Varaflugvöllur
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég hef mál mitt með því að vitna í ræðu hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar, 9. þm. Reykn. Hann upplýsti þingheim um að það væri raunverulega framsókn að kenna að ekki skuli hafa verið byggður annar fullnægjandi alþjóðaflugvöllur á Íslandi og að íhaldið hafi alltaf verið að skamma kommúnistana, ég ætlaði að segja alþýðubandalagsmennina. Þetta hefur greinilega verið mikill misskilningur, eins og kom fram í því sem hv. þm. Karl Steinar las upp þegar hann vitnaði í samþykktir landsfundar Framsfl. frá 1983. Ég á dálítið bágt með að trúa þessu þó að hv. þm. hafi lesið upp úr þessu plaggi. En ég ætlaði að koma að því að ég er eiginlega sömu skoðunar og hv. 5. þm. Reykv. Albert Guðmundsson varðandi afstöðu forsrh. Mér fannst hún allundarleg eins og hún kom mér fyrir sjónir í dag og ég verð að segja, virðulegi forseti, að það ber að harma það að hæstv. forsrh. skuli ekki vera viðstaddur þar sem þessi maður virðist hafa svo afgerandi völd að hann getur kveðið upp úrskurð um að hér skuli ekki vera byggðir nauðsynlegir flugvellir fyrir bæði íslenskt flug og alþjóðaflug, fyrir stærri þotur, ég tala ekki um flugvöll sem hugsanlega kæmi inn í varnarkerfi Atlantshafsbandalagsins. Ég spyr virðulegan forseta, sem sagði í upphafi fundar að þeir mundu koma, hæstv. ráðherrar, mjög bráðlega, hví hann er ekki enn mættur í salinn, hæstv. forsrh. Ég sé ekki að hæstv. forsrh. sé undanþeginn því frekar en við aðrir að gegna þinglegum skyldum sínum og svara fyrir sig og sína ríkisstjórn þegar við þingmenn komum hér og leggjum það á okkur að ræða þetta mál. ( Forseti: Ég vil svara því til að ég veit ekki annað en það, sem mér var sagt, að þeir mundu reyna að koma svo fljótt sem nokkur kostur væri. Þeir eru báðir uppteknir við skyldustörf. En skyldu hafa þeir ekki fremur en sá sem um umræðuna bað, sem ekki hefur setið þennan fund síðan máli hans lauk snemma í dag, þannig að þessari umræðu verður haldið áfram án eða með ráðherra og fyrirspyrjanda.)
    Virðulegi forseti. Ég verð að gera athugasemd við athugasemd forseta varðandi hv. frummælanda hér í dag. Ég var ekki að spyrja um hvort hann væri staddur í salnum. Það er mál sem forseti getur talað við hv. þm. um. Ég var að spyrja hvort hæstv. forsrh. kæmi ekki í salinn og hæstv. samgrh. Það eru þeir menn sem ég á erindi við. Það eru þeir menn sem hafa tekið sér það vald að ákveða hvort hér verður byggður varaflugvöllur eða ekki. Ég óska eftir því að hæstv. forseti geri ráðstafanir til þess að þessir tveir ráðherrar verði kvaddir á fund nú þegar. ( Forseti: Þeim er fullljóst að þeirra er beðið með óþreyju. En ég skal ítreka það öllu frekar að þeir komi hér.) Virðulegur forseti. Ég bíð ekki eftir þeim með óþreyju. Ég bíð eftir að þeir mæti hér. En það er annað mál.
    Virðulegi forseti. Ég skal virða mínar þingskyldur þótt aðrir geri það ekki og sýna forseta þá tilhlýðilegu virðingu að halda áfram með ræðu mína þannig að fundurinn geti gengið með eðlilegum hætti. Ég verð

að endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ég er ekki sannfærður um heilindi hæstv. forsrh. í þessu máli eins og fram kom í ræðu hv. þm. Alberts Guðmundssonar. Mér fannst eins og hann talaði á móti sinni sannfæringu og hann væri raunverulega annarrar skoðunar en kom fram hér. Að vísu var erfitt að henda reiður á skoðunum hans í dag því að hann talar bæði með og móti málinu, en samt virðist það einhvern veginn vera aðalatriðið í ræðu forsrh. að hann ætlaði sér ekki að vera með þessu máli á þessu augnabliki vegna þess að hann ætlaði að halda ríkisstjórninni saman. Það virtist vera aðalatriðið þótt málstaðurinn væri góður að hans mati.
    Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna hér í heimildir sem hljóta að staðfesta hver er stefna Framsfl. í þessu máli. Það vill svo til að Framsfl. og framsóknarfélögin í Reykjavík eiga sér málgagn sem er málsvari frjálslyndis, samvinnu og félagshyggju. Sl. laugardag er mjög ítarleg grein, helgargrein, í Tímanum einmitt um það mál sem hér er til umræðu og ég ætla, virðulegi forseti, að leyfa mér að lesa upp hvað þar stendur vegna þess að hér er á ferðinni mjög ég vil segja athyglisverð grein í blaði hæstv. forsrh., þ.e. í blaði Framsfl. Ég harma að hæstv. forsrh. skuli ekki vera mættur hér til að svara, en hann hlýtur nú að vera töluvert mikill ábyrgðarmaður á blaði Framsfl., þannig að hann geti svarað fyrir það sem stendur í þessu blaði hans. Það er ekki nafn undir greininni þannig að ég hlýt að álykta að þetta Tímabréf sé raunverulega boðskapur Framsfl. um þessa helgi varðandi þetta mál sérstaklega. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa upp úr þessari Tímagrein. Í greininni segir svo:
    ,,Öðru hvoru ber á fjörur stjórnarsamstarfs mál sem geta valdið ágreiningi. Nú sitja tveir flokkar í ríkisstjórn sem líta á sig sem flokka sósíalisma. Það hefði mátt halda að friðvænlegt væri á milli þeirra, einkum þegar haft er í huga að foringjar þeirra hafa ferðast um landið þegar veður leyfir og hafa jafnvel farið í vafasama flugferð til að ræða enn nánara samstarf flokkanna og nefna fundaherferðina ,,Á rauðu ljósi``.`` --- Nú er hæstv. utanrrh. hlaupinn út. ( Utanrrh.: Nei, ég er hér og hlusta með athygli.) Gott. Ég held áfram lestri mínum úr málgagni Framsfl., Tímanum, blaði hæstv. forsrh.:
    ,,Engu að síður virðist ágreiningur á milli þeirra í uppsiglingu út af
varaflugvelli sem lengi hefur verið rætt um að nauðsynlegt væri að koma upp vegna stöðugt vaxandi flugumferðar um Norður-Atlantshaf. Steingrímur J. Sigfússon samgrh. og Jón Baldvin Hannibalsson utanrrh. eru síður en svo á einu máli um þennan varaflugvöll þótt báðir vilji þeir að hér sé slíkur völlur af augljósum ástæðum.`` Síðan segir í umræddri grein, með leyfi forseta:
    ,,Þessi ágreiningur ráðherranna tveggja á sér langa sögu sem heimspólitískir atburðir síðari ára benda til að sé næstum liðin tíð. Atlantshafsbandalagið hefur eins og kunnugt er lengi verið mikill þyrnir í augum Alþb. en aftur á móti hefur Alþfl. verið fylgjandi

þessu bandalagi Vestur-Evrópuþjóða og Bandaríkjanna til jafnlengdar. Með mildari viðhorfum Sovétríkjanna til athafna vesturveldanna á allra síðustu árum hefur kommúnisminn þar nálgast sósíalista í Vestur-Evrópu hröðum skrefum og alkunna er sú viðkvæmni sem ríkir í Alþb. sé á það minnst að upphafs flokksins sé að leita í Kommúnistaflokki Íslands 1930.``
    Enn fremur segir í Tímabréfi um sl. helgi: ,,Þá bendir ljósagangur formanna A-flokkanna til þess að mikil breyting hafi orðið hér á viðhorfum flokkanna tveggja hvors til annars, en það er stutt í skotgrafirnar og þótt ljóst sé að æðsti maður Sovétríkjanna um þessar mundir standi að stórfelldum stjórnarfarsbreytingum í Sovétríkjunum lifir harkan víða enn hjá skyldum aðilum Vestur-Evrópu. Það sanna dæmin, mismunandi viðhorf A-flokkanna til athugunar á byggingu varaflugvallar þar sem hugsanlegt væri að mannvirkjasjóður NATO kæmi við sögu.``
