Ekki ætla ég að tala óvirðulega um Framsfl. En ég sé að hv. þm. Stefán Guðmundssn kippist við.
    En það kemur nokkuð spánskt fyrir sjónir ef Framsfl. hefur látið alla sérhagsmuni víkja við það eitt að hæstv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson skuli vera kominn í ríkisstjórn með þeim. Ég veit ekki betur en það sé á stefnuskrá flokksins og yfirleitt þeirra ær og kýr að reyna að tryggja stöðu ákveðinna tegunda fyrirtækja, ákveðinna rekstrarforma og sú réttlæting er ætíð höfð á lofti að það sé gert í þágu þeirra byggðarlaga sem þeir bera sérstaklega fyrir brjósti. ( StG: Við níðumst ekkert á öðrum.) Nei, við níðumst ekki á öðrum, sagði hv. þm. Stefán Guðmundsson. Ef það eru ekki ákveðnir sérhagsmunir að ákveða að það þjóni einu byggðarlagi öðru fremur að gera ákveðnar ráðstafanir, hvað eru þá hagsmunir? Um hvað er hæstv. ráðherra að tala? Ég held að það fari ekki fram hjá neinum sem þekkir og hefur kynnt sér uppbyggingu íslenskra atvinnuvega í strjálbýlinu og það var alveg rétt hjá hæstv. fjmrh. þótt hann orðaði það ekki rétt, að á sínum tíma, þ.e. um og eftir 1978, hófst sú mesta sérfyrirgreiðsla sem þekkst hefur í íslenskri útgerð og í uppbyggingu íslensks fiskiðnaðar, ekki einkaframtakinu í hag heldur einkaframtakinu í óhag. Þá hófst nefnilega öld þeirrar pólitíkur að það var ákveðið við skrifborð og í þingsölum Alþingis eða á fundum í ríkisstjórn á árunum 1978--1983 hverjir skyldu fá að kaupa togara, hverjir skyldu fá að endurreisa og enduruppbyggja frystihús. Það voru ekki sjálfstæðismenn, það voru ekki einkaframtaksmenn sem ákváðu það. Það voru ekki þeir sem ákváðu að togarafloti landsmanna fór upp í 104 skip úr rúmlega 70 á örfáum árum. Sú umframaukning íslenska fiskiskipaflotans fór ekki til einkaframtaksins. Hún fór einkum í samvinnuútgerð. Þetta veit hæstv. fjmrh. eins vel og ég.
    Að Sjálfstfl. hafi stundað sérstaklega pólitíska fyrirgreiðslu kannast ég ekki við. Hins vegar hefur Sjálfstfl. í gegnum árin og áratugi tekið pólitíska

afstöðu og borið ábyrgð á samþykkt laga og gerð reglugerða um hvernig ætti að útfæra íslenskt efnahagslíf, en að í því felist einhver sérstök pólitísk fyrirgreiðsla kannast ég ekki við og ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. segi þá hér og nú hvað hann eigi sérstaklega við, í hverju þessu pólitíska fyrirgreiðsla sé fólgin og þá til hverra.
    Dæmi duga ekki, hv. þm. Það þarf að segja það í smáatriðum og tína allt til. Hv. þm. Eiður Guðnason brosir að þessu. Honum finnst hlægilegt þegar talað er um það að Sjálfstfl. og Framsfl. ástundi sérstaklega pólitíska fyrirgreiðslu. Þeir kannast nú ekki við það í Alþfl. að slíkt sé gert, enda heilagir af öllum heilögustum í þeim efnum. Ég er fæddur Hafnfirðingur og kannast við hvernig Alþfl. hagar sér þar sem hann hefur vald að meiri hluta til.
