Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Sighvatur Björgvinsson:
    Herra forseti. Það er út af fyrir sig rétt að það er gert ráð fyrir því í lögum og einnig samkvæmt almennri og heilbrigðri skynsemi að afgreiða skuli lánsfjárlög jafnhliða afgreiðslu fjárlaga. Það er einnig í ljósi reynslunnar sem ég mæli það að sennilega hefur það oftar verið en ekki að afgreiðsla lánsfjárlaga hefur ekki fallið á sama tíma og afgreiðsla fjárlaga og hefur stundum borið við að lánsfjárlög hafi ekki verið afgreidd fyrr en að vori jafnvel þó svo að afgreiðsla fjárlaga hafi farið fram á tilsettum tíma. Eins og öllum hv. þm. er hins vegar kunnugt réðu aðstæður því að ekki var hægt að leggja fram frv. til fjárlaga á eðlilegum tíma á Alþingi og þess vegna dróst afgreiðsla fjárlaga fram á þetta ár. Og ég gæti trúað að það heyrði frekar til undantekninga heldur en hitt að svo skammur tími eins og nú líði á milli afgreiðslu fjárlaga og afgreiðslu lánsfjárlaga. Ég get hins vegar tekið undir það með þeim sem hér hafa talað að það er eðlilegt að afgreiðsla lánsfjárlaga og afgreiðsla fjárlaga fylgist að.
    Eins og kom fram í máli hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur sem talaði hér áðan þá er það svo að þeir sem um eiga að fjalla hér í hinu háa Alþingi, fjh.- og viðskn., koma að þessu máli nánast eins og hv. þm. sagði án þess að hafa haft tíma eða tækifæri til þess að kynna sér þau viðamiklu mál sem lánsfjárlög fjalla um. Það er ósköp eðlilegt og skiljanlegt vegna þess að lánsfjárlög fjalla m.a. um ýmsa þá málaflokka sem fjvn. hefur verið að vinna að allt haustið og lungann úr þeim vetri, a.m.k. sem af er. Það er auðvitað mjög óeðlilegt ef menn ætla að tengja afgreiðslu lánsfjárlaga afgreiðslu fjárlaga, og með afgreiðslu lánsfjárlaga eru menn að afgreiða stóran hluta úr ríkisbúskapnum, að þá sé það annar aðili í þinginu, fjh.- og viðskn. í deildum, sem fjallar um lánsfjárlög heldur en sá aðili í þinginu, fjvn. og sameinað þing, sem fjallar um afgreiðslu fjárlaga. Þá gerist það, eins og hv. þm. sagði hér áðan, að þeir aðilar í fjh.- og viðskn. sem koma að þessu máli, hvort sem það er seint eða snemma, eru að mestu leyti ókunnugir þeim forsendum sem eru fyrir þeim tillögum sem gerðar eru um lánsfjáröflum í þessu frv. frá ríkisstjórninni. Þessir hv. þm. í fjh.- og viðskn. þurfa sem sé að tvívinna verk sem þegar hefur verið unnið áður. Þeir þurfa að fara ofan í saumana á verki sem fjvn. hefur unnið að í marga mánuði og hafa mjög takmarkaðan tíma til þess að vinna að eigin frumkvæði eitthvert umtalsvert starf í þeim efnum, eins og kom fram hjá hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur. Það er með öllu óeðlilegt að fjármál íslenska ríkisins og afgreiðsla Alþingis á þeim séu með þessum hætti skilin að. Að það sé í fjh.- viðskn. og í þingdeildum unnið að afgreiðslu lánsfjárlaga en í fjvn. og sameinuðu þingi unnið að afgreiðslu fjárlaga. Það verður að sjálfsögðu til þess að vinna fjh.- og viðskn. að afgreiðslu lánsfjárlaga getur aldrei orðið jafnmikil og umfangsmikil og vinna fjvn. við afgreiðslu fjárlaga. Og þarna er um tvíverknað að ræða vegna þess að í fjh.- og viðskn., sem eru að afgreiða lánsfjárlög, er

verið að fjalla um sömu mál sem menn eru búnir að sitja vikum og mánuðum saman yfir í fjvn. og kynna sér.
