Efnahagsaðgerðir
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Hér er enn einu sinni verið að ræða aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum og reyndar má segja að það frv. sem hér liggur fyrir sé burðarás í stefnu ríkisstjórnarinnar og það sem hún hefur helst haft fram að færa í málefnum sjávarútvegsins. Það vekur þess vegna alveg sérstaka athygli að hæstv. sjútvrh. hefur ekki séð ástæðu til að vera við þessa umræðu og lýsir það að mínu mati mjög svo áhuga hans á því verkefni sem hann hefur tekist á herðar, að gæta hagsmuna sjávarútvegsins og bera ábyrgð á rekstrarskilyrðum hans. Það er kveðjan sem hann sendir fólkinu í sjávarútvegi enn einu sinni, ekki einungis að það eigi að reka sjávarútveginn með halla heldur hafi hann ekki meiri áhuga á hagsmunamálum sjávarútvegsins en svo að þegar verið er að ræða þau mál hér á hinu háa Alþingi sér hann ekki ástæðu til þess að vera við.
    Og það vantar fleiri sem að þessu máli koma. Sá sem mótar efnahags- og atvinnustefnu núv. hæstv. ríkisstjórnar er hæstv. fjmrh. Hann sér ekki ástæðu til að vera við þessa umræðu. Þetta frv. beinlínis snýr að fjmrn. og ákvörðunum sem ekki verða teknar nema fjmrh. komi þar að. Það er þess vegna, herra forseti, alveg nauðsynlegt að bæði hæstv. sjútvrh. og hæstv. fjmrh. séu viðstaddir þessa umræðu nema það sé alveg eindregin pólitísk yfirlýsing þeirra að þeir ætli að virða umræðuna að vettugi og lýsa á þann hátt afstöðu sinni til þeirra hagsmuna sem hér er verið að ræða um. Þess vegna vil ég inna eftir því, herra forseti, hvort ekki megi gera ráðstafanir til þess að þessir tveir hæstv. ráðherrar sem málið snertir verði viðstaddir þessa umræðu. ( Forsrh.: Sjútvrh. stendur hérna í dyrunum. Hann situr í Ed.) ( Forseti: Ég skal inna eftir því.) Ég vil, herra forseti, minna á að hæstv. sjútvrh., þó að hann eigi sæti sem þm. í Ed., hefur þingskyldum að gegna þegar mál eru til umræðu sem snerta hans ráðuneyti í hv. Nd. ( Forseti: Þar sem eftir því hefur verið óskað að ráðherrar væru látnir vita af því að þessi umræða væri í gangi hefur það þegar borið þann árangur að sjútvrh. hefur gengið í salinn, en hæstv. fjmrh. verður gerð grein fyrir því að nærveru hans hér sé óskað. Hitt hljóta menn að skilja að ráðherrar eiga stundum erfitt um vik að vera á tveim stöðum í senn.)
    Þegar hæstv. ríkisstjórn skipuleggur meðferð mála á hinu háa Alþingi er eðlilegt að haga þeirri skipulagningu á þann veg að þeir ráðherrar sem hlut eiga að máli geti verið viðstaddir umræðu hverju sinni. Við aðra er þá ekki að sakast en hæstv. ríkisstjórn sjálfa sem á að skipuleggja í samvinnu við forseta þingsins umræður að því er varðar þau mál sem hún hefur flutt.
    Það sem einkum hefur komið til umræðu hér og nú varðandi þetta frv. eru þær breytingar sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert varðandi hlutafjársjóðinn og þá grundvallarbreytingu á þeirri hugmynd sem fram kemur í drögum að reglugerð sem fyrir liggur og er ekki endanlega frágengin eða útgefin en hæstv. forsrh. hefur kynnt efni hennar hér í umræðunni og fulltrúum

stjórnarandstöðunnar. Sannleikurinn er sá að þessi reglugerð dregur fram þann grundvallarágreining sem hér er uppi um stjórn efnahagsmála og hvernig eigi að tryggja rekstur atvinnuveganna.
