Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Ég sé ástæðu til að segja örfá orð um þetta mál, lánsfjárlög. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. 5. þm. Vestf. í sambandi við meðferð málsins. Það hefur oft komið fram í umræðum á undanförnum árum hvað þetta er í raun og veru óraunhæft að vera að fjalla um lánsfjárlög löngu eftir að hin raunverulegu fjárlög eru afgreidd. Það er alveg augjóst mál öllum sem eitthvað vilja kynna sér þessa málsmeðferð hvað það er í raun og veru óljóst að fjalla um málin á þennan hátt. Þess vegna vil ég taka undir það sem kom fram hjá hv. 5. þm. Vestf. að það er löngu orðið tímabært að taka um það ákvörðun hvort ekki sé réttara að samræma þetta þannig að vinnan að lánsfjárlögum fari fram samhliða fjárlögum og sé unnin af sömu nefnd, fjvn., og afgreidd í Sþ. Eða þá hins vegar að fara þá leið, sem hann einnig kom inn á, að veita heimildir samhliða fjárlögum til fjmrh. til að taka og annast um erlend lán. Mér finnst eiginlega útilokað annað en að Alþingi taki á sig rögg og geri þarna veigamiklar breytingar, jafnhliða því sem ég vil benda á að það eru líklega liðin svona 5--6 ár síðan hér var alvarleg umræða á hv. Alþingi um það að breyta lögum og þurfa ekki sí og æ að vera að setja heimildarákvæði um að þrátt fyrir þessi lög o.s.frv. skuli þetta vera gert, heldur að ganga hreinlega í það að breyta viðkomandi lögum. Það var lögð hér fram fyrir nokkrum árum mjög ítarleg skýrsla, sem er til í þingskjölum, um þessi mál, hvernig að skyldi standa, og það væri fullkomlega ástæða til að ganga þar að verki.
    Ég verð að segja það eins og er í sambandi við meðferð málsins hér á hv. Alþingi að því er varðar Ed. að það kemur mér á óvart hversu hv. deild hefur farið inn á þá braut sem er í raun og veru í andstöðu við það sem var búið að ákveða á sínum tíma. Það var búið að ákveða það að draga úr því að ríkisábyrgð væri sífellt tekin hjá hinum ýmsu aðilum á erlendum lántökum. Þetta fannst mér og finnst vera meginmál til þess að draga úr erlendri lántöku hinna ýmsu stofnana og sjóða, að ríkisábyrgðin væri afnumin. Ég held að hv. Ed. hafi gengið þarna feti lengra í öfuga átt en æskilegt er. Þetta þarf ekki að rökstyðja. Þetta er svo augljóst mál að það ætti að vera öllum ljóst, ekki síst núna í því efnahagsástandi sem við búum við í okkar landi, að það væri miklu eðlilegra að nota tækifærið núna til þess að takmarka á allan hátt erlendar lántökur umfram brýnustu þörf. Og ég sé enga ástæðu til þess að auka lántökuheimild hjá hinum ýmsu sjóðum sem kemur fram í lánsfjárlögunum eins og Ed. hefur breytt þeim.
    En það sem ég vildi koma hér aðeins inn á og var eiginlega aðalástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs eru nokkur atriði í þessu frv. sem eru áhyggjuefni margra. Þar á ég við í fyrsta lagi framlag til vegamála. Við landsbyggðarþingmenn höfum á undanförnum árum flestir barist fyrir því að efla Vegasjóð og efla þannig framkvæmdir í vegamálum, sem að okkar mati --- og því hefur ekki verið mótmælt --- er eitt þýðingarmesta byggðamál sem til er, gott vegakerfi í landinu er það

sem gerir það mögulegt að byggja landið allt. Og allir landsmenn eiga rétt á því að hafa samgöngur sem geta verið í viðunandi ástandi. Þess vegna harma ég að það skuli þurfa að grípa til þess æ oftar að skerða þær raunverulegu tekjur Vegasjóðs eða fjármagn til vegamála eins og hér er gert í stærri stíl nú en nokkurn tíma áður. Hins vegar höfum við sem styðjum þessa ríkisstjórn fallist á það tímabundið að þetta væri gert eins og kom fram í afgreiðslu fjárlaga.
