Efnahagsaðgerðir
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Albert Guðmundsson:
    Hæstv. forseti. Ég hjó eftir því að um leið og hv. 1. þm. Suðurl. hafði lokið sinni frumræðu hér áðan, þá var óvenjumikill hraði á forseta að slíta umræðunni, en lokaorð hv. 1. þm. Suðurl. voru þau að ráðherrar svöruðu fyrirspurnum sem til þeirra var beint. Og ég get ekki látið hjá líða að gera athugasemd við það því að mér fannst eins og samspil á milli ráðherra og forseta, en ég vona að það sé rangt. Ef það er, þá bið ég forseta afsökunar, en þetta er óvenjulegur hraði að gefa þingmönnum ekki svigrúm til að átta sig á því hvort þeir fái orðið eða hvort þeir ætli að kveðja sér hljóðs. ( Forseti: Ég vil svara því til, hv. þm., að ég tel að þar hafi verið sami hraði og venjulega hjá þessum forseta, en hins vegar ívið minni hraði en stundum í atkvæðagreiðslum.) Ég bið afsökunar, forseti, ég er nú búinn að sitja hérna síðan 1974 og ég hef aldrei séð mál tekið af þingheimi eins snögglega og í þetta sinn, þannig að þetta er ekki sá hraði sem ég á að venjast hér á þeim tíma sem ég hef setið. En það er ekki það sem ég ætlaði að gera að umræðuefni, heldur það, að hæstv. forsrh. sagði mjög seint í sinni ræðu hér áðan, orðrétt, ég skrifaði það niður:
    ,,Ríkisstjórnin stendur frammi fyrir því að þurfa að bjarga mörgum fyrirtækjum víðs vegar um land, sem eru burðarásar byggðarlaganna á viðkomandi stöðum.``
    Við erum nú búin að heyra þetta sagt á mismunandi hátt núna undanfarið og undanfarnar vikur eða jafnvel mánuði. En ég vil að það komi fram að þessi fyrirtæki víðs vegar um landið, sem nú eru á fallandi fæti og standa ekki lengur undir velmegun byggðarlaganna, eru í þessum rekstrarvanda vegna ráðstafana í efnahagsmálum sem ríkisstjórnin ein er ábyrg fyrir. Og efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar --- ég hef sagt það hér áður úr þessum ræðustól --- eru þjóðfélaginu hættulegar, fyrirtækjum hættulegar, fólkinu og ég endurtek, þjóðfélaginu í heild.
    Síðast þegar ég stóð hér upp taldi ég þær ráðstafanir í efnahagsmálum sem nú liggja fyrir til afgreiðslu vera svo mikinn hringlanda að ég efast um að nokkur geti starfað eftir þeim og ég efast um að nokkur í ríkisstjórninni, hvað þá utan hennar, skilji hvernig ríkisstjórnin ætlar að leiða vandamál til lausnar með þeim ráðum sem þeir leggja til nú.
    Atvinnuleysistryggingasjóður er skertur til að stofna Atvinnutryggingarsjóð. Stefnan var sú að taka ekki frekari erlend lán og helst ekki innlend lán heldur. Það eru tekin lán til þess að styrkja Atvinnutryggingarsjóð. Og við höfum nú talað um þennan Stefánssjóð það mikið að það er ekki orðum eyðandi á hann lengur né tíma frá Alþingi. Við vitum að hann gengur aldrei upp eins og hann er lagður til.
