Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Albert Guðmundsson:
    Herra forseti. Ég vil aðeins láta það koma fram í upphafi máls míns að gefnu tilefni frá hv. 1. þm. Vesturl. --- ég veit ekki hvort hv. 1. þm. Vesturl. tók eftir því að ég var að beina orðum mínum til hans --- að það var tillaga fjmrh. í þeirri ríkisstjórn sem hann sat sjálfur í á sínum tíma að breyta fyrirkomulagi meðferðar fjárlaganna á Alþingi Íslendinga og ég veit ekki annað en að það hafi verið samþykkt og því hafi ekki verið breytt síðan að fjárlög, lánsfjárlög, lánsfjáráætlanir, aukafjárveitingar og áætlanir fram í tímann á öllum þessum sviðum skyldu tekin fyrir á Alþingi á sama tíma. Hv. 10. þm. Reykn., sem talaði um sama mál og í sama dúr og hv. 1. þm. Vesturl., samþykkti þessa tillögu hér. Ég skil því ekki hvað minnið er stutt. Það er talað um það núna, nokkrum árum síðar, að það þurfi að gera það sem Alþingi er búið að samþykkja að skuli gert. Þrátt fyrir það að hæstv. fjmrh. hafi ekki farið eftir því í þetta sinn hefur verið farið eftir því hingað til.
    Ég vil hins vegar taka það fram að ég hefði ekki treyst mér sjálfur sem fjmrh. til þess að fara eftir þessari samþykkt í þetta sinn vegna þess afbrigðilega ástands sem ríkir og hefur ríkt í ríkisstjórnarmálum undanfarið. Ríkisstjórnir hafa komið og farið örar undanfarið en vant er, örar en hefðbundið er. Núv. fjmrh. hafði því afskaplega lítið svigrúm, þannig að það er skiljanlegt og tæplega hægt að gera þær kröfur sem venjulega er eðlilegt að gera til framlagningar fjárlagadæmisins í heild. Ég tek hins vegar undir það að það þarf að stokka upp meðferð fjármálanna. Það er eitt af því sem fór fram hjá mér, og þó ekki, vegna þess að ég álít að það þurfi að breyta þannig að fjvn. hafi meira með fjármálin í heild að gera en hún hefur haft til þessa.
    Ég dró t.d. til baka fulltrúa fjmrn. í langlánanefnd þegar ég var fjmrh. vegna þess að sem fjmrh. var ég ábyrgur fyrir eyðslu og lántöku, erlendum lántökum fyrirtækja á vegum viðskrn. Ég var ábyrgur fyrir því sem fjmrh. en hafði ekkert með það að gera hvað var lánað eða hvernig þau mál voru meðhöndluð.
    Að þessum athugasemdum gerðum tek ég fram að ég tala hér ekki fyrir minn flokk. Ég tala hér sem einstaklingur. Talsmaður flokksins hlýtur að taka til máls á eftir ef hann er viðstaddur. Það sem ég vil leiðrétta er --- ég tel það svona frekar óviðkunnanlegt að tala í kapp við menntmrh., ég þarf að koma boðum til fjmrh. ( F orseti: Kannski hæstv. menntmrh. hafi lokið erindi sínu í bili.) Hv. 2. þm. Norðurl. v. Pálmi Jónsson talaði hér um lánsfjárheimild fjmrh. og fjmrh. sjálfur gat um það að hér væri um rúma 36 milljarða að ræða, ég vona að ég fari rétt með, en það er ekki alveg rétt vegna þess að til viðbótar við þessa lánsfjárlagaheimild sem fjmrh. fær í fyrsta kafla, frá 1. gr. til 16. gr., bætist að sjálfsögðu annar kafli sem er skerðingarákvæðakafli, frá 17. gr. til 35. gr., og síðan er þriðji kafli sem eru líka lánsfjárheimildir. Ég lagði saman þarna bara 41.--43. gr. og þar bætist við 1,6 milljarðar, þannig að þarna eru komnir um 12 milljarðar en ekki rúmlega 10 eða 10,5 eins og 1. gr.

segir til um. Fyrir þá sem lesa þetta frv. er það alvarlegt umhugsunarefni að niðurstaða fjárlaga --- það er voðalega erfitt að tala í kapp við aðra hæstv. ráðherra, það er bókstaflega ekki hægt. Herra forseti, ég er reiðubúinn til þess að gera hlé á ræðu minni ef þetta er eitthvað áríðandi sem ráðherrarnir þurfa að ræða. ( Menntmrh.: Þetta er að sjálfsögðu áríðandi en við gerum auðvitað hlé á máli okkar.) Hæstv. menntmrh. verður að gera sér grein fyrir því að hann er staddur í málstofu þar sem menn fá orðið. Það er forseti sem gefur þeim orðið. ( Forseti: Ég vænti þess að hv. þingdeildarmenn virði það að ræðumenn hafa orðið. Gjörðu svo vel, hv. 5. þm. Reykv.) Við skulum ætla það. Ég er þakklátur forseta, en forseti gefur mér orðið í annað sinn.
