Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1989

     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Ég vil í tilefni af þeim frv. sem hv. 5. þm. Reykv. hefur lagt hér fram koma með þá athugasemd í sambandi við þetta mál að hv. fjh.- og viðskn. taki þessi frv. til meðferðar og afli sér upplýsinga um það hvaða tölulegar breytingar þau hafa í sambandi við tekjur ríkissjóðs og annarra þeirra upplýsinga sem þarf til frekari rökstuðnings þessu máli. Það er alveg ljóst að hér er um mjög eðlilega málsmeðferð að ræða af hendi hv. þm. sem var baráttumaður fyrir þessu máli hér á hv. Alþingi á sinni tíð og fékk samþykkt lög um það og fylgdi því eftir sem fjmrh. á þeim árum sem hann gegndi því embætti. Þess vegna tel ég eðlilegt að þetta mál fái vandaða meðferð í hv. fjh.- og viðskn. og legg til að svo verði.