Verðbréfaviðskipti
Miðvikudaginn 22. febrúar 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Á síðustu árum hafa verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir vaxið ört. Til marks um þann mikla vöxt sem verið hefur í þessum viðskiptum má nefna að í árslok árið 1985 voru heildareignir verðbréfasjóða nálægt 380 millj. kr. Í árslok 1987 voru þær orðnar 3660 millj. og samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir árið 1988 voru eignir sjóðanna í árslok það ár 5800 millj. kr. og er þá ekki tekið tillit til verðbréfaeignar á vegum fyrirtækisins Ávöxtunar hf.
    Vöxtur verðbréfasjóðanna hefur því verið mikill og stöðugur undanfarin ár og svara útgefin hlutdeildarskírteini í þeim þess vegna sífellt til hærra og hærra hlutfalls af heildarinnlánum bankakerfisins. Það er því orðin brýn þörf á að tryggja öryggi og eftirlit með þessum viðskiptum. Þörfin fyrir slíkt eftirlit sannaðist rækilega á sl. sumri og hausti þegar í ljós kom að eitt fyrirtæki sem rak verðbréfasjóði gat ekki staðið við skuldbindingar gagnvart sínum viðskiptavinum. Það er nauðsynlegt að setja sanngjarnar og öruggar reglur um þetta svið viðskiptalífsins sem einnig hafi í heiðri þá meginreglu að sams konar lagareglur gildi um sams konar starfsemi.
    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í efnahagsmálum og í stefnuyfirlýsingu hennar frá sl. hausti sagði að sett yrðu lög um fjármagnsmarkaðinn á grundvelli fyrirliggjandi frv. Þessi frv. fjalla annars vegar um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði og hins vegar um eignarleigu. Auk þess fylgir þeim frv. um minni háttar breytingu á lögunum um viðskiptabanka og á lögunum um sparisjóði til þess að gefa þeim stofnunum jafnan rétt á að stunda verðbréfaviðskipti.
    Ég mæli hér fyrir frv. til laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði sem prentað er á þskj. 531 en grg. fyrir frv. í upphaflegri mynd er prentuð á þskj. 1.
    Frv. eins og ég mæli hér fyrir því er með breytingum sem gerðar voru á grundvelli tillagna frá meiri hl. fjh.- og viðskn. Nd. Það tókst góð samstaða um nær öll meginatriði málsins í fjh.- og viðskn. Nd. og kann ég nefndinni miklar þakkir fyrir það mikla starf sem hún lagði í málið og ég vona að sú samstaða sem náðist í Nd. greiði málinu leið hér í hv. Ed.
    Frv. er allmikill bálkur og sameinar endurskoðuð ákvæði um verðbréfamiðlun og ný og ítarleg ákvæði um rekstur verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða.
    Með þessu frv. er réttarstaða verðbréfamiðlara, verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða skilgreind og stefnt er að því að setja þessum aðilum heillegri starfsramma en áður hefur gilt um þessi viðskipti. Það er ljóst fyrir alllöngu að lögin um verðbréfamiðlun, nr. 27/1986, eru þegar orðin úrelt vegna örra breytinga á íslenskum fjármagnsmarkaði. Það var því fyrsta verkefni þeirrar nefndar sem ég skipaði til þess að semja frv. að taka þau lög til endurskoðunar. Nefndin samdi síðan ákvæði um verðbréfafyrirtæki og þar næst ákvæði um verðbréfasjóði. Loks samdi hún ákvæði um

endurskoðun og eftirlit með þessum fyrirtækjum og þeirra umsvifum. Nefndin kynnti sér eftir föngum löggjöf nágrannalandanna um þessi efni og er frv. í stórum dráttum í samræmi við hana, en þess er að geta að víðast hvar er nú unnið að endurskoðun og samræmingu á löggjöf um fjármagnsmarkaði, m.a. vegna ákvörðunar um sameiginlegan innri markað Evrópubandalagsríkja árið 1992. Innan fárra ára kann því að verða tilefni til að endurskoða þau lagaákvæði sem hér er gerð tillaga um, en í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kom m.a. fram að unnið yrði að samræmingu reglna er varða umhverfi atvinnurekstrar á Íslandi, að samræma þær reglum Evrópubandalagsins án þess þó að stefnt sé að inngöngu í það bandalag og hefur nýlega verið áréttað að sérstaklega verði hugað að reglum sem gilda um fjármagnsmarkaði.
    Ég mun þá víkja að efni frv. ásamt þeim breytingum sem gerðar hafa verið á því í meðförum Nd. eftir því sem ástæða þykir til.