    Síðan segir í sömu grein Tímans: ,,Meiningarmunur þeirra ráðherra er kannski í besta falli akademískur. Hann sýnir að enn er verið að takast á um austur og vestur og að línan er enn dregin á milli Varsjárbandalags og NATO þótt allt eigi nú að vera með friði og spekt í heiminum og afvopnun hafin og komin í stað kalda stríðsins sem var.``
    Um alþjóðlegan flugvöll segir svo í umræddri Tímagrein: ,,Alþjóðlegur varaflugvöllur á Íslandi er mikið fyrirtæki og fullnaðargerð hans kostar mikið fé. Kvaðalaus fjárveiting til hans úr mannvirkjasjóði NATO er hvorki verri né betri en önnur kvaðalaus aðstoð sem við höfum fengið í áranna rás.``
    Þetta segir í umræddu blaði, Tímanum, laugardaginn 18. febr., þ.e. málgagni Framsfl.: ,,Kvaðalaus fjárveiting til hans úr mannvirkjasjóði NATO er hvorki verri né betri en önnur kvaðalaus aðstoð sem við höfum fengið í áranna rás. Má í því efni minna á Marshall-aðstoðina á sínum tíma. Engu töpuðum við á henni og ekki töpuðu aðrar þjóðir Vestur-Evrópu þótt þær þægju aðstoðina. Metnaður okkur býður að sjálfsögöu að við séum engum háðir um framkvæmdir í landinu og þess vegna eigi að byggja alþjóðlegan varaflugvöll hér á eigin spýtur. Um þetta eru allir sammála. Til að gera slíkan flugvöll þarf mikið fjármagn sem eflaust þarf að taka að láni erlendis. Meiri kvaðir um vexti og afborganir fylgja slíkum lánum en fylgja kvaðalausum fjárframlögum úr mannvirkjasjóði samtaka þjóða Vestur-Evrópu, en í þeirra hópi erum við``, segir orðrétt í Tímabréfi um síðustu helgi.
    Síðan segir: ,,Vilji aðili eins og mannvirkjasjóður veita fé til byggingar slíks vallar án allra kvaða er um aðstoð`` --- ég undirstrika --- ,,er um aðstoð að ræða sem ástæða er til að skoða eins og boð um hverja aðra aðstoð. Það breytir ekki þeirri staðreynd að við eigum sjálf val í þessum efnum. Á bak við andstöðu samgrh. við afskipti mannvirkjasjóðs NATO af varaflugvelli norðan lands eða austan grillir í eins konar ótta um að Bandaríkjamenn séu að sækjast eftir auknum umsvifum í landinu þótt augljóst sé að þeir

muni hvergi nærri koma þessum flugvelli, enda er nokkur munur á kvaðalausu framlagi mannvirkjasjóðs og hugsanlegum afskiptum Bandaríkjamanna af flugvellinum``, segir í Tímanum.
    Og enn fremur segir: ,,Vel mætti spyrja hvort umræðan sé ekki háð í ljósi meira samstarfs stórveldanna, afvopnunar og vinsamlegra samskipta. Það mætti líka spyrja hvort NATO hafi ekki orðið Vestur-Evrópu að gagni frá stofnun við að tryggja jafnvægi Evrópu. Við eigum ekkert sökótt við NATO sem talið hefur verið að eigi sinn þátt í að friður hefur haldist í 40 ár.``
    Og að lokum segir í Tímabréfi laugardaginn 18. febr., málgagni forsrh., með leyfi forseta: ,,Af þessum sökum er undarlegt löngu eftir að Bandaríkjamenn og Sovétmenn eru byrjaðir að reykja friðarpípur sínar að hér á landi skuli gamlar röksemdir gegn NATO og gegn Marshall-aðstoðinni vera í fullu gildi alveg eins og á dögum kalda stríðsins``, segir í sjálfu málgagni forsrh.
