Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu formanns fjh.- og viðskn. þá var unnið vel í morgun að athugun þessa máls. Ég vil þakka fyrir það samstarf en taka fram að ég er ekki sammála því sem formaður nefndarinnar sagði hér áðan í lok sinnar ræðu. Formaður Sambands fiskvinnslustöðva var ekki mættur á fund í morgun heldur hygg ég að formaður nefndarinnar muni eiga við Ágúst Einarsson. (Gripið fram í.) Nei, hann sagði formaður. Ég veit ekki við hvorn hann átti en formaðurinn var ekki þar mættur heldur tveir fulltrúar frá Samtökum fiskvinnslustöðva, svo því sé til skila haldið.
    Herra forseti, maður byrjar auðvitað á því eins og vant er að tala um að þeir ráðherrar sem mál heyra undir séu áhugalitlir um sína málaflokka. Það kom fram hjá hæstv. forsrh. að hlutabréfasjóðurinn mundi nær eingöngu koma til aðstoðar fyrirtækjum í sjávarútvegi. Jafnframt liggur það fyrir að stjórn Samtaka fiskvinnslustöðva átti fund í gær og sendi frá sér ályktun, bæði varðandi Verðjöfnunarsjóðinn sem fjallað er um í frv. og eins varðandi hlutafjársjóðinn. Eigi að síður sér hæstv. sjútvrh. ekki ástæðu til þess að mæta á þennan fund. Það er auðvitað svolítið þreytandi og leiðigjarnt ef hver einasti fundur sem boðaður er í þinginu, sama hvort hann er í Ed., Nd. eða Sþ., er með þeim ósköpum að þeir ráðherrar sem málið heyrir beint undir sjá ekki ástæðu til að mæta. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að sjútvrh. mæti hér, þetta gengur auðvitað ekki. Forseti: Vegna þessara orða þá mun ég óska eftir því að reynt verði að hafa samband við sjútvrh. Hins vegar mun honum hafa verið kunnugt um að beiðni hafi komið fram frá fulltrúum í fjh.- og viðskn. að þessu máli yrði frestað í dag þannig að lítið mundi verða úr umræðu. Nú hefur það breyst og ég mun koma þessu á framfæri.) Út af þessum ummælum hæstv. forseta vil ég aðeins segja að það var talað um það milli mín og forseta í morgun að forsrh. mundi kynna málið og þá var auðvitað við því að búast að einstakir nefndarmenn mundu í leiðinni þurfa að spyrja hæstv. sjútvrh. út úr. Það er auðvitað algjör útúrsnúningur að menn úr þingnefndum eða þingmenn yfirleitt þurfi með löngum fyrirvara, jafnvel með sólarhrings fyrirvara, að taka fram ef þeir ætla að spyrja einstaka ráðherra um eitthvað sem varðar málefni sem á dagskrá eru. Það gengur ekki. Ég skal samt sem áður gera grein fyrir þessu máli og haga mér eins og hæstv. sjútvrh. sé hér í deildinni en vænti þess að hæstv. forsrh. svari þeim fyrirspurnum sem fram koma.
    Ég vil fyrst aðeins víkja að því að við í stjórnarandstöðunni fórum fram á það við formann nefndarinnar að hann athugaði hvort ekki væri grundvöllur fyrir því að koma til móts við Samtök fiskvinnslustöðva vegna þess að sjútvrh. hafði lýst því yfir að ríkissjóður mundi greiða þær 800 millj. kr. sem Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins tók að láni vegna verðuppbóta á síðasta ári og þessu og talið er að dugi fram í maímánuð. Ég hygg að ég fari rétt með að um áramót hafi Verðjöfnunarsjóður átt 10

millj. kr. þannig að ekki var hann nú borgunarmaður fyrir þessari 800 millj. kr. lántöku nema síður sé.
    Ég vil einnig að það komi alveg skýrt fram að það voru ekki aðeins fulltrúar Samtaka fiskvinnslustöðva sem lýstu því afdráttarlaust yfir að hæstv. sjútvrh. hefði gefið yfirlýsingu um að það kæmi í hlut ríkissjóðs að greiða þessar 800 millj. kr. heldur tók Árni Benediktsson, fulltrúi Sambands ísl. samvinnufélaga, undir þetta og talaði um að sjútvrh. hefði sagt opinberlega að 800 millj. féllu á ríkissjóð. Þetta var mat Árna Benediktssonar og aðrir fulltrúar fiskvinnslunnar sögðu að það yrði trúnaðarbrestur milli greinarinnar og stjórnvalda ef ekki yrði við þetta staðið.
    Ég vil í framhaldi af þeirri ályktun, sem formaður nefndarinnar las upp hér áðan, lesa upp fundargerð frá 268. fundi Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins frá 30. sept. sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Föstudaginn 30. sept. 1988 klukkan 10.25 kom stjórn Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, frystideild, til fundar í húsakynnum Seðlabanka Íslands. Til fundarstarfa voru mættir þeir Árni Kolbeinsson, Bjarni Bragi Jónsson, Kristján Ragnarsson, Hólmgeir Jónsson, Benedikt Valsson, Árni Benediktsson og Friðrik Pálsson.
    Árni Kolbeinsson formaður setti fund og skýrði síðan frá nýsettum bráðabirgðalögum um aðgerðir í efnahagsmálum. Formaður ræddi nokkuð um væntanlega lántöku Verðjöfnunarsjóðs samkvæmt bráðabirgðalögunum og taldi það ákaflega líklegt að ríkið mundi greiða að verulegu leyti þetta lán sem Verðjöfnunarsjóður tekur enda hafi sjútvrh. lýst slíku yfir. Sagðist formaður leggja til að lánið verði tekið hjá Seðlabankanum, á það verði dregið eftir þörfum og lánskjör verði þau sömu og sjóðurinn nýtur nú hjá Seðlabankanum. Spurðist formaður fyrir um hug fundarmanna til þessarar lántöku.