    Hæstv. forsrh. bað héðan úr þessum ræðustól guð að hjálpa sér að ríkisstjórn hans lenti ekki inni í nýju kommissarakerfi eins og hæstv. ráðherra gerði sér enga grein fyrir því hvert hans eigin ríkisstjórn er að stefna sjálfri sér, íslenskri þjóð og íslensku atvinnulífi. Mér fannst fara vel á því að hæstv. ráðherra skyldi biðja guð að hjálpa sér að hann lenti ekki í því sem öllum er augljóst að verða mun ef engin breyting verður á. En það er ekki nóg fyrir hæstv. forsrh. að biðja guð að hjálpa sér og það er ekki nóg fyrir hæstv. sjútvrh. að segja að aðgerðirnar séu ekki nóg, en sitja svo uppi með það að hæstv. forsrh. segir á fundi daginn eftir að sjútvrh. styðji í einu og öllu það sem gert er og hafi engar athugasemdir fram að færa. Það er ekki hægt að biðjast afsökunar á því sem verið er að gera með því að biðja guð að hjálpa sér í annarri ræðunni og segja svo í hinni ræðunni að það sé ekki nóg að gert. Það er engin afsökun. Og það eru ekki skilaboð sem tekin eru gild í búð reynslunnar í sjávarplássunum úti um landið. Það er þetta sem hæstv. ríkisstjórn verður að gera sér grein fyrir.
    Það hefur með mjög skýrum rökum verið sýnt fram á í umræðunni hvert hæstv. ríkisstjórn er að stefna með þeim hlutafjársjóði sem hún ætlar að setja á fót og á ekkert skylt við þær upphaflegu tillögur sem fram voru bornar af Kvennalista og Sjálfstfl. við fyrri meðferð þessa máls.
    Það kemur fram af reglugerðardrögunum að það á að hefja hér umfangsmikil ríkisafskipti af atvinnurekstrinum. Hæstv. ríkisstjórn byrjar á að neita frekari aðgerðum til að tryggja almennan rekstrargrundvöll atvinnuveganna. Svo á að taka ákveðin fyrirtæki gegnum svonefndan Stefánssjóð og annan hóp í gegnum þennan nýja hlutafjársjóð og alls staðar eru það kommissarar ríkisstjórnarflokkana sem eiga að hafa puttana á, eins og þeir orðuðu það, hverjir lifa og hverjir lifa ekki.
    Í DV í dag segir formaður Atvinnutryggingarsjóðs að það séu um 2 milljarðar sem flytja þurfi yfir um 15 fyrirtæki ef ég man rétt í gegnum þennan
Atvinnutryggingarsjóð. Í reynd er verið að stofna hér til ríkisreksturs. Í reynd er verið að reyna að koma hér á kommissarakerfi, miðstýrðu kerfi yfir atvinnufyrirtækjunum úti á landsbyggðinni. Það er verið að vantreysta því fólki sem þar hefur með hörðum höndum byggt upp öflug atvinnufyrirtæki og skapað verðmæti. Það er verið að vantreysta þessu fólki og segja sem svo: Við viljum ekki að hér sé almennur rekstrargrundvöllur fyrir útflutningsframleiðsluna. Við ætlum að hafa hana á brauðfótum, en dæla peningum úr opinberum sjóðum til þess að við getum haft puttana á í gegnum kommissarakerfið og stjórnað atvinnulífinu í byggðum landsins. Það er þetta sem er afstaða hæstv. ríkisstjórnar til atvinnulífsins, til fólksins sem vinnur hörðum höndum úti á landsbyggðinni, að treysta því

ekki til að byggja upp sín fyrirtæki, að treysta því ekki fyrir rekstri atvinnufyrirtækjanna. Þetta er hugmyndin þarna á bak við. Þeir sjóðir og bankastofnanir sem eiga samkvæmt reglugerðardrögunum að leggja fram fjármuni af því að þeir eiga kröfur á viðkomandi fyrirtæki eru í eigu ríkisins og með ríkisábyrgð. Í raun réttri er því verið að leggja á skattborgarana að setja fjármuni inn í atvinnufyrirtækin. Fyrr en síðar leggst kostnaðurinn á skattborgarana. Ég skil mætavel Alþfl. eftir þá kollsteypu sem hann hefur tekið að hann skuli styðja þjóðnýtingaráform af þessu tagi. Það er sjálfsagt aðgöngumiði að því að ganga inn í Alþb. sem þeir þrá svo heitt um þessar mundir. En þetta er varhugavert fyrir íslenskt atvinnulíf. Þetta stuðlar ekki að því að treysta rekstur best reknu fyrirtækjanna sem skila mestum verðmætum og mestum arði. Þetta stuðlar ekki að því að bæta lífskjör launafólksins í landinu því að þau eru komin undir því að best reknu fyrirtækin hafi rekstrargrundvöll. Og það er sárt til þess að vita að hæstv. fjmrh. skuli ekki sjá sér fært að vera við þessa umræðu þegar hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir hér úr þessum ræðustól að ummæli hans í Þjóðviljanum eigi ekkert skylt við stjórnarstefnuna og vandséð hvernig halda á umræðunni áfram ef mál eiga að ganga á þennan veg.
