Varaflugvöllur
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Birna K. Lárusdóttir:
    Virðulegi forseti. Umræðan um varaflugvöll er ekki ný af nálinni. Mikilvægi varaflugvalla er ótvírætt, en þá á ég við varaflugvöll fyrir íslenskar samgöngur en ekki erlend hernaðarmannvirki. Það er miður að við skyldum ekki í góðærum undanfarinna ára hafa borið gæfu til að leggja fram fé til nauðsynlegra öryggismála eins og slíkur flugvöllur mundi vera. Skiptar skoðanir hafa verið um hvar fyrirhugaður flugvöllur ætti að vera og hefur það sjálfsagt átt sinn þátt í hvað dregist hefur að byggja hann upp. Það er ljóst að bygging nýs flugvallar af þeirri stærð sem þyrfti er mjög dýr framkvæmd. Hagkvæmara virðist því að nýta þá sem fyrir eru og þegar í fullum rekstri.
    Flugvellir landsins eru mjög mismunandi, bæði að stærð og búnaði. Besti kosturinn væri að lagfæra og lengja flugbrautir og bæta við tækjakosti á þeim flugvelli sem helst kæmi til greina að yrði varaflugvöllur fyrir millilandaflug okkar. Það er verið að læða inn í allar umræður um þessi mál að þjóðin hafi ekki efni á að byggja upp sinn eigin varaflugvöll fyrir millilandaflug því hér sé um dýra framkvæmd að ræða og þær verði að bíða betri tíma.
    Þessi umræða hér utan dagskrár á hv. Alþingi snýst ekki bara um íslenskan varaflugvöll fyrir íslenskt millilandaflug. Hér er verið að fjalla um hernaðarmannvirki, alþjóðlegan flugvöll sem kostaður yrði af mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins. Það er blekking ein að telja þjóðinni trú um að mannvirkjasjóðurinn sé góðgerðarstofnun sem ætli að gefa okkur þennan flugvöll án nokkurra skuldbindinga. Flugvöllur er gjöf. Jú, það hljómar vel. En æ sér gjöf til gjalda.
    Hvernig dettur okkur, smáþjóð í strjálbýlu landi, í hug að þiggja slíka gjöf af voldugu hernaðarbandalagi sem leggur allt sitt fé í hernaðarmannvirki og stríðsundirbúning, enda stofnað til þess? Allt fé sem Atlantshafsbandalagið hefur til umráða eru framlög aðildarríkjanna og hver trúir því að það fé sé ætlað til góðgerða? Ef svo væri hefðu þjóðirnar fyrir löngu sent þetta fé sem gjafir til þriðja heimsins þar sem tugir milljóna deyja árlega úr hungri og drepsóttum.
    Allar yfirlýsingar um að flugvöllurinn verði ekki notaður af NATO á friðartímum eru lítils virði. Benda má á að í samningum um inngöngu Íslands í NATO á sínum tíma var ákvæði um að hér yrði ekki her á friðartímum. Þetta vekur mann óhjákvæmilega til umhugsunar um skilgreiningu á hugtakinu ,,friðartímar``. Hugtakið friðartímar er mjög teygjanlegt, breytilegt, loðið og sleipt þegar hernaðarsinnar skilgreina það.
    Til er það fólk sem vill að Atlantshafsbandalagið borgi fyrir hernaðaraðstöðu sína hérlendis. En ef meiningin er að það kosti hér flugvöll sem ætlaður er til farþegaflugs og telst ekki til hernaðarmannvirkja á friðartímum er verið að fara inn á þær brautir að Ísland sem fullvalda þjóð þiggi óbeinar greiðslur fyrir aðild sína að NATO og hvers vegna ekki að taka þá fé til sjúkrahúsa og skóla? Ef út í það er farið gætu flestir opinberir útgjaldaliðir talist hernaðarnauðsyn.

    Hæstv. samgrh. hefur lýst því yfir að flugvöllur sem kostaður yrði af mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins verði ekki byggður hér og fagna ég þeim yfirlýsingum hans, enda væri það skýlaust brot á málefnasamningi ríkisstjórnarinnar. Hvernig unir hann þessu einkabrölti hæstv. utanrrh. sem virðist svo sannarlega vera utan við málefnasamning ríkisstjórnarinnar þegar hann upp á sitt einsdæmi virðist vera kominn hálfa leið í að semja um forvinnu málsins?