    Ég er að benda á að það er ekki rétt sem kemur fram í fyrsta kafla að heimildin fyrir lántöku til fjmrh. sé eingöngu tvisvar sinnum 5 milljarðar, rúmlega 10 milljarðar, heldur eru hérna skv. 41. gr. 1,6 milljarðar, þannig að þarna eru komnir um 12 milljarðar, sem sagt 1,5 milljarðar á þessum þremur liðum en til viðbótar við 36 milljarða sem hæstv. fjmrh. gat um. Og miðandi við niðurstöður fjárlaga sem eru um 77--80 milljarðar, þá er lánsfjárupphæðin samtals um 50% af niðurstöðum fjárlaga, sem þýðir að allar framkvæmdir og allir sjóðir eru reknir af lánsfé. Ekki er ég að segja að það sé endilega hæstv. núv. fjmrh. að einu eða öðru leyti að kenna en til þess minnist ég á þetta að draga athyglina að því að tekjur íslenska ríkisins, til ráðstöfunar, sem eru orðnar um þriðjungur af heildarþjóðartekjunum, nægja ekki til þess að reka íslenskt þjóðfélag, bara í reksturinn. Allar framkvæmdir, sjóðirnir, eru reknar á lánsfé. Er ekki tímabært að hugsa svolítið hvað við erum að gera? Það eru aðrar ráðstafanir sem þarf að gera en þær sem við erum að gera, og það er rétt sem kom fram hjá hæstv. fjmrh. og fleiri fjmrh., það þarf að draga úr lántökum. En hérna, í þessum heimildagreinum, í þriðja kafla, er fjmrh., frá 36. gr. og aftur úr til 44. gr., heimilt að taka lán eftir lán ofan á lán til þess að borga lán eftir lán eftir lán erlendis frá, og allt gert í skjóli þess að fjmrh. geti fengið nýtt lán sem er hagkvæmara en það gamla og það er alltaf
verið að taka pínulítið meira að láni til þess að standa undir kostnaði við að borga upp gömul lán og í því skjóli að nýja lánið sé alltaf ódýrara en það sem fékkst síðast. Þetta er náttúrlega ein keðjuverkandi blekking, ein keðjuverkandi blekking. Þetta er það sem þetta plagg segir. Þetta er saga íslensku þjóðarinnar í fjármálum 1989. Það er þessi sorglega staðreynd sem mér finnst vera litið fram hjá. Og allt þetta, öll þessi lán og heimildir sem hér koma fram til fjmrh., bæði í fyrsta kafla og í þriðja kafla, eru þrátt fyrir það að annar kafli er allur um það að ekki skuli standa við samþykktir Alþingis til hinna ýmsu framkvæmda og verkefna í þjóðfélaginu. Ég sé enga ástæðu til þess að lesa það upp en það er út af fyrir sig fróðlegur lestur, og ég ráðlegg fólki almennt að kynna sér þetta vegna þess að þjóðfélagið gengur að verulegu leyti á samþykktum Alþingis, fjárframlögum

ákveðnum af Alþingi, og reiknar með að það fái svona nokkurn veginn það sem það á að fá samkvæmt lögum, en þetta er meira og minna skert eða fellt niður. Og þar með er ég að taka undir þá athugasemd sem hér kom fram frá hv. 10. þm. Reykn. Kristínu Halldórsdóttur í sambandi við Ríkisútvarpið. Það er hins vegar bara einn liður sem hún hefur mikinn áhuga á en þjóðfélagið gengur á þessum framlögum að miklu leyti.
    Það alvarlegasta er að Alþingi er að samþykkja útgjöld sem ekki eru tekjur fyrir og langt umfram þá getu sem þjóðfélagið hefur. Ég tek undir það hjá fjmrh. að það er löngu tímabært að stokka þetta upp. Ég hef sagt það áður að ég er reiðubúinn að taka undir með honum og mun hjálpa til eftir því sem ég get. En það verður ekki gert með því að tala bara um hlutina en koma svo alltaf fram með hefðbundnar ráðstafanir á örlagastundum eins og þegar fjárlög eða lánsfjárlög eru afgreidd. Það þarf meira en að tala um þessa hluti og það er ekkert víst að okkur takist það þrátt fyrir það að við tökum öll undir sem erum ábyrg fyrir þessum gerðum. Það er áhyggjuefni að tekjur standa ekki undir rekstri þjóðfélagsins, hvað þá undir framkvæmdum og öðrum nauðsynjum.