    Það hefur heldur ekki komið fram í þessari umræðu að þeir opinberu sjóðir sem hér eiga hlut að máli eiga að leggja fram fjármuni með ríkisábyrgð sem að öllum líkindum lendir endanlega á skattgreiðendunum eðlilega, en það eru miklu fleiri kröfuhafar í sjávarplássum úti á landi. Það eru fyrirtæki einstaklinga sem þjónusta fiskvinnslufyrirtækin. Ríkisstjórnin segir sem svo: Það er allt í lagi þótt þessi fyrirtæki tapi. Það er allt í lagi þó heimili eigenda þeirra og starfsmanna fari á höfuðið. Það skiptir okkur engu máli. Við ætlum ekki að hafa neinar áhyggjur af því. Þetta eru önnur skilaboð til þess fólks sem að þessum atvinnuvegi starfar því auðvitað er það svo að umhverfis hvert fiskvinnslufyrirtæki og útgerðarfyrirtæki starfar fjöldinn allur af þjónustufyrirtækjum, smáfyrirtækjum. Það eru að vísu ekki stór fyrirtæki en það eru smá fyrirtæki og það er fólk sem vinnur þar og það er fólk sem á þau fyrirtæki. Það er líka rétt að gera kröfu til þess þegar mótuð er stefna í efnahagsmálum að þessir aðilar sitji við sama borð og njóti sama réttar og aðrir og það verður ekki gert með þeirri efnahagsstefnu sem hér er verið að fara á flot með. Hér er verið að búa til ranglæti, búa til mismunun.
    Ég ætla ekki að draga úr því að það kann að vera þörf á að taka á vanda ákveðinna byggða með sérstökum aðgerðum út frá byggðasjónarmiðum. En að reka efnahagsstefnu einnar þjóðar með þessum hætti er forkastanlegt. Það liggur ljóst fyrir að nýtt hlutafé í þessum fyrirtækjum mun brenna upp á örfáum vikum vegna þess að ríkisstjórnin neitar að gera þær ráðstafanir sem tryggja eðlilegan rekstrargrundvöll og rekstrarafgang í fiskvinnslunni. Þessi fyrirtæki eru vegna almennrar efnahagsstefnu dæmd til að tapa. Þó

að það komi nýtt hlutafé inn í atvinnufyrirtækin mun það brenna upp á örfáum vikum og hvað á þá að gera? Vill ekki hæstv. sjútvrh. svara því? Hvað á þá að gera? Á þá að stofna nýjan hlutafjársjóð? Það er óhjákvæmilegt að fá svör við þessu í umræðunni.
    Í þeim bráðabirgðalögum sem ríkisstjórnin setti og eru hér til staðfestingar er ráð fyrir því gert að stjórn deildar fyrir frystar afurðir í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins sé heimilt að taka lán hjá Seðlabanka Íslands fyrir milligöngu hans að fjárhæð allt að 800 millj. kr. Þetta lán er búið að taka og það er farið að greiða úr sjóðnum samkvæmt þessu. En það segir í lagagreininni að þetta lán skuli endurgreitt af tekjum Verðjöfnunarsjóðs af viðkomandi afurðum á næstu þremur árum eftir að það hefur verið tekið. Það sem þá kann að vera ógreitt fellur á ríkissjóð. M.ö.o.: hér segir alveg skýrum stöfum að atvinnugreinin sjálf á að endurgreiða þetta lán. Hæstv. sjútvrh. lýsti því hins vegar yfir á fundi með sjómönnumn að til þessa kæmi aldrei. Ríkið mundi standa undir þessu láni. Hæstv. ráðherra fékk hins vegar tækifæri til þess við afgreiðslu málsins í Ed. að standa við þessi orð sín, en hann kaus að greiða atkvæði gegn eigin orðum. Vegna hvers? Vegna þess að hæstv. fjmrh. fyrirskipaði að svo skyldi vera. Hæstv. fjmrh. fyrirskipaði að þetta kæmi ekki inn í bókhald ríkissjóðs og þetta skyldi standa áfram með þeim hætti að atvinnugreinin sjálf skyldi endurgreiða lánið. Og hæstv. sjútvrh. hlýddi því þvert ofan í það sem hann sagði á fundi með sjómönnum.