    Hólmgeir Jónsson sagðist mótfallinn því að taka lánið. Verðjöfnunarsjóður væri sameign þeirra sem að honum stæðu og hingað til hefðu ákvarðanir um viðmiðunarverð verið teknar í sambandi við fiskverðsákvarðanir en nú væri fiskverð fast til 15. febr. á næsta ári.
    Kristján Ragnarsson tók mjög í sama streng og sagði þessa lántökuútgreiðslu
misnotkun á sjóðnum.``
    Ég vil rétt skjóta því inn, herra forseti, vegna þessarar afstöðu Kristjáns Ragnarssonar, að hann lýsti því yfir við afgreiðslu bráðabirgðalaganna í fjh.- og viðskn. á jólaföstu að eftir þá meðferð sem sjóðurinn hefði fengið hjá hæstv. ríkisstjórn væri auðvitað útilokað annað en að reglum sjóðsins yrði breytt í grundvallaratriðum þar sem sjómenn og útgerðarmenn gætu undir engum kringumstæðum fellt sig við að framkvæmdin á reglum Verðjöfnunarsjóðs yrði svo mjög í ósamræmi við upphaflegan tilgang sjóðsins eins og aðgerðir ríkisstjórnarinnar nú lýstu. Síðan segir í fundargerðinni, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Friðrik Pálsson upplýsti að sínir umbjóðendur hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna teldu þessa lántöku

ófæra leið en í ljósi yfirlýsingar sjútvrh. um að engar líkur væru á að lánið greiddist til baka með peningum í gegnum Verðjöfnunarsjóð hefðu þeir Friðrik og Árni Benediktsson ákveðið að leggja fram sameiginlega tillögu um að ríkisstjórnin heimilaði að reikna upp viðmiðurnarverðið allt frá 1. jan. sl. Formaður taldi á því öll tormerki að sjóðsstjórn í heild gerðist einhver milligönguaðili á milli sölusamtakanna og ríkisstjórnar en sagði hins vegar sjálfsagt að koma efni tillögunnar á framfæri við ríkisstjórn. Formaður lagði því til að till. þeirra Friðriks Pálssonar og Árna Benediktssonar yrði bókuð og mundi hann koma henni á framfæri í því formi. Sættust menn á þessa málsmeðferð.
    Bókun Friðriks Pálssonar og Árna Benediktssonar: Ríkisstjórnin hefur heimilað frystideild Verðjöfnunarsjóðs að taka lán að upphæð 800 millj. kr. til að greiða verðbætur á freðfisk. Mikill og almennur taprekstur hefur verið á frystihúsum á landinu sl. missiri og er þessi lántaka liður í að reyna að bæta þar úr. Til þess að ná þeim bata sem ná á með þessu viðbótarfjármagni munu vinnslufulltrúarnir óska eftir því við ríkisstjórnina að heimilað verði að breyta ákvörðunum um viðmiðunarverð og verðjöfnun frá 1. jan. 1988. Bar þá formaður undir atkvæði heimild til handa sjóðsstjórn að taka lán hjá Seðlabanka Íslands á þeim kjörum sem sjóðurinn nýtur nú hjá bankanum og muni dregið á lán þetta eftir þörfum.
    Tillagan var samþykkt með atkvæðum Árna Kolbeinssonar, Þórðar Friðjónssonar og Árna Benediktssonar og með meðfylgjandi bókun frá Friðriki Pálssyni og með hjásetu Bjarna Braga Jónssonar um lánskjör. Kristján Ragnarsson og Hólmgeir Jónsson greiddu atkvæði gegn tillögunni.
    Bókun Friðriks Pálssonar: Ríkisstjórnin hefur valið millifærsluleið til að reyna að bæta kjör fiskvinnslunnar, þar á meðal hefur hún heimilað frystideild Verðjöfnunarsjóðs að taka lán að upphæð 800 millj. kr. til að greiða verðbætur á freðfisk. Við þau alvarlegu rekstrarskilyrði sem frystingin býr nú við eru frekari lántökur henni til handa ekki til bóta. Fordæmi eru fyrir því að lán til annarra deilda Verðjöfnunarsjóðs hafi ekki verið endurgreidd. Með vísan til þess og þeirra ummæla sjútvrh. að ólíklegt sé að lánið verði endurgreitt, enda hafi ríkisstjórnin þegar gert ráðstafanir til þess að leggja til hliðar fjármagn til að taka það á sig, greiði ég atkvæði með því að það verði tekið. Fleira ekki gert, fundi slitið.``
    Svo mörg eru þau orð.
    Það kom jafnframt fram á fundi fjh.- og viðskn. á jólaföstu, ef ég man rétt, að samsvarandi yfirlýsing hefði verið gerð á fundi Sjómannasambandsins. Ég vil af þessu tilefni minna á að á sínum tíma, þegar rétt ein vinstri stjórnin var hér í landinu eins og nú, var tekin ákvörðun um að sérstakt lán yrði tekið. Ég hygg að það sé rétt munað hjá mér að það hafi verið vegna loðnunnar, þegar loðnubresturinn var, og ég hygg að það sé líka rétt að í kröfum vegna vanskila á lánum með ríkisábyrgð og lánum ríkissjóðs hafi staðið nú um síðustu áramót skuld upp á 230 millj. 455 þús. kr.,

sem ríkisstjórnin á sínum tíma lýsti yfir að mundi falla á ríkissjóð. Nú hygg ég að hæstv. forsrh. --- nú man ég ekki hvort hann var sjútvrh. á þeim tíma sem þetta lán var tekið en hitt veit ég með vissu að um það komu yfirlýsingar hér á Alþingi að lán þetta yrði ekki greitt af loðnunni, heldur skyldi lánið greitt úr ríkissjóði. Sá kostur hefur nú verið valinn að lánið er hvorki fært upp í samræmi við verðtryggingu né gert ráð fyrir vöxtum af þessu láni, heldur virðist ríkisstjórnin stefna að því að halda áfram að greiða lánið niður án þess að það sé uppfært þannig að það hverfi á endanum og mönnum finnist það þá kannski ekki svo mikið. Auðvitað er þetta leið. Auðvitað er hægt að hugsa sér það að fara í einhvern feluleik með þær 800 millj. kr. sem greiddar hafa verið úr Verðjöfnunarsjóðnum til frystingarinnar núna. Og auðvitað er hægt að skella skollaeyrum við því þó svo að fulltrúar frystingarinnar og fulltrúar fiskverkenda hafi litið svo á að það stæði að ríkissjóður ætti að greiða þetta lán. Ég vil þó leggja áherslu á að eins og sakir standa nú eru engar horfur á því. Hitt hygg ég að slík aðgerð, að láta lánið drengilega og hiklaust falla á ríkissjóð, eins og lýst hefur verið yfir, sé almenn aðgerð sem komi þeim fyrirtækjum vel sem standa í rekstri. Þessi aðgerð er þannig vaxin að þau fyrirtæki sem nú eru í rekstri njóta lántökunnar. Þó svo að eitthvað batnaði í ári þá mundu greiðslurnar
auðvitað falla á allt, allt önnur fyrirtæki við aðrar aðstæður að sumu leyti. Sjálfur taldi forsrh. það í tugum hér áðan hversu mörg fyrirtæki í sjávarútvegi séu í raun og veru gjaldþrota núna að mati Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina, að mati þeirra sem stjórna og stýra ,,Stefánssjóði``.
