Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1989

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil lýsa stuðningi mínum við frv. sem er breyting til batnaðar fyrir þá menn og það fólk sem er komið að starfslokum og hefur hugsað sér að hætta síðan þeirri vinnu sem það hefur helgað sig heilt líf og er að huga að sínu ævikvöldi. Þetta hjálpar því til að safna í sarpinn og eiga þá eitthvað aðeins rýmri fjárráð, a.m.k. fyrst eftir að það lýkur störfum og það mun nú ekki veita af fyrir marga að eiga eitthvað aðeins í handraðanum svo að ævikvöldið geti verið heldur betra en annars yrði.
    Frv. sem hv. 5. þm. Reykv. flytur hér er í rauninni ekki annað en framhald af því sem hann áður hafði komið fram með hér á þinginu fyrir nokkrum árum um að menn væru skattlausir síðasta árið, sem var síðan breytt, og það sýnir það að hugur hans til þessa fólks hefur alltaf verið sá sami og hann styður einmitt þessa hugsjón hér í dag eins og ávallt.
    Það er alveg ljóst að eftir að staðgreiðslan var tekin upp hefur skattbyrðin vaxið á fólki töluvert mikið og þó að verkalýðshreyfingin hafi nú þagað þunnu hljóði eins og oft áður þegar lagðir hafa verið á auknir skattar, þá er nú tími til kominn að það verði a.m.k. aðeins reynt að lækna einhverja liði af því sem núna er verið að leggja á fólk sem er að hætta störfum og það er ekki nokkur vafi á að þetta mundi hjálpa því til að eiga smávarasjóð.
    Ég veit nú ekki nema hæstv. ríkisstjórn líti þannig á að fólkið í landinu sé einhvers konar eiturlyfjasalar eða a.m.k. eru hugmyndir þeirra í skattamálum með þeim hætti að þeir vilja helst hafa eignaupptöku og upptöku fjármuna og eru það sömu hugmyndir og eru hafðar um eiturlyfjasala, og hefur verið reynt að taka fé frá þeim. Ég veit ekki hvort þessi stefna er til langframa. Ég vona ekki því að þessi ríkisstjórn mun ekki lifa með þessum hætti a.m.k. mjög lengi, en þetta frv. mun vera eins og eitt ár í lífi hvers og eins, mun verða nokkurs konar bónusár. Það er ekki mikið þó að menn fái eitt bónusár í sköttum allt sitt líf, það er ekki mikið. Þetta er sá stuðningur sem þjóðfélagið á auðvitað að veita þessu fólki. Ég tel nauðsynlegt að frv. verði samþykkt og ég held líka að það væri til mikilla bóta að gera það og gera þetta að raunveruleika því að þetta er stórmál hjá mörgum sem eru að hætta störfum.
    Ég vil svo að lokum þakka flm. fyrir að flytja frv. og vona að það hljóti hér góðar undirtektir í þinginu.