    Eitt af því sem þyrfti að gera til þess að tryggja það að afgreiðsla fjárlaga og lánsfjárlaga færi fram á sama tíma væri að sjálfsögðu að gera þá breytingu á þingsköpum að það væru sömu aðilar á Alþingi, þ.e. sameinað þing og fjvn., sem fjalla um lánsfjárlög og þeir sem fjalla um fjárlög, en ekki tvær ólíkar nefndir og raunar ólíkar stofnanir þar sem eru sameinað þing annars vegar og deildir þingsins hins vegar. Á meðan þessi mál, þ.e. fjárlög annars vegar og lánsfjárlög hins vegar, eru þannig til meðferðar í Alþingi að það eru ólíkir aðilar sem um þau fjalla, þá er og verður alltaf hætta á að lánsfjárlög dragist úr hömlu, að þau bíði, m.a. vegna þess að það getur verið frá sjónarhóli framkvæmdarvaldsins ástæða fyrir því að bíða eilítið með afgreiðslu lánsfjárlaga til þess að menn geti kannski betur séð hvernig fjárlög ætli að gera sig, ef ég má taka þannig til orða.
    Ég vil einnig leiðrétta það sem hv. 10. þm. Reykn. sagði hér áðan. Það er talsverður munur á lánsfjárlögum og lánsfjáráætlun. Hv. þm. margtók það fram að lánsfjáráætlanir hefðu ekki staðist, en það er ekki lánsfjáráætlun sem við erum að afgreiða hér, það eru lánsfjárlög. Lánsfjáráætlun eru allt aðrir hlutir. Lánsfjárlög eru ákvarðanir sem heimila, eins og stendur í 1. gr. I. kafla, fjmrh. tilteknar afgreiðslur og ekki umfram það. Þannig að fari hæstv. fjmrh. fram úr því sem lánsfjárlög heimila þá er hann ekki að fara fram úr áætlun heldur er hann að fara fram úr heimildum sem Alþingi hefur honum veitt og yrði þá að afgreiða það með nákvæmlega sama hætti eins og ef hann fer yfir heimildir sem Alþingi veitir honum til útgreiðslu fjármuna í fjárlögum. Þannig að þegar farið er fram úr lánsfjárlögum þá eru menn ekki bara að fara fram úr einhverjum áætlunum sem gerðar hafa verið heldur eru menn að fara fram úr heimildum sem Alþingi Íslendinga hefur veitt viðkomandi aðilum í formlegum lögum.
    Það er aftur á móti allt önnur spurning, m.a. í ljósi reynslunnar, hvort ástæða er til þess á annað borð að vera að afgreiða lög eins og lánsfjárlög
vegna þess, eins og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir tók réttilega fram hér áðan, að reynslan sýnir okkur það að lánsfjárlögin standast ekki og það er langt í frá. Það er ekki staðið við þann ramma sem lánsfjárlög reyna að marka. Og ef menn skoða það mál nokkuð nánar þá er full ástæða til þess að menn spyrji hvort það sé e.t.v. ekki rétt að hverfa frá afgreiðslu lánsfjárlaga með hefðbundnum hætti og láta sér nægja að afgreiða það er varðar lánsfjárheimildir til A-hluta ríkissjóðs og vegna ríkisstofnana í B-hluta í fjárlögunum sjálfum, en leyfa síðan þeim aðilum sem hafa til þess lánstraust að taka lánin þar sem þeir telja sig komast að bestum kjörum og hagkvæmustum fyrir sjálfa sig og þjóðarbúið í reynd, hvort sem það er á erlendum eða innlendum lánsfjármarkaði, og vera ekki að reyna að setja við því skorður eins og í lánsfjárlögum sem reynslan sýnir okkur hvort eð er að

ekki standast.
