Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Hæstv. menntmrh. gengur hér fram með miklum hroka og reynir að láta líta út sem svo að hann hafi á sl. ári verið einhver sérstök fyrirmynd í sambandi við þingstörf og lætur sem svo að hann hafi ekki gengið þá fram með þvílíkri óskammfeilni að þeir menn sem nú eru í stjórnarandstöðu taki honum langt fram í þeim efnum. Það væri fróðlegt fyrir þingheim og þjóðina alla raunar að ljósprenta og gefa út sérstaklega sem sýnishorn um málflutning þessa ágæta ráðherra þegar hann er þingmaður og sem sýnishorn af málþófi Alþb. nóttina sælu þegar hann og hv. 4. þm. Vesturl. héldu mönnum á 30 klukkustunda fundi fyrir jólin í fyrra. Ég hygg það væri verðugt vegna þeirra ummæla sem þessi ágæti maður annars hafði áðan að rifja upp ýmislegt af því sem hann sagði þá nótt. Það liggur alveg ljóst fyrir að þessi umræða um stefnumörkun ríkisstjórnarinnar, Yfirlýsing ríkisstjórnar í efnahagsmálum er yfirskriftin, hefur ekki verið löng. Það liggur jafnframt ljóst fyrir að hæstv. sjútvrh. lýsti því yfir í sjónvarpi fyrir skömmu að hæstv. forsrh. hefði sett bann á að einstakir ráðherrar töluðu um efnahagsmál um þessar mundir og var greinilegt þegar þessi umræða var lögð upp að einstakir ráðherrar úr samstarfsflokkum ríkisstjórnarinnar höfðu ekki hugsað sér að taka til máls. Það var jafnljóst á hinn bóginn að við þingmenn ýmsir sættum okkur ekki við að formenn stjórnarflokkanna, Ólafur Ragnar Grímsson hæstv. fjmrh. og Jón Baldvin Hannibalsson hæstv. utanrrh., yrðu utan við umræðuna. Við höfum reynt að taka þessa umræðu upp þegar fjallað hefur verið um einstök frv. í Ed. og í Nd., en þá hefur verkstjórn þingsins verið með þeim hætti að ráðherrar hafa ekki getað verið viðstaddir umræður sem vörðuðu sérstaklega þá kafla úr yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem heyrir undir þeirra ráðuneyti. Það er auðvitað mjög mikil ósvífni af hv. 7. þm. Reykv., hæstv. menntmrh., þegar hann er að tala um að við í stjórnarandstöðunni höfum staðið fyrir því að tefja mál. Hitt held ég að sé nær sanni að skapvonska hans á þessari nóttu sé af því til komin að hæstv. forsrh. lýsti því yfir að þeir ráðherrar Alþb. hefðu ekkert um það að segja þótt utanrrh. mundi semja um það við mannvirkjasjóð NATO að hann gerði hagkvæmniathugun á því hvar hagkvæmt þætti og hvort hagkvæmt þætti að varaflugvöllur kæmi hér á landi.
    Það er af þessum sökum sem skapvonskan er í hæstv. menntmrh. Hann heyrði það af munni forsrh. eins og aðrir að þeir alþýðubandalagsmenn hafa ekkert, hreint ekkert um það að segja hvort hagkvæmniathugunin verði gerð. Það er sá skilningur sem forsrh. hefur á því máli og það er ekki undarlegt að hæstv. forseti og hæstv. menntmrh. skuli af þessum sökum vera í þeim ham sem þeir eru núna að ætla sér að krefjast þess að einstakir þingmenn verði hér fram eftir nóttu, þingmenn sem hafa fallist á það við formenn fjh.- og viðskn. Ed. að greiða með sérstökum hætti fyrir því að frv. til staðfestingar á

bráðabirgðalögum verði afgreitt úr fjh.- og viðskn. á morgun, þingmenn sem hafa lagt sig fram um að greiða fyrir því að frv. um lánsfjárlög yrði afgreitt frá Ed. í síðustu viku og hafa með margvíslegum öðrum hætti reynt að koma til móts við forseta þingsins, einmitt vegna þess að þinghald fellur niður í eina viku um næstu helgi.
    Hitt getur vel verið að sú kurteisi sem við höfum sýnt og sá samstarfsvilji sem við höfum sýnt þessari ríkisstjórn og þessum meiri hluta hafi verið á misskilningi reistur og það sé kannski nauðsynlegt til þess að eðlileg vinnubrögð séu í þinginu að maður sé stífari en maður hefur verið í sambandi við rétt þingmanna til að fara sér hægt vil ég segja, fara sér rólega við athugun mála. Við höfum á hinn bóginn reynt að leggja nótt við dag. Það er að engu metið af hæstv. forseta né af hæstv. menntmrh. sem er auðvitað lýsandi fyrir þennan flokk, Alþb., að mörgu leyti.