    ,,Það hefur ekki verið hlustað nóg á Moskvu eftir að röddin þaðan mildaðist og varð manneskjulegri og jafnvel svolítið kapítalisk. Þess vegna hefur þeim hjá Alþb. ekki tekist enn`` --- og nú ætti hæstv. utanrrh. að hlusta --- ,,að skilja rödd bræðraflokksins undir stjórn Jóns Baldvins þegar hann talar um kvaðalausa NATO-peninga til byggingar varaflugvallar. Mildin og þíðan í samskiptum stórveldanna skiptir engu máli. Þannig verða menn með tímanum rökheldir í lausu lofti eftir að undirstaðan er farin eitthvað annað. Engum dettur annað í hug en það sé fyrst og fremst andúðin á NATO sem ræður afstöðu samgrh. til byggingar varaflugvallar fyrir kvaðalaust fé úr mannvirkjasjóði.``
Og hér lýkur tilvitnun í Tímabréf laugardaginn 18. febrúar.
    Ég verð að segja að það er margt sem vekur mann til umhugsunar eftir að hafa setið hér í dag og hlustað á ræður ráðherra og er ég ekki að vitna í ræðu utanrrh. heldur í ræðu hæstv. forsrh. Það þarf enginn að segja hv. þm. það eða alþjóð að hæstv. forsrh. hafi ekki vitað um efni þessa Tímabréfs. Það fer ekki milli mála í hvers þágu Tíminn er skrifaður og hvaða tilgangi dagblaðið Tíminn þjónar í íslenskum stjórnmálum. Það er augljóst mál. En það sem vekur athygli við lestur greinarinnar er það þegar er margendurtekið ,,kvaðalaus fjárveiting``, hæstv. samgrh. Steingrímur Sigfússon, og svo er einnig komið að því, sem er auðvitað laukrétt, að þeir menn sem tala gegn því að þessi mál séu skoðuð eru menn sem eru rökheldir í lausu lofti eftir að undirstaðan er farin eitthvað annað. En þá er spursmálið: Hefur ekki undirstaðan líka hrapað undan hæstv. ríkisstjórn? Um hvað eru hæstv. ráðherrar raunverulega að ræða í dag?
    Svo er önnur hlið á málinu sem ég vil vekja athygli hv. þm. á. Ég hef ekki lesið meiri ,,aronsku`` í nokkru dagblaði á Íslandi en kemur fram í þessu Tímabréfi. Einhvern tíma hefði þetta verið kallað ,,aronska``. En þessi grein segir meira. Hún segir raunverulega að af hálfu Framsfl., af hálfu málgagns

Framsfl., dagblaðsins Tímans, er eindreginn stuðningur við byggingu varaflugvallar á Íslandi með fé úr mannvirkjasjóði NATO. Stuðningurinn er alveg eindreginn af hálfu þessa blaðs, af hálfu málgagns Framsfl. Það fer ekki milli mála. Ábyrgðaraðili blaðsins er Framsfl. og hæstv. forsrh. sem er formaður Framsfl. En það skyldi þó ekki vera vegna þess hvernig ræður voru fluttar í dag af hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. að það væri dulið samband á milli þessarar greinar annars vegar og tveggja ráðherra hins vegar, umræddra ráðherra, Steingríms Hermannssonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar. Ég segi nú ekki meira. Ég hugsaði kannski annað. Það gæti orðið hugsanlegt að formaður Alþb. væri ekki svo langt frá því hvernig ætti að nálgast þetta mál. Og hverjum er þá verið að fórna? Hvert er saklausa lambið í þessum blekkingum öllum? Það er hæstv. samgrh. Steingrímur Sigfússon og skal ég víkja að því nánar á eftir. Það skyldi þó ekki vera að þessir herrar hefðu komið sér saman um það, og ég mun víkja nánar að því beint úr ræðu forsrh. í dag, að láta forkönnunina fara fram með sínu lagi í krafti sinna valda í þeim ráðuneytum sem þeir ráða yfir. Hér sagði hæstv. utanrrh. í dag: Ég ræð í mínu ráðuneyti og varnarmálin heyra undir utanrrn. Er það ekki rétt, hæstv. utanrrh.? ( Utanrrh.: Jú, jú.) Hæstv. utanrrh. tók undir það.
