Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Það er þakkarvert að hæstv. forsrh. skuli vilja vera viðstaddur umræður um skýrslu sem hann sjálfur er að gefa þinginu. Skárra væri það! Það er nú ekki til þess að hafa orð á. En þannig stendur á að þar sem ég var kominn minni ræðu þegar þetta mál var næstsíðast til umræðu var ég að ræða sérstaklega við sjútvrh. og síðan hefur komið í ljós á fundi sem samtök fiskvinnslustöðvanna héldu fyrir tíu dögum eða svo, föstudaginn 10. febr., að þá varði hæstv. sjútvrh. löngum kafla í sinni ræðu til að hnekkja ummælum sem eru í yfirlýsingu hæstv. forsrh. í efnahagsmálum og varða sjávarútveginn. Ég tel af þeim sökum nauðsynlegt að hæstv. sjútvrh. sé hér við til þess að þingið geti fengið að heyra af hans munni skoðun hans á þeim blekkingum sem hafðar eru uppi í þessari skýrslu og yfirlýsingu og ég veit að hæstv. forseti kann að meta það.
    Þannig stóð á síðast þegar þetta mál var til umræðu að hæstv. forseti kaus sjálfur að taka málið af dagskrá en halda fundinum áfram um önnur málefni. Þó stóð svo á þá að ég var kominn í fundarsal, en auðvitað er það rétt að vegna þess að ekki var flugveður til Akureyrar var ég ekki viðstaddur þegar fundur var settur en hafði á hinn bóginn beðið starfsfólk þingsins um að koma þeim fréttum áleiðis til forseta að um óviðráðanlegar fjarvistir væri að ræða og lét síðan forseta auðvitað vita þegar ég var kominn. Þá kaus hæstv. forseti að fresta umræðunni.
    Nú vil ég á hinn bóginn óska eftir því að umræðunni verði frestað til þess að hæstv. sjútvrh. geti komið að nauðsynlegum leiðréttingum við það sem missagt er í ræðum um mjög þýðingarmikil efnisleg atriði.