Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég ætla mér ekki að halda langa ræðu við þessa umræðu og til þess liggja tvær ástæður. Önnur er sú að bókstaflega enginn tími hefur gefist til þess að kynna sér efni frv. eða þær breytingar að ráði sem hafa verið gerðar í meðförum Ed. vegna mikilla anna í fjh.- og viðskn. þessa dagana sem reyndar oft endranær. Fjh.- og viðskn. hefur mörg mál til meðferðar, þar er nánast aldrei málaþurrð og þótt við afgreiðum út úr nefnd þessi mál, eitt af öðru, þá bætast sífellt við ný og flestum fylgja ákveðin fyrirmæli eða óskir um skjóta afgreiðslu. Við þeim óskum er þó harla erfitt að verða, sérstaklega þar sem mörg þessara mála eru ótrúlega illa undirbúin og illa unnin þótt þau eigi nú að heita samin af sérfræðingum. Við höfum t.d. nýlokið afgreiðslu frv. um verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði sem kostaði mjög mikla vinnu, við höfum nýlokið umfjöllun um bráðabirgðalögin frægu. Við erum með eignarleigustarfsemi í umfjöllun, frv. um launavísitölu, breytingu á vaxtalögum, breytingu varðandi verðtryggingarákvæði, og fleira mætti telja. Nefndarmenn hafa svo vitanlega ýmsum öðrum þingskyldum að gegna og eiga sæti í öðrum nefndum og sækja þingfundi, jafnvel öllu betur en hæstv. ráðherrar t.d. sem demba yfir okkur öllum þessum málum. Loks má svo minna á fund sem stóð hér fram eftir nóttu sl. nótt. A.m.k. mér hefur ekki einu sinni gefist tóm til þess að kynna mér þau gögn sem hv. fjh.- og viðskn. Ed. hefur óneitanlega sankað að sér í sinni umfjöllun og ekki reyndist auðvelt að fræðast af hraðlestri hæstv. fjmrh. hér áðan. Slíkur hraðlestur á tölum og upplýsingum hlýtur að fara inn um annað eyrað og út um hitt þannig að þær upplýsingar þarf að fá í nefndarumfjöllun.
    Hin ástæðan er sú að mér sýnist nánast hægt að vísa að miklu leyti í gamlar ræður um lánsfjáráætlun með tilheyrandi efasemdum um áreiðanleika og framkvæmd. Hér er ekki nýjungunum fyrir að fara þrátt fyrir nýja húsbændur í fjmrn. og hafi hæstv. fjmrh. lagt upp með þeim ásetningi, sem ég efast ekki um, að stíga harkalega á lánabremsuna þá hefur hann orðið að kippa þeim fæti upp á við eftir umfjöllun í Ed.
    Auðvitað vakna fjölmargar spurningar við fljótlegt yfirlit yfir þetta frv., gamalkunnar spurningar sem við hljótum að leita svara við á nefndarfundum. Sú fyrsta er að sjálfsögðu hvaða áhrif hin mikla lántaka ríkissjóðs, sem boðuð er í 1. gr. frv., muni hafa. Hún hefur heldur betur aukist í meðförum Ed., meira en tvöfaldast. Ætlunin var að veita engar heimildir til erlendrar lántöku í 1. gr. eins og frv. var fyrst lagt fram en nú eru þar heimildir til lántöku upp á 5 milljarða og 135 millj. og innlenda lántökuheimildin er hækkuð um 600 millj. og munar nú um minna.
    Við hljótum að spyrja hvaða áhrif þessi ákvæði hafi á lánamarkaðinn og þá fyrst og fremst á vaxtastigið sem sífellt er verið að reyna að hemja. Þetta er auðvitað fyrsta og stærsta spurningin sem við verðum að reyna að leita svara við og á þeim svörum

hvílir framkvæmd þessa máls.
    Ég gerði miklar athugasemdir varðandi þessi atriði í umfjöllun um lánsfjáráætlun í fyrra og þær reyndust ekki út í bláinn gerðar. Um ráðstöfun þess fjár, sem ætlunin er að taka að láni, má svo auðvitað margt segja. Ég get nú ekki sleppt því að minnast á þá gamalkunnu hít, flugstöðina á Keflavíkurflugvelli, sem samkvæmt grg. eru ætlaðar 350 millj. kr. en um það fræðumst við vonandi betur í nefndinni.
    Af athugasemdum með frv. má ráða að eitthvað telja menn sig nú vera að reyna að halda í hemilinn á Landsvirkjun en jafnframt er þar boðað að hún muni þurfa sitt á næstu árum. Þróunarfélagið fær sínar hefðbundnu 100 millj. kr. og fer nú skrautfjöðrin mikla frá tíð fyrri ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar --- sem sumir vilja nú eflaust nefna ,,hina fyrstu`` en ég held mig við þá fyrri --- þessi skrautfjöður fer að verða býsna litlaus. Eða naumast hefur slík upphæð nein úrslitaáhrif á eflingu nýjunga í atvinnulífi, upphæð sem nær ekki einu sinni þriðjungi þeirrar upphæðar sem verja á til eftirmála flugstöðvarbyggingarinnar á Keflavíkurflugvelli.