    Þá mætti hugsa áfram. Við erum stödd, hv. þm., í miðju kjörtímabili. Forkönnun eins og þessi getur gengið svona rólega í tæpt ár. Þá gæti verið tímabært að standa upp og þá hefðu allir sín skálkaskjól. Hæstv. utanrrh. getur sagt: Ég stóð alltaf með NATO og ég framkvæmdi nauðsynlegar forkannanir í krafti míns embættis. Formaður Alþb., sem er ekki mættur hér, gæti sagt þegar hann stæði upp: Það var ekki gert á meðan ég sat í ríkisstjórn. Þessi forkönnun var gerð án þess að ég hefði hugmynd um það. Þá hafa allir sína stöðu fyrir næstu kosningar af þeim herrum sem núna eru í ríkisstjórn. En einn er sá maður sem hefur hreint borð og það er hæstv. forsrh. vegna þess að blaðið hans, málgagnið, hefur alveg eindregna skoðun á þessu máli 18. febr. 1989 og ég hef vitnað í þá stefnu sem birtist í Tímanum sl. laugardag.
    Ég ætla ekki að fjalla meira um þennan þátt þessa máls. En það eru fleiri atriði sem ég vil víkja að, sem eru aðallega tæknilegs eðlis, í sambandi við bæði ræðu hæstv. samgrh. fyrr og einnig vil ég víkja nokkrum orðum að ræðum forsrh. og utanrrh.
    Forsrh. sagði eitthvað á þá leið m.a.: ,,Í stjórnarsáttmálanum segir að ekki skuli ráðist í meiri háttar hernaðarmannvirki.`` Hann sagði aldrei að það skyldi ekki ráðist í forkönnun því að síðar í sömu ræðu segir hann eitthvað á þessa leið: ,,Mér finnst eðlilegt að það verði kannað hvað þurfi að gera til að fullnægja t.d. þörfum risaþotna, tveggja, jafnvel fjögurra þotna varðandi varaflugvöll.`` Því miður er hæstv. forsrh. ekki hérna til þess að ég gæti fengið það staðfest að ég hafi heyrt rétt hvað hann sagði. En það verður þá að hafa það.
    Ég get ekki skilið þetta öðruvísi og með Tímagreinina sem bakgrunn en á þá leið að hæstv.

forsrh. ætli sér að leyfa þessa forkönnun með því lagi sem ég var að lýsa áðan og leyfi mér að álykta að hlyti að vera gert í samráði við alþýðubandalagsmenn, þ.e. þá sem ráða ferðinni í ríkisstjórninni. Alþýðubandalagsmenn segjast vera á móti NATO og þeir segjast vera á móti varnarliðinu, en samt setjast þeir í hverja ríkisstjórn á fætur annarri og taka þátt í hernaðarframkvæmdum sem þeir fordæma. Við sem erum fylgjandi aðild að Atlantshafsbandalaginu viðurkennum illa nauðsyn þess að þurfa að hafa hér varnarlið. Við færum rök fyrir því hvers vegna við teljum það nauðsynlegt og þau rök hafa staðist. Þetta hefur tryggt frið og öryggi í þeim hluta heims sem við búum í frá því að Ísland gerðist aðili að NATO 1949.
