Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1989

     Flm. (Albert Guðmundsson):
    Virðulegur forseti. Ég tek undir það með hv. 1. þm. Vesturl. að þessi tvö frv. sem ég hef mælt fyrir í dag fái vandaða meðferð, að sjálfsögðu. Við skulum nú reikna með að mál fái yfirleitt vandaða meðferð í nefndum og síst af öllu er ég að mæla á móti því að þessi frv. fái sérstaka vandaða meðferð. Þetta eru frv. sem eru endurflutt vegna þess að eftir að hafa hlotið samþykkt og verið í gildi sem lög í tiltölulega stuttan tíma voru þau felld niður, en það sem slær mig varðandi það að það skuli þurfa alveg sérstaklega vandaða meðferð er það að í dag og í gær berast fréttir um það að ríkisstjórnin er að gerast fjárveitingavald í stórum stíl ef upplýsingarnar eru réttar. Fyrst og fremst skilst mér að ríkisstjórnin hafi á sínum fundi í gær sýnt að það er ekki peningaleysi á einn eða annan hátt með því að hæstv. samgrh., með samþykkt ríkisstjórnarinnar, hefur ákveðið að fyrirskipa að framkvæmdir skuli hefjast við gríðarlega mikla mannvirkjagerð á flugvöllum og það án þess að spyrja Alþingi eða kóng eða prest heldur tekur sér heimild til þess að vinna sem fjárveitingavald sem hann hefur ekki. Þetta er mál sem hefði átt að fá vandaða meðferð á Alþingi, ekki aðeins utandagskrárumræður um flugvöll eða almennt um varaflugvelli, heldur er hlaupið til og tekin ákvörðun sem er Alþingis að ákvarða. Ég vona því að sem stjórnarþingmaður beiti hv. 1. þm. Vesturl. sér fyrir því að slík vinnubrögð ríkisstjórnarinnar fái vandlega athugun á Alþingi og með þjóðinni.
    Þar fyrir utan er á baksíðu Morgunblaðsins önnur frétt frá ríkisstjórninni þar sem á að taka upp aftur 2500 kr. nefskatt, það á að endurvekja hann eins og segir í fyrirsögninni. Það væri gott að fá að vita hvort þetta er rétt, hvort þessi frétt er virkilega rétt eða ekki. Það segir hér í lok greinarinnar að þetta eigi að gefa 230 millj. kr. til heilbrigðismála, geri ég ráð fyrir. Í lok greinarinnar segir, með leyfi forseta, orðrétt:
    ,,Slíkur skattur var innheimtur áður en staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp en þá felldur niður``, vegna þess að þetta var sett inn í staðgreiðsluna. Og ég vildi gjarnan fá að vita hvort þetta er rétt, hæstv. heilbr.- og trmrh. Er þetta rétt? ( Heilbr.- og trmrh.: Ég skal svara því.) Já, mér þætti vænt um að fá svar við því. En þarna þarf allt öðruvísi og vandaðri vinnubrögð við skattheimtu ef þetta er rétt. Ég vil ekki trúa því að þetta sé rétt vegna þess að það er verkefni Alþingis að setja á skatta en ekki framkvæmdarvaldsins. Mér þykir vænt um það að hæstv. heilbr.- og trmrh., sem ég þekki að allt, allt öðrum vinnubrögðum en þessum, komi hér upp og skýri þetta.
    En ég er hér fyrst og fremst kominn upp aftur til þess að taka undir það sem hv. 1. þm. Vesturl. sagði um vönduð vinnubrögð í sambandi við þau frv. sem ég hef flutt hér og snerta aldraða, að þau séu ekki tafin, séu afgreidd með öðru hugarfari og á annan hátt en hliðstæð skattheimta sem virðist vera boðuð og ég vil bara ekki trúa því að þetta sé rétt frétt í blaðinu.

Hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur góðfúslega gefið mér merki um það að hann muni svara þessu hér í ræðustól svo að ég ætla að láta máli mínu lokið.