Varaflugvöllur
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Þessar umræður hafa verið málefnalegar og fróðlegar, málefnalegar kannski með einni undantekningu. Það var þegar hv. 6. þm. Reykv. var með í ræðustól getsakir um óheilindi, undirhyggju, ef ekki fjörráð þess sem hér stendur. Að öðru leyti hafa þetta verið málefnalegar umræður.
    Ég hef þegar svarað þeim fjórum spurningum sem hv. 1. þm. Reykn. sem málshefjandi beindi til mín og vonast til þess að þau svör hafi verið fullnægjandi.
    Í þessum umræðum hefur fleiri spurningum verið beint til mín og reyndar hafa vakað í máli manna fleiri spurningar. Sumum hefur þegar verið svarað. Um aðrar á það við að það mætti kannski kveða skýrar að orði um svör eða upplýsingar sem þær varðar. Hér hefur verið spurt: Er mannvirkjasjóður Atlantshafsbandalagsins góðgerðastofnun? Er það óyggjandi ef mannvirkjasjóður ver fjármunum til framkvæmda að þá sé um að ræða hernaðarframkvæmdir? M.ö.o.: hverjar eru þær reglur sem gilda um fjárframlög úr þessum sameiginlega framkvæmdasjóði Atlantshafsbandalagsríkjanna? Hvað vakir fyrir þeim, þ.e. annars vegar forsvarsmönnum varnarliðsins á Íslandi og svo hins vegar Atlantshafsbandalaginu, þegar þeir óska eftir því að hér verði byggður slíkur varaflugvöllur með fjárveitingu úr mannvirkjasjóði? Hverra hagsmuna er þar verið að gæta? Sannar það að hér sé um að ræða hernaðarmannvirki? Hver eiga að vera not varnarliðsins af slíku samgöngumannvirki? Hvað er að segja um fordæmi um fjárveitingar úr þessum mannvirkjasjóði, við skulum segja eins og t.d. í Noregi? Er það ekki sambærilegt?
    Ég spurði og það var spurt: Hver eiga að vera not varnarliðsins af þessu mannvirki á friðartímum, á ófriðartímum? Er það hugsanlegt að þær kröfur sem nú hefur þegar verið skilmerkilega lýst séu til málamynda, partur af blekkingarleik? Verða þær kröfur hertar síðar meir? Er þetta meiri háttar hernaðarmannvirki og þar af leiðandi með þeim hætti að það samrýmist ekki þeim orðum sem finna má í málefnasamningi núverandi ríkisstjórnar? Er það svo að einhverjar aðrar þjóðir séu að þrýsta á íslensk stjórnvöld í þessu tilefni? eins og t.d. hæstv. menntmrh. spurði. Danir eða Norðmenn, eru þeir að reyna að þröngva okkur af illum hug til þess að játast undir þetta ok?
    Og lokaspurningin að sjálfsögðu: Hver er nauðsyn Íslendinga sjálfra á því að þetta mannvirki rísi?
    Loks er að sjálfsögðu spurt um hluti eins og þessa: Hver hefur forræði á þessu máli? Er það utanrrh. eða er það hæstv. samgrh. Þarf að kveða upp einhvern úrskurð af hálfu forsrh. um það? Svar við því er nei. Það þarf engan úrskurð um það. Það liggur alveg ljóst fyrir. Þetta mál, að svo miklu leyti sem það varðar spurninguna um samskiptin við Atlantshafsbandalagið og skyldu utanrrh. til þess að svara þessari málaleitan, er alveg skýrt. Það er á forræði utanrrh. Hitt er svo annað mál að ef það liggur fyrir staðfest og samningsbundið að það mannvirki, ef það endanlega

risi, yrði utan varnarsvæða, þá er það venjulegt samgöngumannvirki og væri á forræði samgrh.