    Af þessum sökum höfum við þrír þingmenn, ég ásamt Eyjólfi Konráði Jónssyni og Birnu K. Lárusdóttur, lagt fram brtt. þess efnis að 3. mgr. 1. gr. frv. hljóði svo:
    ,,Lán skv. 1. mgr. þessarar greinar skal undanþegið stimpilgjaldi og endurgreiðist úr ríkissjóði.``
    Þetta er auðvitað flutt vegna þess að við teljum nauðsynlegt að staðið verði við þau fyrirheit sem ríkisstjórnin hefur gefið fiskvinnslunni, og vörum jafnframt við því að sami háttur verði hafður á og við loðnuna, að lánið verði látið standa í Ríkisábyrgðasjóði lon og don í skrá yfir vanskilalán, löngu eftir að lánið á lögum samkvæmt að vera greitt úr ríkissjóði.
    Ég vil í framhaldi af þessu og áður en ég kem að öðrum brtt. við frv. aðeins minna á það að hæstv. forsrh. segir svo í yfirlýsingu sinni í efnahagsmálum, með leyfi hæstv. forseta, --- og er auðvitað mjög bagalegt svo ekki sé meira sagt, að sjútvrh. skuli ekki geta verið viðstaddur þegar við ræðum hér um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, stöðu sjávarútvegsins, Atvinnutryggingarsjóðinn, hlutabréfasjóðinn og þau mál önnur sem varða það mál sem nú er til umræðu. Það er auðvitað afskaplega bagalegt, svo ekki sé meira sagt. ( Forseti: Ég hef komið boðum um beiðni hv. þm. til sjútvrh. og ég vonast til þess að hann komi fljótlega.) Það er eina tilbreytingin í þessum eilífu

fjarvistum ráðherra að forsetar komast þó svo misjafnlega að orði. Forseti Sþ. segir: ,,Hann er á leiðinni.`` Það er náttúrlega vegna þess að forseti Sþ. er mjög listrænn og man eftir þessu gamla fallega, þjóðlega lagi ,,Alltaf á leiðinni``. --- En í þessari skýrslu segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á sl. ári er talið að eigið fé í sjávarútvegi hafi rýrnað um u.þ.b. helming eða fallið úr u.þ.b. 26 milljörðum í 13 milljarða kr.``
    Fulltrúar Samtaka fiskvinnslustöðvanna afhentu okkur nefndarmönnum í morgun línurit og súlurit yfir þessa miklu rýrnun á eiginfjárstöðu sem hefði orðið í sjávarútveginum og fulltrúi Sambands íslenskra samvinnufélaga, Árni Benediktsson, gekk mun lengra en þarna er gengið vegna þess að hann sagði að ef verðbreytingafærslur í sjávarútvegi yrðu teknar út en eignir sjávarútvegsins færðar upp með SDR í staðinn, þá væri eigið fé í sjávarútveginum upp urið ef talað væri um eignir og skuldir sjávarútvegsins í heild.
    Þetta var lýsing Árna Benediktssonar, fulltrúa Sambands íslenskra samvinnufélaga, á fundi fjh.- og viðskn. í morgun. Og það var samdóma álit hans og annarra þeirra sem mættu í morgun að það væri síður en svo að það væri komin einhver rekstrarfjárstaða fyrir sjávarútveginn, og mun ég víkja nánar að því síðar, en auðvitað taldi enginn þeirra að um neitt slíkt væri að ræða. En því vek ég athygli á þessu, og sakna þess að hæstv. sjútvrh. skuli ekki vera við, að ég heyrði ekki betur en að hann hefði einmitt talað um það á fundi Sambands fiskvinnslustöðvanna á Hótel Sögu 10. febr. sl. að þessi rýrnun á eiginfjárstöðunni í sjávarútveginum, sem getið væri um í yfirlýsingu forsrh. í efnahagsmálum, væri langt, langt umfram það sem rétt væri. Og af þessum ástæðum er nauðsynlegt að fá um það upplýsingar hjá hæstv. forsrh. hvort hann standi enn þá við það að rýrnunin í sjávarútveginum á sl. ári sé 13 milljarðar kr. eða helmingurinn af því sem sjávarútvegurinn var talinn eiga í ársbyrjun. Telur hæstv. forsrh. e.t.v. að það sé sannari mynd sem Árni Benediktsson gaf, að eigið fé í sjávarútvegi væri í rauninni upp urið ef undan væru skildir nokkrir gamlir bátar og einstaka fyrirtæki? Eða telur hæstv. forsrh. að eigið fé í sjávarútvegi hafi kannski rýrnað um tíunda hluta þess sem hann sjálfur gerði ráð fyrir í sinni skýrslu? Það yrði mjög fróðlegt að fá um þetta upplýsingar.
