Verðbréfaviðskipti
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fjh.- og viðskn. mikið starf við þetta frv. Það er rétt sem fram hefur komið að það hafa orðið á því óvenjulega margar breytingar í nefndinni. Ég tel það til marks um vönduð vinnubrögð og tel að það sé enginn minni af því að fá leiðréttingar á sínum verkum í nefndarstarfi í þinginu, það sé reyndar aðal þess starfs.
    Það er sjálfsagt rétt að auðvitað hefði mátt vinna þetta betur í upphafi, en ég verð nú að játa að ég, eins og hv. 1. þm. Vestf. Matthías Bjarnason, hef þá skoðun að viðskrh. þurfi helst að ráða einhverju og þess vegna vildi ég bara ekkert bíða lengur eftir þessari nefnd. Hún er búin að vera allt of lengi að búa til þetta frv. og það var nú reyndar meðan við hv. 1. þm. Vestf. vorum samherjar í ríkisstjórnarsamstarfi --- þótt við séum náttúrlega samstarfsmenn enn hér að mörgum góðum málum --- að þetta frv. var tekið frá nefndinni eða nefndin afhenti stjórninni það og það var þá fram lagt. Ég skildi nú reyndar að um það væri mjög breið og almenn samstaða eins og þarf að vera um svona mál af því að hér er verið að setja grundvallarreglur um starfsemi sem er þegar býsna mikilvæg og getur orðið enn mikilvægari.
    Ég ætla hér eingöngu að segja nokkur orð um 30. gr. og brtt. sem hv. þm. Matthías Bjarnason, Ingi Björn Albertsson og Ragnar Arnalds hafa flutt við 11. og 15. gr. þessa frv.
    Varðandi 30. gr. vil ég benda á það að þar er tvennt mikilvægt. Í fyrsta lagi er þarna tilvísun til 1.--3. mgr. 8. gr. l. nr. 36/1986, um Seðlabankann. Þar eru heimildir fyrir bankann að setja reglur um bindiskyldu og lausafjárkvaðir, en þær eru að sjálfsögðu háðar samþykki ráðherra. Um þetta er ekkert sérstakt að segja, þetta er svona. Hér er eingöngu um það að ræða að jafnræðisregla gildi um sams konar viðskipti. Ég tel líka síðustu orð 1. mgr. 30. gr. ,,eða jafngildi þeirra með kaupskyldu á öruggum verðbréfum``, eins og lagt er til að hún orðist, afar mikilvæg einmitt vegna þess sem kom fram hér við framsögu mína fyrir þessu frv. að þar sem langtímaverðbréf stendur á móti langtímaverðbréfi kann að eiga miklu betur við að hafa kaupskyldu á markaðsverðbréfum fremur en bindingu með nákvæmlega sama hætti og tíðkast um skammtímalánastofnanir viðskiptabanka. Þetta er sanngirnismál og skynsemismál í senn. Þess vegna er þetta svona orðað. En það gefur auðvitað auga leið að ef t.d. bindiskyldan verður lögð á bankabréf og veðdeildarstarfsemi, eins og mörgum finnst nú koma til greina, þá hlýtur hið sama að gilda um verðbréfaútgáfu á vegum annarra aðila sem er að jöfnu leggjandi. Þetta eru sjónarmið sem ég veit að hv. 1. þm. Vestf. er mér alveg sammála um. Ég get vel unnt honum þess að leika sér svolítið að þessum orðum, en ég veit að þegar hann skoðar þetta í alvöru, þá sér hann að þetta er vandlega athugað og hefur reyndar hlotið meðmæli meiri hl. í þessari nefnd sem hann skipar svo vel ásamt öðrum.

    Um síðari mgr. 30. gr. eins og tillaga er hér um gerð, þar er náttúrlega alveg um sams konar mál að ræða, að jafnræðisregla gildi, þ.e. að það sé ekki auðveldara að reka bankastarfsemi undir einhverju öðru flaggi en undir bankalögum og sparisjóðalögum.