    Það var spurt um margt fleira og þá sérstaklega spurningar sem hv. þm. Albert Guðmundsson beindi til mín sem ég vík að seinna, en þetta gefur mér tilefni til að víkja svolítið nánar að tveimur þáttum.
    Í fyrsta lagi mannvirkjasjóðnum. Hvaða reglur gilda um hann? Er þetta með óyggjandi hætti meiri háttar hernaðarmannvirki og þar af leiðandi ósamrýmanlegt við ákvæði málefnasamnings ríkisstjórnarinnar?
    Í annan stað finnst mér hafa gætt nokkurs misskilnings í umræðunni að því er varðar tvennt sem er í eðli sínu nokkuð ólíkt. Það er annars vegar hvaða kröfur ber að gera varðandi öryggi og nauðsyn á varaflugvelli og varaflugvallarþjónustu að því er varðar innanlandsflug eða millilandaflug Íslendinga sjálfra með þeirra eigin flugvélum og hins vegar hvaða kröfur eru gerðar um fullkominn varaflugvöll sem á að þjónusta millilandaflug og alla þá flugumferð sem rúmast á okkar flugumsjónarsvæði.
    Að þessu hef ég reyndar vikið fyrr í máli mínu þannig að ég ætla að láta mér nægja að því er það varðar að vitna til blaðagreinar sem birtist fyrir skömmu í því títt ívitnaða blaði, dagblaðinu Tímanum, eftir flugmálastjóra Íslendinga.
    En fyrst fáein orð um þennan mannvirkjasjóð.
    Ég vil leyfa mér að víkja að upplýsingum sem fram koma í grein eftir eftirlitsmann með mannvirkjasjóði NATO, Thompson að nafni, sem hann skrifar í tímarit Atlantshafsbandalagsins og segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Fyrirmyndina að mannvirkjasjóði NATO er að finna hjá Vestur-Evrópusambandinu sem stóð fyrir gerð nokkurra flugvalla og fjarskiptastöðva seint á fimmta áratugnum. Fyrir fé úr sjóði NATO hefur til þessa verið unnið að margvíslegum framkvæmdum í öllum bandalagslöndunum`` --- þar á meðal Íslandi vegna þess að samgöngumannvirki sem hér er að rísa og heitir Helguvík og olíustöð þar er m.a. fjármögnuð úr þessum títtnefnda sjóði. ,,Þessar sameiginlegu framkvæmdir hafa kostað meira en 3800 millj. reiknieininga sjóðsins.`` Það heitir ,,infrastructure accounting units``. Reiknieiningin var upphaflega miðuð við sterlingspund og er nú jafnvirði 2624
bandaríkjadala eða meira en 10 milljarða dollara á núverandi gengi. Það mun svara til 500 milljarða ísl. kr. sem þessi sjóður hefur þá varið til margvíslegra sameiginlegra framkvæmda í öllum ríkjum Atlantshafsbandalagsins sextán að tölu á tímabilinu frá því að hann tók til starfa um 1950 til þessa dags.
    Þetta segir sína sögu um að það er mesti misskilningur að hér sé um einsdæmi að ræða. Hér er um að ræða framkvæmdasjóð sem hefur staðið undir framkvæmdum í öllum bandalagsríkjum Atlantshafsbandalagsins mjög lengi. Hér er ekki um að ræða neitt einsdæmi þannig að hafi það vakað í umræðunni að hér sé um að ræða einsdæmi, stórveldi að bera fé á smáþjóð sem á í erfiðleikum, er það mikill misskilningur.