    Í I. kafla frv. er fjallað um tvö mikilvæg atriði. Í fyrsta lagi er þar að finna skilgreiningar á helstu hugtökum sem notuð eru í lögunum. Þrjú þessara hugtaka er að finna í lögunum um verðbréfamiðlun en fjögur í viðbót eru nýmæli í íslenskri löggjöf. Í öðru lagi er í 2. gr. fjallað um svokölluð innherjaviðskipti, en þar er átt við það sem á ensku er nefnt ,,insider trading``. Ákvæði 2. gr. um meðferð trúnaðarupplýsinga skýra sig sjálf, en það er vert að vekja athygli á því að sökum umfangsmikilla afbrotamála í verðbréfaviðskiptum í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu hafa innherjaviðskipti mjög verið í sviðsljósinu í fréttum og jafnframt hafa lagaákvæði um þetta mál víða verið tekin til endurskoðunar.
    Ég hef þegar nefnt mál sem upp hafa komið hér landi vegna erfiðleika eins verðbréfafyrirtækis. Það er því óhætt að segja að þessar tillögur séu í tímans straumi hvað þetta viðfangsefni varðar.
    Í II. kafla frv. er fjallað um verðbréfamiðlun og koma ákvæðin þar í stað núgildandi laga nr. 27/1986. Þar er fjallað um þær kröfur sem gerðar eru til einstaklinga sem taka að sér verðbréfamiðlun og um verksvið þeirra og ábyrgð. Skilyrðum fyrir leyfi til verðbréfamiðlunar er breytt á þann hátt að krafist
yrði sérkunnáttu á þessu sviði, þ.e. að viðkomandi sæki námskeið og taki sérstakt próf til að stunda þessa starfsemi. Áður var miðað við almenna háskólamenntun en hins vegar er alls ekki víst að slík menntun feli í sér neina sérstaka kunnáttu í meðferð og miðlun verðbréfa sem er mjög sérhæft viðfangsefni. Þá er krafist tryggingar fyrir tjóni sem verðbréfamiðlari kann að baka viðskiptavinum sínum og er þar um sams konar eða skyldar reglur að ræða og nýlega hafa verið settar um ábyrgð fasteignasala. Lagt er til að fjárhæð og skilmálar trygginga verði ákveðin með reglugerð en samkvæmt núgildandi lögum skal leggja fram bankatryggingu að fjárhæð 2 millj. kr. miðað við lánskjaravísitölu maímánaðar 1986. Með því að leggja til að tryggingaskilmálar verði nánar ákveðnir með reglugerð er auðveldara að bregðast með skjótum hætti við mismunandi tilvikum

og aðstæðum sem upp kynnu að koma.
    Ákvæði II. kafla frv. eru að öðru leyti byggð á núgildandi lögum um verðbréfamiðlun, en ákvæðin eru gerð skýrari að fenginni reynslu af starfseminni þessi ár. Jafnframt hafa verið gerðar fáeinar breytingar á þessum kafla frv. í samræmi við tillögur meiri hl. fjh.- og viðskn. Nd. Þær breytingar miða að því í heild að gera ákvæði kaflans skýrari og betur úr garði gerð en var í upphaflegri gerð frv.
    III. kafli þessa frv. fjallar svo um verðbréfafyrirtæki. Sterk verðbréfafyrirtæki eru máttarstólpar í verðbréfaviðskiptum í öðrum ríkjum og hér er í fyrsta sinn fjallað um þau í íslenskum lögum. Gert er ráð fyrir því að verðbréfafyrirtæki sem stofnað er í samræmi við ákvæði laganna, eins og frv. leggur til, geti fengið rekstrarleyfi ráðherra. Auk þess sem það rekur verðbréfamiðlun getur verðbréfafyrirtæki einnig tekið við fjármunum viðskiptavina til ávöxtunar í verðbréfum, rekið verðbréfasjóði og því er líka heimilt að veita sölutryggingu á verðbréfum eins og t.d. á spariskírteinum ríkissjóðs, en einmitt var á síðasta ári gerður slíkur sölusamningur milli söluaðila spariskírteina og ríkissjóðs.
    Í 11. gr. frv. er m.a. fjallað um skilyrði sem uppfylla þarf til að stofna verðbréfafyrirtæki. Verðbréfafyrirtæki skal, samkvæmt ákvæðum frv., vera rekið af hlutafélagi með innborguðu hlutafé að fjárhæð a.m.k. 20 millj. kr. Þessi fjárhæð er samkvæmt brtt. sem samþykkt var í Nd. en upphaflega, eins og frv. var lagt fyrir á Alþingi í byrjun þings, var miðað við það að þessi fjárhæð væri 10 millj. kr.