    En það var þetta hjá hæstv. ráðherra þegar hann ítrekaði og margsagði: Það eiga fagleg eða rekstrarleg og almenn sjónarmið að ráða. (Gripið fram í.) Almenn, er það ekki rétt? (Gripið fram í.) Þetta er afskaplega almennt orðað svo að ekki sé meira sagt. Það væri nauðsynlegt að fá skilgreint hvað fælist í því að vera faglegur. Einnig er nauðsynlegt að rekstrarlegar forsendur séu lagðar á borðið í þingsal þannig að við þingmennirnir sem hér erum staddir getum lagt á það mat út frá rekstrarlegum forsendum sem geta ekki verið neitt leyndarmál í þessari stöðu. En svo vildi ég fá skilgreiningu á því og nánari skýringu hvað átt er við með ,,almennum sjónarmiðum``. Ég held að það sé ekki hægt að tala almennar um það sem almennt er en gera það með þessum hætti. Ég óska eftir því að fá að vita hvað er átt við með almennum sjónarmiðum. Hvaða almenn sjónarmið eiga að ráða? Það er ekki nóg að segja: Við ætlum að standa að því með almennum ráðstöfunum þar sem um er að ræða burðarása heilla byggðarlaga. Þetta er afskaplega teygjanlegt. Það eru kannski tvö fyrirtæki í sama þorpi og bæði jafnilla stödd. Hver á að ákveða hvort er burðarás og hvort er ekki burðarás? Við skulum tala hérna tæpitungulaust. Það þarf ekki að fara lengra en austur á firði til að gera sér grein fyrir því hverjir eiga Ísland á Austfjörðum. Þegar hæstv. utanrrh. er hann var hæstv. fjmrh. var að reyna að klifra upp á valdapýramídann í íslenskum stjórnmálum, hæstv. utanrrh. Jón
Baldvin Hannibalsson fór sína frægu fundaherferð undir þessu fræga kjörorði ,,Hverjir eiga Ísland``, þá fann hann sérstaklega út að það væri Framsfl. Það var ekki íhaldið, ekki Sjálfstfl. Hvar sem blessaður maðurinn kom blasti við honum SÍS-merkið. Það var kaupfélagið, sláturhúsið, bifreiðaverkstæðið, útgerðin, fiskverkunin og bátarnir og jafnvel svo komið að í sumum byggðarlögum gátu börnin ekki fengið neins staðar vinnu nema hjá blessuðu SÍS-inu eða KEA eða kaupfélaginu. Frá vöggu til grafar skyldu menn starfa í þessu. Er það þetta sem hæstv. fjmrh. á við? Er það þetta? Er það stuðningur við þessi almennu rekstrarform, þessa almennu stefnu í því hverjir eiga að hafa eignarhald, ekki bara í byggðunum heldur á landinu utan Reykjavíkursvæðisins, sem flokkast undir

fagleg eða almenn sjónarmið?
    Ég skal leysa þetta í eitt skipti fyrir öll fyrir hæstv. fjmrh. þannig að hann þurfi ekki að svara þessu. Það er nefnilega hægt að gera það með mjög auðveldum hætti og það ýtti undir að ég stóð upp núna því að ég ætla að óska eftir því við hæstv. fjmrh. að hann standi við þau orð, sem hann sagði áðan, að nú skyldi rétt vera rétt og heilbrigði gilda í íslenskum atvinnurekstri og að gamla fyrirgreiðslupólitíkin væri horfin. Ég get tekið undir það sjónarmið að hún þarf að hverfa og heilbrigð rekstrarviðhorf eða rekstrarsjónarmið að ráða. Ég ætla þess vegna að leggja til og óska eftir því við hæstv. fjmrh. að hann veiti frv. brautargengi, sem ég mun þá leggja fram á þessu þingi, um það að Samband ísl. samvinnufélaga færi upp í reikningum sínum eignarhlut eignaraðilanna. Það er aðalatriðið ef hreint á að vera hreint og rétt á að vera rétt að það komi þá í ljós hver eigi hvað og það sé hreint borð í þessum efnum. Ég hlýt að óska eftir því eindregið og styð þar með þau sjónarmið hæstv. fjmrh. að allt skuli vera fyrir opnum tjöldum, faglegt, rekstrarlegt, ég segi ekki almennt því að það er óskilgreint, og ég legg til að hæstv. fjmrh. lýsi því yfir hér og nú að hann muni í sínum flokki, hann er formaður fyrir Alþb., styðja að frv. til l. um að Sambandið færi upp reikninga sína fyrir sínum eignarhlut eignaraðila, þ.e. kaupfélagana, verði samþykkt og gert að lögum. Þetta er grundvallaratriði. Ef hæstv. ráðherra meinar eitthvað með því að hann vilji stöðva pólitíska fyrirgreiðslu á Íslandi skal ég sjá um Sjálfstfl. ef hann vill sjá um Framsfl. með þeim hætti að samþykkja slíkt frv. og setja þau lög. Þá liggur ljóst fyrir hver á hvað og þá liggur ljóst fyrir hverjir hafa fengið ótæpilega fyrirgreiðslu á síðasta áratug miðað við árið 1978.