    Ég vil líka að það komi fram, vegna þess að hæstv. forsrh. vitnaði enn í það í sambandi við afgreiðslur á lánsumsóknum í Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina, að þar hefði fyrirtækjum verið hafnað á þeim forsendum að þau gætu ekki haft rekstrarforsendur, þó svo að þau fengju skuldbreytingu. Í sömu andrá sagði hæstv. forsrh. að reynslan hefði sýnt það að allar þessar gengisfellingar á liðnum árum hefðu ekkert komið sjávarútveginum né einstökum fyrirtækjum hans til góða, þeim sem skulduðu mikið, og talaði um það í því samhengi að til þess að koma til móts við þau fyrirtæki væri nauðsynlegt einmitt að skuldbreyta og um leið auka eigið fé fyrirtækjanna.

    Nú veit ég um það að fyrirtækjum hjá Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina hefur verið hafnað þó svo að þau hafi verið innan þeirra marka sem talað er um í sambandi við tryggingar sem auðvitað vekur til umhugsunar um það hvort þau vinnubrögð sem stjórn þess sjóðs viðhefur séu í rauninni forsvaranleg. Er það hugsanlegt að það gæti pólitískra áhrifa í þeirri stjórn? Og er hugsanlegt að það sé m.a. ástæðan fyrir því, eða er kannski hugsanlegt að ástæðan fyrir því að hæstv. forsrh. er fallinn frá
undirnefndinni, sem átti að tryggja hin faglegu vinnubrögð þegar hann talaði um Atvinnutryggingarsjóðinn, þegar hann hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að þessi fína undirnefnd, sem þá var sett upp, skuli ekki gilda í sambandi við hlutafjársjóðinn? Fína undirnefndin á ekki að vera þar. Og hvernig í ósköpunum stendur á því? Hér kom fjmrh. um daginn, hann talaði alltaf um þessa fínu undirnefnd. Og þegar við í Sjálfstfl. vorum að tala við fulltrúa stjórnarflokkanna hér fyrir jólin --- það var að vísu ekki langur fundur --- þá voru þeir alltaf að tala um það, þrír ráðherrar, hvað þetta væri allt saman fínt og flott og fágað. Hins vegar værum við, sem ættum sæti í stjórn Byggðastofnunar, pólitískt spilltir og okkur væri gjarnt að meta hlutina út frá óheilbrigðum forsendum.
    Þess vegna held ég að það sé alveg nauðsynlegt að forsrh. geri miklu gleggri grein fyrir því en hann gerði hér áðan af hverju trúin á þessa fínu nefnd er dottin niður. Það má líka vel vera að hæstv. forsrh. sé ekki alveg nákvæmlega sama hvaða fyrirtæki koma til greina í sambandi við hlutafjársjóðinn. Forsrh. talar um að það séu 15--20 fyrirtæki sem séu burðarásar í byggðarlögum. Ég hef heyrt aðrar tölur nefndar í fjh.- og viðskn. En ég spyr: Hvaða rök eru fyrir því að ef fyrirtæki er burðarás í sveitarfélagi, í byggðarlagi þá eigi að hjálpa því en kannski ekki algjörlega sambærilegu fyrirtæki á öðrum stað sem nákvæmlega eins stendur á fyrir að því leyti að eignir og skuldir eru svipaðar, afkomumöguleikar svipaðir og jafnmargt fólk sem er hjá báðum fyrirtækjunum þannig að fjöldi atvinnulausra hjá báðum þessum fyrirtækjum verður svipaður? Hvers vegna á að gera upp á milli þessara fyrirtækja? Og hvernig stendur á því að forsrh. talar um það að við því sé að búast að þessi fyrirtæki verði í stórum dráttum úr sjávarútvegi þegar við vitum það að fyrirtæki, sem kannski eru ekki einu burðarásarnir, eins og ullariðnaðurinn á Akureyri, standa mjög höllum fæti? Hvernig stendur á því að forsrh. gefur sér það fyrir fram að ullariðnaðurinn skuli ekki koma til greina í sambandi við hlutafjársjóðinn? Ég veit þó ekki um mörg fyrirtæki, og kannski ekkert, sem meiri ástæða væri einmitt til að hjálpa með því að auka eigið fé en einmitt Álafoss--Gefjun, en einmitt ýmis önnur fyrirtæki í ullariðnaði og saumaskap víðs vegar um landið þar sem kannski bróðurparturinn af vinnandi konum sækir lífsviðurværi sitt.
    Í sambandi við 4. gr. þessa frv. vil ég taka það fram að það er mjög mikil sýndarmennska þegar

hæstv. forsrh. orðar brtt. sína svo:
    ,,Forsrh. skipar átta menn í stjórn Atvinnutryggingarsjóðs, þar af þrjá að höfðu samráði við formenn þingflokka.`` Þetta er ekki skuldbindandi. Hæstv. forsrh. gat alveg sleppt þessari viðbót. Ef hann vildi gat hann haft samráð við hvaða mann sem var, og hefur ugglaust gert það, um það hvaða menn hann skipi í stjórn Atvinnutryggingarsjóðs ef hann á annað borð hefur skipunarvald sitt með þeim hætti að hann er sjálfráður um það hverja hann skipar. Hitt lýsir aftur geðleysi meiri hluta þessa þings, þeirra sem fylgja ríkisstjórninni, að þeir skuli láta forsrh. komast upp með það að haga sér með þessum hætti sem kallar á grunsemdir um að það sé haft rangt við, að það sé pólitísk spilling sem eigi sér stað í sjóðnum og að það sem þar gerist þoli það ekki að fulltrúar frá öllum stjórnmálaflokkum komi að málinu. Það er líka af þeim sökum sem hæstv. forsrh. hefur kosið um hlutabréfasjóðinn að honum skuli pólitískt stýrt, að hann sjálfur, að hans gæðingar geti ákveðið það hvaða menn fari þarna inn, og að þeir skuli þurfa að spyrja forsrh. hvað þeir megi gera, að þeir skuli fá að spyrja fjmrh. hvað þeir megi gera og að þeir skuli fá að spyrja utanrrh. hvað þeir megi gera. Svo get ég vel bætt því við, úr því að hann segir að það sé gott að hafa tengingu við Byggðasjóð, að þessi tenging er komin fram og það er ákveðið að það verði varaþingmaður Borgfl., staðgengill Alberts Guðmundssonar, sem hafi með að gera umsjón hlutafjársjóðsins eftir að búið er að setja lögin, Benedikt Bogason. ( Gripið fram í: Hann verður formaður.) Það er því alveg greinilegt að þarna er haldið áfram þeim pólitísku hrossakaupum sem áttu sér stað í sambandi við Atvinnutryggingarsjóðinn á sínum tíma þegar keyptur var flokkur Jafnréttis og félagshyggju, og nú á að fara að vera í gruggugu vatni Borgfl. (Gripið fram í.) gruggugu vatni Borgfl. (Gripið fram í.) En auðvitað kemur þetta ekki neinum á óvart. Það verð ég að segja að þá er heiðríkjan mest yfir forsrh. þegar hann er að veiða í gruggugu vatni.
