Varaflugvöllur
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Halldór Blöndal:
    Ég þarf ekki að taka fram, hæstv. forseti, að verkstjórn hér í þinginu hefur verið mjög undarleg í dag. Fundir hófust með því að það voru atkvæðagreiðslur í deildum og fyrir lá að atkvæðagreiðslan í Nd. mundi taka mun lengri tíma en í Ed. þannig að þingmenn Ed. voru látnir sitja aðgerðarlausir og hefði verið eðlilegt úr því að þannig var byrjað á vinnudeginum að halda þá fundum áfram í deildum. Síðan var klukkan farin að ganga fjögur loksins þegar kom að Sþ. og síðan eru þingflokksfundir milli 5 og 7. Nú talar hæstv. forseti með miklum þjósti við þingmenn stjórnarandstöðu sem hafa greitt fyrir því að mál megi ganga vel fyrir sig. Stjórnarandstaðan hefur fallist á að fundir í fjh.- og viðskn. Ed. verði í fyrramálið þó svo að fyrir þeim málum sem þá á að taka fyrir verði ekki gerð grein fyrr en eftir hádegi á morgun. Við höfum komið til móts við ríkisstjórnina og stjórnarflokkana og reynt eftir mætti að greiða fyrir þingstörfum. En við fáum hins vegar mikið tómlæti frá stjórninni í þessu.
    Ég vek athygli á því að hér fyrir kvöldmat gáfu þrír hæstv. ráðherrar yfirlýsingu. Hæstv. forsrh. talaði eins og honum er lagið þannig að maður veltir því fyrir sér hvort hann skilji sjálfur inntakið í því sem hann er að segja. Hæstv. samgrh. flutti einnig langa ræðu. Þeir töluðu þrír, hæstv. utanrrh., hæstv. samgrh. og hæstv. forsrh., og væri synd að segja að þeir hafi reynt að stytta sitt mál.
    Það er eðlilegt nú, þegar umræður halda áfram um það mál sem hæstv. samgrh. segir að heyri undir hann en ekki hæstv. utanrrh., að hann sé viðstaddur áður en umræðan getur haldið áfram. Ég hygg að það sé líka eðlilegt að hæstv. forsrh. sé viðstaddur, en eins og forseti þingsins heyrði hafði hæstv. samgrh. mörg orð um að það væri forsrh. að kveða upp úr um það undir hvaða ráðuneyti fyrirspurnin heyrði. Hæstv. samgrh. hélt því fram að þessi þáttur heyrði undir samgrn. þvert ofan í það sem hæstv. utanrrh. hafði sagt áður, en hæstv. forsrh. sagði að það væru ýmsar skoðanir uppi um það undir hvaða ráðuneyti þetta heyrði. ( Forseti: Má ég minna hv. þm. á að þetta er um þingsköp.) Þess vegna vil ég, af því að ég er að tala um þingsköp, beina því til hæstv. forseta að hann geri ráðstafanir til þess að hæstv. forsrh. verði við umræðuna og sömuleiðis hæstv. samgrh.