    Ég mun leggja þetta frv. fram í næstu viku. Hæstv. ráðherra gaf mér tilefni til þess og ýtti undir það að ég hlyti að gera það. Ég hafði ekkert hugsað mér að gera það sérstaklega í þessari umferð, en þetta er nauðsynlegt, og ég treysti á hans góða stuðning í þessu máli.
    Að lokum vil ég, forseti, víkja nokkrum orðum að hlutabréfasjóðnum. Heitir það ekki hlutabréfasjóður? Það er þessi sjóður sem á að koma til skjalanna til að bjarga illa stöddum fyrirtækjum í strjálbýlinu, en það hlýtur að gilda líka fyrir Stór-Reykjavíkursvæðið. Ég vildi gjarnan fá nánari skilgreiningu á því hjá hæstv. fjmrh. hvernig menn eiginlega hugsa sér að útfæra þetta. Mér er það ekki alveg ljóst. Ég vildi óska eftir því við hæstv. fjmrh. að hann legði fyrir hv. deild nokkur sýnishorn af því hvernig þetta yrði í framkvæmd. Mér er ekki alveg ljóst hvernig á að framkvæma þetta. Mér er ekki alveg ljóst eiginlega og ég vil gjarnan fá dæmi um það frá ráðherra hvernig á að framkvæma þetta. Kannski hv. þm. Eiður Guðnason viti hvernig á að gera það. Mér er það ekki alveg ljóst. ( Fjmrh.: Það verður kynnt þegar bráðabirgðalögin koma hérna aftur.) Það verður kynnt þá. En ég vildi gjarnan fá upplýst, það hefur kannski farið fram hjá mér, þetta með upphæðirnar og styrk sjóðsins. ( Fjmrh.: Það er enginn styrkur.) Styrkinn,

hvað hann er sterkur til þess að mæta þessu. Mér er ekki alveg ljóst hvernig þessi sjóður er. Mér sýnist hann ekki vera þeirrar stærðar að hann ráði raunverulega við það hrikalega dæmi sem mér virðist að sé í íslenskum atvinnurekstri í dag.
    Þá vík ég aftur að því sem er kannski ekki svo þýðingarmikið fyrir hv. stjórnarsinna, framsóknarmenn sem alþýðubandalagsmenn. Ég held að alþýðuflokksmenn séu mjög inni á því að fá upplýst hvernig eignarhlutdeild kaupfélaganna sé háttað í Sambandinu. Getur þessi sjóður raunverulega komið til skjalanna t.d. í rekstrarvanda samvinnufélaganna sem eru eignaraðilar Sambandsins úti á landi án þess að eignauppgjör eigi sér stað í Sambandinu? Er það forsvaranlegt að opinber sjóður komi til skjalanna með kaupum á hlutabréfum eða óski eftir því við lánardrottna að þeir breyti skuldum í hlutaskírteini eða hlutabréf án þess að sjálft móðurfyrirtækið sé með hreina reikninga gagnvart rekstrareiningum innan samvinnuhreyfingarinnar? Ég mundi álykta þótt ég sé ekki lögfræðingur að þetta sé lagalega rangt og siðferðilega rangt þannig að ég mun knýja mjög á um það í sambandi við þennan hlutabréfasjóð að það frv. sem ég legg fram um Sambandið verði afgreitt með skjótum hætti í þinginu og það verði framkvæmt þegar eignauppgjör innan samvinnuhreyfingarinnar sem nauðsynlegt er. Það er ekki hægt að ætlast til þess að opinber sjóður, að opinberir aðilar komi til skjalanna eða þriðji
aðili á sama tíma sem samvinnuhreyfingin sjálf er einn aðaleigandi og lánardrottinn líka gagnvart sumum þessara eignarfélaga Sambandsins. Jafnframt hlýtur sú krafa að koma upp hjá okkur hv. þm., ef við viljum láta taka mark á okkur, það er þessi: Hvernig er staða þessara fyrirtækja gagnvart helstu viðskiptabönkum? Hvernig er lánum og ábyrgðum háttað? Ég óska eftir því að það verði líka lagt fram og engum hlíft. Þetta er mjög nauðsynlegt.