    Það er ósköp eðlilegt að spurt sé hvað vaki fyrir

þeim forsvarsmönnum Atlantshafsbandalagsins þegar þeir óska eftir því að fá svör frá íslenskum stjórnvöldum um það hvort við erum tilbúin að heimila byggingu slíks varaflugvallar sem kostaður væri með þessum hætti. Að því er þetta varðar er fróðlegt að heyra úr þessari sömu grein rökstuðning sem þessi eftirlitsmaður með mannvirkjasjóði NATO hefur uppi fyrir því hvaða rök eru yfirleitt færð fyrir byggingu slíkra mannvirkja og nú vitna ég, með leyfi forseta, beint í þessa grein:
    ,,Rökin fyrir sameiginlegum fjárframlögum til þessara framkvæmda eru þau að mannvirkin séu til afnota fyrir fleiri en eitt aðildarríki og þjóni hagsmunum þeirra allra svo að landið þar sem mannvirkin eru, gistilandið, eigi ekki eitt að bera kostnað af þeim, ekki síst vegna þess að sum aðildarlönd verða vegna landfræðilegra aðstæðna að taka að sér að hýsa mun fleiri mannvirki en önnur. Þannig er staðið að fjármögnuninni að öll ríki sem þátt taka í framkvæmdum koma sér saman um það`` m.ö.o. semja um það ,,hve mikinn hlut kostnaðarins þau beri hvert um sig og er þá höfð hliðsjón af þremur meginatriðum: getu aðildarríkja til að leggja fram fé, hvaða hag ríkin sem mannvirkin nota hafa af nýtingunni og fjárhagslegum hagnaði gistiríkisins.``
    Að því er varðar það síðastnefnda, fjárhagslegan hagnað gistiríkisins, er verið að vísa til margvíslegra samgöngumannvirkja sem eru auðvitað í rekstri og skila hagnaði. Þannig t.d. skilar Keflavíkurflugvöllur að því er varðar rekstur verulegum hagnaði og það er að sjálfsögðu tekið tillit til þess því að hér er oft og tíðum um að ræða venjuleg samgöngumannvirki en ekki hernaðarmannvirki á friðartímum.
    T.d. er rétt að geta þess að að því er varðar flugvelli sem þessi sjóður hefur byggt upp í Noregi gilda strangar takmarkanir um yfirleitt nokkurn aðgang norska hersins eða hernaðaraðila Atlantshafsbandalagsins að þeim flugvöllum. Af því að það kom fram í ræðu eins hv. þm. og hann taldi að þessi mannvirkjasjóður hefði staðið að byggingu tveggja eða þriggja flugvalla í Noregi, þá er rétt að taka fram að ég hef hér í höndum upplýsingar frá sendiherra Noregs hjá Atlantshafsbandalaginu. Ég lét beina til hans nokkrum spurningum um samskipti Noregs og mannvirkjasjóðsins og af þeim upplýsingum er m.a. ljóst að mannvirkjasjóðurinn hefur staðið að hluta til að uppbyggingu allra flugvalla í Noregi, allra, hvers eins og einasta, nema þriggja, og þessir þrír eru Fornebu í Osló, Langsnes við Tromsö og Sola við Stavangur. Að öðru leyti hefur mannvirkjasjóður Atlantshafsbandalagsins tekið þátt í að kosta alla --- segi og skrifa alla --- flugvelli sem byggðir hafa verið í Noregi á þeim tíma frá því að mannvirkjasjóðurinn var stofnsettur. Og ef menn skyldu halda að þetta séu einhver einsdæmi er rétt að geta þess að mannvirkjasjóðurinn hefur á starfstíma sínum fjármagnað byggingu 227 flugvalla --- ég endurtek: 227 flugvalla í hinum ýmsu ríkjum Atlantshafsbandalagsins.
    Að því er varðar t.d. framlög til uppbyggingar

slíkra mannvirkja í Noregi samkvæmt áætlun fyrir árið 1989, þá hljóðar sú áætlun upp á 1,35 milljarða n. kr., þ.e. upp á 10 milljarða ísl. kr. á árinu 1989.
