Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég vil segja það fyrst að ég hef kannski af óaðgætni hér áðan --- og biðst afsökunar á því ef svo hefur verið --- sagt ógætileg orð varðandi varaþm. Borgfl., en skýringin á því er auðvitað ekki sú að ég treysti honum ekki til góðra verka heldur hitt að hæstv. ríkisstjórn bindur sig svo mjög við flokksbræður sína í sambandi við þá sem vinna að útfærslu á skuldbreytingum og öðru slíku, hverjir séu í fyrirsvari fyrir sjóðum, að maður getur ekki látið vera að velta því fyrir sér hvar fiskur liggi undir steini.
    Ég vil út af því sem hæstv. sjútvrh. sagði hér síðast taka fram að ég var jafnhissa ugglaust og hann á því hversu mikið fé þurfti vegna smábátaútgerðarinnar. Nú er það eigi að síður svo að erfiðleikar sumra stafa eflaust af því að þeir eru í vanskilum hjá innlendum lánastofnunum en ekki erlendum, hafa ekki fengið heimild fyrir erlendum lántökum, þannig að það kann að vera önugt að leysa þeirra mál á þann hátt að almennt sé yfirtekið, eins og gert er í sambandi við meiri háttar endurbætur og viðgerðir á fiskiskipum t.d. úr Fiskveiðasjóði. Ég tel einlægast að veita heimild fyrir Byggðasjóð til þess að hann geti tekið fé með eðlilegum hætti og skuldbreytingin verði þannig framkvæmd fyrir smábátana ef hugmyndin er á annað borð að koma til móts við þá.
    Ég tek undir það sem hæstv. sjútvrh. sagði áðan um það að nauðsynlegt er að sjávarútvegurinn sé rekinn með hagnaði. Þetta er auðvitað kjarni málsins og það var einmitt á þeim forsendum sem samstarfið slitnaði milli okkar og fyrri samstarfsflokka. Einkum var það þó Alþfl. sem átti erfitt með að hugsa sér það að sjávarútvegurinn væri rekinn með hagnaði, en síðan kom Alþb. inn í ríkisstjórnina og ég fæ ekki séð, með fullri virðingu fyrir hv. 4. þm. Vesturl., að það andi neitt mildar til sjávarútvegsins nú en gerði frá samstarfsflokkum Sjálfstfl. í septembermánuði. Það er svo sem enginn munur á því.
    Það er auðvitað rétt, sem hæstv. sjútvrh. sagði að sjávarútvegurinn er illa staddur. Þar hefur orðið rýrnun á eigin fé. Það er auðvitað rétt sem sjútvrh. segir. Það er ekki kjarni málsins endilega hvernig það er nákvæmlega mælt. Það er laukrétt að erfitt er að gera sér grein fyrir því hvers virði fjárfesting í sjávarútvegi er. Það vitum við öll. Hvers virði er rækjuskip ef ekki veiðist rækja? Hvers virði er frystihús ef ekki berst fiskur á land? og þar fram eftir götunum. Eigi að síður verð að ég að segja að mér finnst muna mjög miklu á þeim tölum sem hæstv. forsrh. var með og vitnaði til í sinni skýrslu. Þá talaði hann um að eigið fé hefði fallið úr um það bil 26 milljörðum í 13 milljarða kr., en samkvæmt upplýsingum sjútvrh. frá Seðlabankanum einnig, þá var flotinn rúmir 18 milljarðar árið 1986, 22 árið 1987 og 20 árið 1989. Heildar eigið fé, já, þannig að það munar ótrúlega miklu á þessum tölum og væri fróðlegt að fá um það nánari upplýsingar hjá Seðlabanka hvernig á því megi standa og athugunarleysi þegar málið var til athugunar

í fjh.- og viðskn. að kanna það ekki. En auðvitað geta einstakir þingmenn sett sig í samband við Seðlabankann og fengið nánari skýringar á þessum tölum.
    Hitt vil ég hins vegar segja í sambandi við þá stöðu sem hæstv. forsrh. sagði að Þjóðhagsstofnun væri búin að finna út á rekstri sjávarútvegsins. Hún kom mjög á óvart og það er algjörlega gagnstætt því sem ég hef heyrt um afkomu saltfisksins. Að halda því fram að hann sé rekinn með 6,8% hagnaði nú er einhver meiri háttar misskilningur. Það er fallinn á hann 13% tollur. Og eftir þeim hugmyndum sem ég hef er nettólækkun á saltfiski í erlendri mynt um 9% þegar búið er að taka tillit til 6% greiðslu úr Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins. Ef ég fer með rangar tölur --- ég skal ekki fullyrða það, þetta eru þær tölur sem ég hef heyrt nýjastar og þetta eru þær upplýsingar sem ég hef haft, þannig að ef það er rétt hjá hæstv. forsrh. að saltfiskurinn sé svona vel staddur núna, þá eru það sannarlega góðar fréttir. En því miður óttast ég að þetta sé ekki rétt. Því miður óttast ég að það sé verið að reyna að fegra hlutina eins og búið er að gera allt of lengi.
