Varaflugvöllur
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Við erum að ræða mikið nauðsynjamál, varaflugvöll á Íslandi, og mér finnst að sú forkönnun sem hér er verið að tala um eigi að fara fram sem fyrst. Það er í sjálfu sér engin ákvörðun um hvort flugvöllurinn verður byggður eða ekki að forkönnun fari fram þó svo að ég voni að niðurstaðan geti orðið sú.
    Ég ætla að rifja upp að við erum aðilar að NATO og Atlantshafsbandalaginu og það hefur margkomið fram að það er vilji íslensku þjóðarinnar og vilji meiri hluta Alþingis að við séum aðilar að þessu varnarbandalagi lýðræðisþjóðanna. Ég tel því að það sé ekkert sem geti leyft ráðherrum annað en fara að vilja meiri hluta þjóðarinnar og Alþingis. Það er mín skilgreining á svona umræðu. Hvort sem við erum að tala um aukið öryggi í vörnum landsins eða aukið öryggi fyrir lýðræðisskipulagið í heild eigum við að standa að þeim samningum og þeirri samvinnu sem við höfum verið aðilar að meðal vestrænna þjóða hér eftir sem hingað til.
    Í þessum lýðræðisríkjum búa menn við mestu mannréttindi og einhver bestu lífskjör í heiminum sem eru þekkt og ég sé ekki að við þurfum að hopa neitt með þau mannréttindi eða þurfum ekki að fara á flótta með það og höfum ekki neitt að skammast okkar fyrir eða ég skil það ekki þannig. Ég hef ekki heyrt að menn hafi boðið upp á betra þjóðskipulag en vestrænar þjóðir búa við. Ég dreg því í efa að einn stjórnmálaflokkur á Íslandi geti sett einhver skilyrði um að ekki skuli gert eitthvað sem er vilji meiri hluta Alþingis að verði gert. Það er alveg fráleitt. Skilgreining á lýðræðisskipulaginu er að meiri hlutinn ráði en ekki minni hlutinn. Það er allt annað þjóðskipulag þar sem minni hluti ræður yfir meiri hlutanum. Það er ekki það þjóðskipulag sem við búum við.
    Svo er líka annað mál í þessu sem eru okkar hagsmunir varðandi alþjóðlegar flugsamgöngur og samkeppni um að koma vörum á markað. Ég rifjaði það upp um daginn að það er mjög nýlega hafið flug með flugfélaginu Flying Tigers og þær flugvélar þurfa hámarksbrautir upp á 3150 m eins og kom fram áðan. Það datt engum í hug fyrir nokkrum mánuðum að þetta mundi verða að veruleika, en þó það sé ekki varaflugvöllur á Íslandi ákváðu þeir samt sjálfir að óska eftir því að fá að nota íslenskan flugvöll sem bendir til þess að við höfum mjög hagstæða legu í alþjóðasamkeppni um þjónustu við flugvélar. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef gæti Flying Tigers lestað 20 tonnum meira á brottfararstað í Evrópu ef það væri varaflugvöllur á Íslandi. Það er út af öryggishagsmunum vegna þess að eins og gefur að skilja verður flugvélin að komast á annan völl ef ekki er fært hér. Það mundi því gefa enn þá sterkari markaðsstöðu ef við hefðum varaflugvöll á Íslandi. 20 tonn eru miklir peningar í frakt. Ef fraktin er 150 kr. eru það 3 millj. Það er jafngildi 100 farþega á 30 þús. kr. farmiða til samanburðar.
    Ég lít þannig á að þetta mál sé í höndum hæstv.

utanrrh. og ég hvet hann til að gera skyldu sína fyrir meiri hluta þjóðarinnar og lýðræðisskipulagið. Ég veit að ég þarf ekki að hvetja hann til þess. Hann væntanlega gerir það. En ef það er ágreiningur um þetta í ríkisstjórninni, er þá ekki hægt að afgreiða þetta á lýðræðislegum grundvelli, þá ráði meiri hlutinn? Það þarf ekkert að vera með neinar hótanir sitt á hvað í dulbúnum skeytum. Opin atkvæðagreiðsla, er það ekki langbest, og hreinskilin umræða? Það getur enginn tekið sér neitt neitunarvald í neinu máli af eintómri tilfinningasemi. Það er alveg fráleitur málflutningur.
    Ég vil svo ítreka að ég lýsi mig eindreginn stuðningsmann þess að þessi forkönnun um varaflugvöll á Íslandi fari fram og ég hvet hæstv. utanrrh. til að vera ekkert að tala allt of mikið um þetta, en láta verkin tala. Það er alltaf farsælast.