Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Frá því þing hófst í haust höfum við lítið gert annað en að tala um efnahagsmál og efnahagsaðgerðir. Það er dæmigert fyrir það ástand sem þessi þjóð hér norður í hafi býr við að það þarf sífellt að vera að grípa til einhverra efnahagsaðgerða og finna lausnir á vanda atvinnulífsins. Þannig hefur þetta verið allar götur síðan ég man eftir mér og væri nú kannski kominn tími til að staldra við og hugsa. Er ekki meira en lítið að í okkar stjórnkerfi? Hvers vegna eru okkar mál þannig að ríkisstjórnir hvers tíma þurfa að eyða nánast öllum sínum tíma í að leysa efnahagsvandamál og vanda atvinnulífsins. Það var því mjög kærkomið að dveljast nokkra daga í Sviss fyrir viku síðan eða svo þar sem yfir 90% þjóðarinnar hefur ekki hugmynd um það hverjir séu ráðherrar í ríkisstjórninni og varðar ekkert um það því að sú ríkisstjórn hefur ekkert með efnahagsmál og atvinnulíf landsmanna að gera. Það gengur ágætlega af sjálfu sér og því minna sem stjórnvöld þar skipta sér af því, þeim mun betur gengur það. Kannski er hér einhver lærdómur sem við gætum notfært okkur til að fá ríkisvaldið til að skipta sér minna af atvinnulífinu en beita sér þess heldur fyrir því að sjá atvinnulífinu fyrir sæmilegum rekstrarskilyrðum, þeim ramma sem atvinnulífið þarf að starfa innan.
    Það er næsta hlálegt að þurfa að eyða öllum tíma okkar þingmanna í það að karpa um misgóðar aðgerðir og tillögur til lausnar á vandamálum atvinnulífsins þing eftir þing, ár eftir ár og áratug eftir áratug. Ég get svo sem minnst á það einu sinni enn að þar er að sjálfsögðu um að kenna gömlu flokkunum fjórum. Þeir hafa ekki glóruhugmynd um það hvernig á orðið að stjórna þessu þjóðfélagi og það má rekja öll þau vandamál sem við eigum við að glíma til langvarandi óstjórnar undir mismunandi ríkisstjórnum þessara gömlu fjögurra flokka sem hér hafa farið með völdin svo lengi sem elstu menn muna.
    Frumskilyrðið hlýtur að sjálfsögðu að vera það að gengið sé rétt skráð hverju sinni þannig að útflutningsatvinnuvegirnir gangi nánast af sjálfu sér. Að vísu verður að taka tillit til þess að fyrirtækin standa misjafnlega vel og þau eru misjafnlega vel rekin. Við hljótum að verða að viðurkenna þá einföldu staðreynd að það hljóta ævinlega að verða til fyrirtæki sem ekki standa sig í samkeppninni og væntanlega leggja þau þá upp laupana og fara á hausinn, svo að það hugtak sé notað, en önnur gera betur, þau græða. En að það sé hægt að tala um eitthvert meðaltalsfyrirtæki sem eigi að vera rekið á núlli og síðan sé allt þjóðfélagið stillt inn á það er hugtak sem gengur einfaldlega ekki upp.
    Til þeirrar fastgengisstefnu sem hefur verið hér við lýði allt frá því að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar kom til valda um mitt sumar 1987 má eflaust rekja margt sem illa hefur farið í þessu þjóðfélagi. Eins til þeirrar efnahagsstefnu sem var mörkuð við stjórnarmyndunina sem fór fram að loknum kosningum í apríl 1987 og núv. stjórn hefur að mestu fylgt óbreyttri áfram. Ég sé

í grundvallaratriðum engan mun á þeirri efnahags- og peningastefnu sem fráfarandi ríkisstjórn undir forsæti Þorsteins Pálssonar fylgdi og þeirri stefnu sem núv. ríkisstjórn undir forsæti hæstv. forsrh. Steingríms Hermannssonar fylgir. Það er í megindráttum enginn stór munur á þeirri efnahags- og peningastefnu sem þessar tvær ríkisstjórnir hafa fylgt fram til þessa.