    Ég tek undir með forsrh. þegar hann tók sig á áðan og sagði að gengið skipti máli og að raungengi krónunnar væri of hátt. Það er raunar sameiginlegt mat þeirra sjútvrh. og forsrh., en á hinn bóginn er því ekki að neita að oft og tíðum kemst forsrh. þannig að orði að maður finnur að hann er a.m.k. að gefa í skyn að gengið skipti ekki svo miklu máli. Þannig segir hann, svo maður vitni bara í yfirlýsingu um efnahagsmál þar sem hvert orð er skrifað og reynt að fara gætilega og sigla milli skers og báru, þar segir hæstv. forsrh. í einum kafla, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Umhugsunarvert er að staða sjávarútvegsins skuli vera svo erfið þrátt fyrir afar góð aflaár 1985--1987. Aflaverðmæti var þá um 12% meira en meðaltal áratugarins og þrátt fyrir að gengi hinnar íslensku krónu hafi á einu ári verið fellt um yfir 26%.`` --- Það var nú ekki þetta sem ég ætlaði að vitna í. (Gripið fram í.) Nei, það skiptir nú ekki máli kannski. --- Jú, þegar þetta er rétt lesið þá kemur einmitt það fram sem ég var að minnast á að það er umhugsunarvert að staða sjávarútvegsins skuli vera svo erfið þrátt fyrir að gengið hafi verið fellt.
    Auðvitað er það rétt, sem síðar segir, að fjárfesting hafði verið mjög mikil o.s.frv. En svo kemur enn fremur, með leyfi forseta:
    ,,Af þessari stuttu lýsingu og þeim miklu upplýsingum sem liggja fyrir má ljóst vera að þær miklu gengisfellingar sem orðið hafa á einu ári hafa komið stórum hluta sjávarútvegsins að litlum notum og aðeins í skamman tíma.`` --- Stórum hluta sjávarútvegsins að litlum notum og aðeins í skamman tíma.
    Áðan sagði hæstv. forsrh. að gengisfelling kæmi best þeim fyrirtækjum sem væru verst rekin. Hann sagði þriðjudaginn 18. okt., þetta er bara ræða sem var á borðinu hjá mér:
    ,,Eins og fyrr reyndist umrædd gengisfelling og

aðrar aðgerðir endast skammt og blöstu við enn meiri erfiðleikar en áður höfðu verið í útflutningsatvinnuvegunum um mitt sumar.``
    Það er ekki hægt að lesa þetta öðruvísi en svo að gengisfellingin hafi verið hluti af því. Hæstv. forsrh. talar oft þannig um gengið að maður hefur það ekki alveg á hreinu hvað hann meinar. ( EgJ: Hann hefur það ekki sjálfur heldur.) Auðvitað er það vegna þess að honum er sjálfum ljóst, eða a.m.k. skyldi maður ætla það ef maður ber saman ummæli hans fyrir einu ári, þá er honum ljóst að sú stefna sem þessi ríkisstjórn fylgir í gengismálum er röng. Ég get tekið undir það með hæstv. sjútvrh. þegar hann segir að það geti skapað margvíslega erfiðleika hér innan lands ef þegar í stað er gripið til þess að fella gengi krónunnar um 10--13% ofan á það að gengi krónunnar var fellt af þessari ríkisstjórn í september, um áramótin og aftur nú fyrir skömmu og þegar við vitum að ríkisstjórnin stefnir á gengisfellingu innan nokkurra vikna og þegar við vitum enn fremur að ríkisstjórnin gerir ráð fyrir því í sínum áætlunum að efna ekki til nýrrar lántöku í vor til þess að hressa upp á Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Og skal ég ekki víkja nánar að því.
    Að lokum, herra forseti, vil ég láta í ljósi vonbrigði yfir því að hæstv. sjútvrh. skyldi ekki fallast á nauðsyn þess, til þess að halda góðu andrúmslofti milli fiskvinnslunnar og ríkisstjórnarinnar, að ríkið yfirtæki þær fjárskuldbindingar sem við erum að tala um í sambandi við Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Raunar þóttu mér ummæli hans athyglisverð að öðru leyti. Hann hafði orð á því að þó að verulega áraði betur, á meðan ekki væri hægt að kalla það happdrættisvinning, einhvern veginn hljómaði það þannig, væri ekki við því að búast að meiri hluti stjórnar Verðjöfnunarsjóðsins mundi fallast á að greitt yrði til hans --- er það ekki rétt skilið? --- sem sýnir að það ástand sem við búum nú við veldur því að síður verði lagt til hliðar en ella. Jafnvel þó að vel mundi ára, þá sýna orð sjútvrh. að hann er í rauninni sannfærður um að ekki kæmi til þess að lagt yrði til hliðar í Verðjöfnunarsjóðinn á þessum árum sem staðfestir það sem fulltrúar útgerðarmanna og sjómanna sögðu svo skýrlega í haust að þau lög og þær reglur sem nú gilda um Verðjöfnunarsjóðinn eru fullkomlega og algjörlega úreltar og nauðsynlegt að gera þar breytingar á m.a. þannig að fyrirtækin geti lagt til hliðar á eigin reikninga.
