Kynferðisafbrot gagnvart börnum
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Salome Þorkelsdóttir):
    Hæstv. forseti. Á síðasta þingi lagði ég fram fsp. um kynferðisafbrot gagnvart börnum. Í þessari fsp. var óskað ítarlegra upplýsinga t.d. um fjölda kæra á ákveðnu tímabili eða allar götur frá 1950 og má segja að þessi fsp. hafi verið tilkomin af gefnu tilefni vegna þeirrar umræðu sem fram hafði farið um þessi mál, aðallega í hv. Ed. vegna frumvarpa sem þar voru flutt um kynferðisafbrot gagnvart börnum.
    Þá var einnig óskað upplýsinga um fjölda einstaklinga sem kærðir hefðu verið og hve oft hver þeirra og einnig um framgang slíkra kæra þar til dómur hafði fallið svo dæmi séu tekin. Það var óskað skriflegs svars við þessari fsp. Þá brá svo við að í skriflegu svari frá hæstv. þáv. dómsmrh. kom fram að ráðuneytið hafði ekki umbeðnar upplýsingar og ekki var unnt að afla þeirra án verulegrar fyrirhafnar hjá lögreglustjóraembættum þar sem skýrslur um fjölda kærðra brota í einstökum kæruflokkum eru ekki til hér á landi. En það kom jafnframt fram í svari hæstv. ráðherra að ákveðið væri að ráða bót á þessu með því að koma gerð og úrvinnslu afbrotaskýrslna í betra horf í framtíðinni.
    Nú þótti mér vera tímabært að leita eftir því hvernig gengi að koma þessum málum í betra horf í ráðuneytinu og þess vegna er þessi fsp. nú fram komin, en hún er á þskj. 476 og orðast svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hvað líður gerð og úrvinnslu afbrotaskýrslna um kynferðisafbrot gagnvart börnum?``