    Hér var í ræðustóli áðan minnst á frétt í Morgunblaðinu á sunnudaginn var, þar sem þess var getið að íslenska krónan væri að mati OECD talinn annar sterkasti gjaldmiðill heims. Það gerist hjá þjóð þar sem atvinnulífið er með allt niður um sig og þá fyrst og fremst stjórnvöld að sjálfsögðu. Auðvitað væri þá hægt að benda á eina leið sem er sú að ef við opnum fyrir frjálsa fjármagnsflutninga til landsins hljóta bókstaflega allir fjármagnseigendur hvar sem er í veröldinni að vilja fara með peningana sína til þessa furðulega lands þar sem aðeins svissneski frankinn stendur betur. Það gæti verið að þar væri komin ein allsherjarlausn á atvinnulífsvanda okkar og væri rétt af stjórnvöldum að skoða það mál betur ef þau endilega vilja halda því til frambúðar að íslenska krónan verði annar sterkasti gjaldmiðill heims þó að atvinnulífið hér sé allt í ólestri og standi engan veginn undir þessum sterka gjaldmiðli. Það er svo önnur saga.
    Eitt af því sem líka mætti fara ofan í og tala heilmikið um er hið furðulega bankakerfi sem við búum við. Eins og þar hefur verið háttað undanfarin ár þá lifir bankakerfið á því að ná sem mestum vöxtum inn frá atvinnulífinu. Það má í raun og veru segja sem svo að eigið fé sjávarútvegsfyrirtækjanna, sem hefur brunnið upp á þessu skeiði fastgengisstefnunnar, hafi í raun og veru verið flutt yfir til banka og verðbréfafyrirtækjanna í formi vaxtatöku. Vaxtatakan sem hefur verið í þjóðfélaginu undanfarin missiri er aldeilils með ólíkindum. Það hefur verið fundið upp eitthvert furðulegt hugtak sem heitir raunvextir ofan á lánskjaravísitölu sem er raunverulega algerlega út úr kortinu. Síðan eru þeir bornir saman við raunvexti sem eru miðaðir við affallaviðskipti á skuldabréfum í nágrannalöndunum sem er aldeilis óskylt hugtak. Seðlabankinn leyfir sér að blekkja fólk hér með því að bera raunvexti ofan á lánskjaravísitölu saman við venjulega raunvexti eins og þeir eru túlkaðir í
nágrannalöndunum þegar um venjuleg affallaviðskipti er að ræða. Þetta eru aldeilis óskyld hugtök. Með þessu hefur almenningur og fyrirtækin í landinu verið blekkt til þess að trúa að hér sé raunvaxtastigið að vísu hátt en ekkert mikið hærra en í nágrannalöndunum. Þetta er gersamlega fráleitt.
    Þá er ekki sjaldan um það talað á tyllidögum að það þurfi að renna fleiri stoðum undir atvinnulífið á Íslandi. Er nú verið að því? Nei, ekki aldeilis. Það er að vísu verið að reyna að rétta við hag útflutningsfyrirtækja í sjávarútvegi en öll önnur fyrirtæki mega fara lönd og leið á meðan. Sérstaklega er nú gaman að velta því fyrir sér að þegar loksins gefst tækifæri til þess að renna styrkari stoðum undir atvinnulífið nennir enginn að sinna því. Þar á ég við

þegar litlu fyrirtæki, sem að vísu stendur illa fjárhagslega, tekst að gera það kraftaverk að ná samningi um að smíða 14 skuttogara að smíðaverðmæti upp á 4*y1/2*y milljarð kr., sem gæti gerbreytt atvinnuástandi á Íslandi mörg ár fram í framtíðina. Það nennir enginn að sinna því. Ríkisstjórnin gutlaði eitthvað í málinu og gafst svo bara upp. Bankakerfið blés á þetta og vildi ekki sjá þetta. Þessu litla fyrirtæki hefur nú tekist að ná þessum samningi með því að láta smíða öll skipin erlendis. Það verður ekki skrúfa hreyfð hér á Íslandi. Svona er nú farið að þegar loksins gefst tækifæri til þess að renna styrkari stoðum undir atvinnulífið, þá er blásið á það. Er það nema von að ungt fólk nenni ekki að búa á þessu landi lengur? Mér er sagt að það séu langar biðraðir ungs fólks í öllum sendiráðum Norðurlandanna sem er að leita fyrir sér um atvinnu erlendis, vill komast burt frá þessu vitlausa landi þar sem stjórnvöld eru búin að gera þannig í buxurnar að það er ekki orðið búandi hér fyrir ungt fólk. Það getur ekki náð sér í húsnæði á viðunandi kjörum og atvinnuskilyrði þess eru nánast að verða engin. Það kemst ekki inn í sjávarútveginn, þessa einu grein sem hefur hlotið náð fyrir augum stjórnvalda og talið er rétt að hjálpa. Hún er alveg lokuð af fyrir ungu fólki, það kemst ekkert þangað inn því þar ríkir fyrir kvótakerfi sem er með þeim hætti að annaðhvort verða menn að fá kvótann í arf eða þá að það verður með öðrum hætti að komast inn til fóta konunganna sem hafa umráð yfir auðæfum hafsins.