    Þetta eru upplýsingar, virðulegi forseti, sem svara að nokkru leyti því sem vakað hefur í máli manna, þ.e. spurningunni um hvort hér er um að ræða einhverja ,,aronsku`` sem verið er að opna fyrir. Ég vitnaði til þess að rökin fyrir byggingu slíkra mannvirkja og fjármögnun þeirra úr sameiginlegum framkvæmdasjóði Atlantshafsbandalagsins eru margvísleg og þau eru oft og tíðum þau að það er að mati Atlantshafsráðsins og stjórnar mannvirkjasjóðsins um að ræða sameiginlega hagsmuni ríkjanna allra.
    Þá er rétt að taka fram líka eftir sömu upplýsingum frá sendiherra Noregs hjá Atlantshafsbandalaginu að öll þau mannvirki sem reist hafa verið með þessum hætti og skipta mörgum tugum í flugvöllum, samgöngumannvirkjum, vegum, höfnum o.s.frv. eru öll eign norska ríkisins og á algeru forræði norska ríkisins. Þau eru öll algerlega mönnuð af norsku starfsfólki, að öllu leyti á norsku forræði og ef um er að ræða ,,bruksrett`` sem hér er kallað eða nýtingarrétt annarra, þá verður að semja sérstaklega um það. En öll þessi mannvirki eru undir ótvíræðu og öruggu norsku forræði, þ.e. ,,sikker norsk jurisdiksjon``. Enn fremur kemur hér fram að að því er varðar afnot annarra en norskra yfirvalda af þessum mannvirkjum eru þau mjög takmörkuð á friðartímum
og þá t.d. sérstaklega flugvellir.
    Þetta held ég að séu gagnlegar upplýsingar í þessari umræðu. Þær svara t.d. spurningunni um að mannvirkjasjóður Atlantshafsbandalagsins er að vísu ekki góðgerðastofnun. Hann er hins vegar þetta: Hann er sameiginlegur framkvæmdasjóður Atlantshafsbandalagsríkjanna og um framlög til slíkra sameiginlegra mannvirkja gilda ákveðnar grundvallarreglur. Þær eru afar viðamiklar í a.m.k. tveimur þverhandarþykkum doðröntum. En ef spurt er: Eru fjárframlög úr mannvirkjasjóðnum undir öllum kringumstæðum og ótvírætt til hernaðarmannvirkja? þá er svarið nei. Samkvæmt reglum þessa sjóðs er hægt að veita fé til mannvirkjagerðar í einhverju bandalagsríkjanna þótt ekki sé um hernaðarmannvirki að ræða. Þetta kemur t.d. fram í grein 1.3.9 í hinum almennu reglum bandalagsins þar sem segir svo, með leyfi forseta, og ég tek það fram að þýðingin er mín og flutt hér úr ræðustól á þessum texta:
    ,,Heimilt er að fjármagna úr sameiginlegum framkvæmdasjóði Atlantshafsbandalagsins mannvirki sem talin eru í hag einstöku aðildarríki svo fremi að NATO-ráðið með einróma samþykki telji að framkvæmdin þjóni sameiginlegum hagsmunum Atlantshafsbandalagsríkjanna.``
    Samkvæmt þessari grein er ljóst að það hefur verið veitt fé til mannvirkja sem undir engum kringumstæðum eru til hernaðarþarfa á friðartímum. En hið sama gildir að sjálfsögðu að það er þá gerður samningur um það með hvaða hætti afnot eru heimil af varnarkerfi Atlantshafsbandalagsins á stríðstímum. Og þá er spurningin orðin þessi: Er alveg ótvírætt að

samgöngumannvirki sem fjármagnað er að hluta til, því það verður nú aldrei nema að hluta til, það er alltaf krafist einhvers mótframlags, úr þessum sjóði séu undir öllum kringumstæðum og óhjákvæmilega meiri háttar hernaðarmannvirki? Svar mitt er nei. Hafandi kynnt mér málið er ég þeirrar skoðunar, ég hef komist að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að þetta mannvirki þurfi ekki af þessum ástæðum að brjóta í bága við þau orð sem standa í málefnasamningi hæstv. núv. ríkisstjórnar sem kveða á um að í stjórnartíð hennar verði ekki efnt til meiri háttar nýrra hernaðarmannvirkja.
