Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins koma fram leiðréttingu vegna ummæla hæstv. menntmrh. Það er ekki rétt að Sjálfstfl. hafi talað hér fyrir munn Borgfl. í þessum umræðum né heldur að það hafi verið hafnað samkomulagi við forseta um störf í deildum. Það er ekki heldur rétt, enda hefur ekki farið hér fram af hálfu Borgfl. nein umræða um þessi mál. Ég vil aðeins ítreka að það mál sem núna er til umræðu hefur verið slitið mjög í sundur þannig að umræðan hefur teygst á langinn. Það hefði verið betra að taka það til umfjöllunar í einum áfanga. Ég ítreka að við í Borgfl. erum að sjálfsögðu tilbúnir til viðræðu um þingstörf hverju sinni, auðvitað með því fororði að það sé gefinn nægur tími til mála sem eru rædd og þau fái þinglega meðferð.