Flugfargjöld
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Hér er enn á ný hreyft máli sem hefur kannski aldrei fengið eðlilega útskýringu, aldrei verið lögð fram rök vegna breytilegra fargjalda. Nú þegar mál standa þannig að það er verið að segja okkur að það eigi að fara að sameina íslensku flugfélögin enn á ný eða eigi að gera stórkostlega hluti í sambandi við það hlýtur þessi spurning um breytileg fargjöld að verða enn þá ákveðnari og meiri krafa um að það sé fylgst með þessari starfsemi en gert hefur verið.
    Ég er aðeins að koma upp til að ítreka hvað er að gerast í sambandi við sameiningu flugfélaganna og hverju við megum við eiga von á í sambandi við fargjaldaeftirlit ef af því verður að flugfélögin verða sameinuð. Ég teldi eðlilegt og mundi óska eftir því að samgöngunefndir beggja hv. deilda fengju að fjalla svolítið um hvað er að gerast í þeim málum, einmitt í tengslum við það sem hér er verið að ræða um.