    Starf mitt að þessu máli hefur beinst að því að fá með ótvíræðum og öruggum hætti úr því skorið að þessi skilningur geti verið réttur og það er þess vegna sem ég hef tekið upp viðræður um málið, leitað eftir skjalfestum yfirlýsingum um málið og hef fengið þær skjalfestu yfirlýsingar í formi bréfs frá framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins þar sem hann tekur skilmerkilega fram að engar slíkar kröfur séu gerðar af hálfu mannvirkjasjóðs eða Atlantshafsbandalagsins um notkun á þessu mannvirki á friðartímum að réttlætti að kalla það hernaðarmannvirki og jafnframt þær skýringar að þessi afstaða, sem hefur verið borin undir og samþykkt af stjórn mannvirkjasjóðsins, sé einkum rökstudd með vísan til þessarar undanþágugreinar sem ég var að vitna til og kveður á um heimild sjóðsins til að leggja fram fé til mannvirkis sem er hagsmunamál eins aðildarríkis en jafnframt með einróma samþykki stjórnar mannvirkjasjóðsins talið sameiginlegt hagsmunamál allra Atlantshafsbandalagsríkjanna.
    Á grundvelli þessara gagna sem og ítarlegri gagna, sem ég hef einnig kynnt áður, þar sem talið er upp nákvæmlega hvaða kröfur um er að ræða, þ.e. að því er varðar tæknilegan útbúnað, er niðurstaða mín sú að hér sé ekki um að ræða meiri háttar hernaðarmannvirki á friðartímum og það er ekkert sem fram hefur komið í þessum umræðum sem hefur breytt þeirri afstöðu minni.
    Ég vék að því að það virtist vera nokkur misskilningur í tali manna um þetta tvennt, sem er að vísu ósambærilegt, hvaða kröfur við reynum að gera til varaflugvallar sem á að þjóna flugflota íslensku flugfélaganna á næstu árum, sbr. skýrslu sem hæstv. samgrh. hefur kynnt í ríkisstjórn, og svo hins vegar hvaða kröfur hér er verið að gera til fullkomins varaflugvallar sem á að þjóna ströngustu kröfum um allt millilanda- og alþjóðlegt flug á hinu íslenska flugumsjónarsvæði. Þar er um að ræða tvennt sem er ósambærilegt bæði að því er varðar kröfur og kostnað. Þetta kemur ákaflega skýrt fram í blaðagrein flugmálastjóra sem hann birti í því ágæta dagblaði Tímanum mjög nýlega og ég ætla, með leyfi forseta, að vitna til ef ég fyndi þessa grein. Hún er hér. (Gripið fram í.) Nei, nei. Það eru fjörsprettir stundum í því ágæta blaði.
    Umrædd grein birtist í þessu ágæta blaði og það er upplýst að hæstv. forsrh. les ekki allt sem í blaðið er látið, ekki fyrir fram. Þetta birtist laugardaginn 13.

ágúst 1988 og er í formi viðtals við Pétur Einarsson flugmálastjóra sem er bjartsýnn á að Ísland geti orðið að stórri skiptistöð fyrir Norður-Atlantshafsflug milli Norður-Ameríku og Norður-Evrópu og birtist undir fyrirsögninni ,,Meira flugfrelsi.`` Þar segir svo, með leyfi forseta:
    Blaðamaður spyr: ,,En fyrir utan þetta vildi ég spyrja þig frekar út í öryggismál, ekki síst með tilliti til allra þeirra slysa sem hafa orðið við strendur Íslands og í hafinu í kring.``
    Síðan kemur svar í tilvitnunarmerkjum: ,,Það sem snýr helst að okkur hérna innanlands er ný flugmálaáætlun sem við nú höfum. Hún er mesta framtak Íslendinga í flugmálum fyrr og síðar. Við erum að vinna eftir henni í fyrsta
skipti í ár, 1988. Í henni felst a.m.k. fjórföldun á framkvæmdafé miðað við árið í fyrra. Við sjáum fram á það að geta lokið uppbyggingu á íslenska flugvallakerfinu innan tíu ára eða jafnvel fyrr, þ.e. 1998. Flugvallagerð okkar hefur verið í miklum ólestri. Við vorum frumstæðir og langt á eftir öllum nágrannaþjóðum okkar í flugvallarmálum.