    Kannski það væri rétt að fjalla örlítið um sjálft frv. Ég ætla ekki að tala hér langt mál því að eins og ég segi þá höfum við gert lítið annað á þingi í vetur en að tala um þetta blessaða frv. til laga um efnahagsaðgerðir.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að fara ofan í einstakar greinar, við erum búnir að eyða það miklum tíma í þær. Hlutafjársjóðurinn, sem nú er kominn inn, er upphaflega orðinn til með þeim hætti að fulltrúar Kvennalistans komu með þessa hugmynd og lögðu hana fram sem brtt. við lögin við umræðuna í des. Á þeim tíma treystum við fulltrúar Borgfl. okkur ekki til þess að styðja tillöguna á þeim forsendum að við sáum ekki með nokkrum hætti hvernig hægt væri að fjármagna kaup á aðildarskírteinum í hlutafjársjóðnum. Þá var gert ráð fyrir því að almenningur mundi kaupa þessi hlutafjárskírteini þó svo það væri ekki um neinar vaxtagreiðslur að ræða heldur aðeins von um arðgreiðslur sem áttu að koma frá fyrirtækjum sem allir vissu að væru á hausnum.
    Nú hefur þessi hugmynd verið tekin upp af hálfu ríkisstjórnarflokkanna og henni breytt þannig að orðið er ljóst að einhverjir verða til þess að kaupa þessi aðildarskírteini. Það er náttúrlega alveg ljóst að almenningur gat aldrei farið og keypt þessi skírteini, það var gersamlega fráleit hugmynd. Við gerum í sjálfu sér ekki athugasemdir við það hvernig stjórn þessa sjóðs verður háttað. Við sjáum ekki ástæðu til þess. Hins vegar munum við styðja brtt. sem eru fluttar af hv. þm. Halldóri Blöndal, Eyjólfi Konráð

Jónssyni og Birnu K. Lárusdóttur sem varðar 1. gr. laganna, þ.e. að það verði alveg tvímælalaust að 800 millj. kr. lánið til Verðjöfnunarsjóðs verði greitt af ríkissjóði eins og lofað hefur verið.
    Varðandi brtt. sem er við 8. gr., þ.e. að Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina og hlutafjársjóður skuli undanþegnir opinberum gjöldum og sköttum, þar hefur verið bætt við Byggðasjóði. Mér er þetta ekki alveg ljóst. Er Byggðasjóður ekki kominn inn til Byggðastofnunar? Ég verð nú að játa vankunnáttu mína hér. Ég hélt að Byggðasjóður væri ekki lengur til sem hugtak, en það má vel vera. (Gripið fram í.) Byggðastofnun er til að sjálfsögðu, en það var eins og mig minnti að Byggðasjóður hefði verið til hjá gömlu Framkvæmdastofnuninni en síðan hefði orðið til Byggðastofnun. Ég verð þá leiðréttur ef þetta er rangt hjá mér. Að sjálfsögðu tökum við undir það að þessir opinberu sjóðir skuli undanþegnir opinberum gjöldum og sköttum því að annars er ríkið að taka peninga úr hægri vasa og flytja í vinstri vasann og við sjáum ekki ástæðu til þess.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri að sinni en að sjálfsögðu munum við taka hér frekari þátt í umræðunni eftir því sem efni og aðstæður gefa þar tilefni til.