    Við hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson og Birna K. Lárusdóttir leggjum það til að upphaf 8. gr. verði svo:
    ,,Byggðastofnun, Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina og hlutafjársjóður Byggðastofnunar skulu undanþegnir öllum opinberum gjöldum og sköttum hverju nafni sem nefnast, þar með töldum lántökuskatti.``
    Það þarf auðvitað ekkert að fara mörgum orðum um það að sum fyrirtæki hafa fengið fyrirgreiðslu úr Byggðasjóði. Ég get nefnt sem dæmi t.d. frystihúsið við Suðureyri í Súgandafirði. Lán Byggðasjóðs eru opinber lán og eru prentuð með ársskýrslum þannig að ég lít ekkert á þetta sem neitt leyndarmál. Það fyrirtæki hefur nú fengið fyrirgreiðslu úr Byggðasjóði. Auðvitað ber því
fyrirtæki að borga 6% lántökugjald. Það eru 60 þús. kr. af milljón. Það eru 600 þús. kr. af 10 milljónum. Það er 1,2 millj. af 20 millj. En ef t.d. þetta sama frystihús hefði fengið lán úr Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina, þá þurfti ekki að borga neitt

lántökugjald. Þó er þetta hvort tveggja angi af því sama, m.ö.o. þeirri almennu og sértæku skuldbreytingu sem nú á sér stað innan sjávarútvegsins, og af þeim sökum eru engin efnisleg rök fyrir því að hið sama eigi ekki að gilda um lán úr Byggðasjóði og lán úr Atvinnutryggingarsjóði að þessu leyti.
    Við 9. gr. gerum við sömu þingmenn þá brtt. að við Byggðastofnun skuli starfa hlutafjársjóður sem lúti stjórn hennar og er í samræmi við það felldur niður síðari helmingur 2. mgr. þannig að hún hljóði svo: Hlutafjársjóður Byggðastofnunar skal hafa sjálfstæðan fjárhag.
    Ég legg þetta hér með formlega fram. Ég þarf auðvitað ekki að hafa mörg orð um þetta. Sú var tíðin að menn vildu stjórna eins og ríkisstjórnin stjórnar núna, koma sínum eigin gæðingum í allar stjórnir, geta hyglað. Ég man eftir því að Magnús Jónsson, sá ágæti maður sem var án efa mesti skörungur í þessari þingdeild á sjöunda áratugnum, hafði oft orð á því þegar hann var að tala fyrir norðan að framsóknarmenn væru þannig gerðir að þeir gætu ekki hugsað sér að hlutirnir gengju almennt fyrir sig, væru almennar ráðstafanir. Þeim liði best ef fyrirtækin væru í basli og svo yrðu menn að koma til Reykjavíkur og þá væru framsóknarmenn að gera forstjóranum og fólkinu greiða, alltaf að vera að gera þeim greiða. Það er þessi hugsunarháttur sem er svo ríkur hjá þessari ríkisstjórn, að passa upp á það að hin almennu skilyrði í sjávarútveginum séu ekki fyrir hendi en á hinn bóginn skapist grundvöllur fyrir því að nú sé hægt að segja á Súgandafirði, nú sé hægt að segja á Ólafsfirði, nú sé hægt að segja í kjördæmi Halldórs Ásgrímssonar: Við erum búnir að koma fyrirtækjunum á hausinn --- það er að vísu alveg rétt --- en við ætlum ekki að fara með þau í burtu, við ætlum að hjálpa ykkur til þess að eignast þau aftur með því að við ætlum að láta okkar menn í Reykjavík skipa menn í stjórn fyrir ykkur. Þið fáið engu að ráða um það hverjir þeir eru sem hlutabréfasjóðurinn skipar í stjórnina og ekki heldur Byggðasjóður eða Fiskveiðasjóður eða Landsbankinn sem eiga að leggja til peningana í hlutabréfasjóðinn, þeir eiga ekki að fá að ráða neinu um það, þeir sem kaupa þessi svokölluðu aðildarbréf, hverjir verði í skjóli þeirra hlutabréfa sem hlutabréfasjóðurinn eignast kjörnir í stjórn hlutafélaganna. Það var yfirlýst af Jóni Sveinssyni, fulltrúa forsrh., á fundi í morgun að heimamenn fengju ekkert um það að segja og ekki þeir sjóðir sem legðu til peningana.
    En það er líka alveg rétt að það er gott að hafa einhvern fulltrúa fyrir sig til þess að minna á gjafirnar. Það getur verið ágætt. Einhvern tímann var sagt: ,,Drottinn gaf og drottinn tók``. En þetta er öfugt hjá þessari ríkisstjórn --- drottinn tók og drottinn gaf --- og tekur svo aftur því að auðvitað er grundvöllurinn ekki fyrir hendi og auðvitað er hálfbroslegt þegar hæstv. forsrh. er að telja núna. Við erum búnir að telja eitt, tvö, þrjú, fjögur, fimm, sex, sjö, eru það 37 eða 79 fyrirtæki sem er búið að bjarga og leysa málin hjá?

