Varaflugvöllur
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Mér skilst að ég sé næstur á mælendaskrá núna um bæði þau mál sem liggja fyrir deildinni og fyrir þinginu og kannski ekki í fyrsta skipti. En svo hittist á að framsögumaður fyrir öðru málinu er hæstv. forsrh. og hann er víðs fjarri húsinu þannig að þó svo að hlé yrði gert á umræðum utan dagskrár um varaflugvöll ( Forseti: Það verður ekki gert.) er heldur ekki hægt að tala um stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum fremur en um varaflugvöll. Hæstv. forsrh. gaf yfirlýsingar í dag sem nauðsynlegt er að fá svör við og þó svo að hæstv. forseti hafi undarlegar skoðanir í sambandi við samskipti okkar Íslendinga við Atlantshafsbandalagið hygg ég að hæstv. forseti verði að sætta sig við að við þingmenn eigum kröfu til þess að hæstv. forsrh. svari eðlilegum spurningum sem beinast að þeirri ræðu sem hann flutti á þinginu í dag. Ég vil mælast til þess við hæstv. forseta að hann geri annað tveggja að fresta umræðunni til morguns eða reyna þá að fresta umræðunni í svo sem hálftíma meðan verið er að hafa upp á hæstv. forsrh.
    Ég minni á, og ég veit að hæstv. forseti þekkir þá sögu betur en ég frá þeim tímum hér áður þegar Framsfl. hafði forsrh., að hringt var í lögregluna og hún beðin um að leita að einum þingmanni sem ekki var í deildinni vegna þess að flokksbræður þess þingmanns þóttust þurfa að hafa þingmanninn við við atkvæðagreiðslu. Nú hittist svo á að við þurfum að spyrja hæstv. forsrh. út úr. Þess vegna vil ég fara fram á að umræðunni verði frestað annaðhvort til morguns, fimmtudags, að öðrum kosti verði gert hlé á fundinum meðan forsrh. er leitaður uppi.