    Hæstv. samgrh. Steingrímur Sigfússon hefur verið mjög málefnalegur í þessum umræðum og eins og hans er von og vísa hefur hans málflutningur verið mjög heiðarlegur. Hann hefur dregið fram sín rök fyrir því hvers vegna hann telji
ekki nauðsyn á að ráðast í það mannvirki sem okkur hinum hefur verið títt rætt um í þessari umræðu sem er meiri háttar alþjóðaflugvöllur, meiri háttar varaflugvöllur sem krefst milljarða ef á að byggja slíkan flugvöll. En því miður gat hann ekki sannfært mig um það að þær tæknilegu upplýsingar sem hann kom með væru fullnægjandi til þess að ég gæti verið sömu skoðunar og hann um það að þeir varaflugvellir sem hann vill mæla með að verði byggðir fullnægðu þeim kröfum sem ég alla vega geri kröfur til og margir aðrir, ýmsir flugmenn, íslenskir sem erlendir. Hæstv. ráðherra talar um að það sé nóg að þessir varaflugvellir séu 2700 m og það eigi að fullnægja þotum sem Íslendingar eru að kaupa. Ég leyfi mér að draga í efa að 2700 m flugbraut muni nægja þeim tveim stóru þotum sem Flugleiðir munu fá á árunum 1991--1993. Þær flokkast undir risaþotur fullhlaðnar. Þá vil ég vekja athygli hæstv. ráðherra á því að þegar hann talaði um þetta í dag ræddi hann um flugbrautarlengd út frá því sjónarmiði að flugvél væri að lenda eftir lengri tíma flug. Þá eru flugvélar mun léttari. Það gefur auga leið. Þær eru búnar að brenna upp svo miklu eldsneyti. En það sem verður að hafa sérstaklega í huga er nauðsynleg lengd flugbrautar með tilliti til neyðartilfella, eftir flugtak. Það getur nefnilega komið fyrir eftir flugtak að vél geti ekki lent aftur á sama flugvelli. Ef það gerist með þessar þungu, stóru þotur, eins og stærri gerðin verður af þeim tveggja hreyfla vélum sem Flugleiðir fá, gefur það auga leið að það verður að vera til flugbraut sem þessar flugvélar geta lent á. Hlaðin vél þessarar gerðar þarf minnst 3000 m braut fullhlaðin. ( PP: Hvaðan hefurðu þær upplýsingar?) ( Samgrh.: Þetta er tóm vitleysa, hv. þm.) Augnablik. Þá ættirðu að lesa það sem stendur á ensku í umræddu plaggi. Það verður að taka ,,Take-off Runway`` með í reikninginn. Hæstv. ráðherra talaði alltaf um ,,Landing Runway`` á ensku. Það eru 1850 m og 1950, en ,,Take-off`` eru 2500--2700 m. En það eru frávik sem þarf að reikna með líka sem ekki eru í þessum tölum og frávikin

geta verið 10--12%. Þá erum við komnir í 3000 m brautir. Ja, ég segi ekkert annað en það að ég hef mínar upplýsingar m.a. frá flugmönnum. Ég held að hv. þm. ættu þá að kynna sér þetta betur. En ef þeir eru svo miklir bókstafstrúarmenn að þeir trúi öllu sem stendur á þessum töflum er það verst fyrir þá.
    Að þessu slepptu skulum við skoða töflu sem er í skýrslu frá Flugmálastjórn frá því í janúar 1989 þar sem m.a. er vísað til þess hvaða brautarlengd stærri þotur þyrftu. Við ættum líka að reyna að fullnægja skyldum okkar hvað varðar alþjóðaflug á Norður-Atlantshafi. Tökum þær þotur sem hafa verið að lenda hér undanfarið og taka fisk frá Íslandi til Japans eða Vestur-Evrópu, Boeing-747. Hvaða brautarlengdir þurfa þessar flugvélar? 3060--3150 m. Ætlar hæstv. ráðherra að hrekja þessar tölur eða hv. þm. Páll Pétursson sem mun vera í flugráði?
    Þær kröfur sem við gerum til þessa varaflugvallar eru auðvitað kröfur gagnvart framtíðinni, að þessir flugvellir fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru til að geta þjónað öllum flugvélum sem fljúga um Íslandssvæðið og ekki hvað síst þeim flugvélum sem lenda hér og þurfa að taka farm.