    Svo er þetta eilífa varaflugvallarmál sem ég er alveg hættur að botna í eða þeirri umræðu sem hefur verið í kringum þetta. Mér finnst ég líka hafa rekist á það að almenningur áttar sig ekki heldur alveg.
    Það má greina þetta dæmi í tvennt: Annars vegar er varaflugvöllur fyrir íslenskt flug og það verða nokkrir vellir samkvæmt flugmálaáætlun sem fullnægja íslenskum skammtímaþörfum. Það verða Keflavík, Reykjavík, Sauðárkrókur, Akureyri, Húsavík og Egilsstaðir. Öll umræða um íslenskan varaflugvöll er því einskis nýt þar sem búið er að afgreiða þetta fyrir löngu með því að fyrrgreindir vellir hafa verið, eru og munu vera varaflugvellir.``
    Hér lýkur tilvitnun að sinni, en það er smáskýring. Hér á flugmálastjóri að sjálfsögðu við flugmálaáætlun sem gerði ráð fyrir uppbyggingu þessara valla með 2000 m braut sem við endurskoðun hefur nú verið gerð miðað við forsendurnar allt að 2400 m braut og jafnvel von í einu tilviki, ef samningar takast og aðstæður reynast vera fyrir hendi, um 2700 m braut. En þetta, eins og fram kemur í grein flugmálastjóra, æðsta yfirmanns flugöryggismála á Íslandi, er búið mál og afgreitt og varðar einn þátt þess máls sem við höfum verið með hér til umræðu og á ekki að rugla saman við eitt meginmálið sem var nú reyndar verið að spyrja mig um og er annað mál og að því víkur svo flugmálastjóri, með leyfi forseta, undir millifyrirsögninni ,,Leyfum NATO að byggja.`` Nú er letrið orðið svo dauft að ég veit ekki hvort mér endist sjónin til þess að lesa þetta, reyni þó, með leyfi forseta:
    ,,Hins vegar hafa íslenskir flugmenn lagt til að svona völlur verði a.m.k. 2400 m. Ég styð það og vil að ef einhver flugvöllur verður sérútbúinn, þá verði hann a.m.k. 3000 m. Eftir því sem brautin er lengri, þá má segja að það sé betra. Hins vegar er raunverulega spurningin einfaldlega sú hvort við eigum að leyfa NATO að byggja 3000 m flugbraut á

Íslandi. Menn eru hræddir við að svara þeirri spurningu. Mér finnst að íslenskir stjórnmálamenn eigi að svara henni og segja annaðhvort af eða á með það.
    Skýrsla sem gerð var um varaflugvallarstæði á Íslandi og nú er nýkomin út er hluti af viðræðum við Atlantshafsbandalagið hér á landi og því fyrsta skrefið. Í þeirri skýrslu er lagt til að það verði horft á Aðaldalshraun, en hún útilokar alls ekki aðra staði eins og t.d. Sauðárkrók. Á báðum þessum stöðum er sá einstaki möguleiki fyrir hendi að hægt er að hita upp flugbraut. Þá losnum við við ísingu sem er okkar mesta vandamál. Mér finnst sjálfsagt að gera þetta vegna þess að þarna verða engir hermenn og hertæki. Þetta verður aðeins neyðarflugvöllur fyrir herflug eins og allt annað flug.