    Síðan kemur hlutafjársjóður. Hvar á að skapa fé í hlutafjársjóð? Hvaðan kemur fjármagnið? Á að skapa hlutafjársjóð með því að selja hlutabréf í öðrum sjóði? Það er ekki eins og það sé verið að selja hlut í fyrirtæki sem er gangandi eða fyrirtæki sem hugsanlega er hægt að reisa við til þess að standa undir hlutafénu sem á að búa til. Það er verið að búa

til nýjan sjóð með því að selja hluti í sjóði. Er hægt að standa vitlausar að endurreisn fyrirtækja en akkúrat svona? Er verið að skapa fé úr verðmætum, úr hráefnum eða einhverju slíku? Nei, það er verið að skapa fé með því að prenta á blað að maður sem leggur fram peninga eigi önnur bréf sem eru ekkert annað verðmæti en pappírinn sem prentað er á, viðurkenning á þeirri skuld. Það er verið að búa til sjóð sem á að líta út á blaðinu eins og eins konar fyrirtæki, en er þó ekki fyrirtæki að neinu leyti, til þess að skapa annan sjóð til að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum sem ekki hafa gengið og hafa alltaf tapað. Þessi hlutafjárframlög eiga ekki að bera neina vexti. Þau eru að vísu verðtryggð með ríkistryggingu í fjarlægð, en það er það eina sem þau eiga að bera. Þau eiga að halda verðgildi sínu, þau eru verðtryggð, bera enga vexti og engan arð því fyrirtækin hafa tapað hingað til. Ég sé ekki neina von til þess að fyrirtækin fari að bera sig bara af því að þetta nýja fé kemur inn í taprekstur. Og þetta kalla viðkomandi aðstandendur þessara hugmynda efnahagsráðstafanir! Þetta er svo vitlaust að ég er alveg steinhissa á að þeir skuli halda áfram með þessa hugmynd.
    Af hverju segið þið ekki hreint út: Við þurfum að skaffa peninga. Ríkissjóður ætlar að tryggja lán og við verðum að taka lán. Það er miklu ódýrara en að fara að hringla með fólk sem ég er alveg sannfærður um að finnst ekki til að kaupa þessi hlutabréf vegna þess að þau gefa ekki einu sinni von um að peningarnir fáist til baka verðtryggðir, hvað þá að þeir gefi eitthvað af sér. Og að einhverjir fari að leggja sitt fé í svona ævintýri þegar þeir geta í fullri tryggingu lagt það inn í hvaða banka og peningastofnun sem er upp á venjulega vexti? Þetta er alveg það sama og að segja við fólkið í landinu: Nú getum við ekki meira, við kunnum engin ráð. Hjálpið okkur, látið okkur hafa peningana ykkar fyrir ekki neitt. Við skilum þeim kannski aftur, kannski einhvern tíma seinna --- ef við getum. Þetta eru efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar.
    Og á að reyna að blinda svo fyrir Alþingi að Alþingi samþykki þetta í von um að eitthvað geti gengið rétt í þá átt sem sagt er nú? Það er miklu hreinlegra að strika þennan hlutafjársjóð út og jafnvel Atvinnutryggingarsjóðinn líka, láta Atvinnuleysistryggingasjóð hafa sitt framlag frá ríkissjóði eins og á að vera þannig að hann geti borið sína ábyrgð ef á þarf að halda, og segja svo bara: Við erum í strandi með hugmyndir. Við sjáum nú að hlutafjársjóðurinn okkar er röng hugsun, enda er hann endanlega tryggður með ríkissjóðstryggingu og við skulum bara sleppa öllum millistigum og segja við ríkissjóð: Við skulum taka lán til að standa undir því sem við viljum gera.
    Ég held að eins vitlaus og sú hugmynd kann að vera í hugum margra, sem ég kom með á sínum tíma sem fjmrh., að strika út, hreinlega strika út skuldir undirstöðuatvinnuvega þjóðarinnar sem eru til orðnar vegna lánskjaravísitölu af lánum sem fyrirtækin hafa fengið, en halda að fullu í gildi höfuðstól skuldarinnar og þá með lágum vöxtum. Ég held að það sé miklu

heilbrigðari hugmynd en þessi þvæla sem hér er lögð til í nafni efnahagsráðstafana. Gangið einhvern tíma einhvers staðar á einhverju sviði hreint til verks og segjum sameiginlega: Við erum í vanda sem þjóðfélag, það þarf að leysa málin, en ekki vera með einhverjar blekkingalausnir sem eru blekkingar líka fyrir þá sem leggja fram hugmyndirnar.
    Virðulegi forseti. Ég sagði á sínum tíma að þessar efnahagsráðstafanir væru ekki þess virði að ræða þær og þess vegna ætla ég ekki að hafa þessa ræðu lengri.