    Menn hafa mikið talað um það hér að það sé nauðsynlegt að vextir á Íslandi komist á sambærilegt stig og í helstu viðskipta- og nágrannalöndum okkar Íslendinga. Auðveldasta og fljótvirkasta leiðin til þess að það takmark nái fram að ganga, sem allir segjast hafa, að vextir hér á Íslandi séu ekki hærri en í nálægum löndum, fljótvirkasta aðferðin til að koma því fram er að sjálfsögðu sú að íslenskir lántakendur geti ráðið því sjálfir hvort þeir taka lán á innlendum eða erlendum lánsfjármarkaði. Það er fljótvirkasta aðferðin og raunar sú eina sem tryggir það að lánveitendur á Íslandi, þeir sem geta boðið hvort heldur er fólki eða fyrirtækjum fé að láni, leiki ekki þann leik sem hefur verið alsiða hér undanfarin ár að raunverulega ætla sér sjálftökuréttindi í vaxtaákvörðunum sem eru langt umfram það sem gerist á lánsfjármörkuðum í kringum okkur. Þá fyrst þegar íslenskur lántakandi getur valið um það, sé hann á annað borð traustsins verður, þess trausts sem felst í því að veita honum lán, þá fyrst þegar lántakandinn getur valið um það hvort hann tekur lán sitt á innlendum eða erlendum lánsfjármarkaði er hægt að treysta því að þeir sem eiga peninga á Íslandi og vilja lána þá geri ekki hærri kröfur um ávöxtun en gerðar eru í nálægum löndum. Því að ef þeir gera það þá sitja þeir einfaldlega eftir í þeirri súpu að lántakendurnir ganga þá fram hjá þeim og taka lán hjá öðrum sem betur bjóða. Og þegar til lengdar er litið hlýtur það að vera hagkvæmt fyrir alla, bæði þá sem lánin þurfa að taka og eins þjóðarbúið í heild, ef lánin eru tekin á lágum vöxtum, á lágum ávöxtunarkjörum, á sambærilegum ávöxtunarkjörum og tíðkast í nálægum löndum sem eru mun lægri en hér á Íslandi. Þannig að það er spurning, bæði frá þessu sjónarmiði og í ljósi reynslunnar, hvort á annað borð á að vera að afgreiða lánsfjárlög eins og verið er að gera hér á Alþingi Íslendinga ár eftir ár, þegar reynslan segir okkur að þau standast aldrei og skynsemin segir okkur líka að það sé auðvitað hagfelldast fyrir þjóðarbúið og einstaklingana og fyrirtækin að taka þau lán sem þessir aðilar þurfa á þeim kjörum sem hagstæðust eru, hvort heldur sem þau eru hér á Íslandi eða annars staðar.
    Ég sé t.d. ekki hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að komast fram með það stefnumið sitt að taka ekki lán til húsnæðiskerfisins frá lífeyrissjóðum landsmanna með hærri vöxtum en 5% nema því aðeins að hæstv. ríkisstjórn sé þá reiðubúin til þess að segja við þessa lántakendur: Ef þið eruð ekki reiðubúnir til þess að veita húsbyggjendum á Íslandi fyrir milligöngu ríkissjóðs lán á sambærilegum kjörum og bjóðast í nálægum löndum, gott og vel, þá tökum við okkar lán þar. Þið verðið síðan sjálfir, herrar mínir og frúr, að ráða fram úr því hvernig þið ætlið að ávaxta ykkar fé. Staðreyndin er nefnilega sú að það húsnæðiskerfi sem byggt var upp hérna fyrir nokkrum árum á grundvelli samninga við verkalýðshreyfinguna gekk ekki fyrst og fremst út frá hagsmunum húsbyggjenda, heldur jafnvel fremur út frá hagsmunum lífeyrissjóðanna.

