Lánsfjárlög 1989
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég get ekki orða bundist eftir ræðu hæstv. fjmrh. áðan. Hér er verið að afgreiða lánsfjárlög sem ég hefði talið að væri mikilsvert fyrir ríkisstjórn og hæstv. fjmrh. ekki síst að fá afgreidd í þessari hv. deild í dag. Það ætti hvorki honum né öðrum stjórnarliðum að koma á óvart þó stjórnarandstöðuþingmenn hafi eitthvað að segja um frv. ríkisstjórnarinnar um lánsfjárlög og það hefur verið venjan að hæstv. ráðherrar í hverjum málaflokki fyrir sig reyni að hafa það í huga þegar þeim liggur á að koma sínum málum í gegnum deildir. Ég verð að segja að mér fannst hv. 3. þm. Vesturl. gefa hæstv. fjmrh. svolítið kennslubókardæmi í því hvernig mætti svara þingmönnum málefnalega og er hann þó ekki að því er ég best veit doktor í stjórnmálafræðum eins og hæstv. fjmrh.
    Að koma hér í ræðustól með slíkar árásir á einn stjórnmálaflokk eins og hæstv. fjmrh. gerði áðan og réðist á Sjálfstfl. er með eindæmum við slíkar aðstæður. Hér er ekki fundur á rauðu ljósi. Hér er fundur í hv. Ed. Alþingis og það ætti hæstv. fjmrh. að hafa hugfast. Hér er ekki venjan að tala niður til fólks. Hann mætti kannski taka af því einhvern lærdóm.
    Það hefur að vísu endurspeglast í öllum málflutningi ráðherra Alþb. eftir að þeir komu inn í þessa ríkisstjórn að þeir hafa eitt markmið, númer eitt, númer tvö og númer þrjú, og það er að reyna að gera Sjálfstfl. áhrifalausan í íslenskum stjórnmálum. Þetta hafa þeir margsinnis sagt og lýst yfir svo að e.t.v. er þetta einhver lærdómur, eitthvað sem doktorarnir í stjórnmálafræðum kunna, að þetta sé aðferðin, og það m.a. að koma fram í sínum málflutningi eins og hæstv. ráðherra gerði áðan.
    Ég lýsi furðu minni á slíkum málflutningi og ég vísa á bug slíkum fullyrðingum sem hæstv. fjmrh. hefur hér viðhaft um Sjálfstfl.