    En hvernig stendur þá á því að Þjóðhagsstofnun gefur út útreikninga um afkomu fiskvinnslunnar og þar á meðal frystingarinnar þar sem gert er ráð fyrir því að farið verði með þetta lán eins og hæstv. sjútvrh. sagði á fundinum með sjómönnum? M.ö.o.: Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir því í sínum útreikningum að ríkissjóður beri þetta lán í samræmi við orð hæstv. sjútvrh. á fundi sjómanna. En stjórnarmeirihlutinn undir forustu hæstv. fjmrh. hefur hér á Alþingi harðneitað því að fara á þennan veg með málið og krefst þess að það standi enn óbreytt að atvinnugreinin sjálf standi undir þessu. Verði þetta mál afgreitt héðan úr deildinni með þessum hætti er augljóst að útreikningar Þjóðhagsstofnunar eru rangir um afkomu fiskvinnslunnar. Afkoma frystingarinnar er 4% verri en þar segir, verði þetta frv. afgreitt með þessum hætti, vegna þess að þeir útreikningar byggjast augljóslega á orðum hæstv. sjútvrh. á fundinum fræga hjá sjómönnum. Það er ekki hægt að ljúka þessari umræðu fyrr en botn fæst í þetta mál. Það verður ekki við það unað að fjmrh. segi að þetta komi ekki á ríkissjóð og frumvörpin verði keyrð þannig í gegn, en hæstv. sjútvrh. haldi allt öðru fram og Þjóðhagsstofnun sé látin byggja útreikninga sína á þeim orðum en ekki því sem hæstv. ríkisstjórn setur í lög. Þá er verið að neyða Þjóðhagsstofnun til að birta falskar niðurstöður um afkomu fiskvinnslunnar.
    Nú kann vel að vera að hæstv. sjútvrh. segi sem svo: Það stendur hér í lagatextanum að verði eitthvað ógreitt eftir þrjú ár falli það á ríkissjóð. Þess vegna

hafði ég rétt fyrir mér að ríkissjóður mun bera þetta allt saman. En hvað felst þá í þeim orðum ef þetta á að vera afsökun hæstv. sjútvrh.? Þá felst það í hans orðum að það er stefna hans að sjávarútvegurinn og frystingin verði rekin með halla næstu þrjú árin þannig að atvinnufyrirtækin geti ekki samkvæmt lögunum endurgreitt þetta til sjóðsins. Öðruvísi verður slík afsökun ekki skilin.
    Nú liggur ljóst fyrir að verðbólga fer vaxandi á nýjan leik og í yfirliti frá Seðlabanka Íslands frá 10. febr. kemur fram að verðbólga á ársgrundvelli verður um 22% fram til maímánaðar, en lengra nær spá Seðlabankans ekki miðað við lánskjaravísitölu. Það er jafnan svo að Seðlabankinn ásamt með Þjóðhagsstofnun hefur gefið út mjög varlegar verðbólguspár. Þessar stofnanir byggja á því einu sem liggur ljóst fyrir og á stefnu ríkisstjórnar hverju sinni. Hér er því ekki reiknað með ýmsum væntum þáttum sem augljóslega eiga eftir að koma inn í þessa þróun þannig að allt bendir til þess að hækkun vísitölunnar verði meiri en hér er gert ráð fyrir. En augljóst er að stefnan er í þessa átt og í samræmi við þetta gerir Seðlabankinn ráð fyrir að raungengi krónunnar á þessu ári fari hækkandi á nýjan leik og hæstv. forsrh. hefur talað um það sem meginatriði að lækka raungengi krónunnar. Hann hefur hins vegar haldið því fram að það ætti að gera með einhverjum öðrum aðferðum en að breyta genginu. Þær aðferðir hafa fram að þessu ekki skilað miklum árangri, enda hafa aðgerðir ríkisstjórnarinnar leitt til þess að verðbólga fer nú vaxandi aftur eftir að ríkisstjórnin sjálf sprengdi í loft upp þá verðstöðvun sem fyrrv. ríkisstjórn hóf í lok ágústmánaðar.
