Varaflugvöllur
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Jón Kristjánsson:
    Virðulegi forseti. Það liggja nú þegar fyrir áætlanir um varavelli fyrir millilandaflug Íslendinga þar sem gert er ráð fyrir að það verði þrír flugvellir byggðir upp sem svara kröfum í því flugi. Þar er um að ræða Egilsstaðavöll, Akureyri og síðan Sauðárkrók. Í þeim áætlunum er gert ráð fyrir því að 2700 m braut t.d. á Egilsstöðum fullnægi kröfum í millilandaflugi Íslendinga sem gerðar munu verða í næstu framtíð með þeim þotum sem notaðar eru. Ég lýsi fullum stuðningi við þessi áform.
    Hins vegar er nokkuð annað mál sem hér er um að ræða og hér er verið að ræða í dag. Það er ástæða til þess að gera sér fulla grein fyrir því og gera fullan greinarmun þar á. Það hefur einnig komið fram að það er þörf á 3000 m braut til þess að B-747 þotur geti notað viðkomandi völl sem varavöll t.d. í yfirflugi um íslenska flugstjórnarsvæðið eða í flugi með millilendingu hérlendis. Menn geta spurt sem svo hvort það sé kleift fyrir okkur Íslendinga að byggja 3000 m flugbrautir sjálfir með tilheyrandi búnaði eða hvort þessi mál eigi að leysa með milligöngu mannvirkjasjóðs NATO. Hvort það eigi að kosta þessar framkvæmdir með framlögum úr mannvirkjasjóðnum.
    Það hefur komið fram við þessa umræðu að í rauninni er náttúrlega um miklu meira mannvirki að ræða en eingöngu flugbrautina. Hér er um gríðarlega miklar framkvæmdir að ræða. Hér er, eins og var rakið hér áðan, um að ræða olíubirgðastöð að einhverju marki í nálægð við höfn, flugskýli og fullkominn flugturn svo að eitthvað sé nefnt.
    Það er svo að hagnaður flugfélaga sem hafa áætlun hingað til lands af því að hafa varaflugvöll er einkum fólginn í að vélar þeirra þurfa að bera minna eldsneyti ef hann er fyrir hendi á landinu. Sá hagnaður er vart fyrir hendi í yfirflugi yfir íslenska flugstjórnarsvæðið. Hins vegar ber að geta þess að nú á þessu ári hefur flugfélagið Flying Tigers, sem er vöruflutningafélag, millilent á Keflavíkurflugvelli á leið sinni til Japans og það má ætla að það félag hefði sparnað af varavelli og slíkur varavöllur gæti e.t.v. opnað fyrir einhverja meiri umferð svo stórra véla í framtíðinni þó að allt sé óljóst um þá hlið málsins að sinni.
    Hins vegar finnst mér margt mjög óljóst í þessari umræðu um varavöll svo að ekki sé meira sagt. Það hefur mjög lítið komið fram um hver not varnarliðsins eiga að vera af þessum varavelli. Það er sagt: Þetta verður borgaralegt mannvirki á friðartímum. Þetta mannvirki verður ekki notað til hernaðar eða hernaðarumsvifa. En það hefur eiginlega mjög lítið komið fram um hvað rekur NATO eða varnarliðið nú til að þrýsta á þetta mál. Það má ætla að varnarliðið hafi svipuð not og íslensku flugfélögin af varavelli, það kunni að vera einhver eldsneytissparnaður fyrir æfingaflug þess og eftirlitsflug því að það þurfi sjálfsagt að hafa sínar reglur um eldsneyti eins og flugfélögin, en um önnur not ríkir mikil óvissa. Það væri fróðlegt að fá upplýst hver er raunveruleg ástæða fyrir því að þessum framkvæmdum er sýndur slíkur

áhugi nú af NATO og mannvirkjasjóðnum.
    Það væri líka gott að fá upplýst hvort hinar hógværu kröfur um not af vellinum, að þetta eigi að vera borgaralegt mannvirki og stjórnað af óbreyttum borgurum á friðartímum, standi lengi, hvort þær standi út byggingartímann, hvort það verða kröfur síðar meir og innan tíðar um meiri not af vellinum. Manni býður reyndar í grun að svo verði. Ég er ekki haldinn þeim barnaskap að ætla að hér sé ekki um hernaðarmannvirki að ræða. Ég er þeirrar skoðunar að þarna sé um hernaðarmannvirki að ræða og menn eigi að ræða málið í því ljósi. Þarna er, eins og ég kom inn á áðan, um miklu meira mannvirki að ræða en flugbrautina eina saman. Þarna eru hin margvíslegustu mannvirki önnur og meira að segja, eins og hv. 5. þm. Reykv. kom inn á áðan í ræðu sinni, er nálægðar við olíuhöfn krafist.