    Þá hefur enn fremur verið lagt til í Nd. að bæta við skilyrði er lýtur fremur að rekstri verðbréfafyrirtækja með því að leggja til að eigið fé verðbréfafyrirtækis skuli aldrei nema lægri fjárhæð en 20 millj. kr. Þessar fjárhæðir eiga, eins og fyrr var gerð um tillaga, að taka breytingum sem kunna að verða á lánskjaravísitölu frá útgáfudegi laganna.
    Í frv. sem fylgir þessu frv. er gerð tillaga um að viðskiptabankar og sparisjóðir hafi heimild til að starfrækja verðbréfafyrirtæki og það felur í sér undanþágu frá því almenna banni sem er í banka- og sparisjóðalögum við því að innlánsstofnanir taki þátt í öðrum rekstri en bankarekstri.
    Í 12. gr. eru kröfur um eigið fé verðbréfafyrirtækis. Þær eru nokkuð hertar í meðförum Nd., þannig að samkvæmt frv. í núverandi mynd skal eigið fé nema a.m.k. tveimur af hundraði af höfuðstól verðbréfasjóðsins eða sjóðanna sem það rekur í stað eins af hundraði eins og tillagan var í upphafi.
    Í III. kafla frv. er enn fremur að finna ákvæði um ábyrgðir, tryggingar og fleira sem hvílir á verðbréfafyrirtækjum auk ákvæða um upplýsingagjöf til viðskiptavina þeirra. Nauðsynlegt er að samræma upplýsingagjöf um ávöxtun í verðbréfaviðskiptum og í verðbréfasjóðum til að koma í veg fyrir að þar sé farið með rangt mál og viðskiptavinir blekktir. Um þetta atriði, sem rétt nefnt væri neytendaverndarákvæði, er nánar fjallað í athugasemdum við frv. Ég tel þetta mjög mikilvægt

því þarna er kannski komið að kjarnanum í því sem lýtur að þeim sem kaupa hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóðum eða eiga viðskipti við verðbréfafyrirtækin, að þar sé um samræmdar, traustar upplýsingar að ræða.
    Í IV. kafla frv. er fjallað um verðbréfasjóðina sérstaklega, en um þá er afar fá ákvæði að finna í núgildandi löggjöf. Undantekningin er eiginlega bara 5. gr. í lögum um verðbréfamiðlun, nr. 27/1986, en hún fjallar eingöngu um forstöðu fyrir og endurskoðun á reikningum verðbréfasjóðs. Ákvæði IV. kafla frv. eru fyrst og fremst miðuð við það að tryggja réttarstöðu þeirra sem ávaxta fjármuni sína í verðbréfasjóði gagnvart verðbréfafyrirtækinu sem sjóðinn rekur. Gerðar eru kröfur til þess að eignum verðbréfasjóða og eignum verðbréfafyrirtækja sé haldið skýrt aðgreindum.
    Þá er hér að finna ákvæði um stofnun verðbréfasjóðs, útgáfu hlutdeildarskírteina og upplýsingaskyldu þeirra sem sjóðinn reka.
    Í 18.--23. gr. frv. eru ítarleg ákvæði um stofnun og skráningu verðbréfasjóðs. Þar eru líka ákvæði um lágmarksgreinar eða ákvæði í samþykktum fyrir slíka sjóði. Þá er gerð þar krafa til formlegs samnings milli verðbréfasjóðs og verðbréfafyrirtækis og fjallað er um það hvernig fara skuli
með breytingar á samþykktum verðbréfasjóða. Öll eru þessi ákvæði til þess að tryggja eftirlitsgrundvöll fyrir bankaeftirlit Seðlabankans með þessari starfsemi.
    Í 23.--24. gr. eru almenn ákvæði um útreikning á innlausnarverði hlutdeildarskírteina. Þar eru líka sett skýr ákvæði um aðgreiningu eigna verðbréfasjóðsins. Eignir verðbréfasjóðs verða ekki kyrrsettar eða teknar fjárnámi vegna skulda verðbréfafyrirtækis og eigendur hlutdeildarskírteina verða ekki gerðir persónulega ábyrgir vegna skuldbindinga verðbréfasjóðsins umfram verðmæti eignar þeirra í sjóðnum. Hér er um mjög mikilvægt ákvæði að ræða því að auðvitað er verðbréfasjóður þess eðlis að hann er eign þeirra sem hlutdeildarskírteinin hafa keypt en ekki þeirra manna eða þeirra félaga sem hafa umsýsluna með höndum.