    Íslendingar eru friðsöm þjóð og ég tel að við óskum þess öll að öll hernaðarbandalög verði óþörf og herbúnaður og eyðingaröfl verði jafnóþörf og þau eru óhugnanleg í heimi friðsamlegra samskipta allra þjóða því að það hlýtur að vera ósk hvers heilvita manns. Minnumst þess að Íslendingar hafa aldrei farið með ófriði á hendur annarrar þjóðar. Þess vegna ætti trúin á frið að vera okkur öllum í blóð borin.
    Afkoma okkar hefur ætíð byggst á matvælaframleislu. Því hljótum við að leggja megináherslu á ómengað umhverfi og þá einkum að hafsvæðin umhverfis landið séu ómenguð alls kyns úrgangi. Skammt er síðan íslensk stjórnvöld mótmæltu endurvinnslu kjarnorkuúrgangsins í Dounreay á Skotlandi þar sem ljóst var að hafstraumar gætu borið slíkan úrgang að ströndum landsins. Það er því fráleitt að við aukum við hernaðarframkvæmdir í eigin landi, t.d. með byggingu flugvallar sem yrði hernaðarflugvélum til afnota því að við höfum engin tök á því að ganga úr skugga um að þær beri ekki kjarnorkuvopn.
    Virðulegi forseti. Það er okkur til vansæmdar sem fullvalda þjóð að ganga með betlistafinn og biðja um að landið verði í auknum mæli herstöð erlends stórveldis. Mér finnst það hneisa.
    Virðulegi forseti. Ég óttast getuleysi íslensku þjóðarinnar við að vinna úr vandamálum sínum. Ég er hrædd um sjálfstraust þessarar þjóðar sem talar um menningararfinn og íslenska tungu annan daginn en betlar eftir peningum hinn daginn og er sama hvaðan þeir koma og til hvers þeir fara. Ég efast um framtíð
þjóðar minnar því að hún þiggur í síauknum mæli aðstoð við framkvæmd bráðnauðsynlegra mála, því að hún reiðir sig meira og meira á aðrar þjóðir, stærri þjóðir við framkvæmd mála sem hún ætti að vera sjálfbjarga um. Og sökina eiga skammsýnir ráðamenn sem treysta ekki fólkinu í landinu til þess að gera hlutina sjálft. Þeir bera smæð þjóðarinnar og peningaleysi við. Þeir staðhæfa getuleysið.
    En fólkið í landinu hefur samt alist upp við að leysa sín vandamál. Sjálfsbjargarviðleitnin er því í blóð borin og enn eru margir sem trúa því að þjóðin sjálf eigi að byggja sína eigin framtíð fyrir eigin fé. Byrgja skal brunninn áður en barnið er dottið ofan í hann. Erlendir peningar í flugvöll er bara einn hlekkur í því að minnka sjálfstraust þjóðarinnar. Hvað kemur á eftir?
    Peningar í flugvöll eru ekki glötun á sjálfstrausti fyrir fullt og allt heldur stórt skref í þá átt. Lítum á fortíð, nútíð og framtíð í samhengi. Skoðum getu

okkar til að standa á eigin fótum og gerum okkur grein fyrir þeirri hættu sem felst í því að láta aðra gera hlutina fyrir okkur því að hvaða tryggingu höfum við fyrir því að ekki verði framhald á þeirri skuldasöfnun þjóðarinnar sem nú hefur viðgengist um nokkurn tíma.
    Efnahagslegt sjálfstæði er hverjum einstaklingi nauðsyn til þess að byggja upp umhverfi sitt að eigin vild. Sá sem skuldar er háður lánardrottni sínum um hluta framleiðslu sinnar. Sá sem flýr af hólmi er hann stendur augliti til auglitis við vandamál hefur ekki mikið sjálfstraust og það vex ekki nema hann takist á við vandann. Þeim sem þiggur gjafir og greiða finnst hann vera knúinn til að endurgjalda góðvildina í einhverju formi. Sama lögmál gildir um alla, hvort sem um er að ræða einstakling eða heila þjóð. Verum sjálfum okkur trú. Látum reyna á getu okkar. Byggjum okkar eigin flugvöll fyrir eigin peninga. Það gerir okkur öllum gott.