    Ég vil einnig fá upplýst, hæstv. fjmrh. og við treystum honum best til þess að láta hv. deild þær upplýsingar í té, hvernig staða samvinnuhreyfingarinnar er gagnvart helstu ríkisbönkunum. Hver er staðan? Hæstv. fjmrh. sagði í ræðu í nóvember að Sambandið yrði gjaldþrota innan ég held 14 mánaða ef ekkert yrði að gert. Maður hefði átt að spyrja hæstv. fjmrh. á grundvelli hvaða upplýsinga hann lét þessi orð falla því að þetta eru mjög alvarleg orð. Það er kannski full ástæða til að óska eftir því að hæstv. ráðherra leggi fram öll gögn sem fengu hann til að láta þessi ummæli falla hér því að mér er ekki grunlaust um að þetta hafi haft mjög alvarleg áhrif á stöðu t.d. ríkisbankanna, þeirra banka sem eru helstu viðskiptabankar samvinnuhreyfingarinnar.
    Eru ráðherrarnir að víkja af fundi? ( Gripið fram í: Nei, nei, nei, nei.) Ég hef nógan tíma, virðulegi forseti, ég hef nógan tíma til að tala við þessa herra. (Gripið fram í.) Já, hv. þm. Eiður Guðnason. Það gæti verið að hér gætu oltið upp á borðið í þessari umræðu hlutir sem væru ríkisstjórninni ekki sérstaklega

hagstæðir þannig að ég skal ráðleggja hv. stjórnarþingmönnum að fara dálítið varlega í því hvernig þeir nálgast þessa umræðu gagnvart þeim þingmönnum sem leyfa sér að fjalla um þetta alvarlega mál.
    Það var hæstv. fjmrh. sem kastaði upp boltanum í þessari umræðu. Hann réðist með offorsi á Sjálfstfl. Hann réðist með offorsi á flokkinn og sagði að hann væri einhver sérstakur fyrirgreiðsluflokkur. Ég kannast ekki við það. Þetta er kannski gamanmál hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni. ( EG: En Albert?) Albert hvaða? ( EG: Guðmundsson.) Ég ætla ekki að efna til tvítals. Ég vildi óska eftir því við hv. þm. Eið Guðnason að hann bæði um orðið á eftir og flytti ræðu um hvað hann ætti við með því þegar hann talar um hv. þm. Albert Guðmundsson. Ég kann ekki við svona aðdróttanir, sérstaklega ekki þegar það hefur nýgerst að hæstv. utanrrh. er búinn að skipa hann sendiherra Íslands í París. Hvaða aðdróttanir eru þetta í garð virðulegra fulltrúa Íslands erlendis? Hvað var hv. þm. að fara?
    Ég fagna því alveg sérstaklega að hæstv. fjmrh. ætlar að vera svo skeleggur að hann ætlar að hafa allt á hreinu og við óskum eindregið eftir því sjálfstæðismenn að svo sé. Við erum vanir því að ef ekki er allt á hreinu í einkafyrirtækjum eru þau yfirleitt gerð upp, látin fara á hausinn og það hefur enginn samúð með einkarekstursmanni eða einkarekstursfyrirtæki þegar það fer á hausinn. Það hefur enginn samúð með einhverjum einstaklingum úti í bæ, en þegar komið er við pólitíska kviku sem er kjarninn í sérhagsmunum ákveðinna flokka sitja þingmenn hér og ráðum sínum í sumum flokkum um hvernig halda skuli á málum og hvernig mál skuli afvega flutt.