    Í 26. gr. eru ákvæði sem eiga að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra í sambandi við verðbréfaviðskipti verðbréfasjóðs annars vegar og verðbréfafyrirtækis eða starfsmanna þess hins vegar.
    Í 27. gr. eru ákvæði sem takmarka lántökur og lánveitingar verðbréfasjóða.
    Í 28. gr. eru ákvæði sem eiga að tryggja hæfilega tryggingu áhættu í verðbréfasjóðum.
    Í 29. gr. eru ákvæði um lausafjárskyldu verðbréfasjóða. Þar er lagt til að laust fé verðbréfasjóðs skuli aldrei nema lægri fjárhæð en 2% af innlausnarverði verðbréfasjóðsins. Í meðförum Nd. hefur verið bætt inn heimild til handa ráðherra að hækka þetta hlutfall að fengnum tillögum Seðlabanka Íslands ef þörf krefur, þó aldrei hærra en í 5%. Í greininni er nánar kveðið á um hvernig skilgreina skuli laust fé í þessu sambandi. Þar er þá einkum átt við peninga í sjóði og óbundnar innstæður en einnig verðbréf sem öruggur kaupandi telst að innan eins

mánaðar.
    Ég legg áherslu á það að lausafjárhlutfallið sem hér er gerð tillaga um, 2%, er lágmarksákvæði. Það miðast við það að verðbréfafyrirtæki eða verðbréfasjóðir hafi ævinlega tiltækt fé til að mæta því sem kalla mætti eðlilega innlausn hlutdeildarskírteina. Þetta lágmark tekur m.a. mið af reynslu og reglum hjá öðrum þjóðum í þessu efni. Litlar líkur eru á því að verðbréfafyrirtæki eða verðbréfasjóðir muni eiga í erfiðleikum með að uppfylla þetta skilyrði á næstunni, m.a. vegna þess að verulegur hluti eigna þeirra eru ýmist stuttar viðskiptakröfur eða ríkisvíxlar og spariskírteini. Hins vegar er full ástæða til þess að fylgjast vandlega með því hvernig laust fé verðbréfasjóðanna þróast á næstunni og hugsanlegt er að ástæða reyndist til þess áður en langt um líður að endurskoða þessa grein, bæði hvað varðar lausafjárhlutfallið sjálft og ekki síður skilgreininguna á því hvað telja skuli laust fé í þessu sambandi.
    Í 30. gr. eru ákvæði um það að látnar verði gilda sömu reglur um bindiskyldu verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða og gilda um bindiskyldu innlánsstofnana. Ég vil vekja sérstaka athygli á þessari grein því um hana var ágreiningur í nefndinni sem samdi frv. Í upphaflegri tillögu fjallaði 30. gr. í frv. eingöngu um það sem nú er í 1. mgr. hennar. Það var mín ákvörðun að hafa ákvæði um samræmdar reglur hvað varðar bindiskyldu í frv. og reyndar hefur ákvæðið verið hert nokkuð og skýrt í meðförum Nd. eins og það liggur nú fyrir.
    Til stuðnings þeirri ákvörðun að hafa inni í lögunum um verðbréfasjóðina heimildir til þess að leggja á þá sömu eða sambærilegar kvaðir og innlánsstofnanir vil ég benda á það að í nokkrum aðildarríkjum OECD eru lagaheimildir til að setja bindiskyldu á aðrar fjármálastofnanir en banka og sparisjóði. Ég tel eðlilegt, og það er líka álit Seðlabanka Íslands, að slík heimild þurfi einnig að vera fyrir hendi hér á landi. Þá tel ég að með þessu ákvæði sé í raun verið að koma á jafnræði milli banka og sparisjóða annars vegar og verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða hins vegar.
    Ég lít hins vegar fyrst og fremst á þetta ákvæði sem eins konar öryggisákvæði, eins konar stíflugarð til þess að girða fyrir það að verðbréfafyrirtækin feti sig inn á starfsvettvang innlánsstofnananna án þess að þau beri sömu skyldur, á þeim hvíli sömu kvaðir hvað varðar bundið fé. Ef hins vegar er eingöngu um hreina skuldabréfasjóði að ræða þar sem langtímaverðbréf stendur á móti langtímaverðbréfi þá eiga kvaðir um bundið fé miklu síður við. Hins vegar kann að vera ástæða til þess að leggja á slíka sjóði kaupskyldu á öruggum verðbréfum, öruggum markaðsverðbréfum, enda eru slíkar reglur algengar í löndum Evrópu og eru nú á gangi tillögur á vegum Evrópubandalagsins um að samræma þær kröfur.
