Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að það eru nokkrir þingmenn Sjálfstfl. sem gangast upp í því að tefja þingstörf og ganga mjög langt í þeim efnum auk þess sem það er upplýst að þeir neita öllu eðlilegu samkomulagi um þinghald sem er mjög óvenjulegt að stjórnarandstæðingar geri yfirleitt. Ég veit að hv. 2. þm. Norðurl. e. er mjög framarlega í þeim flokki sem gerir allt sem hann getur til að tefja fyrir þinghaldinu og hefur tekið alveg furðuleg köst og með miklum gusum og rassaköstum í þessum ræðustól og sömuleiðis hv. 1. þm. Reykv. Auðvitað er það augljóst mál að við þessar aðstæður getur hæstv. forseti ekki undir neinum kringumstæðum orðið við þeirri beiðni þeirra að málinu verði frestað þegar þeir neita öllu samkomulagi. Ég spyr í þessu sambandi: Eru þeir að tala fyrir hönd Sjálfstfl.? Það er nauðsynlegt að það liggi fyrir vegna þess að hann er mjög margbreytileg skepna eins og kunnugt er, Sjálfstfl. Eru þeir að tala fyrir hönd Sjálfstfl.? Eru þeir að tala fyrir hönd stjórnarandstöðunnar? Eru þeir að tala fyrir hönd Kvennalistans hér líka þegar þeir heimta að þetta mál verði tekið út núna? Er verið að tala fyrir hönd Borgfl.? Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að það upplýsist þannig að þeir séu ekki einlægt ávarpaðir stjórnarandstaðan, þessir málglöðu þingmenn Sjálfstfl. sem verma ræðustólinn daginn út og daginn inn.
    Ég held að það væri einlægast í þessu máli að við kæmumst að niðurstöðu sem gæti í fyrsta lagi verið sú að við látum á það reyna hvort forsrh. svarar ekki þeim spurningum sem bornar eru fram með þeim hætti að þingmenn geti við unað þannig að ekki þurfi að kalla fleiri ráðherra út. Ég treysti hæstv. forsrh. vel til þess, en er ekki hugsanlegt að hv. þm. stjórnarandstöðunnar vilji láta á það reyna og kanna hvort ekki er hægt að tæma málið og ljúka því hér á dagskránni með þeim hætti?
    Annar möguleiki er sá að þessir hv. þm. láti það koma fram með einhverjum hætti, ekki hér í ræðustól heldur annars staðar í húsinu, að þeir séu tilbúnir að ganga frá því að málinu verði lokið með skikkanlegum hætti á einhverjum tilteknum tíma. En það er algerlega útilokað fyrir hæstv. forseta að fallast á að málið hangi í lausu lofti á miðri nóttu og liggi á dagskránni án þess að það hafi verið um það samið hvernig það verður tekið fyrir og með hvaða hætti frá því verður gengið.
    Ég vil satt að segja leyfa mér að mótmæla að lokum þeim dónaskap sem ég tel að hæstv. forseta Sþ. hafi verið sýndur mjög oft af þessum þingmönnum. Ég get ekki kallað það öðru nafni. Það er mjög algengt að þingmenn stjórnarandstöðunnar gangi mjög hart fram andspænis forsetum og er ég ekki undanskilinn í þeim efnum um mörg undanfarin ár. Ég tel hins vegar að framkoma þessara þingmanna við hæstv. núv. forseta Sþ. sé fyrir neðan allar hellur og ég bið þá í fullri vinsemd að íhuga hvort það er þeim og þeirra málstað til framdráttar að ganga fram með þeim hætti sem gert hefur verið eða hvort þeir eru reiðubúnir að taka á þeim tveimur kostum sem hér

voru nefndir. Annar er sá að hæstv. forsrh. svari þeim spurningum sem fram verða bornar, hinn er sá að það verði samið um málið og gengið frá því. Það er það eðlilegasta í málinu.