Sjúkraliðar
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 58 frá 1984, um sjúkraliða, sem er 229. mál Nd. og flutt á þskj. 427. Í lögum nr. 58 frá 1984, um sjúkraliða, þar sem m.a. er fjallað um starfsheiti sjúkraliða og réttindi þeirra og skyldur, segir það eitt í 5. gr. laganna að sjúkraliðar skuli aðeins starfa undir stjórn og á ábyrgð hjúkrunarfræðings. Á þennan hátt er sjúkraliðum ætlað að starfa sem aðstoðarmenn hjúkrunarfræðinga og að fullu á þeirra ábyrgð. Mikillar óánægju hefur gætt hjá sjúkraliðum vegna þessa og hafa sjúkraliðar talið að fyllsta ástæða sé til þess að sjúkraliðar geti starfað sem aðstoðarmenn annarra sérfræðinga en hjúkrunarfræðinga, t.d. lækna, þroskaþjálfa, iðjuþjálfa og sjúkraþjálfara, og enn fremur að þeir eigi að starfa á eigin ábyrgð þótt störfin séu unnin undir stjórn sérfræðings.
    Við gerð kjarasamninga vorið 1987 komu fram kröfur af hálfu Starfsmannafélags ríkisstofnana fyrir hönd Sjúkraliðafélags Íslands um endurskoðun laga nr. 58/1984, um sjúkraliða, með hliðsjón af því sem hér hefur verið drepið á. Þá gaf þáv. heilbr.- og trmrh., Ragnhildur Helgadóttir, vilyrði fyrir því að þessi þáttur laganna um sjúkraliðana yrði skoðaður sérstaklega í samráði við félagið. Í bókun með samningnum frá apríl 1987 kom eftirfarandi fram, með leyfi forseta: ,,Við undirbúning samningsins kom fram að heilbrmrn. mundi fyrir lok október 1987 í samvinnu við samningsaðila vinna að breytingum á lögum og reglugerðum er snerta störf sjúkraliða.``
    Ekki tókst að standa við bókun þessa á tilskildum tíma og var hún því endurnýjuð við gerð kjarasamninga á sl. ári. Á undanförnum mánuðum hefur ráðuneytið unnið að þessu ákvæði í samráði við Sjúkraliðafélag Íslands. Að tilhlutan ráðuneytisins hefur verið útbúið frv. til l. um breytingu á lögum um sjúkraliða sem tekur mið af því að sjúkraliðar starfi undir stjórn tiltekins hjúkrunarfræðings, þ.e. þess hjúkrunarfræðings sem fer með yfirstjórn viðkomandi stofnunar, deildar eða sviðs, og beri ábyrgð á störfum sínum gagnvart honum en ekki gagnvart einhverjum ótilteknum hjúkrunarfræðingum. Þetta kemur fram í 1. mgr. 1. gr. frv. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Sjúkraliði starfar á hjúkrunarsviði og vinnur undir stjórn þess hjúkrunarfræðings sem fer með yfirstjórn viðkomandi stofnunar, deildar eða sviðs og ber ábyrgð á störfum sínum gagnvart honum.``
    Hér er kveðið skýrt á um starfssvið sjúkraliða, það skuli vera á hjúkrunarsviði, svo og á um stjórnun og ábyrgð, hvernig henni skuli háttað.
    Í 2. mgr. 1. gr. þess frv. sem hér er mælt fyrir er gert ráð fyrir ákveðinni undanþágu, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Sé ekki starfandi hjúkrunarfræðingur á viðkomandi stofnun, deild eða sviði getur ráðuneytið heimilað að sjúkraliði beri ábyrgð á störfum sínum gagnvart þeim sérfræðingi sem fer með yfirstjórn viðkomandi stofnunar, deildar eða sviðs.``

    Með þessu er gert ráð fyrir að sjúkraliðar geti starfað að hjúkrun þó ekki sé starfandi hjúkrunarfræðingur á viðkomandi vinnustað og að í slíkum tilvikum beri sjúkraliðinn ábyrgð á störfum sínum gagnvart hlutaðeigandi sérfræðingi sem fer með yfirstjórn viðkomandi stofnunar, deildar eða sviðs. Þó er þessi heimild bundin því að ráðuneytið hafi heimilað slíkt. Þar kann að verða um tiltölulega opna heimild að ræða ef þetta form er viðvarandi á viðkomandi vinnustað. Það mun ráðuneytið athuga nánar.
    Með þessu verður sjúkraliðum gert kleift að starfa við heilbrigðisstofnanir án þess að þar starfi hjúkrunarfræðingur. En samkvæmt gildandi lögum er sjúkraliðum óheimilt að starfa sem slíkum öðruvísi en á staðnum sé hjúkrunarfræðingur sem ekki eingöngu hefur með stjórn þeirra að gera heldur ber og fulla ábyrgð á störfum þeirra.
    Í samráði við stjórn Sjúkraliðafélags Íslands var um síðustu áramót skipuð nefnd sem hefur það hlutverk að endurskoða grunnnám sjúkraliða með það að markmiði að bæta námið og einnig að koma á framhaldsnámi fyrir sjúkraliða sem sérmennti þá til aukinna starfa á hjúkrunarstofnunum. Þetta tel ég afar mikilvægt verkefni og bind vonir við að það hafi áhrif á þróun þessa starfs í framtíðinni. Er þetta hluti af því samkomulagi sem reynt var að ná um málsmeðferð.
    Í athugasemdum við lagafrv. það sem hér er mælt fyrir kemur fram í lokamálsgrein að samstaða hafi náðst um frv. þetta við stjórn Sjúkraliðafélags Íslands. Ráðuneytið var þeirrar skoðunar að samstaða hefði náðst um frv., þ.e. að stjórn Sjúkraliðafélags Íslands sætti sig við efni þess eins og það liggur hér frammi þar sem með frv. væri stefnt að því að skilgreina betur starfssvið og ábyrgð sjúkraliða og opna fyrir möguleika til starfa þeirra án þess að hjúkrunarfræðingur sé til staðar. Nú hefur hins vegar komið á daginn að félagið telur sig ekki hafa fallist á frv. eins og það liggur hér frammi og hefur sent ráðuneytinu athugasemdir sínar hvað þetta varðar. Ég veit að sjúkraliðar hafa einnig sent fulltrúum í heilbr.- og trn. þingsins þessar athugasemdir. Eðlilegt er að hv. heilbr.- og trn. taki þær til umfjöllunar þegar hún ræðir efnisatriði frv. og málið fái þannig þinglega og eðlilega
meðferð.
    Ég tel einnig rétt að það komi hér fram að frv. þetta hefur verið kynnt fyrir stjórnum hjúkrunarfélaganna, þ.e. Hjúkrunarfélags Íslands og Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga, og hafa stjórnirnar ásamt hjúkrunarforstjórum stærri sjúkrahúsa í Reykjavík komið sínum athugasemdum á framfæri við ráðuneytið. Ég tel einnig líklegt að þær athugasemdir verði sendar fulltrúum í heilbrigðis- og trygginganefndum þingsins til skoðunar.
    Hæstv. forseti. Að svo stöddu sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða mikið um frv. þetta. Það er ekki margar lagagreinar og það lætur lítið yfir sér, en það skiptir hins vegar ákaflega miklu máli fyrir þessa starfsstétt og hvernig málum þeirrar stéttar verður skipað í

framtíðinni og ég ítreka að frv. er lagt fram til að standa við gefin fyrirheit við gerð kjarasamninga.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.