Sjúkraliðar
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Það er greinilegt að málið verður í góðum höndum þar sem tveir af þeim hv. þm. sem hafa tekið til máls hafa nú upplýst að þeir eigi jafnframt sæti í heilbr.- og trn. sem fær málið til umfjöllunar og ég treysti þeim fullkomlega til þess að skoða alla málsþætti.
    Varðandi það, sem fram hefur komið hér í umræðum, að það sé lítið í málið lagt og að það hefði mátt vinna þetta betur eða öðruvísi vil ég undirstrika það og benda hv. þm. á hvað stendur í lögunum eins og þau eru í dag af því að menn eru að velta fyrir sér stjórn og ábyrgð. Þar segir nú í lögum um sjúkraliða, margnefndum gildandi lögum, 5. gr.: ,,Sjúkraliðar skulu aðeins starfa undir stjórn og á ábyrgð hjúkrunarfræðings.`` Þetta eru gildandi lög. Frv. sem hérna er til meðhöndlunar hljóðar allt öðruvísi. Það tekur alveg skýrt fram að sjúkraliðar skuli starfa á hjúkrunarsviði og að þeir beri ábyrgð á störfum sínum eins og hv. 7. þm. Norðurl. e. var að velta fyrir sér. Mér reyndar fannst --- ég hef kannski misskilið hv. þm. --- en mér fannst hálfpartinn að hann teldi að í frv. þessu væri lítil breyting frá því sem er í gildandi lögum og að eftir sem áður væri það svo að þeir einstaklingar sem hér er verið að fjalla um, sjúkraliðarnir, ættu ekki að bera ábyrgð á störfum sínum en taldi að það þyrftu allir að gera. Ég er að sjálfsögðu sammála því og það er kannski meginatriðið í því sem hérna er verið að fjalla um. Það var undirstaðan að því og grunnurinn að því sem við vorum að vinna þegar við lögðum af stað í þessa vinnu á breytingu á gildandi lögum, að kveða skýrt á um ábyrgðarhlutverkið.
    Svo er það hvað varðar hitt atriðið, um þessa heimild sem ég veit að nokkur ágreiningur stendur um, að ráðuneytið veiti heimild í hverju tilviki ef svo stendur á að ekki sé starfandi hjúkrunarfræðingur á viðkomandi stofnun. Það kann að vera að þetta reynist örðugt, en þó er það svo, og ég nefndi það í framsögu minni áðan líka, að ef um það væri að ræða að slíkt ástand væri viðvarandi á viðkomandi vinnustað eða viðkomandi stofnun að þar störfuðu ekki hjúkrunarfræðingar, þá væri þessi heimild að sjálfsögðu opin og almenn og það gilti þá þannig að þar gætu og ættu eða mættu sjúkraliðar vinna undir stjórn þess sérfræðings sem þar er tilgreindur stjórnandi og á eigin ábyrgð að sjálfsögðu eða eins og hér segir: bæri ábyrgð á störfum sínum gagnvart þeim sérfræðingi sem þar stjórnar. Um þetta ætti að geta orðið samkomulag.
    Hitt kann svo að vera erfiðara þar sem um er að ræða tímabundið að þær aðstæður skapast að hjúkrunarfræðingur er ekki til staðar á stofnun þar sem þeir eiga þó almennt að vinna. Þá höfum við litið svo á í heilbrmrn. að það væri ekki óeðlilegt að ráðuneytið skoðaði það hverju sinni, en ég ítreka að það sem ég sagði strax í minni framsöguræðu tel ég að sé mjög eðlilegt að heilbr.- og trn. skoði sérstaklega og þá að sjálfsögðu velti fyrir sér þeim

rökum sem liggja fyrir í málinu.
    Síðan kom einnig fram hjá hv. 13. þm. Reykv. að það væri ekki nógu ljóst í þessu undir stjórn hvers sjúkraliðarnir ættu að vinna, hvort það væri einhver ótiltekinn hópur hjúkrunarfræðinga. Það er einmitt líka það sem verið er að reyna að ráða nokkra bót á í frv. eins og það liggur hér fyrir að það sé verið að tiltaka ákveðinn stjórnanda á stofnuninni, deildinni eða því starfssviði sem um er að ræða en ekki einhvern ótiltekinn hóp hjúkrunarfræðinga eins og ég reyndar tók skýrt fram í framsöguræðu minni. Ég vona því að þegar menn skoða þetta, bæði lögin og frv. eins og það liggur fyrir og þær breytingar sem í raun er verið að gera á gildandi skipulagi, telji menn að nokkuð sé áunnið og nokkur skref séu stigin í rétta átt og ég veit það reyndar eða þykist vita og ég vona að ég megi segja það hér að um það sé þó samkomulag við sjúkraliðana eða stjórn Sjúkraliðafélags Íslands, en nokkur ágreiningur var um áherslur sem ég veit að heilbr.- og trn. mun taka til sérstakrar skoðunar.