Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Herra forseti. Ég verð mjög stuttorð enda er ég búin að tala fyrr í þessari umræðu. Ég vil byrja á því að taka undir það sem kom fram í máli hv. tveggja síðustu ræðumanna um nauðsyn þess að tekin verði upp önnur skipan mála og annars konar umfjöllun þannig að það sé fjvn. sem fjallar um báða þessa hluta fjárlagadæmisins. Þeirri skoðun hef ég lýst áður og get tekið undir orð þeirra hvað það varðar. Hingað kem ég hins vegar nánast eingöngu til þess að leiðrétta sjálfa mig og skil nú ekki hvað yfir mig hefur komið, en skýringin er auðvitað sú sem ég orðaði reyndar í upphafi máls míns hér áðan, nefnilega að yfirferð mín yfir þetta frv. var á algjörum handahlaupum og jafnvel stuðst við brigðult minni, líklega er þó allra réttast að tala um óskhyggju.
    Þannig var búið að fullyrða það einhvern tíma í mín eyru að nú loksins væri Ríkisútvarpinu aftur skilað þeim tekjustofni sem því er ætlaður með lögum af aðflutningsgjöldum af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum og þar með væri nú hagur Ríkisútvarpsins bættur verulega. Þessu fagnaði ég að sjálfsögðu. Við höfðum gagnrýnt þetta mjög harðlega á síðustu þingum og ég fagnaði þessu í máli mínu hér áðan og hrósaði hæstv. menntmrh. alveg sérstaklega fyrir dugnað hans í þessu efni. En það var sem sé oflof sem hann á engan veginn skilið og ég tek það hér með aftur því eins og ég komst að raun um þegar ég hélt áfram lestri í sæti mínu, og reyndar eftir ábendingu sessunautar míns, hv. 17. þm. Reykv., var hér heldur betur um misskilning að ræða og núv. stjórnvöld eru engu betri hinum fyrri. 27. gr. frv., eins og það er nú komið frá hv. Ed., hljóðar svo: ,,Þrátt fyrir ákvæði 22. og 23. gr. laga nr. 68/1985, útvarpslaga, skulu tekjur á árinu 1989 vegna aðflutningsgjalda af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum ásamt fylgihlutum renna í ríkissjóð.``
    Ég hlýt, um leið og ég tek fyrri lofsyrði til baka, að lýsa yfir undrun minni að einmitt hæstv. menntmrh. sem hástöfum gagnrýndi einmitt þetta atriði á síðustu þingum skuli nú sætta sig við þessa niðurstöðu. Að óreyndu hefði maður ekki trúað því að hann léti sér nægja að skipa nefnd í málið en það virðist þó vera raunin, og um þetta verður sjálfsagt fjallað meira. En ég gat ekki látið hjá líða að leiðrétta þetta strax í þessari umræðu.