    Ég er algjörlega sammála því að það er mjög ánægjulegt ef fyrirtæki eru rekin með hagnaði. Og ég vona að rétt sé hjá hæstv. forsrh. að Útgerðarfélag Akureyringa sé rekið með hagnaði um þessar mundir. Ég hef ekki hitt forstjóra þess nú síðustu vikur, en það væri auðvitað mjög ánægjulegt ef svo væri. Ég er algjörlega sammála því að það er hörmulegt ef skip fara frá byggðarlögum þannig að þau standi eftir svo að atvinnulífið er í rúst. Það eru dæmi um það í öllum landsfjórðungum að svo er komið fyrir einstökum byggðarlögum. En ég get alls ekki verið sammála hæstv. forsrh. um hitt að það sé undrunar-

eða hneykslunarefni fyrir stjórnmálamann sem hefur setið hér við völd svo lengi sem hann að fulltrúar Sambands fiskvinnslustöðva skuli vísa á bug því bjargráði sem forsrh. kemur nú með, fyrst eftir að segja það í sinni stefnuræðu að eigið fé í sjávarútvegi hafi þorrið um 50% á síðasta ári. Og við skulum segja að þó svo að það sé rétt hjá hæstv. sjútvrh. að þarna sé krítað liðugt, það sé ekki önnur hver króna sem hafi gufað upp, það sé bara þriðja eða fjórða hver króna eða fimmta hver, þá trúði forsrh. því að það væri önnur hver króna og það er kjarni málsins. Hann trúði því. Honum fannst ekkert athugavert við þessar tölur. Síðan kemur hann og stofnar til þess að hlutabréfasjóður eigi að koma til þess að hjálpa upp á þau byggðarlög sem hafa staðið sig þokkalega, kannski svo áratugum skiptir, en vegna sérstakra aðstæðna eru þau komin núna í þröng og þurfa af þeim sökum að hlaupa til þessa sérstaka hlutabréfasjóðs forsrh. sem er þar að auki svo ósmekklega saman settur að það er ekki einu sinni að Alþingi eigi að skipa stjórnina, ekki einu sinni að það eigi að standa að stjórninni eftir almennum siðalögmálum þannig að menn geti fellt sig við það sem verið er að gera, líka pólitískir andstæðingar forsrh., heldur er verið að læða því inn að það séu sendisveinar eða dindlar forsrh. sem séu að hjálpa byggðarlögunum úti á landi. Það er í anda þessa tóns sem talað hefur verið um það af ýmsum þeim mönnum sem sitja í ríkisstjórn, bæði í göngum og opinberlega, og af þingmönnum sem styðja þessa ríkisstjórn að það sé undarlegt að menn sem gagnrýndu löggjöfina um Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina skuli hafa fengið fé að láni úr
sjóðnum. M.ö.o.: Ef menn ekki segja já og amen við öllu þá eru þeir menn sem standa að þessari ríkisstjórn að telja eftir fé, sem er ekki þeirra fé heldur ríkisins, þjóðarinnar, og telja að þeir séu að gera einhvern sérstakan persónulegan greiða þeim mönnum sem hafa verið að byggja upp sjávarútveginn og atvinnulífið. Þetta er auðvitað hinn argasti þvættingur og algjörlega út í hött að ráðherra tíu síðustu árin --- sjútvrh. stundum, forsrh. stundum, utanrrh. stundum, og hafði þá með að gera, ef ég man rétt, útflutning sjávarafurða --- að slíkur maður skuli hneykslast þegar mennirnir sem sjá grunninn raskast undir fyrirtækjum sínum af því að þeir vita að sjávarútvegurinn stendur verr en áður, hneykslast á því að þeir skuli frábiðja sér að taka sér betlistaf í hendur og ganga á fund þessarar þrenningar sem forsrh. ætlar að láta sitja yfir hlut þeirra manna sem nú eru svo ógæfusamlegir að bera ábyrgð á útgerðarfyrirtækjum og fiskvinnslufyrirtækjum í byggðarlögum sem eiga allt sitt undir þessum rekstri.