Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Hér hefur verið nokkuð til umræðu hvers vegna staða sjávarútvegsins er með þeim hætti sem raun ber vitni og auðvitað eru á því margar skýringar. Aðalskýringin er sú að hagur sjávarútvegsins efldist mjög á ákveðnu tímabili, á árinu 1986 og fyrri hluta ársins 1987, en á þeim tíma fór kaupmáttur í landinu mjög vaxandi þannig að sjávarútvegurinn fékk ekki haldið eftir þeim bætta hag heldur fór hann út til samfélagsins. Jafnframt þurfti sjávarútvegurinn á því að halda á þeim tíma að fá verulegt fé til að greiða upp fyrri skuldir auk þess sem mikil nauðsyn var á því að bæta fiskiskipaflotann þótt í nokkrum tilvikum hafi það gengið út í nokkrar öfgar, m.a. réðust aðilar sem ekki höfðu nægilegt eigið fé til þess í slíkar fjárfestingar sem ég tel út af fyrir sig vera mistök. Eftir sem áður stendur sú staðreynd að fiskiskipaflotinn þurfti verulegra endurbóta við vegna þess að mörg skipanna höfðu drabbast niður í gegnum tíðina.
    Hér hafa verið lagðar fram nokkrar spurningar sem ég skal svara. Í fyrsta lagi að því er varðar Verðjöfnunarsjóðinn þá kemur það skýrt fram í frv. að lán þetta fellur á ríkissjóð verði það ekki endurgreitt innan þriggja ára. Það sem ég hef sagt um þetta mál er að ég tel engar líkur til þess að sjávarútvegurinn geti endurgreitt þetta lán og það séu allar líkur til þess að það falli á ríkissjóð. Fyrir því skal ég færa nokkur rök.
    Í fyrsta lagi þarf staðan að lagast það mikið að sjávarútveginum sé unnt að missa greiðslur úr Verðjöfnunarsjóði. Við skulum vona að það verði einhverjar verðhækkanir á erlendum mörkuðum en þær þurfa að vera verulegar til þess að sjávarútvegurinn þoli að missa þessar greiðslur.
    Í öðru lagi þarf sjávarútvegurinn á því að halda að bæta sína stöðu, byggja upp sitt eigið fé eftir þau áföll sem hann hefur orðið fyrir. Það eru því engar líkur til þess og nánast augljóst að ekki mun verða lagt í Verðjöfnunarsjóð frystingarinnar á næstu árum. Það kom m.a. til umfjöllunar vorið 1987 hvort lagt skyldi í Verðjöfnunarsjóð. Fulltrúar ríkisins í stjórn Verðjöfnunarsjóðsins lögðu til að lagt yrði í sjóðinn en fulltrúar veiða og vinnslu stóðu gegn því og þeir hafa meiri hluta í stjórn sjóðsins. Því ætti það að vera augljóst að fulltrúar veiða og vinnslu, m.a. þessara aðila sem lögðu svo mikla áherslu á að breyta þessari lagagrein, munu ekki standa að því að taka upp greiðslur í Verðjöfnunarsjóð nema eitthvað mjög sérstakt komi upp í þjóðfélaginu, t.d. einhverjar þær verðhækkanir á afurðum okkar sem við sjáum ekki fyrir. Ef slíkur happdrættisvinningur mundi koma upp, sem ég hef enga trú á, er ekki rétt að útiloka að eitthvað geti komið inn í sjóðinn.
    Þetta eru staðreyndir málsins og að mínu mati er óþarft að breyta þessari lagagrein. Ég stend við þá fullyrðingu mína að ég tel allar líkur benda til þess að þetta muni falla á ríkissjóð. Menn geta svo túlkað það með þeim hætti sem þeir vilja þ.e. hvort hér sé um loforð að ræða o.s.frv. Þetta ber hins vegar ekki að

skilja sem loforð heldur mat mitt á þeirri stöðu sem uppi er og mér finnst með ólíkindum ef aðilar í sjávarútvegi og þeir sem mynda meiri hluta í stjórn sjóðsins eru ekki sömu skoðunar.