    En hallareksturinn heldur bara áfram, hæstv. forsrh., og hvað segja fulltrúar fiskvinnslunnar um það? Þeir segja að það sé lágmark að fella gengið um 12--13% eða svo, 10--13% og þeir segja að það þýði ekki annað en horfast í augu við það að þessu verður að fylgja sú kalda kjaraskerðing sem slíkri gengisfellingu fylgir. Þeir segja meira að segja sumir og ég heyrði ekki betur en fulltrúi Sambandsins tæki jafnvel enn dýpra í árinni þegar hann sagði að eiginfjárstaða fyrirtækja í sjávarútvegi væri orðin svo hörmuleg að gengisfellingin sem nú þyrfti til að koma yrði að vera mjög mikil. (Gripið fram í.) Það var Árni Benediktsson. Þannig er nú ástandið. Og auðvitað eru þetta rökin fyrir því hvers vegna Samtök fiskvinnslustöðvanna geta ekki fallist á hugmyndina um hlutafjársjóð. Þeir gera sér grein fyrir því að þó svo að nú takist að koma á lappirnar einhverjum af þessum fyrirtækjum sem hafa stöðvast með þessu fé að sunnan. ( Gripið fram í: Að sunnan?) Að sunnan, með fénu að sunnan. Þó að hægt sé að koma þeim á lappirnar með fénu úr hlutabréfasjóðnum og búa þannig til eitthvað nýtt eigið fé inni í þessum fyrirtækjum, þá kemur auðvitað að því að önnur fyrirtæki standa verr í staðinn, og þegar afkoma sjávarútvegsins er alltaf reiknuð út frá meðaltalinu og alltaf þannig að helst verði að tapa einhverju er það auðvitað fyrirsjáanlegt að þau fyrirtæki sem á hverjum tíma standa tæpast í samkeppninni muni tapa og þar muni féð næst ganga til þurrðar. Þau fyrirtæki sem nú fá skuldbreytinguna í Atvinnutryggingarsjóðnum munu því, ef verulegt fé kemur inn í hin fyrirtækin með þessum hlutafélagasjóði, standa verst og þá mun eignaupptakan verða hjá þeim fyrirtækjum næst. Það er auðvitað alveg laukrétt. Og það var þess vegna sem einn af þessum mönnum sagði: Við viljum ekki láta taka þannig frá okkur peningana, eignirnar í okkar fyrirtækjum sem mörg hver eru búin að starfa í áratugi og hafa skilað góðum árangri.
    Það er auðvitað alveg hárrétt, sem ég heyrði að var sagt hér við hliðina á
mér, að eitt af þessum fyrirtækjum sem hafa átt í erfiðleikum er á Ólafsfirði. Ástæðurnar fyrir því eru margvíslegar. Kannski fyrst og fremst sú að Ólafur bekkur var á árunum 1986--1987 erlendis í klössun mjög lengi, ég man ekki hversu marga mánuði. Það stóð yfir mjög lengi og skipið var afhent miklu síðar en samið hafði verið um og skipti mánuðum. Þetta voru þau ár sem sjávarútvegurinn stóð sig hvað best og af þessum sérstöku ástæðum stendur hraðfrystihús Ólafsfjarðar verr en ella mundi vegna hráefnisskortsins í uppsveifluárinu. En eins og sjávarútvegurinn er rekinn mega auðvitað fyrirtækin ekkert við því. Þannig að auðvitað gera menn sér það ljóst þar norður frá, eins og menn gera sér það ljóst t.d., svo að ég taki annað byggðarlag við Eyjafjörð, á Grenivík. Þeir tóku þann kostinn þar að selja Núpinn og reyna með þeim hætti að koma fótunum undir sína eiginfjárstöðu. Nú sjá þeir fram á það að hlutafjársjóðurinn mun stöðva alla hreyfingu í fiskiskipastólnum, þannig að þeim kemur í koll, Grenvíkingum, að þeir reyndu að treysta

undirstöður síns fyrirtækis með því að selja Núpinn á sl. hausti, vegna þesa að það er ekki hlaupið í að fá annað skip núna þegar hlutabréfasjóðurinn beinlínis hefur það fyrir tilgang að passa upp á það að skipin fari ekki á milli staða og leggur inn meiri og meiri peninga eftir því sem fyrirtækið stendur verr. Þetta sjá auðvitað allir menn og auðvitað þýðir ekkert að vera að ræða það að við séum að tala um eitthvað sem sé eina fyrirtækið á staðnum eða eitthvað svoleiðis. Það eru auðvitað mörg fyrirtæki í sjávarútvegi og þau eru á mörgum stöðum og auðvitað hefur verið samkeppni milli einstakra staða um þessi fyrirtæki.
    Þeir komu til okkar í morgun, fulltrúar frá Kaupþingi og Fjárfestingarfélaginu, Pétur Blöndal, Gunnar Helgi Hálfdánarson, Gunnar Baldvinsson og það voru mjög skemmtilegar umræður sem menn áttu þar einmitt um stöðuna í atvinnulífinu og þeir fór ekkert dult með það að hlutafjársjóður, eins og hann er hér skilgreindur, er alveg andstæða þess sem er líklegt til að gefa góðan árangur. Hlutabréfasjóðurinn sem rekinn er í tengslum í Iðnaðarbankann gefur hærri ávöxtun en kannski nokkur önnur verðbréfaviðskipti. Hann nýtur skattfríðinda og það er m.a. skýringin á því. Sá hlutabréfasjóður er til þess fallinn að hjálpa einstaklingum að eignast hlutabréf í arðsömum fyrirtækjum og auðvitað geta menn hugsað sér að kaupa aðildarbréf í slíkum sjóði. Sá sjóður sem hér er um að ræða er alveg öfugs eðlis. Hlutverk hans er að leggja fram fé í fyrirtækjum sem að mati fulltrúa ríkisstjórnarinnar í Atvinnutryggingarsjóði hafa ekki rekstrargrundvöll. Það er hið yfirlýsta markmið. Síðan segir að ef viðkomandi fyrirtæki eigi samkvæmt nánari skilgreiningu fyrir skuldum skuli hlutabréfasjóður koma til kastanna með það sem þeir kalla verðtryggð --- og þá má leggja fram fé sem þeir segja að sé ríkistryggt en án vaxta, en að öðrum kosti verða aðildarbréfin óríkistryggð.