    Það vakti athygli mína að þegar hv. formaður fjvn. talaði áðan þá sagði hann að hann skildi ekki hvernig ríkisstjórnin ætlaði að komast fram úr stefnu sinni í peninga- og efnahagsmálum. Ég lái honum það ekki, það er enginn sem skilur þetta. Ég held að fjármála- og efnahagsdæmi þjóðarinnar, sem liggur hér, skýri það sem ég er að segja. Það er þannig að enginn sem hefur einhvern tíma að peningamálum eða efnahagsmálum unnið skilur hvernig þessi flækja er orðin. Það má hæstv. fjmrh. alls ekki skilja sem ádeilu á sig persónulega því að ég held að hann hafi gert margt rétt en kannski ekki farið alveg rétt að. Ég er t.d. ekki sammála því sem er að ske núna í niðurskurði á kostnaði við sjúkrahús og annað.
    Þegar ég var fjmrh. setti ég á laggirnar nefnd sem hafði sama hlutverki að gegna undir forustu ríkisendurskoðanda, Halldórs Sigurðssonar. Þetta var nefnd embættismanna og stjórnmálamanna sem átti að fylgjast með útgjöldum ríkissjóðs og stofnana frá mánuði til mánaðar. Þessi nefnd starfaði mjög vel og hennar hlutverk var að skera niður 10% af heildarkostnaði. Það náðist nú ekki en þó náðist verulegur niðurskurður sem var í samræmi við endurskoðuð fjárlög. En nú er gefin út fyrirskipun um að skera niður kostnað um 4%, bæði af launum og öðrum almennum kostnaði skilst mér, aðallega þó launakostnaði. En Alþingi hefur ekkert með það að gera. Alþingi hefur fengið ósk um að ákveðið vinnuframlag sé lagt fram af starfsfólki og fyrir það vinnuframlag eigi það að fá ákveðna þóknun. Þá gengur ekki að loka stofnunum til þess að ná fram þessum sparnaði. Það gengur ekki. Ef sparnaður næst ekki með því að sama vinnumagn, sömu afköst, náist fyrir fólkið í landinu, fyrir sjúklinga og aðra, þá hefur ríkisstjórnin, hvort sem það er fjmrh. eða einhver annar, ekki nokkra heimild Alþingis til að loka

þessum stofnunum sem Alþingi hefur ákveðið að halda gangandi. Ef aftur á móti er hægt að ná sparnaði með samkomulagi við starfsfólkið þannig að afköst stofnananna verði ekki minni en kostnaðurinn lækki, þá er vel að staðið. Náist það ekki með samkomulagi og í samvinnu við fólkið hefur ríkisstjórnin enga heimild til þess að minnka þjónustuna, það verður Alþingi að taka ákvörðun um. Alþingi verður að taka ákvörðun um það hvort stofnanir sem það hefur sett af stað með fjárfestingum, bæði fjárfestingum og rekstri, eru lokaðar að einhverju eða öllu leyti. Það er ákvörðun Alþingis en ekki framkvæmdarvaldsins. Framkvæmdarvaldið hefur hins vegar fengið fé til að halda þessum stofnunum gangandi og halda starfsfólkinu við vinnu en ekki til að spara með því að loka stofnunum og segja fólki upp og skapa atvinnuleysi sem við ráðum síður við en að reka stofnanirnar áfram. En að sjálfsögðu þarf að gæta aðhalds og ég sem fjmrh. var sannfærður um að aðhald væri verulegt, þó að á sumum stöðum mætti kannski bæta eitthvað úr.
    Ég sé ekki ástæðu til að hafa þetta mikið lengra. Þetta er hefðbundin vinna sem hér er lögð fram. Það er auðséð að stefna ríkisstjórnarinnar um að minnka lántökur bæði innan lands og erlendis hefur mistekist þótt viljinn sé góður. Enginn ráðherra sem ég þekki til hefur ekki farið með góðum ásetningi í starf, en það er ekki alltaf sem ráðherrar geta eða ráða við að ná þeim árangri sem þeir stefna að. Og þó að sú stefna komi ekki fram í þessu frv. til
lánsfjárlaga, sem er hefðbundið frv. eins og gefur að skilja, þá hefur komið fram sterkur vilji hjá fjmrh. til þess að veita aðhald. Ég vona að hann nái árangri á því sviði án þess að það bitni á fólkinu sem vinnur við stofnanir, eða svokallað kerfi, því að það hefur áhrif á okkur öll ef við sköpum atvinnuleysi af einhverjum ástæðum, hvort sem það er með vilja gert eða óviljandi.
    Virðulegur forseti. Ég ætla að ljúka orðum mínum með því að gera orð formanns fjvn. að mínum og endurtek það sem hann sagði um að hann, sem er þó trúnaðarmaður ríkisstjórnarinnar í fjárveitingagerðinni, skildi ekki hvernig ríkisstjórnin ætlaði að komast fram úr stefnu sinni í peninga- og efnahagsmálum. Ég vil segja það frá mínu brjósti að ég þekki engan sem skilur þessa stefnu í peninga- og efnahagsmálum ríkisstjórnarinnar neitt betur en formaður fjvn.