    Lífeyrissjóðirnir höfðu nefnilega staðið frammi fyrir því alvarlega vandamáli að eins og horfði með þeirra starfsemi lá nokkuð ljóst fyrir að þeir mundu verða komnir í þrot upp úr aldamótum vegna þess að ávöxtunarkröfur þeirra, sem stjórnendur þeirra gerðu, nægðu ekki til þess að tryggja þau lífeyrisréttindi sem lífeyrissjóðirnir áttu að veita. Forstöðumenn lífeyrissjóðanna stóðu frammi fyrir því vandamáli að félagsmenn þeirra sem vildu taka lán úr lífeyrissjóðunum vildu ekki borga nema lágmarksvexti á sama tíma og lífeyrissjóðirnir þurftu hámarksvexti til þess að tryggja það að geta staðið að einhverju leyti a.m.k. við skuldbindingar sínar. Þá fundu menn upp það kerfi, sem nú er notað til fjármögnunar á hinu opinbera húsnæðislánakerfi, sem byggðist á því að lífeyrissjóðirnir lánuðu ríkissjóði fé sitt til endurlána í húsnæðiskerfinu á háum vöxtum og kröfðust þess síðan á móti að þetta sama fé yrði lánað í gegnum byggingarsjóði hins opinbera til þessara sömu lánþega eða lífeyrisþega, eins og þeir áður áttu í baráttu við, á lágum vöxtum.
    Þannig eru sömu forráðamenn einstakra verkalýðsfélaga og lífeyrissjóða nú í senn að krefjast þess að ríkið taki fé lífeyrissjóðanna að láni í húsnæðiskerfið á mjög háum vöxtum, miklu hærri vöxtum en greiddir yrðu ef það sama fé yrði tekið til láns á erlendum lánsfjármarkaði. Í hinu orðinu eru þessir sömu menn að krefjast þess að húsnæðislánakerfið veiti síðan
félagsmönnum lífeyrissjóðanna lán af þessu sama fé á mun lægri vöxtum en almennt eru gerðar kröfur til á þessum sama lánamarkaði í nálægum löndum. Þannig geta þeir raunverulega sagt hluti sem gjörsamlega stangast á og verið uppi með kröfugerðir, þar sem ein krafan gengur í aðra áttina og önnur þvert á hana. Lánakerfið, eins og það hefur verið byggt upp, hefur þannig fyrst og fremst verið byggt upp með hagsmuni lífeyrissjóðanna fyrir augum og var gert af hálfu forráðamanna verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda í tengslum við þessa samninga, svo sem gleggst má sjá af því, herra forseti, að nú er staðan þannig hjá mörgum fyrirtækjum, t.d. í sjávarútvegi, að þau ramba á barmi gjaldþrots. Þessi fyrirtæki hafa e.t.v. ekki staðið í skilum við lífeyrissjóði um greiðslur iðgjalda á annað ár. Á annað ár hefur ekki komið ein króna frá þessum fyrirtækjum í lífeyrissjóði starfsfólks. Verði um gjaldþrot að ræða, þá tapast af lífeyrisgreiðslunum allt iðgjald atvinnurekenda. Það er aðeins 4% iðgjaldshlutur verkafólksins sem er forgangskrafa sem örugglega tapast ekki. En með tapinu á 6% iðgjaldi atvinnurekandans, kannski í heilt ár, tapar viðkomandi verkafólk heils árs lífeyrisrétt. Og ekki aðeins það, heldur tapar þetta sama fólk lánsréttindum sínum í byggingarsjóðum ríkisins vegna þess að lánsrétturinn er tengdur við lífeyrisiðgjöld síðustu missira, þannig að þarna er um það að ræða að gjaldþrot eins fyrirtækis getur svipt íslenskan almenning ekki bara lífeyrisrétti heldur jafnframt rétti til lána í hinu opinbera húsnæðislánakerfi. Og ef menn hugsa þetta mál til enda, þá sjá menn að sjálfsögðu að það sem

gert var á sínum tíma í sambandi við tilbúning þessa kerfis var fyrst og fremst að reyna að tryggja hagsmuni lífeyrissjóðanna og í minna mæli lífeyrisþega, svo sem sjá má af því að réttur lífeyrisþega til láns úr opinberu lánakerfi er skuldbundinn því að atvinnurekandinn hafi staðið í skilum með þau iðgjöld sem hann hefur átt að greiða ásamt launamanninum til lífeyrissjóðs sem viðurkenndur er af stéttarfélögunum. Þetta kerfi gengur auðvitað ekki upp og því miður hafa margir, bæði ungir og eldri, orðið að upplifa það að hafa, án þess að gera sér fyllilega grein fyrir því, misst af lánsréttindum í opinberum byggingarlánasjóðum út af þessu atriði. T.d. þeir aðilar sem á uppgangstímunum hér á suðvesturhorninu féllust á það samkomulag við atvinnuveitanda sinn að láta skrá sig sem undirverktaka eða eitthvað slíkt eins og var t.d. algengt í ýmissi þjónustustarfsemi og byggingariðnaði gegn því að bera úr býtum nokkurra króna hærra kaup á klukkustundina en losa atvinnuveitandann á móti undan því að þurfa að greiða launatengd gjöld.