    Það hefur jafnframt verið spurt um fiskverð af hv. 2. þm. Norðurl. e. Það fara nú fram samningar um fiskverð og þeir samningar eru á viðkvæmu stigi. Það liggur alveg ljóst fyrir að vinnslan hefur enga möguleika á að greiða hærra fiskverð við þær aðstæður sem hún býr nú við. Hins vegar er mikil þörf á því hjá útvegsmönnum og þeim sem gera út skip, sérstaklega bátaflotans, að fá nokkra fiskverðshækkun. Einnig er það rétt sem hv. þm. sagði að fiskverð hefur aðeins hækkað um 5% á 18 mánaða tímabili og nú um 1,25% 15. febrúar. Það eru minni hækkanir en aðrir hafa fengið og þar af leiðandi hafa sjómenn dregist mjög aftur úr í tekjuþróuninni, auk þess sem á þá fellur með harðari hætti sá aflasamdráttur sem menn standa nú frammi fyrir.
    Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að eiga sér stað hófleg fiskverðshækkun, hún þurfi að vera einhver en ekki svo mikil að hún kalli á launahækkanir til annarra hópa þjóðfélagsins því ef slíkt ætti að eiga sér stað þá mundi það aðeins auka hér verðbólgu og verða sjávarútveginum til bölvunar. Ég er því enn þeirrar skoðunar að það þurfi að eiga sér stað enn nokkur raungengislækkun til þess að laga stöðu sjávarútvegsins en tel slíka gengisbreytingu eins og hér hefur verið minnst á ekki þjóna hagsmunum hans því að það er alveg ljóst að í kjölfar slíkrar breytingar mundu kostnaðarhækkanir eyðileggja þann árangur á stundinni miðað við þann tekjuskiptingarvanda sem menn standa nú frammi fyrir í þjóðfélaginu. Það væri því aðeins hægt að lögfesta kaup og kjör í landinu um alllangt skeið og vera þá fullviss um það að slíkt mundi halda því það þýðir lítið að auka tekjur sjávarútvegsins ef strax í kjölfarið koma verulegar kostnaðarhækkanir.
    Hér hefur verið nokkuð talað um eigið fé og eiginfjárstöðu sjávarútvegsins. Mér er ljóst að hún er slæm og hefur rýrnað. Ef miðað er við tryggingarmat flotans þá er eiginfjárstaða sjávarútvegsins í árslok 1986 samkvæmt þessum tölum Seðlabankans 18 milljarðar 260 millj., í árslok 1987 22 milljarðar 810 millj. og nú í febrúar 1989 20 milljarðar 860 millj., eða 22,4%, og hefur þá
rýrnað frá 32% á árinu 1987. Þetta stafar í fyrsta lagi af taprekstri í sjávarútveginum sem er verulegur. Eiginfjárstaðan hefur áreiðanlega rýrnað um eina 3 milljarða vegna tapreksturs og það er mikið fé. Hins vegar hefur líka verið um verulegar fjárfestingar að ræða í sjávarútveginum, m.a. í endurbótum á fiskiskipum --- og það fjármagnað að verulegu leyti með skuldum en ekki með eigin fé. Það verður því að viðurkennast að fjárfestingin hefur farið nokkuð úr hömlu og bjartsýni hefur verið fullmikil. M.a. hefur verið mikil fjárfesting í fiskiskipum til rækjuveiða en nú er ástandið því miður þannig að það er engin rækjuveiði. Það er til lítils að vera alltaf að flagga þessum tryggingarmötum og margvíslegum mötum um

