Varaflugvöllur
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegi forseti. Ég skal síst af öllum vera óþinglegur í sambandi við þær umræður sem hér hafa farið fram. Ég á von á því að ég ljúki þeim með því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir svör hans í dag. Ég varpaði fram fjórum spurningum til hans skömmu eftir kl. 3 og ég held að ég hafi ekki notað meira en tæpar tíu mínútur til að gera grein fyrir þeim, en við erum nú komin fram á nýjan dag tæpa klukkustund og því ekki ástæða til að lengja þessar umræður.
    Ég endurtek þakkir mínar til ráðherrans og tel að hann hafi svarað spurningunum og kannski meir í síðari ræðu sinni, gert ítarlegri grein fyrir því á hvaða forsendum hann byggði þau svör sem hann kom með í sinni frumræðu. Ég átti von á því að aðrir hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni létu til sín heyra og líka að þeir væru ekki sammála öllu því sem fram kæmi hjá hæstv. utanrrh. Ég átti von á að hér kæmi hæstv. samgrh. og hæstv. menntmrh. og voru kannski kunn þau sjónarmið sem hjá þeim voru og hæstv. forsrh. líka sem kvað upp úr um það hver væri dómarinn þegar kæmi að því að túlka stjórnarsáttmálann sem hæstv. utanrrh. hafði gerst aðili að. Að vísu sagði hæstv. forsrh. að við værum að deila um keisarans skegg, hver hefði forræði og hver hefði ekki forræði. Ég er ekki á sömu skoðun einfaldlega vegna þess að það eru til nokkuð sem heita stjórnlög í þessu landi og þar er skýrt á kveðið um hver hefur forræði. Hitt liggur svo ljóst fyrir að það er hægt að semja sig undan hlutum og það hafa menn stundum gert, en ég gat ekki heyrt að þannig liti hæstv. utanrrh. á í þessum umræðum að hann hefði samið sig undan neinu sem honum bæri skylda til að sinna.
    Ég get ekki annað sagt en að af því sem hæstv. utanrrh. svaraði hér og kom fram hjá honum, bæði í fyrri og síðari ræðu, sýnist mér að hann megi hafa sig allan við til þess að það sem hann þar lét koma fram sem svar í sinni ræðu verði að raunveruleika hjá honum.
    Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð mín fleiri, en þakka virðulegum forseta fyrir að þessar umræður gátu farið fram og tek undir með öðrum ræðumönnum um árnaðaróskir til utanrrh. í sambandi við afmælið. Og það er að sjálfsögðu ósk til hvers og eins sem á afmæli að hann verði enn víðsýnni en hann hefur verið, hafi hann þá verið það nokkurn tíma.