Sjúkraliðar
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Guðrún Helgadóttir:
    Hæstv. forseti. Sem formaður í heilbr.- og trn. hv. deildar mun ég koma til með að leiða vinnu varðandi frv. sem hér hefur verið mælt fyrir.
    Ég hlýt að lýsa þeirri skoðun minni að mér finnst, úr því farið var að breyta lögunum um sjúkraliða, heldur hafa verið lítið í það lagt ef ég má segja svo. Mér finnst margt óljóst í brtt. svo sem eins og fyrir allt venjulegt fólk orðalag eins og þetta: ,,Sjúkraliði starfar á hjúkrunarsviði.`` Ég held að það vefjist fyrir æðimörgum að skilja hvað hér er átt við. Hv. 7. þm. Norðurl. e. gerði nokkra grein fyrir því hér þar sem hún er gjörkunnug þessari starfsstétt, en ég held að það mundi vefjast fyrir öllu venjulegu fólki að skilja þetta.
    Ég tek alveg undir það sem síðasti hv. ræðumaður sagði. Þessi umrædda heimild í hverju einstöku tilviki hlýtur að verða afskaplega þung í vöfum svo ekki sé meira sagt því að auðvitað eru fjölmargir sjúkraliðar sem vinna á stað þar sem ekki er starfandi hjúkrunarfræðingur. Nú þekkjum við öll af afspurn ef ekki öðruvísi lagskiptingu heilbrigðisstéttanna sem er dálítið sérstæð í nútímaþjóðfélagi þar sem mjög ákveðin skipting er milli stétta. Nú hygg ég að það sé svo á mörgum sjúkrahúsdeildum t.d. að þar er hjúkrunardeildarstjóri og síðan einhverjir hjúkrunarfræðingar og síðan sjúkraliðarnir. Þá hlýt ég að spyrja ef ég les þetta frv.: Eiga sjúkraliðar að vinna undir stjórn og á ábyrgð allra hjúkrunarfræðinganna á deildinni eða bara hjúkrunardeildarstjóra sem eins og hér segir fer með yfirstjórn viðkomandi stofnunar?
    Mér finnst ýmislegt óljóst í þessu og hefði kosið að sjá frekar lög um Sjúkraliðaskóla Íslands sem ekki eru til. Það er að vísu gerð hér nokkur bragarbót þar sem skólinn er tekinn út úr hjúkrunarlögum. Ég held að það sé löngu kominn tími til að afmarka skýrar hlutverk sjúkraliða og hlutverk hjúkrunarfræðinga. Ég átti þess kost að sitja norræna ráðstefnu hjúkrunarfræðinga fyrir nokkrum árum austur í Finnlandi. Þar var greinilegt að hjúkrunarfræðingar halda því fram að þeir vinni ekki undir stjórn eða á ábyrgð lækna og öll megináhersla þess fundar sem ég sat var einmitt um að stéttin sem slík bæri fulla og algjöra ábyrgð á sjálfri sér en ynni ekki á ábyrgð lækna.
    Þó að ég sé svo langt frá því gjörkunnug þessum málum eins og hv. 7. þm. Norðurl. e. er hef ég grun um að það séu dálítið óljós verkaskipti milli sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga. Nú veit ég að hjúkrunarfræðingar mundu mótmæla þessu harðlega, en ég held að það sé alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að allur þungi umönnunar og hjúkrunar á sjúkrahúsum hvílir einmitt á sjúkraliðunum. Ég held að það fari ekki fram hjá nokkrum manni sem á leið inn á sjúkrahús. Ég hefði því kosið að við hefðum séð hér frv. til laga um Sjúkraliðaskóla Íslands, hvert hlutverk hans sé. Eiga sjúkraliðar ekki nokkurn rétt á að nám þeirra sé metið ef þeim dytti í hug að fullmennta sig sem hjúkrunarfræðinga o.s.frv.? Það eru ákaflega mörg

atriði sem ég hefði talið að þyrftu að vera skýrari í þessum efnum. Ég hygg að þeir muni hafa nóg að gera í heilbrmrn. ef heimildar þarf að leita í hvert einasta skipti til að sjúkraliðar geti unnið undir stjórn einhvers annars en hjúkrunarfræðings þegar hann ekki er finnanlegur á þeirri stofnun sem sjúkraliðar vinna á.
    Ég vildi aðeins láta þetta koma fram en mun að sjálfsögðu kalla til kunnáttufólk þegar við förum að fjalla um þetta mál í hv. heilbr.- og trn. því að ég held að það sé affarasælast að þarna verði sem allra mest komið í veg fyrir árekstra sem ég hef grun um að séu fyrir hendi í mörgum tilvikum.