    En það er eitt atriði sem ég vil sérstaklega undirstrika og það er að eins og vegáætlun var afgreidd á síðasta ári, var ljóst að tekjur Vegasjóðs hefðu farið fram úr áætlun sem svaraði til 285 millj. kr. Við meðferð vegáætlunar 1988 gekk fjvn. þannig frá málinu að þessu fjármagni var skipt milli landshlutanna og inn á ákveðið stofnverkefni þannig að það fjármagn sem þannig flyttist til yfir á árið 1989 yrði til ráðstöfunar á því ári í sambandi við viðkomandi framkvæmdir. Nú var hins vegar ljóst að ríkissjóður taldi sig ekki hafa vissu fyrir því að geta greitt þessa fjárhæð upp á árinu 1989 og við endurskoðun á þessum umframtekjum kom í ljós að þessi fjárhæð var um 180 millj. En það sem gengið var frá við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1989 var það að þetta væri inneign Vegasjóðs hjá ríkissjóði, þessar 180 millj. Og það var margtekið fram við afgreiðslu fjárlaga nú að svo yrði. Því tel ég ástæðu til þess núna sérstaklega, ég heyrði að vísu ekki svar hæstv. samgrh. við meðferð málsins í hv. Ed. en ég vil undirstrika það og óska eftir því að það komi fram og mun beita mér fyrir því áður en lánsfjárlög verða samþykkt að það verði alveg ljóst að þessi skilningur sé fyrir hendi hjá hæstv. fjmrh. þannig að ef úr rætist með fjármagn ríkisins á þessu ári, þá verði þessi fjárhæð, 180 millj. sem er innstæða Vegasjóðs hjá ríkissjóði, til útgreiðslu á árinu ef með þarf, en alla vega gulltryggð sem sérstakt fjármagn sem Vegasjóður á.
    Þá vil ég einnig undirstrika nauðsyn þess að fram komi við afgreiðslu lánsfjárlaga hver niðurstaðan verður varðandi framlög til landbúnaðarins. Þar á ég við í sambandi við 28. gr. um jarðræktarframlög og einnig í sambandi við 29. gr. hvað snertir framlög til búfjárræktarlaga að undirstrika yfirlýsingu
sem hæstv. landbrh. gaf í sambandi við afgreiðslu fjárlaga og lesin var upp af formanni fjvn. þar sem gert var ráð fyrir því, eftir hans umsögn, að hann mundi leggja fram á þessum vetri lagabreytingar í sambandi við jarðræktarlög og búfjárræktarlög og jafnframt að tryggja það að við þá samninga, sem bændur eiga lögum samkvæmt rétt á, yrði staðið á árinu. Þetta tel ég að þurfi að koma hér fram og ég vil undirstrika þetta hér vegna mikilvægis málsins.
    Ég vil svo aðeins að lokum koma inn á það sem hv. 5. þm. Vestf. minntist hér á, það er í sambandi við lífeyrissjóðina. Ég tel að samningarnir við aðila vinnumarkaðarins 1986 hafi verið mjög merkilegir og þýðingarmiklir fyrir lífeyrissjóði launþega í landinu því að með þeim samningum var gengið út frá því að fjármagn lífeyrissjóðanna yrði í fyrsta lagi stóraukið

þar sem jafnframt var samið um það að iðgjöld til lífeyrissjóðanna yrðu tekin af öllum greiddum launum en áður var það annaðhvort af áætluðum launum eða aðeins dagvinnulaunum sem þýddi það að á vissu árabili margfaldaðist fjármagn lífeyrissjóðanna og um leið margfaldaðist það öryggi sem launþegar fá í gegnum lífeyrissjóði launþegahreyfingarinnar. Þetta var eitt af mikilvægustu málunum í sambandi við þessa samninga, jafnframt því að aðilar vinnumarkaðarins gengust inn á það og gerðu meira, þeir gerðu það að sinni tillögu að fjármagn lífeyrissjóðanna, allt að 55% af ráðstöfunarfé, gengi beint í húsnæðiskerfið sem hefur gert það að verkum að nú er svo komið að á þessu ári og næsta ári kemur frá lífeyrissjóðunum ekki minna fjármagn en 10--11 milljarðar á ári í húsnæðiskerfið.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að ræða þetta öllu nánar. Ég vil aðeins undirstrika það sem kom hér fram í upphafi að meðferð afgreiðslu lánsfjárlaga hér á hv. Alþingi er löngu orðin úrelt og það er fullkomin ástæða til þess að það sé tekið til raunverulegrar athugunar að breyta þessu ákvæði þannig að lánsfjárlög verði afgreidd jafnhliða fjárlögum og af sömu nefnd og fjallar um fjárlögin til þess að hægt séað sjá og fjalla um hið raunverulega ástand fjármála ríkisins í einum pakka.