Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Virðulegur forseti hefur sagt úr forsetastól að það komi ekki til greina að ,,ónáða`` ríkisstjórnina um hánótt. Má ég nú spyrja þingheim og virðulega ráðherra hvort það sé mikið ónæði fyrir ríkisstjórnina að vera við þær umræður sem hér fara fram og fjalla um tilkynningu um efnahagsaðgerðir sem hæstv. ríkisstjórn hefur staðið fyrir og ljóst er að mjög mikilvægir kaflar í þessari yfirlýsingu eru kaflar er snerta til að mynda sjávarútveginn eins og hér hefur réttilega komið fram og hins vegar ríkisfjármálin. Það er enn fremur ljóst að þegar þessari umræðu var frestað fyrir nokkrum --- ja, ég segi vikum, nokkrum dögum a.m.k., lágu fyrir ákveðnar fyrirspurnir til viðkomandi ráðherra.
    Nú segir virðulegur forseti að það sé fáránlegt að ,,ónáða`` hæstv. ríkisstjórn og einstaka ráðherra. Ég spyr í fyllstu einlægni virðulegan forseta: Hvað segir virðulegi forseti um það ónæði að halda hinum og þessum óbreyttum þingmönnum hér í alla nótt, þingmönnum sem hafa margt annað að gera en sitja hér og tala um þessi mál og vilja gjarnan fá að kynnast einstökum atriðum í þessari tilkynningu, atriðum sem við vitum að hafa verið samin af hinum og þessum ráðherrum, ekki síst hæstv. fjmrh.? Hvað merkir hugtakið ,,ónæði"? Á það eingöngu við um hæstv. ríkisstjórn? Á það ekki við um okkur sem erum bara óbreyttir þingmenn? Finnst hæstv. forseta viðeigandi að tala um að það sé ónæði þegar beðið er um það að hæstv. ríkisstjórn sinni skyldu sinni, þeirri skyldu að vera hérna við umræður og kannski enn þá meiri skyldu vegna þess að hér er verið að ræða tilkynningu frá sjálfri ríkisstjórninni? Og ég spyr virðulegan forseta sem byrjar þessa umræðu á því að biðja um gott samstarf milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Við erum fúsir að sjálfsögðu til að eiga gott samstarf við forseta ef virðulegur forseti sýnir okkur þann lágmarksskilning að kalla eftir einum eða tveimur ráðherrum sem við þurfum að tala við, hafa fengið fyrirspurnir. Ég satt að segja skil það ekki ef hæstv. forseti telur ekki að hér sé um samstarfsvilja að ræða. Við erum tilbúnir til þess að halda þessari umræðu áfram fram eftir nóttu og ég tel ekkert eftir mér að vera hérna. En ég verð að segja alveg eins og er: Finnst hæstv. forseta viðeigandi að hæstv. fjmrh. sofi einhvers staðar úti í bæ, sjálfsagt í sínu eigin rúmi, á meðan við eigum að ræða hérna um ræðu sem hann hefur samið að hluta og varðar hans ráðuneyti? Finnst hæstv. forseta viðeigandi að tala um að það sé verið að sýna honum ónæði með því að kalla hann til fundar sem honum ber skylda til að sækja eins og öðrum þingmönnum og þingmannsígildum?
    Ef virðulegur forseti meinar það virkilega að vilja eiga gott samstarf við stjórnarandstöðuna, þá er tvennt til:
    Að fresta þessari umræðu þar til hæstv. forseta þóknast að fá hæstv. fjmrh. til að koma til fundar ef hann getur ekki sótt fundi á öðrum tíma en þeim sem venjulegt fólk þarf að vaka og vera í vinnu eða að gera svo vel og láta hæstv. fjmrh. vita að hér fara

fram umræður um mál sem kemur honum allverulega mikið við, enda hefur hann þegar fengið fyrirspurnir úr ræðustól sem ég átti von á því að hann mundi svara.
    Virðulegi forseti. Þetta er í einlægni mælt. Þetta er sagt í þeirri trú að orð virðulegs forseta um samstarf og samstarfsvilja hafi haft einhverja þýðingu og ég vænti þess og ég skora á virðulegan forseta að hugleiða það þó það séu ekki nema nokkur sekúndubrot hvort virðulegum forseta þykir viðeigandi að halda þessari umræðu áfram án þess að hæstv. fjmrh. gefist kostur á að koma hingað og svara fyrirspurnum sem til hans er beint.
    Ég veit, virðulegur forseti, að hæstv. forseti vill láta þingstörf ganga greitt. Ef ég má ráða virðulegum forseta heilt, þá segi ég: Er ekki rétt að fresta umræðunni? Ef virðulegur forseti fellst ekki á það mælist ég til þess að hæstv. fjmrh. verði sóttur og hann beðinn um að koma hingað og taka þátt í þessari umræðu og það mun ekki standa á okkur í stjórnarandstöðunni að eyða svo sem eins og einni skemmtilegri nótt, bæði með virðulegum forseta og hæstv. fjmrh., til að ræða um það merkilega málefni sem nú er hér á dagskrá.