eignir sjávarútvegsins því eignir sjávarútvegsins eru lítils virði ef afrakstur fiskimiðanna stendur ekki undir þeim. Þau voru lítils virði síldarplönin á Siglufirði þegar síldin fór og þau verða lítils virði rækjuskipin ef ekki verður rækjuveiði, þannig að öll þessi möt eru nú afar afstæð og menn mega ekki leggja svona mikið upp úr þeim. Það er ábyrgðarhluti af Seðlabankanum, finnst mér, að vera að birta þessi möt, þjóðarauðsmöt og tryggingarmöt án rækilegra skýringa. Ég gef ekkert allt of mikið fyrir þau. En aðalatriðið er það að eiginfjárstaða sjávarútvegsins er of veik og þarf að batna og til þess að svo geti orðið þarf sjávarútvegurinn að hafa hagnað og græða. Og til þess að þau fyrirtæki, sem fá væntanlega hlutafé úr hlutafjársjóði, geti staðið undir því þurfa þau líka að græða og hafa hagnað. En ef það er ekki gert munu þau væntanlega leggjast niður og þá væntanlega byggð smátt og smátt í viðkomandi byggðarlögum. Ég fæ því ekki séð af hverju menn eru svo andvígir því. Menn ættu hins vegar að leggjast á eitt um það að greinin fái möguleika á hagnaði þannig að þessar skuldbindingar, bæði sjóðsins og Atvinnutryggingarsjóðs, lendi ekki á ríkinu því ef greinin tapar á næstu árum munu allar þessar skuldbindingar að meira eða minna leyti leggjast á ríkið og ríkissjóð. Og það sér náttúrlega hver heilvita maður að ríkissjóður fær ekki staðið undir því. Það verður sjávarútvegurinn sjálfur að gera og til þess þarf hann þau rekstrarskilyrði sem nauðsynleg eru í því sambandi.
    Hér var einnig vikið að vanda smábátaútgerðar, en þeir aðilar leituðu til sjútvrn. í september sl. og við höfðum samband við Byggðastofnun sem fór rækilega ofan í málefni þeirra. Síðan var 16. des. óskað eftir því við stjórn Byggðastofnunar að hún tæki þetta mál upp og athugaði með hvaða hætti væri hægt að létta greiðslubyrði þeirra smábátaeigenda sem hafa útgerð slíkra báta að aðalstarfi. Byggðastofnun vann þetta mál og skilaði síðan áliti á þá leið að til þess að hægt væri að leysa málið með viðunandi hætti þyrfti 400--500 millj. kr. Það var mun hærri fjárhæð en ráðuneytið hafði gert sér í hugarlund og telur ráðuneytið ekki vera hægt að mæla með því að svo miklum fjármunum verði varið vegna þessa málaflokks.
    Við höfðum samband við Landssamband smábátaeigenda, sem hefur stundum verið talið kröfugerðarfélag hið mesta, en þeir töldu að það mætti leysa bráðasta vandann í þessu sambandi með 150 millj. kr. Eftir nokkra yfirlegu í þessu máli telur sjútvrn. að það megi verulega bæta úr í þessum greiðsluvandræðum með því að Byggðastofnun fái heimild til að taka 100 millj. kr. að láni og höfum við lagt það til við ríkisstjórnina, en teljum ekki nauðsynlegt að það komi inn á lánsfjáráætlun því að þetta megi gera í gegnum heimildir einkaaðila til lántöku sem fara í gegnum viðskrn. því að hér er að langmestu leyti um skuldbreytingu að ræða, ekki nýja erlenda lántöku heldur fyrst og fremst að létta á óhagkvæmari lánum. En það er alveg ljóst að það er

ekki hægt að bjarga öllum þeim málum sem þarna hafa komið upp. Til þess hefur fjárfestingargleði margra verið allt of mikil og það hefur m.a. verið gert með aðstoð kaupleigufyrirtækja sem virðast lítið hugsa um hvað eigi næst að gerast og hvernig eigi að greiða þessar skuldir. Auðvitað bera þeir sem fjárfest hafa aðalábyrgðina, en ég tel það ekki verjanlegt að verja svo miklu fé til þessa máls eins og Byggðastofnun --- ekki beint lagði til en taldi að þyrfti að gera. Hins vegar má vel vera að eftir að farið er að vinna málið betur komi í ljós að það þurfi meira fé en 100 millj. en það verður að koma í ljós eftir að auglýst hefur verið eftir slíkum lánum.
    Ég vænti, herra forseti, að ég hafi svarað þeim fyrirspurnum sem til mín var beint.