    Um þetta mál þarf ekki að segja fleira. Eins og um flesta hluti, þá fer þetta náttúrlega eftir framkvæmdinni. Ég bendi á það að í Evrópuríkjum sem mynda Evrópubandalagið, sem títt er nú til vitnað, fer nú einmitt fram mjög víðtæk samræming á reglum um starfsemi verðbréfasjóða, einingarsjóða. Þar verður kaupskylda slíkra sjóða á markaðsverðbréfum mjög mikil, einmitt til að koma í veg fyrir afföll af því tagi sem geta velt litlum og miður tryggilega samsettum ávöxtunarsjóðum eins og við höfum um nýleg dæmi hér á landi. Við þurfum að velja þarna verkfærin eftir efniviðnum. Og það hefur meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. Nd. að mínu áliti gert.
    Þá kem ég að brtt. þeirra þremenninganna sem Matthías kynnti undir landsbyggðarfána. Ég hefði frekar haldið að auðkenna mætti flokk flutningsmanna sem bestu vini bankanna því það sem þeir eru að leggja til er að bankarnir fái sérréttindi. Ég tel það ekki samrýmast jafnræðisreglu laganna. Það er meginsjónarmið nefndarinnar sem samdi frv. að ein lög skuli gilda um verðbréfamiðlun, ein lög skuli gilda um rekstur verðbréfasjóða, hver sem að honum stendur. Sé tillagan tekin bókstaflega sem þessir þremenningar flytja eru þeir að gera ráð fyrir því að bankarnir séu undanþegnir þessu almenna regluverki sem öllum ber saman um að nauðsyn sé að festa í lög. Ég get ekki samþykkt að það sé rétt skoðun. Þess vegna er tillagan flutt eins og hún liggur hér. Þetta á ekki síst við um það að koma í veg fyrir það sem kallað er á ensku máli ,,insider trading`` og á íslensku hefur verið kallað innherjaviðskipti, sem kannski er venjulegra að orða svo að menn eigi ekki að selja sjálfs hendi, og menn eigi ekki að selja öðrum verðmæti og leyna þá vitneskju um það sem á bak við býr sjálfum sér í hag.
    Sama á við um kröfur til faglegrar þekkingar, trygginga o.s.frv. Þetta er sérhæfð þjónusta sem verður að lúta sömu reglum þó aldrei það standi banki yfir dyrunum. Þetta er kjarni málsins.
    Það hefur á sama hátt verið sjónarmið nefndarinnar frá hinni hliðinni að það eigi að halda fyrirtækjum eins og Fjárfestingarfélaginu og Kaupþingi frá viðskiptabankastarfsemi, en þar er stundum mjótt á mununum. Það er hitt sjónarmiðið að það þarf að tryggja bönkunum að ekki komi aðrir inn í bankastarfsemina undir auðveldari skilmálum en bankarnir starfa. Það er nákvæmlega efnið sem hér liggur fyrir, en það gildir ekki í hina áttina að bankarnir eigi að fá þarna einhver forréttindi. Þetta er sjónarmið sem ég veit að hv. þm. bæði hefur og virðir ef hann vill. Þessi aðskilnaður milli banka og verðbréfastarfsemi er reyndar mikið umræðuefni í nálægum ríkjum og er nú ofarlega á baugi í mörgum ríkjum í kringum okkur einmitt vegna mikillar

umræðu um innherjaviðskipti um óvandaða sölu sjálfs hendi og reyndar víðtæk svika- og afbrotamál af því tagi sem hafa komið upp.
    Ef við lítum svolítið yfir nálæg lönd, hvernig þau haga þessum reglum, þá er bönkum í Noregi heimilt að reka verðbréfamiðlunarsjóði, en í aðskildum deildum sem sérstakar kröfur eru gerðar til. Þetta er í raun og veru sama leið og lögð er til í frv. Það er alls engin hindrun lögð í veginn fyrir banka að stunda svona starfsemi. Þeir mega eiga svona félög að fullu og gera það nú reyndar sumir, eiga stóra hluti í svona félögum, en ég sé ekki betur en að ef það yrði gert sem tillagan frá þeim þremenningunum felur í sér, þá þyrfti að gera miklu fleiri breytingar á frv. Í raun og veru gæti það stappað nærri að það væri þá verið að hefta þennan nýja gróður á verðbréfa- og fjármagnsmarkaðnum sem ég veit að sumum er miður þekkilegur, en ég tel að þegar á heildina er litið sé af hinu góða. Sannarlega má og á landsbyggðarfólk að skipta við slík fyrirtæki eins og önnur, ef bankarnir eiga og reka svona fyrirtæki, þá geta þeir veitt þá þjónustu sem þarf í sínum útibúum ekki síður en þótt hún væri rekin fyrir reikning bankans án aðgreiningar.