    Í síðari mgr. 30. gr. er svo stofnuð almenn heimild til þess fyrir Seðlabankann að hann geti á þessum grundvelli og með samþykki ráðherra látið sömu reglur gilda um allar peningastofnanir hvað varðar

íhlutun í vaxtaákvarðanir og þannig gætt jafnræðis á fjármagnsmarkaðnum. Um þetta ákvæði gildir líkt og um bindiskylduna fyrr að þarna verður að sjálfsögðu að taka tillit til eðlis viðskiptanna og umfram allt að ávöxtunarkjör séu borin saman á milli sömu eða sambærilegra áhættuflokka.
    Í V. kafla frv. eru svo ítarleg ákvæði um ársreikninga og um endurskoðun
verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða, en ítarleg reikningsgerð og áreiðanleg endurskoðun reikninganna er auðvitað grudnvöllurinn fyrir viðskiptatrausti þeirra og vörn viðskiptavinanna gegn misferli í rekstrinum.
    Í VI. kafla frv. eru svo ákvæði um eftirlit bankaeftirlits Seðlabanka Íslands með rekstri verðbréfasjóða. Bankaeftirlitið hefur haft slíkt eftirlit með höndum, annars vegar með stoð í 15. gr. laga um verðbréfamiðlun, nr. 27 frá 1986, og hins vegar hefur bankaeftirlitið haft eftirlit með þessari starfsemi með stoð í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, en reyndar einnig í lögum og reglum um Seðlabanka Íslands.
    Í 34. gr. frv. eru bankaeftirlitinu veittar víðtækar heimildir til að fylgjast með rekstri verðbréfasjóðanna og þar er einnig að finna ákvæði um það hvernig bregðast skuli við reynist fjárhagur verðbréfafyrirtækis ótraustur. Hér er um mun ítarlegri og ákveðnari ákvæði að ræða en hafa verið í lögum.
    Í VII. kafla frv. eru ýmis sameiginleg ákvæði um þá starfsemi sem fjallað er sérstaklega um í II.--IV. kafla. Þar er líka að finna viðurlög við brotum á ákvæðum laganna um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði. Þar eru einnig gildistökuákvæði og ákvæði til bráðabirgða sem sett yrðu til þess að laga fyrri skipan mála á þessu sviði að því fyrirkomulagi sem frv. gerir tillögur um.
    Hæstv. forseti. Ég hef hér gert grein fyrir meginefni þessa frv. um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði. Málefni verðbréfasjóðanna hafa verið í sviðsljósi undanfarna mánuði, ekki síst vegna svokallaðs Ávöxtunarmáls. Þar er um að ræða fyrirtæki sem var með blandaðan rekstur á fjármagnsmarkaði sem með frv. þessu og frv. um eignarleigu, sem einnig liggur fyrir hinu háa Alþingi, yrði ekki lengur leyfður. Slíkur rekstur, slíkt samkrull yrði ekki löglegt.
    Þá eru í frv. settar mun strangari reglur varðandi viðskipti verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða sem þau kunna að reka, svo og um upplýsingagjöf slíkra fyrirtækja til bankaeftirlitsins.
    Virðulegi forseti. Ég vil að lokum taka það fram að ég tel að sá vöxtur sem orðið hefur í rekstri fjármálafyrirtækja og verðbréfasjóða að undanförnu sé að ýmsu leyti til góðs fyrir okkar efnahagslíf og það er ljóst að mínu áliti að þessi starfsemi hafi aukið peningalegan sparnað í landinu. Ég á hins vegar ekki von á því að vöxtur þessara sjóða verði jafnör á næstunni og hann hefur verið undanfarin ár. Þar virðist vissri mettun náð um sinn. En ég er hins vegar um það sannfærður að sú löggjöf sem hér er gerð tillaga um geti aukið traust almennings á

verðbréfafyrirtækjum og verðbréfasjóðum og yrði þannig rekstri þeirra til góðs um leið og slík lög yrðu vörn fyrir almenning sem á viðskipti við þessi fyrirtæki.
    Við þurfum að þróa okkar fjármagnsmarkað á þann hátt að hann fullnægi betur þörfum atvinnulífsins og almennings og setning almennra öryggisreglna sem virtar eru á markaðnum eru einmitt mikilvægasta skrefið í þá átt. Ég legg áherslu á að frv. hljóti vandaða en skjóta meðferð í þessari hv. þingdeild og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.