Verðbréfaviðskipti
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Matthías Bjarnason):
    Herra forseti. Ég tek það fram að ég er meðflutningsmaður að þessari brtt. sem leitað var afbrigða um að mætti koma til umræðu og afgreiðslu með frv. Ég tók það fram í nefndinni að ég hefði talið að það væri óþarfi að þrengja það með þessum hætti: ,,Þó er hlutafélögum, er hafa til þess heimild Verðbréfaþings Íslands, heimilt að annast`` o.s.frv. Ég taldi það meira virði að ná samkomulagi í nefndinni um breytingu í þessa átt og því gerðist ég meðflutningsmaður að frv. þannig að nefndin flytur frv. í heild.
    Varðandi það sem hv. 1. þm. Reykv. sagði hér áðan eru auðvitað skattafríðindi með öðrum hætti, en það má auðvitað deila um það hvort það sé hin rétta viðmiðun að miða við 5 millj. kr. hlutafé og að fjöldi hluthafa sé 50. Á þeim tíma var þetta ákvæði tekið inn í skattalög ef ég man rétt, til þess að hreyfa og sjá hvernig þessari hugmynd yrði tekið og hvernig hún þróaðist. Ég er aftur þeirrar skoðunar að hér sé um allt of marga hluthafa að ræða þó að maður geti e.t.v. fallist á þessa upphæð, sérstaklega núna, sem var í mörgum tilfellum of há því þessi fríðindi náðu svo lítið til hlutafélaga í hinum minni byggðarlögum landsins. Og það getur verið mikið álitamál hvort eigi ekki að lækka þennan hluthafafjölda, sérstaklega með tilliti til þess að fólk sem vill leggja fram litla upphæð til þess að treysta atvinnu í sínum byggðarlögum hafi hinn sama rétt og fólkið sem leggur fram hlutafé í hin stærstu hlutafélög landsins. Um þetta held ég að menn geti almennt verið sammála. Ég held að það sé eiginlega ekki hægt að skilgreina þessa sameiginlegu reglu hvað snertir útboð á markaðsverðbréfum og þessi ákvæði skattalaga. En fyrst hv. 1. þm. Reykv. hreyfði þessu vil ég mjög taka undir það og lýsa þeirri skoðun minni að ég tel nauðsynlegt að breyta þessu ákvæði hvað snertir fjölda hluthafa til þess að það komi jafnar niður, að þetta sé ekki aðeins fyrir stórfyrirtæki í landinu heldur líka minni fyrirtækin og hin minni byggðarlög.