    Þá kem ég að næsta landi sem er Danmörk. Það er rétt að þar er ekki gerð sama krafa til aðskilnaðar en reyndin er sú, og það er m.a. vegna bankaeftirlitsstarfseminnar, að verðbréfastarfsemin er þar í höndum sjálfstæðra fyrirtækja í eigu banka að því leyti sem þeir standa í slíkum viðskiptum. Í Bandaríkjunum er kannski aðskilnaðarstefnan að þessu leyti, að halda aðskilinni bankastarfsemi og verðbréfastarfsemi, einna ströngust. Sama er að segja um Japan og það er athyglisvert, eins og ég kom aðeins inn á hér áðan, að í mörgum Evrópuríkjum er núna mikið unnið að því að gera skilgreiningarnar á viðskiptabankastarfsemi annars vegar og starfsemi verðbréfafyrirtækja hins vegar nákvæmari. Þar er að vísu enn ekki fullkomin samstaða um stefnuna, m.a. er bankahugtakið sums staðar víðara en hér tíðkast. Það er t.d. á Bretlandi þar sem eru mjög víðfeðmar fjármálastofnanir en sumar þeirra fást við það sem við mundum nú kalla spákaupmennsku hér og dálítið ævintýraleg viðskipti að sumu leyti. Ég held að það sé ekki hyggilegt að stefna inn á þá braut að það sé nóg að heita banki og þá geti menn stundað verðbréfaviðskipti án þess að lúta því sérstaka eftirliti með þessum viðskiptum --- sem sérstöku starfssviði en ekki sem stofnunum --- og tillögur eru gerðar um í þessu frv. sem ég veit að hefur mjög víðtækan stuðning hér í þinginu. Reyndar er mikil þörf á að setja slíkar reglur vegna atburða á þessu sviði þjóðlífsins sem ég ætla ekki að rifja hér upp.
    En umræðan um innherjaviðskipti í Evrópu hefur einmitt mjög snúist um nauðsynina á að skilja að þessi hlutverk. Ég held að það sé óhætt að fullyrða að þar hafi aðskilnaðarsinnum vaxið fiskur um hrygg að undanförnu.
    Í fylgifrv. um breytingu á viðskiptabankalögunum er lagt til að verðbréfamiðlun, rekstur verðbréfasjóða, ráðgjöf um kaup og sölu skuldabréfa skuli vera skilin

frá starfsemi venjulegra viðskiptabanka. Hins vegar er viðurkenndur að fullu réttur viðskiptabankanna til að taka þátt í þessari starfsemi á fjármagnsmarkaðinum, enda, og það er það mikilvæga, séu þeir háðir sömu lagareglum og aðrir sem hafa til þess leyfi. Reyndar er líka með breytingunni á viðskiptabankalögum sem fylgir þessu frv. tillaga gerð um það að bönkunum sé auðveldað þetta með undanþágu varðandi kröfur um mat á eigin fé og þar vitna ég til 28. gr. laga nr. 86/1985, um viðskiptabanka.
    Að endingu, virðulegi forseti, vil ég eingöngu segja það að ég tel það nauðsynlegt og reyndar mikilvægt að menn geti skipst á skoðunum um grundvallaratriði eins og hér eru til umræðu, ekki þannig að þau séu í venjulegum skilningi flokkspólitísk deilumál því að þau eru það ekki eins og kemur best fram í þremenningahópnum sem flytur hér brtt. við 11. og 15. gr., þar eru ekki flokkslínur. Ég er sannfærður um það að það er mikill meiri hluti í þinginu fyrir meginsjónarmiðunum sem þetta frv. er byggt á eins og það birtist í áliti meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. Ég þakka þeim sem hafa hreyft hér öðrum skoðunum af því að þær hafa einmitt vakið upp það sem vekja þarf upp, umhugsun um undirstöðuatriði málsins.