    Auðvitað sjá menn að hlutabréfasjóður af þessu tagi er skyndiráðstöfun og í grundvallaratriðum gagnstæður þeim hugmyndum sem við sjálfstæðismenn fluttum með Kvennalista og þær gerðu grein fyrir á sínum tíma og vísa ég til þeirra en vil hins vegar taka það fram, herra forseti, að það er svolítið undarlegt, þegar fulltrúar ríkisstjórnarinnar gera grein fyrir hugmyndum sínum um hlutafjársjóðinn, að þeir, hvort sem um er að ræða formann fjh.- og viðskn. eða einstaka ráðherra, skuli ævinlega vera að gera því skóna að þeir séu að framkvæma hugmyndir sem á sínum tíma voru settar fram af Kvennalistanum. Það er auðvitað hálfundarlegt að maður skuli þurfa að útskýra það fyrir nánast hverjum einasta manni sem kemur á nefndarfund að það sé grundvallar- og eðlismunur á þessum hugmyndum. Meira þrek væri í því fólgið að reyna að standa á sínum hugmyndum og sínum málstað eins og hann er en ekki að vera að flækja aðra í þetta.
    Það kom fram nokkur misvísun hjá einstökum mönnum um það hvernig mál stæðu hjá Atvinnutryggingarsjóði og ég tel nauðsynlegt að þær upplýsingar komi hér fram. Eins og sakir standa er

Atvinnutryggingarsjóður búinn að afgreiða um 80 fyrirtæki af 200 og hann gerir ráð fyrir að hafa alls til hagræðingar á þessu ári um 500 millj. kr. en til skuldbreytinga um einn milljarð og 50 millj. kr. Af þessu fé hefur þegar verið eytt 135 millj. í hagræðingu en um 535 millj. vegna skuldbreytinga, þannig að sjóðurinn á eftir vegna skuldbreytinga til ráðstöfunar á þessu ári um 515 millj. kr. Sjóðurinn á von á því að sum þeirra fyrirtækja sem hann hefur þegar synjað muni aftur koma til meðferðar hjá sjóðsstjórninni. Hann talar um 10--12 fyrirtæki í því samhengi og gerir þá ráð fyrir að það séu í kringum 130 fyrirtæki sem sjóðurinn eigi eftir að afgreiða, en þeir segjast ekki hafa gert sér grein fyrir því hvort meira fjármagn þurfi fyrir þau fyrirtæki en þau hin sem búið er að afgreiða. Þetta segir okkur á mæltu máli að verulegt fé skortir á þessu ári til þess að geta annast þá skuldbreytingu sem hæstv. forsrh. er svo mjög að guma af. Það er m.ö.o. búið að afgreiða um 80 fyrirtæki, eyða í skuldbreytingu þeirra vegna um 535 millj. kr. Það er eftir að afgreiða um 120--130 fyrirtæki, en hins vegar eru ekki eftir nema 515 millj. kr. til þeirra þarfa. Það er því algjörlega fyrirsjáanlegt að þeir peningar, sem hér er gert ráð fyrir í
Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina, nægja hvergi nærri til þess að mæta þeim fyrirheitum sem ríkisstjórnin hefur gefið einstökum byggðarlögum og stöðum í sambandi við þessa skuldbreytingu og í sambandi við þessi mál yfir höfuð að tala. Fyrir svo utan þessa fjárhæð hér stendur svo eftir hinn sérstaki vandi trilluútgerðarinnar, smábátaútgerðarinnar, en það er metið að um 500 millj. kr. þurfi til þess að leysa þar úr brýnasta vandanum og væri fróðlegt að heyra hvað hæstv. forsrh. segir í fyrsta lagi um það hvernig eigi að mæta vanda smábátaútgerðarinnar og í öðru lagi hvort ríkisstjórnin hafi í hyggju að afla lánsheimildar fyrir hálfum milljarði til viðbótar, sem er algjört lágmark eins og málið liggur fyrir nú varðandi Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina.
    Ég vek athygli á því að í grg. frv. er talað um að aðildarbréf hlutafjársjóða eigi að vera gengistryggð en hins vegar er talað um það í 9. gr. í lögunum að ríkissjóður eigi að tryggja verðbætt nafnvirði hlutdeildarskírteina. Nú hygg ég að þetta sé ekki það sama, gengistrygging og verðtrygging, og auðvitað getur gengistryggingin horft misjafnlega við. Ef við mundum t.d. hugsa okkur Englending á árinu 1987, í árslok, sem hefði fengið spurnir af því að íslenska krónan væri næststerkasti gjaldmiðill veraldar, má vera að slíkum Englendingi dytti í hug að verðtryggja pundið kannski með íslenskri krónu, ekki skal ég um það segja, en hitt er víst að gengi gengur upp og niður en verðtryggingin ekki. Þannig að ég hygg að það sé vafasamt, svo að ekki sé meira sagt, að hægt sé í reglugerð að breyta þessu ákvæði eins og reglugerðin gerir ráð fyrir.
    Þá vil ég í annan stað vekja athygli á því að hlutdeildarskírteini er í rauninni ekki annað en skuldabréf. Það kom skýrt fram hjá Jóni Sveinssyni að forsrn. liti þannig á og að það væri mat þeirra

lögfræðinga sem um þetta mál hefðu fjallað og hefðu staðið að samningu þessa frv. Og eftir að hafa skoðað reglugerðina, íhugað reglugerðina, einstök atriði hennar, og hversu með hlutdeildarskírteinin verður farið, er auðvitað alveg ljóst að þetta eru skuldabréf, enda ekki tilgangurinn að þessum hlutdeildarbréfum fylgi neinn réttur annar en sá að mega e.t.v. einhvern tíma síðar kaupa hlutabréf í þeim fyrirtækjum sem hlutafjársjóðurinn hefur fengið fé hjá og vil ég aðeins um það segja: Það er ævinlega vafasamt að vera með takmarkanir á því hversu farið skuli með hlutabréf. En einmitt vegna þess að hlutdeildarskírteinin eru skuldabréf, hæstv. forsrh., þá væri gaman að fá einhvern fróðleik um það hvernig stendur á því að hlutdeildarskírteinin eru ekki inni í lánsfjáráætlun sem lögð var fyrir deildina og kom hér til umræðu sl. föstudag. Það sem er eiginlega enn þá verra í þessu er að ég varpaði þeirri fyrirspurn til formanns fjh.- og viðskn., til fulltrúa Hagsýslustofnunar og til fulltrúa ríkisstjórnarinnar sem fylgdust með störfum okkar í nefndinni hvort ekki væri nauðsynlegt að koma inn lánsfjárheimild vegna hlutafjársjóðsins og hvernig það mætti vera að hlutafjársjóðurinn kæmi hvergi inn í lánsfjáráætlun. Mér var svarað því til að það þyrfti ekki. Svo kemur það upp úr dúrnum nú að litið er á málið sem um skuldabréf væri að ræða.