    Ég er nú enginn talsmaður hernaðarbrölts. En mér finnst skynsamlegra að við sinnum skyldum okkar við Atlantshafsbandalagið með því að lána land og leyfa gerð mannvirkis frekar en að selja þjónustu. Með því að selja þjónustu gerum við þjóðina háðari hersetunni sem er slæmt. Mannvirki, sem verður ekki fært til, er allt annars eðlis.``
    Þetta voru orð flugmálastjóra sem að vísu hefur verið falið að fjalla um endurskoðun á innlendri flugáætlun, en á gefnum forsendum sem leiða til annarrar niðurstöðu. Hér lýsir hann hins vegar hispurslaust sinni skoðun og það vill svo til að hún er sama skoðun og t.d. sá utanrrh. sem hér stendur hefur.
    Virðulegi forseti. Kjarnaspurningin að því er varðar núv. ríkisstjórn er þessi sem fram hefur komið í máli margra manna: Liggur það fyrir með óyggjandi hætti að hér sé um að ræða meiri háttar hernaðarmannvirki þrátt fyrir að það verði eign Íslendinga, þrátt fyrir að það verði á algeru forræði Íslendinga og íslenskra yfirvalda, undir íslenskri flugumsjón, mannað að öllu leyti af Íslendingum, þar verði engir fulltrúar varnarliðs og engir erlendir aðilar af neinu tagi, þrátt fyrir að það verði utan varnarsvæðis, þrátt fyrir að það verði á forræði íslensks samgrh., þrátt fyrir að það liggur fyrir að því er varðar t.d. Norðmenn og þá fjármuni sem þar hefur verið varið úr þessum sjóði til mannvirkjagerðar að þeir lýsa því yfir að þau mannvirki eru eign norska ríkisins, að þau eru að öllu leyti á forræði norska ríkisins, undir lögsögu norska ríkisins, mönnuð af norskum þegnum, undir stjórn norskra yfirvalda? Hvað eru menn að tala um?
    Þetta liggur allt saman fyrir. Ég sé ekki nauðsyn á því að rannsaka þetta mikið frekar. Hér er auðvitað um að ræða neyðarflugvöll og það gildir það sama að sjálfsögðu um flugvélar varnarliðsins, að þær eiga að hafa heimild til þess að njóta neyðarathvarfs á þessum flugvelli eins og allar aðrar flugvélar á íslensku flugumsjónarsvæði, allar. Væntanlega förum við ekki að gera mun á mannslífum eftir þjóðernum eða einkennisbúningi, meira að segja ekki einu sinni hv. þm. Kvennalistans --- eða hvað? -- ganga svo langt.
    Ég get ekki að því gert, virðulegi forseti, að þetta er mín niðurstaða og
frekari rökstuðningur við þeim svörum sem ég hér gaf.

    Að því er varðar spurninguna um nauðsyn á úrskurði um forræði, þá er engin nauðsyn á því. Það er enginn ágreiningur um það. Málið er á forræði utanrrh. að því er varðar samskiptin við Atlantshafsbandalagið og spurningin sem beint er til hans um hvort hann sé reiðubúinn að heimila þessa forkönnun eða ekki er auðvitað á hans valdi. Það eru sjálfsagðir mannasiðir og sjálfsagt í samstarfi við stjórnarflokka að leggja þetta mál fyrir, kanna það, ræða það í þaula eins og við höfum verið að gera, en ég hef sagt að komist ég ekki að öðrum niðurstöðum, takist mönnum ekki að sannfæra mig um að ég fari hér villur vegar er mín niðurstaða sú að það brjóti ekki í bága við samstarfsskyldur mínar við samstarfsaðila að heimila þessa forkönnun.