    Í áætlunum Seðlabankans um þróun raungengis á þessu ári kemur fram að áætlað er að það hækki úr um 107 í febrúarmánuði upp í um 113 á haustmánuðum. Það stefnir því samkvæmt spá Seðlabankans sjálfs, sem byggir á þeim ákvörðunum sem hæstv. ríkisstjórn hefur tekið, í hækkandi raungengi. Hvað sem hæstv. forsrh. segir hér liggja þessar spár fyrir úr aðeins nokkurra daga gömlum plöggum frá Seðlabankanum. Samt sem áður heldur hæstv. ríkisstjórn því fram að ekkert frekar þurfi að gera fyrir sjávarútveginn í landinu og útflutningsgreinarnar annað en kannski að taka aukin lán og stofna nýja sjóði. Ætli þetta sýni ekki betur en flest annað að það munu ekki líða margar vikur þangað til fyrirtækin í hlutabréfasjóðnum þurfa að koma aftur og biðja um nýtt hlutafé frá ríkinu, frá skattborgurunum? Menn ættu að fara að átta sig á því að það er útflutningsframleiðslan sem skapar verðmætin í þessu þjóðfélagi. Það verður ekki endalaust hægt að leggja skatta á afleiddar þjónustugreinar í þessu þjóðfélagi til að halda sjávarútveginum uppi því að það eru þessar greinar sem lifa á verðmætasköpun sjávarútvegsins. Hér stefnir því augljóslega í mikinn vanda.
    Hæstv. sjútvrh. hefur lýst því yfir, gerði það í umræðu um svokallaða tilkynningu ríkisstjórnarinnar fyrir nokkrum dögum, þeirri umræðu er að vísu ekki

lokið, að allt benti til þess að ríkisstjórnin mundi halda áfram lántökum í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins á vori komanda þegar 800 millj. kr. lántökunni lýkur. Engar tillögur hafa þó komið fram um það enn við meðferð þessa máls í samræmi við þessa yfirlýsingu að afla heimilda til slíks og mér er ekki kunnugt um að við meðferð lánsfjárlaga í hv. Ed. hafi af hálfu hæstv. ríkisstjórnar verið aflað heimilda til þessarar lántöku sem hæstv. sjútvrh. gaf til kynna að efnt yrði til.
    Freðfiskdeild Verðjöfnunarsjóðsins átti um 10,2 millj. kr. um sl. áramót. Svo er verið að tala um það að samþykkja hér lög frá Alþingi þess efnis að hún geti tekið lán upp á 800 millj. kr. og, ef svo fer sem hæstv. sjútvrh. gaf til
kynna, a.m.k. 500 millj. kr. lán til viðbótar með þeim skýra lagabókstaf að það sé deildin sjálf sem taki þetta að láni. Hvernig á deild sem á 10,2 millj. kr. að taka lán upp á 1,5 milljarða kr.? Hér er allt á afturfótunum.
    En aðalatriðið er það að þessari umræðu er ekki unnt að ljúka fyrr en þessi mál komast á hreint. Það er fráleitt að afgreiða þessi lög með þeim hætti að dæma með þessum lögum sjávarútveginn til að endurgreiða þetta lán. Það mun aldrei ganga upp. Tölur Þjóðhagsstofnunar, eins og þessi lagatexti stendur, eru þá falskar, byggja á yfirlýsingu hæstv. sjútvrh. en hann ætlar með atkvæði sínu að standa hér að lagasetningu sem gengur í þveröfuga átt. Það er siðlaust, ef hæstv. ríkisstjórn ætlar að afgreiða málið hér frá þinginu með þessum hætti.
    Ég vil ítreka það, herra forseti, hvort hæstv. fjmrh. ætlar ekki að vera viðstaddur þessa umræðu sem snýst svo mjög um afkomu ríkissjóðs, um lántökur ríkissjóðs, skuldbindingar ríkissjóðs og það sem lagt verður á skattgreiðendur vegna þessa. Er það svo, herra forseti, að hæstv. fjmrh. ætli ekki að vera viðstaddur umræðuna? ( Forseti: Það er verið að kynna hæstv. fjmrh. þá ósk að hann komi hér og verði viðstaddur eftir því sem hann getur við komið. Þeim boðum hefur nú verið komið að nýju á framfæri.)
