Efnahagsaðgerðir
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég er víst raunar búin með ræðutíma minn hér þar sem ég hef tvisvar talað í þessari umræðu, en ég get ekki setið undir ( Forseti: Hv. þm. hefur að vísu talað tvisvar, en í annað skipti fyrir nál. og hefur því rétt á því að tala í þriðja sinn.) Ég þakka fyrir það. En ég þarf ekki að hafa mörg orð um það sem hér hefur verið sagt að öðru leyti en því að ég vil ekki sitja undir mjög ákveðnum ásökunum frá hæstv. ráðherra í máli hans hér áðan hvað það varðar að kvennalistakonur séu andvígar því að fyrirtækjum í einstökum byggðarlögum, sem jafnvel eru burðarásar í þeim byggðarlögum, sé komið til aðstoðar. Hæstv. ráðherra hefur haft öll tækifæri til þess að kynna sér hugmyndir okkar og þær skýringar sem við höfum gefið í sambandi við tillöguflutning í þessum málum og er ekki vorkunn að hafa kynnt sér það. Hann hefði einnig, ef hann hefði verið viðstaddur þessa umræðu, heyrt það að kvennalistakonur hafa margítrekað það að þær telja nauðsynlegt að beita aðgerðum til aðstoðar fyrirtækjum sem eru svo illa á vegi stödd að þau þurfa á því að halda.
    Það sem við höfum hins vegar sagt er að þessi hugmynd með hlutafjársjóðnum var ekki ætluð í þessu skyni heldur til þess að skapa sjóð sem gæti staðið undir sér og það held ég að geti ekki gerst ef honum er beitt á þennan hátt.
    Ég tók það hins vegar fram í máli mínu áðan að ég óska ekki þessum sjóði neins ills þó að hann hafi breyst í meðförum meiri hl. og ætla ekki að spá illu um framtíðina. Hann kann að geta komið að haldi. Og það hafa forráðamenn t.d. Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs og fleiri sagt, að þeir gætu hugsanlega nýtt sér hann að þessu leyti og það ætla ég að vona að verði. Ég vildi aðeins bera af okkur þær sakir að við værum ekki þeirrar skoðunar að það ætti að koma til aðstoðar fyrirtækjum úti á landi sem ættu í sérstökum erfiðleikum.