    Virðulegi forseti. Að öðru leyti var beint til mín örfáum spurningum. Í fyrsta lagi var spurt: Stendur fjárveitingin sem varið er til þessarar forkönnunar út árið 1989 og verður henni þá lokið? Svarið er já. Verði þessari spurningu ekki svarað á yfirstandandi ári fellur þessi fjárheimild niður og væntanlega leiðir það til þess að þessi forkönnun fer þá fram annars staðar hvort sem það leiðir til þeirrar niðurstöðu að umrætt mannvirki verður byggt þar, en það er mat allra tæknimanna sem ég hef rætt við að það þyki miklum annmörkum háð, það komi ekki að sömu notum á íslenska flugumsjónarsvæðinu.
    Í annan stað. Að því er varðar orðalagið ,,óbreyttir borgarar`` í bréfi Manfreds Wörners eru þar tekin af öll tvímæli annars staðar að þar er ekki aðeins um að ræða óbreytta borgara heldur að þessi umræddi flugvöllur verði að öllu leyti mannaður Íslendingum svo fremi sem þeir kjósi það því hann er að öllu leyti á íslensku forræði.
    Spurt var um fylgimannvirki, þ.e. þau mannvirki önnur sem upp eru talin, og hvaða hlutverki þau gegni, hvort þau séu ekki jafnnauðsynleg út af innlendum öryggisástæðum og erlendum. Svarið er að þarna er um að ræða mat mannvirkjasjóðsins sjálfs á því hvað lágmarkið þurfi að vera á þessum flugvelli til þess að fullnægt sé ýtrustu kröfum varðandi öryggi í alþjóðaflugi.
    Þá var spurt um hvort eitthvað meira væri að segja um rétt varnarliðsins eða flugvéla á vegum þess til aðflugsæfinga. Því er til að svara að þarna yrði um það samið sérstaklega þannig að það er ekki hægt að fullyrða um fjölda slíkra aðflugsæfinga, en það mundi gilda um allar flugvélar sem eiga að nota flugvöllinn að þeir þurfa að sjálfsögðu að fá einhvern rétt til þess að kanna aðstæður, að reyna aðflugsæfingar, en þær eru mjög takmarkaðar. Þá vitna ég sérstaklega til sambærilegra reglna sem samið hefur verið um í Noregi.
    Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson spurði hvort bygging slíks varaflugvallar mundi ekki bæta eftirlitsaðstöðu og öryggi. Jú, ég geri ráð fyrir því að hún mundi bæta það, en tek þó jafnframt skýrt fram að það eru engar kröfur uppi um neina bækistöð fyrir varnarliðið á þessum flugvelli.
    Loks er auðvitað ein mjög áhugaverð spurning um

tengsl þessarar umræðu við þá umræðu sem fram fer í heiminum innan Atlantshafsbandalagsins, milli Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins, milli stórveldanna, umræðu sem við eigum fulla aðild að um afvopnun. Hvað gerist þegar sú stund rennur upp að við höfum náð svo langt á vegi afvopnunar, bæði að því er varðar hefðbundin vopn eða að því er varðar kjarnavopn á höfum og í höfum, að það hafa tekist samningar um slíka afvopnun og samningar um nákvæmt, traust og öruggt eftirlit með því að slíkir samningar verði haldnir? Hvar verður þá þeirri eftirlitsstöð fyrir komið að því er varðar Norður-Atlantshafið? Ég kann ekki svar við því. Það svar liggur ekki fyrir. En mér þætti mjög líklegt og leiða aðeins af líkum að sú eftirlitsstöð hlyti að verða t.d. að því er varðar Norður-Atlantshafssvæðið hér á Íslandi. Spurningin er hins vegar sú með hvaða hætti yrði samið um eignaraðild að slíkri eftirlitsstöð, hverjir rækju hana og mönnuðu, hvort það gæti verið á forræði Íslendinga sjálfra eða með hvaða hætti því yrði fyrir komið. En mannvirkin sem við þurfum á að halda til þess fara ekki.