Sjúkradagpeningar
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):
    Hæstv. forseti. Á 109. löggjafarþingi flutti ég frv. til l. um breytingu á almannatryggingalögunum og gerði frv. ráð fyrir að sjúkradagpeningar næðu sömu upphæð og atvinnuleysisbætur. Frv. varð ekki útrætt.
    Á 110. löggjafarþingi flutti ég frv. að nýju með þeirri viðbót að mæðralaun eða feðralaun skertu ekki sjúkradagpeningagreiðslur hafi sjúklingurinn verið heimavinnandi. Þetta frv. hlaut þá afgreiðslu að heilbr.- og trn. flutti nýtt frv. um að skerðingunni skyldi hætt og varð það atriði að lögum, en vísaði dagpeningaþættinum til ríkisstjórnarinnar með svofelldu áliti, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin er sammála um að grunnupphæð sjúkradagpeninga sé allt of lág. Í trausti þess að ráðrúm gefist til þess að stíga skref til hækkunar og markmið frv. náist í áföngum leggur nefndin til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Við umræður um fyrra frv. tók hæstv. heilbr.- og trmrh. undir efni þess og sagði m.a., með leyfi forseta:
    ,,Einnig geta allir tekið undir að ef ekki koma aðrar greiðslur til að lifa fyrir en 10.400 kr. á mánuði eru það að sjálfsögðu ekki lífvænleg laun eins og kemur réttilega fram í greinargerð frv.``
    Þessi orð voru töluð í október 1987. Upphæðin sem sá fær nú er missir vinnutekjur vegna veikinda er 12.671 kr. á mánuði. Atvinnuleysisbætur eru hins vegar 36.320 kr. eða upphæð sem talin er lágmarksframfærslueyrir á mánuði og er illskiljanlegt á hverju þessi mikli munur byggist. Ég hef því leyft mér að beina eftirfarandi fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh. á þskj. 453:
,,1. Telur ráðherrann eðlilegt að upphæð sjúkradagpeninga sé 12.671 kr. á mánuði eins og nú er?
    2. Ef ekki, hvenær er að vænta hækkunar á þessum framfærslueyri þeirra sem misst hafa tekjur vegna veikinda?``