    Það er gott að eiga í vændum eftir helgina að það verður lagt á borðið hvernig þessi hlutabréfasjóður á að starfa og hvernig hann á að virka, en ég treysti því að hæstv. fjmrh. muni styðja þetta frv. mitt alveg eindregið þegar ég legg það fram eftir helgina og ég vek athygli á því að ég efast um að þessi hlutabréfasjóður, þótt ýmislegt sé hægt að gera í skjóli valda, geti orðið þeim byggðarlögum það skjól sem hæstv. fjmrh. mundi flokka undir almenna fyrirgreiðslu, þ.e. að almenn sjónarmið réðu, á meðan þetta eignauppgjör hefur ekki farið fram. Ég ítreka það þess vegna við hæstv. fjmrh. að hann hafi það á bak við eyrað og styðji það frv. sem hér um ræðir.
    Svo væri það mjög áhugavert ef hæstv. fjmrh. vildi bæta einhverju við um samvinnuhreyfinguna því ég veit að hann mætir vel á aðalfundum hreyfingarinnar, hefur verið virkur þátttakandi í Kaupfélagi Reykjavíkur og nágrennis og þekkir þessa innviði miklu betur en ég því að við sem stöndum utan samvinnuhreyfingarinnar fáum ekki að vita mikið um hvað þar gerist. En það er táknrænt í allri þessari stöðu að á sama tíma sem líklegast blasir gjaldþrot við samvinnuhreyfingunni og Sambandinu skuli fyrrv. formaður stjórnar Sambandsins vera gerður að aðalbankastjóra Landsbankans. Ég held að það mundi

ekki gerast á öðru byggðu bóli. ( Fjmrh.: Með atkvæðum Sjálfstfl.) Það var ekki gert með mínu atkvæði, hæstv. fjmrh. Það var ekki gert með mínu atkvæði. En yfirlýsing ráðherra um það atriði lá ekki fyrir þegar sú atkvæðagreiðsla fór fram. Ég held að hæstv. fjmrh. hafi lýst þessu yfir í ræðu, og ég vona að hann sé marktækur, síðast í nóvember, en atkvæðagreiðslan um þennan bankastjóra held ég að hafi farið fram í ágúst eða september.
    Ég skal ekki orðlengja það frekar sem ég hef sagt, en það er rétt að koma vel undir það búinn í næstu viku að ræða hlutabréfasjóð. Einnig mun ég leggja fram þetta frv. og þá mun hefjast umræða, mun ítarlegri. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir það að hafa vakið máls á þessu með þeim hætti sem hann gerði áðan og ég mun að sjálfsögðu leggja fram þetta frv. Ég treysti því að sjálfsögðu að alþýðubandalagsmenn sérstaklega hljóti að styðja þetta réttlætismál því þetta
er sjálfsagt réttlætismál fyrir utan að líklegast er það lagalega rétt og þá dómstólamál fyrir eignaraðila ef þetta verður ekki staðfest í lögum þannig að þeir sem stjórna samvinnuhreyfingunni verða að færa upp eignarhlutann. Hér er talað um að stofna hlutabréfasjóð og hann á að gefa út hlutaskírteini. Er það ekki rétt? Í frv. mínu um þetta var ekki krafist meira en að það væru gefin út hluteignarskírteini í samvinnuhreyfingunni. Það var engin krafa um að það ætti að breyta í neinu rekstrarformi samvinnuhreyfingarinnar. En þessi skylda var sett fram í frv. sem ég var með á síðasta þingi þannig að þetta hlýtur að koma mjög vel saman við hugmyndir ríkisstjórnarinnar um hlutabréfasjóðinn.