Varaflugvöllur
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég hefði haldið að það væri rétt að hafa hæstv. ráðherra viðstadda, sem fóru þannig að í fyrri hluta þessarar umræðu að þeir héldu uppi miklu málþófi með þeim hætti að þingmenn komust ekki að á þeim hluta fundarins. Það hefði auðvitað verið rétt að þeir væru þá hér áfram bæði hæstv. forsrh. og hæstv. samgrh. sem töluðu svo mikið að það komst enginn þingmaður að fyrir utan frummælanda. ( Utanrrh.: Hér er sá sem málið heyrir undir.) Það má vel vera, hæstv. utanrrh., að málið heyri undir þig, en mér heyrðist á máli forsrh. og á máli hæstv. samgrh. að málið heyrði ekkert undir þig. Ég gat ekki heyrt betur. Það er alveg auðséð að þetta mál er með þeim hætti að það er klofningur í ríkisstjórninni. Það er ekki eining um þetta mál. Það er þannig að hér liggur fyrir að byggja varaflugvöll upp á 11 milljarða úr mannvirkjasjóði NATO og síðan kemur hver ráðherrann á fætur öðrum og þó sérstaklega samgrh. og tala um að 40 millj. kr. verk, sem er 275 sinnum minna verk að upphæð, geti komið að sömu notum. Haldið þið að fólkið í landinu trúi að það sé hægt að nota 40 millj. kr. framkvæmd sem á að koma að sama gagni og 11 milljarðar? Ég spyr hæstv. utanrrh.: Telur hann að það sé hægt að leysa sama verkefni fyrir 40 millj. á sama hátt og fyrir 11 milljarða? ( Utanrrh.: Nei, nei. Það er ekki hægt.) Utanrrh. segir að það sé ekki hægt og ég trúi því líka. Þetta er nokkuð stórt mál og ég held að það verði að taka afstöðu á Alþingi um þetta mál. Ég tel að Alþingi verði að álykta um þetta mál. Ég tel að Alþingi verði að taka upp þetta mál með þeim hætti að það verði að marka stefnuna og setja ríkisstjórninni fyrir hvað hún á að gera. Ég er sannfærður um að hér á Alþingi er meiri hluti fyrir því að byggja varaflugvöll úr mannvirkjasjóði NATO þar sem okkar bestu bandamenn, vinir í gegnum tíðina, eru aðilar að og við höfum haft náið og gott samband við. Við höfum átt samvinnu þar með þeim hætti að okkur hefur orðið bæði sómi að og gagn. Við eigum að taka þessu boði. Við eigum að byggja varaflugvöll fyrir 11 milljarða en ekki fara út í þetta einkennilega boð samgrh. fyrir 40 millj.
    Þetta mál er mun stærra en við höldum. Ég er með í höndunum annars vegar samþykkt Evrópuráðsins um öryggismál Evrópu. Hins vegar var mér að berast önnur samþykkt frá Evrópuþinginu um öryggismál Evrópu þar sem er fjallað um að Evrópa hlýtur að standa saman að varnar- og öryggismálum, Vestur-Evrópa, því að það er mikilvægt í þessum heimi eins og hann er núna að við stöndum saman, Evrópuþjóðirnar, og látum ekki vaða yfir okkur. Það er alveg á skjön við það sem hefur verið rætt um í Evrópu að fara að með þeim hætti sem Alþb. hefur gert og heldur núna hæstv. ríkisstjórn í spennitreyju, fangabúðum þannig að þeir geti ekki farið til þess að byggja varaflugvöll vegna þess að Alþb. beitir ofbeldi. Það hefði verið betra að hæstv. ráðherrar Alþb. væru viðstaddir núna en ekki uppteknir á einhverjum fundum úti í bæ þegar þeir eru í umræðum um þetta

mál.
    Það var farið yfir þetta mál af hv. 1. þm. Reykn. og það var mjög fróðlegt að heyra hvernig þessi mál hafa þróast, en ég held að það verði að krefjast þess að ríkisstjórnin fari að vilja Alþingis ef það verður ofan á að bera fram tillögu um að við byggjum varaflugvöll og tökum þannig forræðið af ríkisstjórninni sem ekki getur tekið ákvörðun um þetta.