    Það er svo að ef samið er við mannvirkjasjóð NATO um að greiða mannvirki af þessu tagi, sem ekki er notað til neinna hernaðarumsvifa, er eingöngu stjórnað af óbreyttum borgurum á friðartímum, þangað koma engar hervélar eins og þetta mál er lagt upp núna, þá er gengið feti framar en áður hefur verið gert í þátttöku mannvirkjasjóðs NATO í samgöngumannvirkjum hér á landi. Ég held að við eigum að ræða um þetta mannvirki sem hernaðarmannvirki. Þó jafnvel komi ekki til þess að það sé notað á friðartímum er þetta mannvirki í eðli sínu þannig að það getur ekki verið annað. Þess vegna leita þessar spurningar á. Hvers vegna kemur þetta mál upp núna og hvaða tilgangi á varaflugvöllur að þjóna? Með hverjum hætti á hann að styrkja varnir landsins?
    Ég er fylgjandi aðild okkar að NATO og ég er fylgjandi því að við eigum að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru um eftirlitsflug á norðurslóðum. Með hvaða hætti kemur þessi varavöllur inn í þá mynd? Með hvaða hætti kemur hann inn í þá mynd núna þegar það er sem betur fer svo að stórveldin eru að semja um afvopnun frekar en vígvæðingu? Og hvaða skilyrði eru varðandi not af slíkum völlum? Hvaða skilyrði koma í kjölfarið? Er hugsanlegt að þau skilyrði feli í sér frekari kröfur um afnot af vellinum á friðartímum?
    Ég er ekki ýkja trúaður á að þessi forkönnun verði gerð án nokkurra skilyrða
um framkvæmdir, en ef svo er er kannski ekki ástæða til að hafa á móti henni. Hins vegar verður að vera alveg skýrt hvað afstöðu mína snertir og ég hygg okkar framsóknarmanna flestra að við höfum ekki tekið þá ákvörðun að þessi flugvöllur skuli verða byggður. Stefnan er skýr og kemur fram í stjórnarsáttmála um framkvæmdir í þessum efnum. Það er þannig í samsteypustjórnum að þar gildir ekki einfaldur meiri hluti atkvæða. Þar gildir stjórnarsáttmálinn sem gerður er þegar ríkisstjórnin er mynduð og í honum stendur: Ríkisstjórnin mun ekki gera nýja samninga um meiri háttar hernaðarframkvæmdir. Þetta er alveg ljóst og ég hef út af fyrir sig ekki trú á að mannvirkjasjóður NATO

fari að gera forkönnun eða a.m.k. kosta miklu til forkönnunar á þessum forsendum.
    Það hefur verið rætt hér nokkuð af hv. 14. þm. Reykv. um skrif Tímans í þessum efnum og talið að þar komi afstaða Framsfl. fram í málinu. Afstaða Framsfl. kemur ekki þar fram. Það er svo að það eru skoðanaskipti í Tímanum og afstaða þess blaðs fer ekki saman í öllum greinum við þá afstöðu sem mörkuð hefur verið af flokknum. Afstaða Framsfl. kemur m.a. þar fram og var samþykkt þegar þessi stjórnarsáttmáli var gerður að ekki verði gerðir nýir samningar um meiri háttar hernaðarframkvæmdir. Þeirri afstöðu fylgjum við þingmenn Framsfl. og það verður að koma í ljós hvort mannvirkjasjóður NATO eða forráðamenn NATO hyggjast verja stórfé í forkönnun á svo óljósum forsendum um framkvæmdir því auðvitað verður ekki samið um slíkar framkvæmdir meðan þessi stjórnarsáttmáli er í gildi. Auðvitað geta í framtíðinni komið þeir menn að stjórnvölnum sem hafa talað mest í kvöld í þessari umræðu og getur vel verið að þessar hógværu kröfur séu gerðar í þeirri von að síðar verði hægt að bæta um betur og gera kröfur um not af þessu mannvirki fyrir æfingaflug og önnur umsvif sem fylgja varnarliðinu á friðartímum. Ég held að menn verði að ræða þetta mál með tilliti til þess og gera sér alveg grein fyrir því hvað er um að ræða. Hér er um hernaðarmannvirki að ræða og menn eiga ekki að vera blekkja sig á því. Jafnvel þó að menn fylgi aðild að NATO og samstarfi vestrænna þjóða eiga menn ekki að vera að blekkja sig á því að hér sé um einhvern völl að ræða sem aldrei verður notaður, stendur bara og bíður eftir að til ófriðar komi sem vonandi verður aldrei og sem betur fer þokast heldur í hina áttina.