    Þá er það atriði sem snýr að tveggja hreyfla þotum. Ef annar hreyfill bilar eftir flugtak er samkvæmt sömu skýrslu álitið að þessar flugvélar megi ekki leita til varaflugvallar sem er í lengri fjarlægð en sem nemur 60 mínútum. Það þýðir að þessi varaflugvöllur verður annaðhvort að vera á austurströnd Grænlands eða hér á Íslandi og á öðru veðursvæði en Keflavíkurflugvöllur. Það þýðir ekkert að vísa til Akureyrar í þessum efnum. Það vita hv. þm. og hæstv. samgrh. líka. Ég vildi leiðrétta það sem fram kom hjá hæstv. samgrh. í dag um það hvaða kröfur væru gerðar til brautarlengdar.
    Að lokum, virðulegi forseti, ætla ég að víkja nokkuð að þeim atriðum sem snúa að varnar- og öryggismálum Íslands. Það hefur blandast inn í þessa umræðu og það er rétt, sem fram hefur komið í ræðum sumra þingmanna, að flugbrautir sem eru orðnar 2700 m og þar yfir eru yfirleitt þeirrar gerðar og allur útbúnaður í kringum þær að þær geta þjónað hernaðarlegum tilgangi. Það er blekking að halda öðru fram. Þó að við Íslendingar byggðum þetta sjálfir fyrir okkar eigið fé geta hernaðarveldin hvenær sem er notfært sér slíkar brautir, hvort sem það eru Bandaríkjamenn eða Sovétríkin, ef ófriður brýst út. Að halda öðru fram er blekking sem er alveg ástæðulaust að bera á borð fyrir hv. þm. eða þjóðina almennt. Við skulum ræða um þetta út frá sjónarmiði öryggis- og varnarmála og velta því fyrir okkur hvort nýr flugvöllur þessarar gerðar mundi auka líkur fyrir því að Atlantshafsbandalagið gæti betur tryggt frið og öryggi í Norður-Atlantshafi. Þess vegna hefði ég viljað beina þeirri spurningu til forsrh., sem er því miður ekki mættur hér, en ég vil þá spyrja hæstv. utanrrh. að því, hvert er mat hans á því hvort varaflugvöllur þeirrar gerðar sem hér hefur verið til umræðu mundi bæta varnir og öryggi landsins og þar með tryggja betur frið og öryggi í Norður-Atlantshafi. Styrkir

svona flugvöllur eða aðstaða Atlantshafsbandalagið í því hlutverki að geta rekið hér öflugra eftirlitsstarf, gegnt betur eftirlitshlutverki NATO en nú er með þar af leiðandi auknum líkum fyrir því að hægt sé að framfylgja betur þeim samningum
um afvopnun og eyðingu kjarnorkuvopna sem allar þjóðir stefna að? Ég er þeirrar skoðunar að einmitt svona flugvöllur, sem gerir okkur kleift að auka allt eftirlit af hálfu Atlantshafsbandalagsins, hljóti að styrkja mjög viðleitni þjóðanna til að tryggja að afvopnun eigi sér raunverulega stað og eyðing kjarnorkuvopna þar af leiðandi.
    Þess vegna tel ég að það eigi tvímælalaust að láta þegar fara fram forkönnun á því hvort ekki eigi að byggja fullkominn varaflugvöll með stuðningi mannvirkjasjóðs NATO vegna þess að ég trúi því að slíkur flugvöllur muni tryggja friðinn, muni styrkja eftirlit með afvopnun og muni styrkja eftirlit með eyðingu kjarnorkuvopna. Því miður er forsrh. ekki mættur til að svara þessu, en ég treysti hæstv. utanrrh. til að svara þessari spurningu. Mér finnst þetta grundvallaratriði í allri umræðunni. Ef við erum sannfærð um að þetta tryggi betur frið og öryggi og tryggi betur framkvæmd þeirra samninga sem vestrænar þjóðir eru að reyna að koma sér saman um og framkvæma í sambandi við afvopnun eigi Íslendingar tvímælalaust að þiggja að mannvirkjasjóður NATO komi til skjalanna við byggingu þessa flugvallar.