    Ég veit ekki, herra forseti, hvort efni standa til að hafa um þetta fleiri orð. Það er auðvitað rétt að skuldbreytingin í útgerðinni 1984 sem staðið var allt öðruvísi að en nú er staðið að skuldbreytingunni hefur reynst vel með þeim efnahagsaðgerðum sem þá voru gerðar. Ég hygg að hæstv. sjútvrh. sé sammála mér um það og auðvitað hefði verið gæfulegra að standa að þessu með sama hætti nú. Þessi eilífa endurtekning hæstv. forsrh. um að gengið skipti ekki máli í sambandi við sjávarútveginn er náttúrlega til skammar. Ef forsrh. trúir því að gengisfellingar hafi ekki gagnað sjávarútveginum, þá spyr ég hæstv. forsrh.: Af hverju hækkar hann ekki gengið meira? Ef það skiptir engu máli fyrir útflutningsatvinnuvegina hvort gengið er hátt eða lágt, af hverju má þá ekki bara hækka gengið? Auðvitað veit hæstv. forsrh. að þegar málið snýr þannig væri það það alvitlausasta sem hægt er að gera. Auðvitað veit hann það því að hann fylgist vel með. Hann segir það gegn betri vitund þegar hann heldur því fram að gengisfellingar hafi í gegnum sölu okkar ekki komið að haldi fyrir útgerðina eða sjávarútveginn.
    Vegna þess að það munar um það, m.a. í mínu kjördæmi fyrir norðan og líka fyrir austan, vil ég spyrja hæstv. sjútvrh. hvað hann vilji segja um fiskverðið. Ætli það hafi ekki staðið nær því óbreytt í 18 mánuði? Ég man ekki hvort það hækkaði um 5% 1. júní og 1,25% einhvern tíma á þessum vikum. En síðustu 18 mánuði hefur það að öðru leyti verið óbreytt. Ég veit að fiskverðið skiptir minna máli en áður, en eigi að síður skiptir það máli á sumum stöðum og útgerðarmenn í sumum sjávarplássum hafa verið að spyrja hvenig á því standi að við fiskverðinu hafi ekki verið hreyft svo mjög sem útgerðarkostnaður

hefur vaxið á þessum tíma.
    Samtök fiskvinnslunnar létu nefndarmönnum í té ljósrit sem báru það með sér að yfirlýsing forsrh. um að eigið fé í sjávarútvegi hefði rýrnað um u.þ.b. helming, eða fallið úr um það bil 26 milljörðum í 13 milljarða á sl. ári, væri rétt. Því vil ég spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann sé sammála þessari
fullyrðingu, hvort hann hafi farið yfir textann í yfirlýsingu forsrh. um efnahagsmál og hafi samþykkt hann. Eða hvort hæstv. sjútvrh. sé e.t.v. sammála Árna Benediktssyni, fulltrúa Sambands ísl. samvinnufélaga, þegar hann segir að eigið fé í sjávarútvegi sé í raun og veru upp urið.
    Ég vil einnig spyrja hæstv. sjútvrh. að því hvort það sé rétt skilið að hann hafi gefið fyrirheit um það í septembermánuði sl. að þær 800 millj. kr. sem teknar voru að láni í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, frystideild, skyldu greiddar úr ríkissjóði. Þessi yfirlýsing hefur verið gefin og það var talað um það á fundi nefndarinnar í morgun að orðið hefði trúnaðarbrestur milli fiskvinnslunnar og ríkisstjórnarinnar á meðan þetta væri ekki leiðrétt og frv. breytt á þann veg að því yrði slegið föstu að endurgreiðslan yrði úr ríkissjóði. Við höfðum satt að segja vonast til þess í stjórnarandstöðunni að formaður fjh.- og viðskn. mundi ná því fram að frv. yrði breytt á þennan veg og ríkisstjórnin mundi fallast á það, m.a. til þess að koma til móts við sjónarmið fiskvinnslunnar. Það urðu mér því mikil vonbrigði að frá því skyldi horfið af meiri hl. og að hann skyldi ekki fallast á þessa breytingu. Ég vil biðja hæstv. sjútvrh. að beita sér fyrir því að meiri hl. geti fallist á að ríkissjóður taki yfir lánið eins og um var talað. Ég veit að hæstv. sjútvrh. getur ekki verið því mótfallinn.
    Herra forseti. Eins og ég hef sýnt hér fram á þá linnir ekki hallarekstri í sjávarútvegi. Það er auðvitað mjög hæpin lausn, svo að ekki sé meira sagt, að reyna að skýla sér á bak við það að setja á stofn sérstakan hlutabréfasjóð þegar búið er að leika fyrirtækin svo grátt að þau eru ekki rekstrarhæf. Auðvitað er ekki hægt að auka eigið fé í sjávarútvegi nema með því eina móti að rekstrarskilyrðin séu góð og ef rekstrarskilyrði í sjávarútvegi eru viðunandi hefur reynslan sýnt að sjávarútvegurinn þarf ekki á neinni aðstoð að halda til að greiða skuldir sínar og vexti af þeim því þá getur sjávarútvegurinn bjargað sér með eðlilegri umlíðan í sambandi við skuldbreytingu.