Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð um það frv. sem hér er til umræðu og er nú sent aftur til efri deildar eftir breytingar sem gerðar voru á því í neðri deild.
    Í raun hafa engar þær breytingar verið gerðar sem gera það að verkum að Kvennalistinn geti breytt afstöðu sinni til málsins og munum við því sitja hjá við afgreiðslu þess og e.t.v. greiða atkvæði gegn ákveðnum greinum þess ef út í það fer. Eins og fram kom flytjum við brtt. við frv.
    Vegna orða síðasta ræðumanns, hv. 4. þm. Vesturl., vil ég leggja áherslu á það að þessar breytingar eru í þeim anda sem þær brtt. voru sem lagðar voru fram við 2. umr. málsins í efri deild. Þar voru m.a. hugmyndir Kvennalistans um hlutafjársjóð. Á þessar hugmyndir féllst Sjálfstfl. og studdi á sínum tíma og er það eðlilegt þegar um gott mál er að ræða að margir vilji vera með í að flytja það. Þetta er lokatilraun okkar til þess að breyta málinu í betra horf og ég vona að hún takist. Hins vegar hlýt ég að ítreka og undirstrika það að við erum vonsviknar að þessi breyting hafi verið gert á hlutafjársjóðnum. Hann var hugsaður fyrst og fremst sem tilraun til þess að auka atvinnulýðræði. Þetta átti að verða sjóður sem gæfi fólkinu í landinu tækifæri til þess að styðja og styrkja vænleg og bjargálna fyrirtæki, tækifæri til þess að fjárfesta í undirstöðuatvinnugreinum okkar og leggja sitt af mörkum til þess að styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækja án þess að hætta of miklu til sjálft. Nú er þessi sjóður, því miður, miklu fremur orðinn að ruslakistu þar sem þeim er ætluð dvöl sem enginn annar vill sinna. Þetta er nánast sorglegt og við frábiðjum okkur að eiga nokkurn hlut að máli annað en nafnið eitt.
    Það var algjör forsenda þess að sjóðurinn næði tilgangi sínum að hann væri rekinn á faglegum grunni en ekki eftir pólitískum geðþótta. Við erum auðvitað ekki að leggjast gegn því að fyrirtækjum sem nú er ætlunin að vísa í þennan sjóð sé veitt aðstoð. Fjarri því. En við teljum þetta ekki réttu leiðina.
    Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál við þessa umræðu. Ég vona að þessi brtt., sem hér hefur verið lögð fram, nái fram að ganga því hún er sannarlega til bóta.