    Þetta unga fólk hefur margt starfað á þessum kjörum í tvö eða þrjú ár, jafnvel lengur. Síðan þegar til á að taka og þetta unga fólk, sem er búið að starfa með þessum hætti, ætlar að sækja um lán hjá byggingarsjóðum ríkisins, þá kemur í ljós að það á engan lánsrétt vegna þess að það láðist að taka fram við það að ef það ekki greiddi í lífeyrissjóð, ekki bara launþegaiðgjaldið heldur atvinnurekendaiðgjaldið líka, þá mundi það missa af lánsréttindum í hinu opinbera byggingarsjóðslánakerfi. Þar ofan á bætist að það fólk sem óttast nú um atvinnu sína í hugsanlegum gjaldþrotum fyrirtækja í sjávarútvegi t.d. eða í öðrum starfsgreinum, og vitað er að mörg af þessum fyrirtækjum hafa ekki greitt lífeyrisiðgjöld í allt að 18 mánuði, sér þá blasa við að í gjaldþrotum slíkra fyrirtækja mundi í fyrsta lagi tapast samsvarandi lífeyrisiðgjaldaréttur, lífeyrisgreiðsluréttur kannski sem nemur 18 mánuðum, og í öðru lagi rétturinn til þess að fá lán í húsbyggingar úr opinberu húsnæðislánakerfi. Auðvitað gengur þetta ekki ef menn hugsa þá hugsun til botns.
    Þetta var útúrdúr, herra forseti, sem ég vildi þó gjarnan koma hér að. Meginatriðið var, eins og ég sagði hér áðan, hvort ekki sé ástæðulaust að afgreiða lánsfjárlög með þeim hætti sem hér er verið að gera og gert hefur verið á undanförnum árum, hvort ekki sé réttara að tengja þá afgreiðslu afgreiðslu fjárlaga þar sem fjmrh. væri veitt heimild til þeirrar lántöku sem fjárlög gera ráð fyrir, bæði til A-hluta ríkissjóðs og eins á vegum B-hluta ríkisstofnana, en síðan yrði fyrirtækjum og fólki sem hefur lánstraust á annað borð gefinn réttur til þess að taka sín lán án afskipta ríkisvaldsins á þeim lánsfjármarkaði, innlendum eða erlendum, sem tryggði lántakendum og þjóðinni í heild bestu ávöxtunarkjörin og minnstar vaxtagreiðslur. Það væri skynsamlegra en að standa hér ár og síð í því að afgreiða lánsfjárlög sem reynslan sýnir okkur að ekki standast nema að litlu leyti.
    Virðulegi forseti. Að lokum örfá orð um II. kafla

þessa frv., þessi margfrægu ,,þrátt fyrir`` ákvæði. Þau eru búin að vera í lögum árlega um nokkuð mörg ár og ég held að það væri kominn tími til að hv. alþm. mönnuðu sig í það að afnema þessa sjálfvirkni í eitt skipti fyrir öll í útgreiðslum á vegum ríkissjóðs í staðinn fyrir það að standa hér árlega í því að afgreiða undanþágur frá sömu lögum á annan áratug án þess að breyta lögunum sjálfum að öðru leyti. Ég veit það, herra forseti, að það þarf töluverðan kjark til þess að breyta því sem lengi hefur staðið, en eftir 10 ára tilhlaup hlýtur nú kjarkurinn að vera farinn að vaxa eitthvað.