    Ég sé við fljótlegt yfirlit að svo sem vænta mátti hefur Byggðastofnun fengið hækkun lántökuheimildar. Ég efa ekki að fyrir það fé er full þörf eins og ástandið er í atvinnumálum landsmanna, ekki síst á landsbyggðinni. Framkvæmdasjóður hins vegar sætir lækkun og væri fróðlegt að heyra hvers vegna það er. Ég heyrði ekki hæstv. ráðherra víkja að því í hraðlestri sínum hér áðan. Ýmsum sjóðum, sem ekki voru í upphaflegu frv., hefur verið bætt við og er það vafalaust með tilliti til atvinnuástandsins. Sömuleiðis hljótum við í nefndinni að leita upplýsinga varðandi smíði ferjanna tveggja, Baldurs og Herjólfs. Baldur er nú á lokastigi, mig minnir reyndar að hann væri líka á lokastigi í fyrra en þetta er þá kannski loka-lokastig. En enn er eitthvað ófrágengið með áætlun um nýjan Herjólf. Eins og hv. þm. e.t.v. muna voru mjög stórtækar áætlanir uppi um mjög svo kostum búinn nýjan Herjólf sem átti að kosta býsna mikið fé og hefði raunar einnig haft í för með sér kostnaðarsamar breytingar í viðkomuhöfnum þeirrar ferju sem áætluð var. Það var fyrir tilverknað hv. fjh.- og viðskn. Nd., eins og hún var skipuð í fyrra, en
reyndar að frumkvæði mínu að reynt var að fara ofan í það mál og verður fróðlegt að heyra um gang þess sem ég vona að fái farsælan endi.
    Þá vil ég einnig nefna hinn sígilda ,,þrátt fyrir`` kafla sem við köllum svo, þ.e. II. kafla frv. sem er hér í allmörgum greinum er allar hefjast á ,,þrátt fyrir ákvæði þessara og þessara laga skal framlag ríkissjóðs ekki nema hærri fjárhæð en svo og svo``. Og er ekki fegurri svipur á þeim kafla en venjulega. Þó er ástæða til þess að fagna hér einu ljósi í myrkrinu og það er náttúrlega sú staðreynd að nú eru aðflutningsgjöldn af útvarpstækjum ekki tekin í ríkissjóð eins og var og var reynt að vinna gegn með öllum ráðum á síðasta ári og þar áður. Vafalaust getur hæstv. núv. menntmrh. hrósað sér af þeim sigri og hefði nú varla verið stætt á öðru, held ég.

    En ég hef þegar óskað eftir því á fundi í fjh.- og viðskn. í morgun að fá um það upplýsingar um hvaða upphæðir er að ræða í þessum II. kafla frv., þ.e. samanburð á því hvert framlag ríkisins hefði átt að vera samkvæmt lögum og því sem áætlað er í frv. Við könnumst við flesta þessa liði. Hér er Ferðamálasjóður og Menningarsjóður, Kvikmyndasjóður, Hafnabótasjóður o.s.frv., og svo náttúrlega hneykslið stóra: Atvinnuleysistryggingasjóður. Sá tilflutningur fjárframlags sem ríkisstjórnin hefur ákveðið í svokallaðan Atvinnutryggingarsjóð á áreiðanlega eftir að koma ríkisstjórninni í koll. Hún verður með einhverjum hætti að mæta þeirri fjárvöntun sem fyrirsjáanleg er í Atvinnuleysistryggingasjóði svo niðurstaðan verður ekki að neinu betri. Þessi ráðstöfun hlýtur að koma þeim í koll. Hef ég ekki meiru við það að bæta. Ég hef margsinnis rætt um þessa ráðstöfun ríkisstjórnarinnar sem mér finnst forkastanleg og ekki aðeins siðlaus, heldur er hún heimskuleg.
    Það bíður svo 2. umr. að fjalla nánar um einstaka liði. Ég hlýt að lokum aðeins að láta í ljós efasemdir um það að samkvæmt venju má segja að þessi áætlun standi eitthvað fastari fótum en þær hinar fyrri. Og ekki er sú tortryggni að ástæðulausu. Ég minni á reynsluna í þessu efni. Það kemur fram á þskj. 505 sem er álit frá minni hl. fjh.- og viðskn. Ed. Þar eru þessar upplýsingar skjalfestar, hvernig þessar áætlanir hafa staðist. Ég les hér örfá orð, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á árinu 1986 var gert ráð fyrir erlendum lántökum að fjárhæð 7,5 milljörðum kr., en þær reyndust tæplega 12 milljarðar eða 55--60% umfram áætlun. Árið 1987 voru sambærilegar tölur rúmlega 8 milljarðar kr. en lántökur reyndust ríflega 12 milljarðar kr. eða 50% umfram áætlun. Bráðabirgðatölur um erlendar lántökur til langs tíma á síðasta ári nema rúmlega 16 milljörðum kr. en gert var ráð fyrir rúmlega 9 milljörðum kr. við afgreiðslu lánsfjárlaga fyrir árið 1988. Frávikið er um 80% umfram áætlun og skýrist að stórum hluta af erlendum lántökum til að fjármagna ríkissjóð.`` --- Þannig segir reynslan okkur að fara varlega í því að trúa á áreiðanleik þessarar áætlunar og það geta verið mín lokaorð að ég hef fremur litla trú á því að við munum geta hælt núverandi stjórnvöldum fyrir betri árangur þegar þetta ár verður skoðað í ljósi reynslunnar.