Varaflugvöllur
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Ég lýsi furðu á ummælum hv. 2. þm. Norðurl. e. og aðfinnslum sem hann hefur haft hér í frammi við forseta um stjórn þessa fundar. Mér finnast þessi ummæli furðuleg og ég skil satt að segja ekki þegar flokksbróðir þessa hv. þm. hefur hafið umræður utan dagskrár í dag og síðan kemur hv. 2. þm. Norðurl. e. og mælir gegn því að hér sé haldinn kvöldfundur til þess að halda þessari umræðu áfram og þykist ekki getað talað öðruvísi en hæstv. forsrh. sé við. Hér var beint spurningu til utanrrh. Hann hefur setið undir þessari umræðu allri. Samgrh., sem margir telja að málið snerti með nokkrum hætti líka, hefur verið hér líka. Mér finnst satt að segja mjög langt gengið hjá hv. þm. stjórnarandstöðunnar að þeir telja sig ekki getað talað nema hinn og þessi sé við þó svo að ráðherra sá sem málið heyrir undir sé viðstaddur. Ég satt að segja hef oft undrast langlundargeð forseta þegar er verið að fara eftir þessu vegna þess að það er ekkert í þingsköpum sem segir að beri að gera þetta eða beri að sækja ákveðna þingmenn. Stundum er gengið svo langt að kalla ákveðna þingmenn í salinn. Auðvitað eiga menn að gæta þingskyldu sinnar og sitja hér, en ég sé ekkert því til fyrirstöðu og auðvitað verður þessari umræðu haldið áfram enda þótt forsrh. hafi orðið síðbúinn á fundinn. Þeir ráðherrar sem þetta mál varðar eru hér. Mér finnst þetta óréttmætt og afar ósanngjörn gagnrýni sem þessi hv. þm. hefur borið fram í garð forseta Sþ. Mér finnst hún mjög ósanngjörn.
    Það hefði vissulega mátt gera athugasemd við það hér í kvöld að sá sem hóf þessar umræður var ekki viðstaddur fyrr en töluvert var liðið á þennan kvöldfund. Ég minnist þess að forseti Sþ., Þorvaldur Garðar Kristjánsson, sem þá var, 1985 eða 1986, vítti hv. þáv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson sem hafði byrjað umræðu utan dagskrár og var svo sjálfur ekki við. En þetta var ekki gert hér í kvöld þannig að það er ýmislegt sem mætti segja hér. Ég vil biðja hv. 2. þm. Norðurl. e. að stilla orðum sínum í hóf gagnvart forseta þingsins þegar ekki er ástæða til gagnrýni og fundarstjórnin er fyllilega eðlileg og sanngjörn. Mér finnst þetta einum of langt gengið og get ekki á mér setið að láta þetta koma fram.
    Hins vegar má þessi umræða kannski vekja okkur til umhugsunar um að það væri þinginu og okkur fyrir bestu ef við fyndum umræðum utan dagskrár svolítið fastara form þar sem flokkarnir kæmu sér saman um það fyrir fram hversu lengi umræðan skyldi standa og hverjir tækju þátt í henni frá hverjum flokki og hefðu meiri skikk á þeim hlutum. Ég held að sé orðið mjög brýnt að gera það.
    Það er alveg rétt hjá hv. þm. Halldóri Blöndal að ef þessi umræða stendur mjög lengi kvölds eða nætur er ekki auðvelt að byrja fund í fjh.- og viðskn. Ed. kl. hálfníu í fyrramálið þar sem okkar bíða brýn verkefni sem ekki mega bíða.