Sjúkradagpeningar
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):
    Ég þakka hæstv. ráðherra svarið þó að mér þyki slæmt að heyra að engrar hækkunar sé von fyrr en samningu heildarlöggjafar um almannatryggingar er lokið. Það eru orðin æðimörg ár síðan sú vinna hófst og margar nefndir hafa setið og skilað löngum tillögum sem síðan aldrei urðu að neinum lögum. En ég vona að það verði nú veruleiki að fyrir okkur liggi á þessu þingi eða alla vega þessu ári ný löggjöf um almannatryggingar. Það er svo sannarlega mál til komið að hún verði samin. En eftir stendur að sjúkradagpeningar hafa algera sérstöðu í almannatryggingakerfinu vegna þess að þó að bætur séu almennt ekki sérlega háar eru sjúkradagpeningar langsamlega lægstir. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að ég hygg að þeir sem verða að draga fram lífið á þessum peningum kynnu að meta þó að ekki væri annað en að þeir hækkuðu til samræmis við slysadagpeninga. Fólk sem á að lifa af 12 þús. kr. munar töluvert um að sú upphæð fari upp í 16 þús. En það liggur ljóst fyrir hvað snertir fólk sem verður fyrir veikindum og missir allar tekjur, með allar þær skuldbindingar sem venjulegir borgarar eru með á Íslandi, að þetta þýðir auðvitað að fjárhagur heimilanna fellur gersamlega í rúst og um það höfum við séð mörg dæmi.
    Sjúkra- og orlofssjóðir verkalýðsfélaganna bæta fólki þetta ástand mjög misjafnlega þannig að á það er ekkert að treysta. Sumir sjóðirnir geta ekki neitt, aðrir koma nokkuð til hjálpar. En það hlýtur að vera borgaraleg skylda okkar að sjá til þess að fólk sem missir tekjur vegna veikinda eða slysa hafi einhverja möguleika á því að draga fram lífið meðan það ástand varir.
    Að öðru leyti hygg ég að við þurfum ekki að fjölyrða um þetta. Ég hygg að það hljóti allir að vera sammála því að við þetta verði hreinlega ekki unað og ég treysti þá hæstv. ráðherra til að reyna að lyfta þessu þó ekki væri nema þannig að samræmi væri milli sjúkra- og slysadagpeninga.