Björgunarþyrla
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegi forseti. Með bréfi dómsmrn. dags. 5. júlí 1988 til Fjárlaga- og hagsýslustofnunar óskaði ráðuneytið eftir því við stofnunina að stofnunin framkvæmdi þá athugun sem þál. kvað á um, þ.e. athugun á kostnaði við kaup og rekstur á björgunarþyrlu af bestu fáanlegri gerð fyrir Landhelgisgæsluna í samráði við ráðuneytið og forstjóra Landhelgisgæslunnar.
    Samkvæmt upplýsingum frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur ekki unnist tími til að ljúka þessari athugun m.a. vegna umfangsmikilla verkefna þar við fjárlagagerð. Ráðuneytið mun ítreka og hefur ítrekað við Fjárlaga- og hagsýslustofnun að reynt verði að ljúka við þessa athugun sem fyrst, en eins og fram kemur í gögnum málsins að því er varðar þessa þáltill. er hér um þýðingarmikið mál að ræða, en hins vegar mjög kostnaðarsamt og því þótti nauðsynlegt að gera ítarlega úttekt á því áður en ákvarðanir verða teknar. En ég ítreka það að við munum leggja á það áherslu að þessari athugun verði hraðað.