    Það er líka athyglisvert að hæstv. ráðherrar Alþfl. taka á engan hátt þátt í þessum umræðum, þegar verið er að stefna að meiri miðstýringu í atvinnulífinu en dæmi eru til um í áratugi, þegar verið er að stefna að meiri millifærslum úr ríkissjóði en dæmi eru um í áratugi, þegar halda á atvinnulífinu gangandi með ríkisstyrkjum, þegar fara á bakdyramegin að þjóðnýtingu fyrirtækjanna, eins og hér er verið að leggja til, þá hlaupast hæstv. ráðherrar Alþfl. á brott og geta ekki tekið þátt í umræðunni. Auðvitað er það rétt að kollsteypan sem Alþfl. hefur tekið í efnahagsmálum miðar að því að fá aðgöngumiða að Alþb. Þingmenn flokksins verða að kyngja þessari kollsteypu, en það er eftir því tekið að ráðherrar flokksins og forustumenn geta ekki eða treysta sér ekki til þess að taka þátt í umræðunni og rökstyðja þau miklu umskipti sem hér hafa átt sér stað.
    Herra forseti. Ég sé að hæstv. fjmrh. hefur nú

gengið í salinn. Í fyrsta lagi er rétt að geta þess af þeim sökum að hæstv. forsrh. lýsti því hér yfir í umræðunni að viðtal sem dagblaðið Þjóðviljinn átti við hæstv. ráðherra lýsti í engu stefnu núv. ríkisstjórnar. Þó hygg ég að öllum sem þátt taka í umræðum um þessi efni sé það ljóst að hlutafjársjóðurinn og aðrir þeir sjóðir, sem hæstv. ríkisstjórn er að byggja upp, eru í fullu samræmi við þá stefnuyfirlýsingu sem hæstv. fjmrh. gefur í þessu viðtali sem birt er í Þjóðviljanum 14. febr. sl. þar sem hæstv. ráðherra flokkar atvinnufyrirtækin niður í nokkra flokka og skipar þeim þannig í mismunandi aðstöðu eftir því hver afskipti ríkisstjórnarinnar og kommissara hennar eiga að vera. Nú hefur hæstv. forsrh. lýst því yfir að þetta sé ekki stefna hæstv. ríkisstjórnar sem fram kemur í viðtalinu og ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. geri þá grein fyrir þessum ágreiningi milli hæstv. forsrh. og fjmrh.
    Í annan stað hefur það verið dregið fram enn á ný að frv., eins og það liggur hér fyrir til umræðu, gerir ráð fyrir að sjávarútvegurinn, þ.e. fiskvinnslan, endurgreiði það 800 millj. kr. lán sem Verðjöfnunarsjóði er heimilað að taka samkvæmt þessum lögum. Hæstv. sjútvrh. hefur lýst því yfir að ríkissjóður eigi að endurgreiða lánið að fullu og á þeirri yfirlýsingu eru útreikningar Þjóðhagsstofnunar byggðir. Verði frv. ekki breytt, þá liggur ljóst fyrir að útreikningar Þjóðhagsstofnunar eru ekki á rökum reistir og eru falskir og afkoma frystingarinnar er að sama skapi 4% lakari en þar greinir.
    Nú vil ég inna hæstv. fjmrh. eftir því hvort hann ætlar að standa fast við þá ákvörðun sína, sem fram kemur í þessu frv., að láta fiskvinnslufyrirtæki endurgreiða þetta lán. Eða ætlar hann að fallast á stefnu hæstv. sjútvrh. um það að ríkissjóður beri þetta lán? Lánið var tekið í október og það segir í lögunum að það eigi að byrja að greiða af því á þessu ári þannig að fyrstu afborganir af láninu falla á þessu ári og því er alveg óhjákvæmilegt að taka af skarið um það hér og nú við þessa umræðu hvor háttur verður á hafður, ella koma þessar greiðslur niður á sjávarútveginum strax á þessu ári. Spurning mín til hæstv. ráðherra er sem sagt þessi: Ætlar hann að standa við efni frv. eins og það er prentað fyrir þessa umræðu eða fellst hann á breytingar? Og ætlar hann að gera útreikninga Þjóðhagsstofnunar ómerka ef svo fer að hann vill ekki gera breytingar á frv.?
    Herra forseti. Hér hafa verið bornar fram fyrirspurnir til hæstv. ráðherra, til hæstv. sjútvrh. og hæstv. fjmrh. Ég óska eindregið eftir því að hæstv. ráðherrum verði gefinn kostur á að svara þeim spurningum sem fram hafa verið bornar. Þær skipta efnislega máli og hafa mikla þýðingu fyrir niðurstöðu þeirra mála sem hér er verið að fjalla um og ég hygg að svör þeirra skipti fólkið sem vinnur við sjávarútveg býsna miklu máli. Þess vegna óska ég eindregið eftir því að báðir þessir hæstv. ráðherrar svari þeim fyrirspurnum sem hér hafa verið bornar fram.