    Forsrh. sagði í ræðu sinni fyrr í dag að stjórnarsáttmálinn réði í þessu efni, þ.e. það þyrftu allir aðilar ríkisstjórnarinnar að samþykkja hvað hér væri á ferðinni. Það þýðir að ríkisstjórnin er í spennitreyju hjá Alþb. Alþb. ræður ferðinni og það hefur ákveðið að það eigi ekki að byggja varaflugvöll fyrir 11 milljarða, en er að bjóða upp á og ætlar að telja fólki trú um að þetta 40 millj. kr. verkefni, sem er 1:275 í framkvæmd, eigi að þjóna sama hlutverki. Hvaða mönnum dettur þetta í hug? Hverjum dettur svona vitleysa í hug? Að það skuli verið að bjóða Alþingi Íslendinga upp á svona málflutning er alveg fráleitt. Og það kemur í ljós í þessum umræðum, þar sem ráðherrarnir, sérstaklega samgrh., beittu málþófi til að hleypa ekki hv. þm. að í fyrri hluta þessarar umræðu, að ríkisstjórnin er klofin og meiri hluti hennar virðist vera sammála því að byggja varaflugvöll, a.m.k. hæstv. utanrrh. og ég fagna því út af fyrir sig. Það er ekki ljóst með afstöðu Framsfl., en væri gaman að heyra frá einhverjum öðrum en hæstv. forsrh. um álit þeirra á þessu nema það hafi enginn álit á þessu máli annar.
    Ég tel að við hljótum hér á hinu háa Alþingi að taka afstöðu til þessa máls og segja ríkisstjórninni fyrir verkum og láta hana framkvæma vilja þjóðarinnar. Það er ekki hægt að nokkrir flokksmenn Alþb. haldi ríkisstjórninni í klemmu hvað þetta varðar og ætli að telja okkur trú um að þetta sé smáverkefni. Við hljótum sem sjálfstæð þjóð að vinna með okkar bestu bandamönnum í gegnum tíðina. Við erum hér, eins og ég sagði áðan, með samþykktir frá bæði Evrópuþinginu og Evrópuráðsþinginu sem eru í þá veru að stuðla að samvinnu Vestur-Evrópuþjóðanna til að tryggja öryggi sem hefur varað síðan síðustu heimsstyrjöld lauk. Það er mjög mikilvægt að við stöndum saman um þetta og byggjum varaflugvöll í samvinnu við Atlantshafsbandalagið þannig að okkar öryggi verði tryggara en nokkru sinni áður. Það er hlægilegt að hugsa
til þess að hér skuli koma upp menn og telja að það sé alveg út í bláinn að gera slíkt og við eigum bara að byggja okkur 40 millj. kr. flugvöll þegar Norðmenn, sem eru ein ríkasta þjóð heimsins, hafa byggt a.m.k. einn, tvo eða þrjá flugvelli með þessum hætti ( Utanrrh.: Miklu fleiri.) eða miklu fleiri. Tugi, upplýsir utanrrh. Ég held að það sé rétt. Það hefur verið borgað úr mannvirkjasjóði NATO og Norðmönnum finnst það bara allt í lagi og hafa þeir þó verið miklu þekktari en við fyrir að vera nákvæmir í þessum málum. Ég tel að það sé enginn annar kostur en ganga að þessu, byggja þennan varaflugvöll, standa myndarlega að þessu, finna stað sem hentar

fyrir okkur Íslendinga og byggja hann. Það á ekki vera með þá lágkúru sem hefur verið í frammi höfð af þeim ráðherrum sem hér hafa talað um þetta.
    Ég undirstrika að lokum: Ég hefði óskað þess að hæstv. forsrh. hefði verið hér viðstaddur því að ég ætlaði ekki að hafa þetta sérstaklega langt mál. Og hvað snertir hæstv. samgrh., sem hér talaði og talaði um ekki neitt, hefði verið betra að hann hefði spurt mömmu áður en hann hóf máls á þessu eins og um gatið í Ólafsfjarðarmúlanum. Hann hefði kannski fengið þá smáleiðbeiningu um að 1 væri minna en 275.