Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Af tilefni orða sem féllu hér áðan, þ.e. hæstv. menntmrh. spurði hvort þingmenn Sjálfstfl. töluðu fyrir munn stjórnarandstöðunnar. Það gerðu þeir ekki úr stóli áðan, en ég vil nefna að ég kannast ekki við að Kvennalistinn hafi hafnað samvinnu við forseta, hvorki við hæstv. forseta Sþ. né aðra forseta, og uni því heldur ekki að sitja undir þeim ummælum að við höfum tafið umræðu og þar af leiðandi framgang þessa máls. Málið hefur aftur og aftur verið á dagskrá og tekið út af dagskrá, en ég get ekki látið hjá líða að nefna að þegar málið var í annað skipti tekið á dagskrá og reyndar til umræðu var það tekið af dagskrá vegna þess að hæstv. forsrh. þurfti að mæta á fundi á Hótel Borg. Af öðru tilefni hafði hæstv. forseti látið þau orð falla að engar annir og engin störf væru meira áríðandi en þingstörf. Þó ég geti ekki fallist á þann skilning hæstv. forseta gilti úrskurður hæstv. forseta um þetta ekki að þessu tilefni.
    Ég vil auk þess láta þess getið varðandi þetta mál að ég hef sjálf verið þar á mælendaskrá síðan það var fyrst tekið á dagskrá í upphafi þings eftir hlé. Ég lét taka mig af mælendaskrá seint í kvöld vegna þess að mér fannst vera orðið hálf andkannalegt að ætla að fara að taka það á dagskrá um miðja nótt, en nú hefur þeirri umræðu verið frestað og ég mun þá að sjálfsögðu íhuga aftur hvort ég fer á mælendaskrá. Ég lít raunar svo á að margt það sem kom fram í tilkynningu ríkisstjórnarinnar hafi þegar verið rætt undir öðrum málum þó eflaust sé ýmsu ósvarað.